Í landi forheimskunnar

Andlegt harðlífi er líklega það versta ástand sem hægt er að koma sjálfum sér í. Þegar sjónarhringurinn einkennist af því að leita uppi það sem hægt er að skeyta skapi sínu á og hafa uppi fordóma sína og illmælgi. Fer þá mörgum svo að tapa bæði hæfileikanum til að hugsa og lesa.

Í gær birti ég mér og öðrum til gamans pistil um plágur ferðaþjónustunnar, skrifað í hráum og villimannslegum stíl sem beinist svo sem ekki gegn neinu né neinum. Til þess að allt rímaði nú við Gamla Testamentið þá hafði ég plágurnar sjö og endaði á fabúlu um bankaglæpi, ESB umsókn og Jón kallinn Gnarr. Þetta hefur vakið útrúleg viðbrögð og farið víða, bæði á vefsíður aðrar og ljósvaka en það sem fór mest fyrir brjóstið á fólki hljóðaði semsagt svona: 

7.  Bankahrun, ESB og Jón Gnarr mynda samanlagt sjöundu pláguna. Fyrst frétti heimurinn að hér byggi þjóð sem kynni ekki á reiknivélar. Síðan fréttist að hér byggi geðsturluð þjóð sem sækir um að ganga í félög sem hún vill ekki ganga í. Þó útlendingar séu misjafnir eins og annað fólk veit þar hver maður að ekkert er eins óþolandi eins og þegar heimskt og geðsturlað fólk reynir að vera fyndið. 

En fyrir fólk sem er illa þjáð af andlegu harðlífi hefi ég kannski lagt fyrir það einhverja málfarslega gildru því ef hratt er lesið geta einhverjir misskilið þetta þannig að ég sé í fyrsta lagi að tala illa um ESB og í öðru lagi að ég telji Jón kallinn Gnarr veikan á geði og heimskan sem alveg fráleitur skilningur á setningunni hér að ofan. Ekki nema fólk telji hann vera þjóðina sjálfa og í ofanálag einhvern sérstakan orsakavald í því að sækja um ESB aðild án þess að vilja þar inn. 

Þórbergur heitinn talaði um land forheimskunnar, o tempora, o mores.

PS: Og eins og allar færslur hér er þessi opin fyrir öllum athugasemdum hversu nafnlausar og skítlegar sem þær geta verið, nafnleysingjarnir skaða aldrei neitt nema eigin sjálfsmynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nafnleysi er eitt það mikilvægasta í lýðræðisríkjum... þú notar það td þegar þú ferð og kýst.... Kannski kemur þú út úr kjörklefanum með brotna sjálfsmynd ha.

Einnig ber að nefna að um allan heim fer fram mikil mannréttindabarátta sem er aðeins möguleg með nafnleysi... Farðu nú til tja Írans og segðu fólkinu þar að það sé með skaðaða sjálfsmynd vegna nafnleysis... sendu þeim svo blóm áður en fólkið verður tekið af lífi.

Peace

doctore (IP-tala skráð) 7.7.2010 kl. 12:42

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

það væri ekkert gaman af Guðsbjöllunum ef engin væri i þeim bardaginn!! sagði kellingin her um árið,sama segi eg ,þó þú Bjarni bloggvinur sért ekki trúaðar maður,nema á drauga og forninjur og fl. ertu oft óborganlegur í skrifum þinum og hreifir við okkur flestum/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 7.7.2010 kl. 14:10

3 Smámynd: Dingli

Sjö plágur ferðaþjónustunnar, sýna að höfundur getur sest við tölvu sína og farið með gamanmál, sér og öðrum til skemmtunar. Í afskekktri sveit sem ég heimsótti oft og geri enn, hafa svo langt sem núlifandi geta munað verið haldin þorrablót. Ótrúlegustu uppákomur urðu stundum þegar brotist var á Willis, Rússum eða traktorum (Landrofver-inn settist svo illa þegar hann festist að illmögulegt var að moka hann upp, fullur og veisluklæddur) til blótsins sem haldið var í litlu félagsheimili sveitarinnar. Öll skemmtiatriði voru frumsamin af íbúum sveitarinnar, leikrit, lög og textar sem oftast voru grín um nágrannana, og það var allt látið flakka.

Að vera með andlegt harðlífi á svona blóti hefði orðið viðkomandi að bana þegar öll hans/hennar glappaskot síðasta árið voru færð í stílinn og viðkomandi nánast svívirtur með gálgahúmorsníðvísum. Grín var gert af hjónaböndum margra og börnin fengu jafnvel sinn skammt.

Aldrei man ég eftir að nokkur hafi móðgast alvarlega, en því nær sem gengið var að einkalífi fólks með lognum framhjáhaldssögum t.d. þá magnaðist hláturinn og allir skemmtu sér konunglega.

Einu atviki man ég samt eftir, þar sem bóndi nokkur var hálf fúll allt kvöldið eftir að bragur um samskipti hans og kvígu einnar hafði verið fluttur. Sagan var sú að bóndi taldi sig þurfa að færa kvíguna á milli húsa ca.100 metra þó komið væri undir kvöld og bylur úti. Kvígan vildi bara als ekki vera að skrönglast á milli húsa í vitlausu veðri. Bragurinn fjallaði því um samskipti þeirra þessar þrjár klukkustundir sem ferðin tók og slaginn um hvor væri þrjóskari. Höfundur og flytjandi hafði af sviðslýsinga ástæðum kallað kvíguna Mjallhvít sem átti vel við slag sem barst í gegnum hvern snjóskaflinn á fætur öðrum.

 Nema rétt þegar gestir voru að skríða upp í stólana aftur undan borðunum stígur bóndinn upp á stól, augljóslega langt frá sáttur og segir: Ekki vissi ég að þú værir svona mikið fífl Þorvarður, segir þessa fínu sögu, en eyðileggur hana svo með því að muna ekki hvað kvígan heitir. Þeir fáu sem höfðu þrek til að fá eitt hláturskastið enn grenjuðu svo rosalega að bera varð þá út í skafl svo þeir köfnuðu ekki.

Dingli, 7.7.2010 kl. 15:20

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það þarf ekkert andlegt harðlífi til að menn skilji þetta svo að þér finnist Jón Gnarr heimskur og geðsturlaður. Ef þú hefðir ekki nefnt hann hefði engum dottið það í hug. En eins og skrifað stendur hjá þér er varla hægt annað en álykta að þú sért einmitt að gefa í skyn að hann sé heimskur og brjálaður. Þú sleppur ekki svo bara frá því með einhverjum stælum um forheimskun og andlegt harðlífi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.7.2010 kl. 15:48

5 identicon

Ef einhverjir aðdáendur Jóns Gnarrs tóku þetta alvarlega þá hafa þeir ekki hlustað á tvíhöfða.

Þar komst Jón upp með það að tala illa um hvern sem er án þess að nokkuð væri "gert í því", reyndar hefur hann haldið því áfram eftir tvíhöfða.

Einar E (IP-tala skráð) 7.7.2010 kl. 16:32

6 identicon

Félagi Bjarni !

 Rétt hjá vini vorum "Halla gamla". Lítið " fútt" í guðspjöllunum ef ekki væri þar einhver bardaginn !

 En það var þetta með " geðsturluðu þjóðina"

 Fræðibók Bandarísku geðlæknissamtakanna skráir hvorki meira né minna en 137 mismunandi geðsjúkdóma , allt frá alvarlegasta geðklofa til vægrar hugsýki.

 Samkvæmt bókum Landlæknisembættisins, fá um 30% til 35% landsmanna einhverntíma á ævinni, einhver þessara 137 einkenna !

 Sjálfur hefur trúðurinn Jón Gunnar Kristinsson upplýst í fjölmiðlum, að hann hafi sem barn verið haldinn ofvirkni. Slíkt tilheyrir geðsjúkdóma-flórunni.

 ( Og trúðurinn ekkert verri maður fyrir það.)

 Menn ættu því að anda djúpt áðun en þeir " ganga bókstaflega af göflunum" vegna þíns snjalla pistils frá því í gær.!!

 Eða sem þú og Rómverjar sögðu réttilega: " O tempora - o mores" - þ.e. "Hvílíkir tímar - hvílík ráð" !!

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 7.7.2010 kl. 17:32

7 Smámynd: Dingli

Sigurður Þór Guðjónsson Sauðnaut, ekki reyna þetta, það vita allir að þú ert klikk en ekki heimskur.  

Kalli, hvað ertu að segja, skráir Landlæknir fylgi Sjallana?

Dingli, 7.7.2010 kl. 17:58

8 Smámynd: Finnur Bárðarson

Má ekki geðsturlað fólk líka reyna að vera fyndið? Eða er fyndni frátekinn fyrir hina svo kölluðu ekki sturluðu.

Finnur Bárðarson, 7.7.2010 kl. 21:23

9 Smámynd: Dingli

Nei.

Dingli, 7.7.2010 kl. 22:13

10 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Bjarni. Þessi 7. grein er bara snilld. Ég skrifa undir hana sama hvað þú ert að meina  en ég kannast ekki við að kjósa án nafnleyndar. Ég er alltaf rukkuð um skilríki áður en ég fer í klefann . Það væri enn betra ef það sæist á seðlinum hver kaus hvað svo hægt væri að fletta upp á því núna hverjir kusu þessa ríkisstjórn yfir okkur, þó sumir  þar með þú Bjarni, hafið gefið það upp af fúsum og frjálsum vilja. Bestu kveðjur Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 7.7.2010 kl. 22:32

11 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Besti flokkurinn minni mig svo á þessa bíómynd

Guðrún Sæmundsdóttir, 8.7.2010 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband