Tómasi Sæmundssyni leiðist

Menning sem stóriðja sveitanna!

______________________________________________________________

Ráðherra, afkomendur Guðrúnar frá Lundi og aðrir  tilheyrendur,

 

Séra Tómasi Sæmundssyni Fjölnismanni leiðist. Hann er kominn heim eftir margra ára dvöl með þjóðum. Hann sat í skóla í Kaupmannahöfn og fór eftir það í ársreisu um Evrópu, þegar ég var strákur hét það interrail en varla lengur og ekki heldur þegar Tómas er á ferðinni fyrir hartnær tveimur öldum. Eftir Evrópuævintýrin tekur við prestsstarf í einni fallegustu sveit landsins, Fljótshlíðinni og rómantískara getur andrúmsloftið varla verið. Hann stendur á söguslóðum Gunnars á Hlíðarenda en finnur ekkert nema leiðann. Það eru þokuandar í landinu sem gera hann daufann og hann saknar þess að geta ekki farið út og hitt vinina eins og hann gerði í bjórkjöllurum evrópskum, ekki fundið í nándinni sálufélaga. Og hann tekur sérstaklega fram hvað það sé leiðinlegt að fá ekki til lestrar ný tölublöð af Allgemeine Zeitung.

En því er ég að tala um þetta hér á ráðstefnu um Guðrúnu Baldvinu Árnadóttur frá Lundi. Þessar setningar eiga ekki einu sinni við á líftíma Guðrúnar heldur er hér vísað til atburða öld fyrr, ef það er þá atburður að manni leiðist. Kannski frekar ástand og það ástand sem við öll þekkjum.

Á þeim dögum fullkomnunar sem nú ríkja er það vitaskuld skilgreint sem vandamál að manni leiðist en það er vitaskuld misskilningur. Sjálfur ólst ég upp við þau sannindi að það væri einmitt hollt að láta sér leiðast og hefi sannfærst betur og betur um réttmæti þeirra kenninga.

Guðjón Ragnar Jónasson rithöfundur bað mig að tala hérna og nefndi í framhjáhlaupi hvort að það mætti ekki vera um það hvernig menningin gæti orðið að stóriðju sveitanna. En að betur athuguðu máli er viðtengingahættinum ofaukið í þessari fyrirsögn. Það er miklu frekar að við veltum fyrir okkur hversvegna og hvernig menningin sé og hafi verið stóriðja sveitanna og hvort hún verði það ekki örugglega áfram.

 

Allt frá tímum Saxo hins málspaka á 13. öld hefur menningarstarf í íslenskum sveitum vakið athygli. Sjálfur telur Saxo þjóð þessa sögufróðari mörgum þjóðum og segir meðal annars um þetta:

Ei skal ég heldur láta iðni Íslendinga liggja í þagnargildi. Sökum þess hve hrjóstrug er feðrajörð þeirra, hafa þeir orðið að lifa hófsömu lífi, og leggja þeir í vana sinn að safna þekkingu um afrek annarra og gera hana lýðum ljósa, bæta þeir sér þannig veraldlega fátækt sína með auðlegð andans. Þykir þeim góð skemmtan að fræðast um það, er sögulegt gerist með öllum þjóðum, og skrá það til arfs handa þeim, er eftir koma, og sýnist þeim eigi minni heiður að segja frá stórvirkjum annarra en sjálfir vinna þau. Fjárhirslur þeirra, sem eru fullar af kostugum sögum um viðburði fortíðarinnar, hefi ég gaumgæfilega rannsakað, og eigi alllítinn hluta af verki þessu hefi ég grundvallað sögum þeirra, því ég hefi ekki álitið það ósamboðið virðingu minni að nota þá sem heimildarmenn, þar eð ég vissi, hversu vel fornöld var þeim kunn.

Semsagt, alveg einstaklega merkilegt fólk, þessir Íslendingar. Fólk öðru fremra, að vísu ekki fyrir vopnfimi, það kemur hvergi fram nema í okkar eigin grobbi og ekki fyrir klókindi umfram aðra menn í meðferð fjár - þar áttum við fyrr helst þá menn sem þekktir voru af endemum í græðgi eins og skáldið Egill á Borg. Slíkt varð okkur ekki þá frekar en nú til neinna fremda.

Fremd okkar þá var í því fólgin að héðan komu meiri fræðimenn í sagnalist og kannski sérstaklega sagnaritun heldur en af öðrum héruðum þessa norræna menningarsvæðis sem náði raunar yfir nokkru stærra og annað svæði en það sem við í dag köllum Skandinavíu.

Í aldir hafa menn brotið heilann um af hverju þessi náttúra til fræðaiðkunar hafi stafað. Meðan frændur okkar Færeyingar geymdu með sér hljómfall og fótmennt einstakra sagnadansa var texti sömu dansa varðveittur á pergamenti á Íslandi. Meðan Norðmenn og Svíar byggðu og brenndu glæstar kirkjur og virki, áttu dreka og knerri stóra sem sögur fóru af, þá voru það Íslendingar sem öðrum fremur björguðu þessum verðmætum með miklu meira afgerandi hætti en nokkur borgarsmiður getur gert. Við festum lýsingar þessa á blað.

 

gudr_lundi_1019765.jpg

 

 

Á öldum þeim þegar örfáir Íslendingar hleyptu heimdraganum voru það samt þessir mikið, mikið fáu, örfáu, sem skildu eftir sig meiri heimildir heldur en fjöldi erlendra samferðamanna og er þó margsannað það sem vinur minn doktor Haraldur Matthíasson sagði á mínum Menntaskólaárum að útlendingar eru vissulega misjafnir eins og annað fólk.

Jón Indíafari er einn þessara löngnu gengnu landa okkar sem er trautt að skilja nema hafa þekkt íslenska fræðimenn í sveit, þessa einmana sál í sveitakytrunni sem skrifar. Guðrúnu frá Lundi, Magnús á Vöglum, Pál í Sandvík og Snorra í Reykholti.

Jón þessi Ólafsson var úr Djúpinu og fór ungur til Danmerkur og þvælist þaðan suður til nýlendu Dana á Indlandi. Frásögn þessa eina Íslendings sem kemur til Indlands á 17. öld verður helsta og langbesta heimild Dana um nýlendu sína suður og þar fyrir utan að Jón lýsir dönskum borgarmannvirkjum af þeirri nákvæmni að enn þykir fengur að við rannsókn á 17. öldinni þar heima í borginni við Eyrarsund.

Fræðaarfur íslenskra miðaldamanna með Snorra Sturluson fremstan meðal jafningja er í sögunni frægstur og mun einn sér halda nafni þessarar litlu eyþjóðar á lofti um ókomin árþúsund. Í þeim arfi er að finna meiri bóklegar heimildir um líf og hætti hinnu germönsku forfeðra allrar norður Evrópu en meðal nokkurrar annarrar þjóðar. Og samt erum við smæstir og afskekktastir þessara þjóða. Þetta fer nú að skaga í lofræðu af þeirri gerð sem fluttar voru á nýliðnum blómadögum útrásarvíkinga, er það ekki. En bíðum við.

Menn hafa um langan aldur velt fyrir sér hvað hafi ráðið þessum mun Íslendinga og annarra skandinava. Jafnvel látið sér detta í hug að menningar- og genablöndun við kelta hafi ráðið hér mestu um að gera okkur að þessari sagnaþjóð. Hér hafi með genablöndun verið búin til einhver sérstök og einkar fær merkileg tegund, einhver homo neftóbakis sem skrifar allt sem hann sér og heyrir.

Og þar með erum við ekki bara lentir á glapstigum mannræktarfræðinnar sem ég ráðlegg engum að halda inn á heldur líka á villigötum sem fljótgert er að slá út af borðinu. Algerlega sambærileg blöndun átti sér stað í Færeyjum og í ýmsum norðurhéruðum Bretlandseyja.

Kenningin gerir enda ráð fyrir að við Íslendingar séum öðrum þjóðum vitrari og þessvegna svona duglegir við skriftir. Þegar ég heyri slíkt fimbulfamb verður mér hugsað til sveitunga míns Bergs gamla Jónsson á Laug í Biskupstungum sem átti þar í Haukadal allar ættir sínar og ól sinn aldur. Kominn af því höfuðbóli og því fólki sem fyrst stofnaði skóla á Íslandi.

Þegar talið barst eitt sinn að sveitungum hans sagði Bergur blátt áfram og af einlægni þess sem aldrei talaði um hug sér:

- Tungnamenn, þetta eru allt bölvaðir beinasnar, ég held ég ætti að vita það, búinn að vera með þeim í áttatíu ár.

Við hin segjum þetta ekki upphátt en eigum líkt og Bergur bágt með að trúa að Íslendingar séu öðrum þjóðum vitrari, mikir eru þá beinasnarnir í öðrum sóknum.

En ef ekki af viti og ekki af genum og varla iðjusemi, hvað er það þá, af hverju kemur þetta?

Til þess að svara slíkri spurningu verðum við að horfa til þess hvað er hér með öðrum hætti en meðal grannþjóða okkar og jafnvel meðal þjóða yfirleitt. Hvað skilur okkur frá.

Og þá erum við komin að upphafinu í þessu erindi, leiðindunum. Það sem skilur okkur fremur en nokkuð annað frá öðrum þjóðum er byggðamunstrið. Það var ekki bara að á Íslandi vantaði í þúsund ár borgir, án þeirra erum við enn. Það skipti meiru að í þúsund ár áttum áttum við varla þorp. Nær öll byggðin var í einangruðum bæjum þar sem bjó ein kjarnafjölskylda, ögn stærri en í dag en samt órtrúlega fátt fólk og langt að sækja félagsskap út fyrir þennan litla hóp. Í rómantísku aftanskini sveitamenningarinnar var algengt að mála sveitalífið svo upp að þar hafi verið 30 manns í einni baðstofu, þrjár til fjórar kynslóðir, sægur vinnufólks og stöðug menningariðja þar sem haldin var menningarleg kvöldvaka árið um kring. Heimildir styðja þessa mynd þó ekki nema sem undantekningu á stöku stórbúi.

Algengara er að ekki séu nema þrjár til sjö sálir á um 15 hundraða jörð, bændahjónin, karlægt foreldri annars þeirra, einn vinnumaður fátalaður, ein vinnukona sem er inni í sig og þau tvö af bæjarbörnunum fimm sem lifðu af síðasta faraldur barnaveikinnar. Jú og kannski einn kramaraumingi sá áttundi. En á stöku bæ er bóndinnlíkt og Árni Magnússon í Lundi í Stíflu, faðir Guðrúnar, bókamaður og áhugasamur um margt.

En þetta er enginn Kardimommubær þar sem allir eru blátt áfram. Við erum þúsund ára stéttskiptu samfélagi. Bóndinn sest ekki niður með vinnumanninum að ræða þessi hugðarefni sín, slíkt er einfaldlega ekki viðeigandi og varla ræðir hann þetta heldur við konu sína sem presturinn hefur kennt honum að á að vera honum undirgefin. Ekki getur hún rökrætt við hann um tilgang alheimsins eða ágæti séraguðmundarkynsins.

Bara ef hann byggi í sænsku Smálöndunum eða Sogni í Noregi. Þá fengi hann tækifæri til að spjalla við jafningja sína, hina bændurna í þorpinu en hér í þessum afdal er hann einn flesta daga ársins. Eðlilega leiðist honum en einmitt það verður honum aflvaki að gera eitthvað. Úr því að ekki er við neina lifandi veru að tala um hugðarefni sín er ekki nema eitt að gera. Hann á sín samtöl við bókfellið. Og fræðaþjóðin verður til.

Með þessu vil ég líka að kasta fram þeirri kenningu að sagnamenningin sem slík hafi fráleitt verið meiri eða öflugari hér á landi en meðal margra frænda okkar. Hún varð einfaldlega öðru vísi. Í stað þess að setjast á þorpstorginu og þylja varð fræðaþulurinn að draga sig einn að púlti sínu og skrifa.

Og hvergi var þessi menning íslenskra blekbænda sterkari en í Skagafirði. Sjálfur á ég til Skagfirðinga að telja í ættum fram. Föðurafi minn sem var lengstum bóhem og listmálari í Reykjavík og suður á Spáni sagði mér ungum þegar ég vildi fræðast af honum um að á hans æskudögum hér í Hegranesi hefði verið sægur af mönnum sem skrifuðu niður ættartölur og aðrar leiðinlegar romsur. "Ef þeir væru ekki dauðir allir þá væru þeir áreiðanlega langt komnir með að læra símaskrána utanað," bætti hann við og skildi mig eftir úti á þekju.

Við fyrstu sýn er það einmitt algerlega tilgangslaust að kunna ættir utanbókar, geta þulið upp nöfn presta eða muna hvernig sóknarmörk breyttust á Úthéraði á 18. öld. Allt samt hugðarefni þessarar þúsund ára sveitaakademíu Íslendinga. Og raunar stóriðja hennar því ef borið er saman við þau störf sem stóriðjan veitir í dag við þann mannafla sem gamla fámenna bændasamfélagið gaf af tiltölu í ættrakningar, sögur af slysförum, uppskrift hómilíubóka og ritun hetjusagna er ég nokkuð viss um hvort er stærra að tiltölu.

Bókvitið verður ekki í askana látið, sagði gamla fólkið. Listaverk með þessu heiti var, já og er, framan við félagsheimilið heima í minni sveit og sem barn trúði ég því að máltækið vísaði með einhverjum dularfullum hætti til þess að maður ætti ekki að brenna bækur upp til ösku, ekki að láta bókina í öskuna,- svo mjög voru askar þá framandlegir nútímalegum uppsveitabörnum sem ólust upp í gróðurhúsum.

En auðvitað voru máltæki eins og þessi til að konur, börn og skillítið fólk sólundaði ekki stritvinnutíma sínum í kveðskap, lestur og skriftir. Það hefur aldrei þótt mikil prýði á kvenfólki að yrkja, skrifar Jónas Hallgrímsson og fer nærri um aldarandann.

Reyndin er þó marktækari en orðskviðir genginna kynslóða. Þrátt fyrir sult og seyru hélt íslenska þjóðin áfram að skrifa. Skagfirðingurinn Bólu-Hjálmar sker bláfátækur vísu í lúin húsþilin þegar hann er pappírslaus. Fjallmenn krota dýrar klámvísur á bein en sendimaður biskups skrifar í sandinn. Eins og ekkert skipti máli nema þetta eitt. Að skrifa.

Það lítur út fyrir að vera einmanaleg iðja að sitja einn í horni og pára upp hvort sem það eru ættartölur, hetjusögur eða rfrásagnir af drykkfelldum kvennamönnum. En það er misskilningur þess sem ekki hefur reynt. Þetta er félagslegt menningarstarf sem gefur þeim sem gerir meiri fyllingu félagslífs en að sitja í hópi dauðlegra misvel heppnaðra manna. Hér eru allir eins og hugur manns og þetta er menningarstarf sem byggir í raun á því að draga þekkinguna saman á mörgum stöðum, virkja hug margra og safna afraksrtrinum saman. Þannig vinnur fræðimaðurinn og þannig verður af þessu öllu stóriðja sem er ekki bara helguð mörgum vinnustundum heldur líka ótrúlega arðsöm til lengri tíma litið.

Sé það nú arðsemin, hugsa löngu burtsofnaðir stritvinnumenn. Ísland þessarar stóriðju er fátækasta land Evrópu og heldur þeim titli alveg fram á 20. öldina. Jafn vanþróað og verst gerist í Afríku, skítugt, daunillt og fullt af forpokun og skrýtilegheitum.

En hvað gerðist. Þegar okkur opnast dyr inn í nýja veröld þá erum við móttækilegri en flestir, þökk sé akademíu fræðanna, þökk sé því að við erum þrátt fyrir daunilla, grimma og heimska fátæktina, bókaþjóð. Enga menn er eins auðvelt að laga til og einfalt og óbrotið almúgafólk sem lætur hafa sig út í það að lesa bækur.

Og þá ætla ég lotningu fyrir hinum sæla Skagafirði að varpa fram annarri kenningu. Sú fyrri var að landafræðin hafi gert okkur að fræðaþjóð. Sú seinni er að þúsund ára fræðagrúsk hafi gert okkur móttækileg fyrir því að verða rík þegar okkur stóð það til boða og það sé auk sjálfstæðisins öflugu bóklæsi að þakka að við gátum hratt og örugglega tileinkað okkur nútímann.

Bóndinn sem ekki getur losnað við kláðann og óþreyjuna með því einu að fara á þorpstorgið en sest þess í stað í sitt horn og skrifar, hann lendir í annarskonar starfi en sá sem situr á torginu. Og það sem skilur á milli í starfi þessara tveggja er margt. Bókfellið, pappírinn og enn síðar ritvélarblað og tölvuskjár,- allt eru þetta agasamari félagar en vinirnir á torginu eða knæpunni. Þessir móttendur orðanna fara óhjákvæmilega fram á miklu meira, eru vísir með að kasta ambögunum öfugum að þér næsta dag eða hvenær sem illa á stendur.

Þessari ögun fylgir svo líka örari þróun, það sem skrifað er í dag hefur sér til hliðsjónar það sem skrifað var í gær og bætir við þekkingarmolum. Þessvegna verður Saxo hinum málspaka svo tíðrætt um að Íslendingar muni öðrum lengra aftur í myrkviði sögunnar og þessvegna varðveitist hér það sem glatast öðrum. Ekki af neinni sérstakri spekt þessarar þjóðar, meðfæddum hæfileikum eða vel heppnuðum kynbótum í ræktum. Nei, eins og ég vék að hér fyrr, af hinum dýrmætu leiðindum einsemdarinnar.

Nú skyldi enginn taka orðið leiðindi í þessu samhengi sem mjög neikvætt hugtak, ekki rugla því saman við leiðindi sem geta orðið af peningum og jafnvel ástum. Nei, við erum að tala um þessi guðdómlegu leiðindi hvunndagsins.

Ég veit svo ekki hvort og hvernig ég á svo í lokin að sauma þetta saman við nútímann og jafnvel framtíðina. Það mætti auðvitað gera til þess að tryggja þeirri stóriðju sem ég rökstuddi áðan að hefði verið hér í 1000 ár að hún verði það áfram.

Því er fljótsvarað að stóriðja þessi verður því aðeins til að það séu til hefðir og það séu til sveitir. Ennþá leita skáld í sveitirnar til sköpunar og og finna spektina til starfa í rósemd dreifbýlisins. Þessvegna og í anda sögunnar ber okkur að líta á það sem verðmæti í sjálfu sér að hluti af íslenskri byggð sé sveitabyggð í anda þeirrar hefðar sem gert hefur okkur að því sem við erum. Daginn sem við hættum að eiga okkur Bör Börsson sem andlegan leiðtoga og horfum þess í stað til höfðingja eins og Guðrúnar frá Lundi og Gísla Konráðssonar,- ja daginn þann, hefi ég ekki áhyggjur af íslenskri menningu og íslenskum sveitum framar.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband