Meistari er að koma...

(Kristinn Kristmundsson fyrrverandi skólameistari var fæddur á bænum Kaldbak í Hrunamannahreppi 8. september 1937. Hann lést 15. september siðastliðinn. Útför hans fór fram Skálholti 2. október en jarðsett var að Laugarvatni.  Mikið fjölmenni fylgdi Kristni og óvíst að fjölmennari útför hafi farið fram í Skálholti hin seinni ár. Meðfylgjandi grein birtist í Sunnlenska fréttablaðinu og í styttri útgáfu í Morgunblaðinu.)

- Meistari er að koma, meistari er að koma.

Kristinn Kristmundsson skólameistari er látinn. Það er lífsins gangur að heyra fregnir af andlátum samferðamanna en nú fannst mér samt nærri hoggið. Þetta hefur verið mér hugleikið og vakið mig til þeirrar vitundar að skólameistarahjónin á Laugarvatni gengu okkur menntskælingum að nokkru leyti í foreldrastað á viðkvæmu þroskaskeiði.

Sjálfur kom ég fimmtán ára villingur undir verndarvæng þessa góða fólks að Laugarvatni og fór þaðan alfari 19 ára og líka sögu áttu nokkur hundruð önnur ungmenni. Skólinn var og er lítil stofnun, með rétt á annað hundrað nemenda. Á mínum skólaárum var staðurinn næsta einangraður, nemendur áttu ekki bíla og eina færa leiðin af staðnum var með öruggum og hægfara rútukosti Ólafs Ketilssonar.

Einangrunin, fámennið og nándin skapaði allt í senn kraftmikið og þroskandi samfélag. Yfir þessu samfélagi voru skólameistarahjónin vakin og sofin alla daga vetrarins. En stjórnin á okkur unglingunum var mild, frjálsræði mikið og fyrirgefningin æðsta reglan í allri stiptun. Það fór ekkert framhjá okkur nemendum á Nösinni og Kösinni að agasöm stjórn, refsingar og ströng reglufesta voru ekki sterkustu hliðar Kristins Kristmundssonar. Til þess var hann alltof ljúf manngerð, skilningsríkur á mannlegar þarfir og frjálslyndur í hugsun. Og sum okkar gengu á lagið.

Við lögðum í bjór, svölluðum stundum um helgar, virtum næturró skólafélaga okkar ekki nema mátulega og fórum mjög okkar fram. En ekkert af þessu fór framhjá hinum alvakandi augum meistara. Þegar lætin gengu úr hófi kom hann út til okkar og sussaði okkur til koju og átti enda líka til að ganga á vistir að morgni og vekja morgunsvæfa. Um allt þetta spunnust endalausar sögur af meistara sem var sá sem við óttuðumst og virtum.

Sjálfur á ég ljúfsára minningu frá þvælingi eftir ball inn á ganginn hjá fyrsta bekkjar stelpum snemma í öðrum bekk. Þar sátum við Vigfús heitinn Jónsson makindalegir inni í herbergi hjá tveimur stöllum, Siggu og Lollu, þegar allt í einu er hrópað:

- Meistari er að koma, meistari er að koma.

Við Vigfús sátum hinir rólegustu og létum mannalega. Innan tíðar stóð Kristinn inni á gólfi og vísuðu munnvik hans niður. Það kölluðu við krakkarnir að meistari væri með skeifu og ýktum þetta úr hófi þegar við sögðum að hann setti upp tvær skeifur og jafnvel þrjár þegar verulega var allt úr böndum. Í þetta sinn var það örugglega bara ein en við þóttumst menn að meiri að vera vísað af stelpuganginum af meistara.

Þegar við komum yfir heyrðum við Vigfús lágt hljóðskraf inni í herbergi Sigþórs og Bjössa. Þar sátu bekkjarbræður okkar. Við Vigfús vorum sem úr víkingi og létum mikið yfir að hafa verið hent af ganginum hjá fyrsta bekkjar stelpunum. Til þess að útlista þetta sem best fór ég að ganga um gólf herbergisins og herma eftir Kristni með kallalegum limaburði. Uppi á vegg var pjáturskeifa til skrauts og til þess að lýsa nú andlitsfalli Kristins skólameistara greip ég skeifuna og gekk með hana fram og til baka um herbergið og hafði yfir ræður. Bekkjarbræður mínir hlógu vel að þessu en sem ég í þriðja sinn stika þannig frá dyrum til enda í herberginu hljóðnar hláturinn. Ég geng niðurlútur og herði mig en þegar ég fyrir miðju herbergi reigi mig upp sé hvar stendur framan við mig sá sem ég þóttist vera að herma eftir.

Víst var Kristinn enn með munnsvip þann sem við kenndum við hófajárn, en úr augum hans skein bros, hinn hristi höfuðið lítillega og sagði okkur góðlátlega að fara að koma okkur í háttinn. Upp frá þessu vorum Kristinn vinir.

Fyrir hönd okkar ML-inga frá 1981 sendi ég fjölskyldunni frá Bala innilegustu samúðarkveðjur með þökk og virðingu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband