Hefur evran jafnað lífskjör í Evrópu?

Ein af röksemdum ESB-sinna er að með evrunni og Evrópusamrunanum hafi tekist að jafna lífskjör meðal Evrópubúa. Við fyrstu sýn getur þetta litið svo út en bakvið blasir við ólystugri mynd.

Í heildina er viðskiptahalli evruríkjanna ekki nema 60 milljarðar evra sem er lítið miðað við stærð þess. En þegar þess er gætt að ríkin þrjú, Þýskaland, Holland og Austurríki eiga samtals 240 billjónir í viðskiptaafgang blasir við að hin 13 evrulöndin eru með viðskiptahalla sem nemur 300 milljörðum evra og það slagar í viðskiptahalla allra ríkja Bandaríkjanna.

Sænski hagfræðingurinn Stefan de Vylder vék aðeins að þessum málum í fyrirlestri sem hann hélt í Háskóla Íslands nú í haust. Þar kom skýrt fram að í stað þess að auka jöfnuð í álfunni hefur myntbandalagið orðið til að auka ójafnvægi milli ríkja. Því fer vitaskuld fjarri að Evrópa sé eitt hagsvæði með sama hætti og til dæmis Bandaríkin þó vitaskuld geti sú þróun orðið á löngum tíma og er eiginlega óskandi úr því að þegar hefur lagt upp í þessa vegferð. En fram til þessa hefur evrusamstarfið stuðlað að því að styrkja til muna útflutningsatvinnuvegi ríku landanna en veikja hagkerfi þeirra fátækari. Fyrir því eru ekki flókin rök.

Gengi evrunnar fer einfaldlega bil beggja, þ.e. mitt á milli þess sem væri með gjaldmiðil sem bara þjónaði ríku löndunum og þess sem gjaldmiðlar fátækari evrulandanna myndu gera. Þar af leiðandi er evran lægra skráð en vera ætti fyrir t.d. Þýskaland og hærra skráð en hentar t.d. Ítalíu. Gjaldmiðill sem er of lágt skráður ýtir undir útflutningsatvinnuvegi og hamlar innflutningi. Gjaldmiðill sem er of hár drepur heilbrigða framleiðsluatvinnuvegi en ýtir undir skuldasöfnun. Fáir þekkja þetta betur en Íslendingar.

Margt í styrkjaumhverfi ESB hefur í orði miðað að jöfnun lífskjara í álfunni. En í reynd hefur allt það verið sem dropi á móti því sem evran hefur unnið i öfuga átt.

(Birt í Morgunblaðinu 7. september 2010)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er sennilega rétt og satt. Spurningin er aftur hvar lendum við Íslendingar? Og eins og þú segir þetta er langferð. Ríkari löndin hafa ákveðið forskot, iðnaður í Þýskalandi með sín sterku merki: Benz,BMW, etc. Verr stöddu löndin koma til og með evru vilja stóru merkin setja upp verksmiðjur þar til að vinna fyrir þá markaði. Skuldasöfnun er aftur oft komin til af stjórnmálaspillingu og popúlisma þeirra.

Villi (IP-tala skráð) 9.9.2010 kl. 12:15

2 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Maður getur alveg eins spurt: Hefur krónana jafnað kjör Íslendinga? Nei ekki beinlínis. Þar sem Evran hefur jöfnuð að langtímamarkmiði þá er það enn í gildi þó augljóslega sé efnahagsumhverfi innan evrusvæðisins breytilegt. Það vita þeir sem að því ganga mæta vel og óþarfi væna þjóðir sem minni ballast hafa um kjánaskap. Þær hljóta að hafa langtímamarkmið fyrir augum. Það er ekki bara "orðið á götunni" að Íslenska Krónan eigi enga framtíð fyrir sér, það er beinlínis sjálf endurreisn efnahagslífsins sem veltur á því að við eignumst hlut í sterkari mynt. Það er kannski helvítis vesen að þurfa að gerast fullur aðili að ESB fyrir vikið. En þetta er nú það sem stjórnkerfið íslenska stefnir að.

Spurningin er hvort það tekst vegna ótrúlegrar skammsýni fámennrar en sterkrar hagsmunaklíku útvegsmanna. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort þeir láti af andstöðu sinni á borði ef "samningaleiðin" í kvótamálinu verður farin. Mér sýnist og óttast að hér sé verið að leika póker með framtíð íslenskrar útgerðar á kostnað þjóðarinnar og verðið sé að útgerðin láti af öllu andófi gegn aðildarviðræðunum.

Gísli Ingvarsson, 9.9.2010 kl. 14:13

3 identicon

Þetta er ekkert öðruvísi í USA Bjarni, eiginlega verra, þar sem lántökur alríkisins lenda á öllum fylkjum. Þar eru sterk fylki og veik. Rík og fátæk, alveg eins og gengur í Evrópu. Þó þarf USA ekki að sinna handleiðslu  efnahagslega vanþróaðra ríki eins og ESB.  Ávinningur ESB í þeim efnum er aftur á móti augljós því efnahagslega vanþróuð ríki eiga bara betri framtíð í vændum. Ekkert ESB land stendur verr í dag en fyrir inngöngu, heldur betur.

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 9.9.2010 kl. 14:18

4 identicon

Evran hefur unnið margt gott í ESB.  Auðvitað fóru menn aðeins of fljótt af stað með sameiginlegu myntina.

Það er ekkert barn sem stendur upp og byrjar að ganga án þess að detta nokkrum sinnum.

Það er ekkert öðruvísi með ESB og Evruna.

Framtíð Íslendinga er í ESB.  Það er spurning hvort framtíð embættismanna og stjórnvalda á Íslandi er í ESB;)

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 10.9.2010 kl. 09:17

5 identicon

Félagi Bjarni !

 Værum en í botnleðju eftir hrunið ef Evran hefði verið okkar mynt. Óhrekjanleg staðreynd !

 Stefán Júl., með einstaklega ríka kímnigáfu: " Framtíð Íslendinga er í ESB" !

 Veit Stefán að á Evrópuþinginu eru 751 þingsæti ?

 Veit Stefán að Íslendingar fengu 6 sæti ? !

 Veit Stefán að atkvæða- vægi okkar yrði 0,45%? !

 Vonandi rumskar Stefán við þessar tölur - og þó -líklega á við um hann sem Rómverjar sögðu: " Quieta non movere" - Þ.e. " Óþarfi að vekja sofandi hvolp" !!

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 10.9.2010 kl. 20:23

6 identicon

Kalli Sveins:  Hverjir erum þessir við?  Hvaða vald höfum hafa þessir "við" á Íslandi?

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 11.9.2010 kl. 00:25

7 Smámynd: Haraldur Hansson

"Það er ekkert barn sem stendur upp og byrjar að ganga án þess að detta nokkrum sinnum" segir Stefán hér að ofan. Rétt er það.

Íslenska lýðveldið var stofnað af fámennri fátækri þjóð. Það er aðeins 66 ára gamalt og rétt búið að slíta barnsskónum. Við höfum rekist á, hrasað og dottið eins og gengur. Okkur hefur orðið á í messunni oftar en einu sinni. Þá reynir maður bara aftur og á endanum hefst þetta.

Bankahruninu má líkja við partý unglingsins þar sem allt fór úr böndunum og íbúðin lögð í rúst. Hvað skal gera? Láta unglinginn bæta ráð sitt, taka afleiðingunum, læra af reynslunni og fullorðnast, eða setja hann í ævilanga pössun hjá ömmu Brussu í útlöndum?

Miðað við þær stórkostlegu framfarir sem orðið hafa í íslensku þjóðfélagi síðustu öldina er ég ekki í nokkrum vafa um að það sé best að láta íslenska unglinginn standa á eigin fótum. Að gefast upp og láta fjarstýra sér frá Brussel er uppgjöf. Og uppgjöf er aldrei góður kostur.

Haraldur Hansson, 11.9.2010 kl. 00:31

8 identicon

Haraldur:  Sammála þér í þinni færslu nema hvað við kemur Bruseel.  Það er engin uppgjöf að ganga í bandalag með öðrum þjóðum Evrópu.  Þjóðum sem byggja á lýðræði og samstarfi. 

Lýðræði og samstarf er ekki uppgjöf þó svo margir á Íslandi haldi það.

ESB er framhaldsskólinn;)

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 11.9.2010 kl. 00:38

9 Smámynd: Haraldur Hansson

Lýðræði er ekki uppgjöf, því er ég sammála Stefán. Samstarf er ekki uppgjöf, því er ég líka sammála.

Gallinn við ESB er að þar hefur lýðræðinu verið úthýst. Áhrif þegnanna á pólitíska stefnumörkun eru bókstaflega engin og framkvæmdavaldið sækir ekki umboð sitt til þeirra. Og er þú skoðar stofnanabygginguna þá er þetta ekki "samstarf" í eiginlegum skilningi heldur framsal á forræði, sem sett er undir fjarlægt vald og miðstýringu.

Það er ótrúlegt hvernig margir tala um ESB eins og þetta sé bara fríverslunarsamningur eða samstarf í efnahagsmálum. Eða eins og við séum að ræða um gamla Efnahagsbandalagið, sem í raun var lagt niður með Maastricht fyrir tæpum tveimur áratugum. Nafnabreytingin þegar bandalagið varð að Evrópusambandinu, var ekki upp á grín.

Sú breyting var stórt skref í átt að pólitískum samruna, annað skref og stærra var tekið með Lissabon samningnum. Þetta snýst því um pólitík. Að pólitísk völd séu færð úr landi. Þótt illa hafi farið í bankahruninu er það virkilega ljótur leikur að nota það áfall til að knýja slíkan flutning fram.

Ef þetta væri bara "samstarf fullvalda lýðræðisríkja" þyrfti þessi samstarfsvettvangur ekki að hafa á að skipa löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi, dómsvaldi, seðlabanka og fleiri lykilstofnunum. ESB er pólitísk valdaapparat. Einna verst þykir mér þegar menn pakka valdaflutning undir þetta í skrautumbúðir og kalla það "að deila fullveldi sínu með öðrum ríkjum". Meira að segja utanríkisráðherra notar þennan frasa opinberlega.

Haraldur Hansson, 11.9.2010 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband