Hjólað í vatni

DCP_6791

Góður dagur og fyrsti almennilegi frídagurinn í langan tíma. Fór á ströndina - hljómar ótrúlega sólarlandalegt - en við Magnús sonur minn fórum semsagt í fjöruna á Eyrarbakka og lékum okkur á torfæruhjólinu. Ferðina endaði ég svo með því að strauja eftir Hraunsskeiði og Skötubót á 100 km hraða í geðveikri rigningu. Það er ótrúlega góð tilfinning að leika sér á mótorhjóli niðurrigndur og hamingjusamur.

Eitthvað var hamingjan samt að skríða frá mér þegar ég horfði á sjálfan mig í sjónvarpinu í kvöld því þó þátturinn hafi verið góður stakk það mig illa að Jón Ársæll skyldi taka upp það sem ég sagði um Kolbrúnu frænku mína. Það var samt allt satt og rétt en stundum má satt kjurt liggja og ég get engum nema sjálfum mér um kennt að hafa verið að blaðra þetta. Hitt sem sagt var um mína eigin brennivínsnáttúru mátti vel koma fyrir almenning. Ég vil ekki eiga nein leyndarmál þar. En í heildina var þátturinn góður og Jón er frábær í að byggja upp skemmtilega stemmningu á mörkum gamans og alvöru. Það er nefnilega engin alvara góð nema henni fylgi eitthvað gaman og gamanmál án alvöru ná ekki almennilega máli.

Dagarnir hafa verið viðburðaríkir í pólitík og ekkert leyndarmál að þriðja sætið tók á samstöðu okkar Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi. Ég er eftirá stoltur af því að hafa þar staðið með eigin sannfæringu sem var að við hefðum ekki leyfi til að láta kné fylgja kviði í þeirri baráttu sem átti sér stað um sætin. Úthlutun á þessum lausa stól til þeirrar mætu Njarðvíkurkonu Helgu Sigrúnar Harðardóttur er farsæl lausn í anda þeirrar sáttahyggju sem einkenna á okkar góða flokk. Og viðbrögð Eyglóar að þeim leik loknum aðdáunarverð og drengileg.

Semsagt, eins og sá vísi Altúnga sagði jafna, það er rangt að segja að allt sé í lagi, það rétta er að allt er í allrabesta lagi.

 Ps. Myndin hér að ofan er ekki úr ferðinni í dag heldur af hjólavinum mínum við Laka í sumar í ótrúlega skemmtilegri rigningu, f.v. Loftur, Hrafnkell, Guðmundur, Loftur yngri og Baldur en þeir voru allir fjarri góðu gamni í dag en eru yfirleitt miklu duglegri en ég á hjólunum...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Bjarni! Ertu nokkuð að spæna upp landið?

Já..og rigningin er góð!

Sveinn Hjörtur , 29.1.2007 kl. 13:22

2 identicon

Eftirfarandi grein eftir Siggeir Ingólfssyni-Umhverfisdeild Árborg var birt í vor á www.motocross.is . Þessi utanvegaakstur sumra mótorhjóla í fjörunni er alger plága og ólögleg að auki.

kv. Vigfús Eyjólfsson 

Motocross – Fuglafriðlönd og fjaran við ströndina

Senda
Tuesday, 09 May 2006

Motorcross er karlmannleg og skemmtileg íþrótt sem stunduð er af frísku og kröftugu fólki - oftast þó af stæltum strákum með vit í kollinum og kapp í kinnum. Til þess að ná árangri þarf gott andlegt og líkamlegt jafnvægi, góða heilsu og skynsemi og skjótra viðbragða - og ekki síst hæfileika til að taka ábyrgð á eigin limum og umgengni sinni um náttúru landsins. Jórturdýr, eins og til dæmis kýr, kæmust aldrei langt í motorcross-íþróttinni vegna þess hve sljó þau eru í hugsun. Samt hafa nokkrir einstaklingar með skerta

 ályktunarhæfileika laumað sér inn í raðir meistaranna. Það ber ekki vitni um mikla skynsemi og þaðan af síður færni og ábyrgðartilfinningu að flengjast um merkt fuglafriðlönd á þessum árstíma á þokkalega kraftmiklum mótorhjólum.  Fyrir utan landspjöllin sem það veldur og ófriðinn í varplandinu sýnir þetta líka virðingarleysi gagnvart öðru fólki og áhugamálum þess. Sumir vilja nefnilega vakta vörp álengdar og fylgjast með fuglalífi. Þetta er hljóðlátt tómstundagaman - og vekur ekki eins mikla eftirtekt og motorcrossið - og gefur þar að auki annarskonar fullnægingu en adrenalín-innspýtingin, en fullnægingu engu að síður!  Undanfarið hefur borið nokkuð á þessum “cowriders” á fuglafriðlöndum í Árborg, einkum í kríuvarpinu vestan við Eyrarbakka og í fjörunni og á bökkunum austan við Stokkseyri. Sem starfsmaður umhverfisdeildar í sveitarfélaginu Árborg tek ég þetta nokkuð nærri mér - sem og flestir samborgarar mínir. Þarna viljum við hafa kyrrð og frið. Þar að auki hefur töluverðum fjármunum verið varið til að græða landið upp og hefta þannig sandfok sem lagt hefur yfir byggð. Sú uppgræðsla spillist mjög af hjólaumferð - svo að sandurinn getur tekið sig aftur á flug. Það viljum við ekki. Okkur þykir líka vænt um kríuna, sandlóuna, stelkinn og tjaldinn sem þarna eiga varpstöðvar.  Og nú bið ég ykkur, motorcrossmenn - og höfða til þess hversu klárir þið eruð í kollinum: Ekki gera þetta!  Virðið þessa náttúruperlu sem fjaran og bakkarnir eru á ströndinni og fulglafriðlandið vestan við Eyrarbakka - og reyndar öll friðlönd hvar sem þau eru á landinu. Og verðið þið varið við að aðrir - þ.e. motorcrossmenn af jórturdýrataginu, s.k. “Cowriders” - haldi uppteknum hætti, gefið þeim tiltal! Látið þá vita að svona hegðun geti ekki viðgengist í íþrótt ykkar!  Ég vil líka benda ykkur á að í Árborg er starfandi klúbbur motorcross-íþróttamanna sem rekur æfinga- og keppnisbraut með miklum sóma rétt hjá Selfossi.
Með bestu kveðju - og von um hárfín og jákvæð viðbrögð,

Siggeir Ingólfsson
Umhverfisdeild Árborgar

Vigfús Eyjólfsson (IP-tala skráð) 29.1.2007 kl. 14:33

3 identicon

Er þetta umhverfisstefna Framsóknarflokksins í hnotskurn, Bjarni? 

Sigurjón (IP-tala skráð) 29.1.2007 kl. 16:19

4 Smámynd: Guðmundur Gunnarsson

Þau eru skelfileg þessi hjól: Á tmargan hátt, skelfilegur hávaði, skelfilegur náttúruspillir, og skelfilega gaman að djöflast á þeim. 

Fer töluvert um í Heiðmörkinni, þar eru göngustígarnir útspólaðir, það er líka svoddan skelfilegur hávaði af þessum hjólum. En get vel skilið þann fíling sem Bjarni lýsir. Það verður að afmarka betur hvar menn eru með þessi tæki.

Guðmundur Gunnarsson, 29.1.2007 kl. 16:50

5 identicon

Já, ekki er þetta traustvekjandi lýsing á athöfnum verðandi stjórnmálamanns.  Böðlast utan vega í eða við fuglafriðland og svo ekið langt yfir leyfilegum hámarkshraða í trássi við allar aðstæður í grenjandi rigningu og slæmu skyggni.  Ég ætla rétt að vona að hjólið sé skráð. 

Þórður Eyjólfsson (IP-tala skráð) 29.1.2007 kl. 17:08

6 Smámynd: GK

Hahahaha... þú hefur sjálfsagt fælt allar kríurnar úr fjörunni, Bjarni ;)

GK, 29.1.2007 kl. 19:47

7 identicon

Illa líst mér á að svona lögbrjótur fari á þing. Veistu ekki Bjarni að allur akstur vélknúinna ökutækja utan vega er bannaður skv. náttúrverndarlögum?

hh (IP-tala skráð) 29.1.2007 kl. 20:58

8 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Í góðri bók stendur, og mælt af vörum mikils manns "Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum" Ég meina hvað er að ykkur drengir, hverskonar lífi lifið þið eiginlega ég á bara ekki til orð! Að vera að hneykslast yfir engu! já nei þið eruð klikk sorry  Og bara til að koma því að þá er ég ekki stuðningsmaður Framsóknarflokksins ef þið hélduð það kannski

Guðmundur H. Bragason, 30.1.2007 kl. 01:06

9 identicon

Ég hef aldrei ekið tví- eða fjórhjóli og tel mig syndlausan.  Réttu mér fleiri steina

Sigurjón (IP-tala skráð) 30.1.2007 kl. 16:41

10 identicon

Fyrst að Bjarni er búinn að rústa fuglavarpið þarna, verða þá engir páskaungar í ár?

Gummão (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 08:52

11 identicon

Hérna er alvöru maður á ferð sem er búinn að átta sig á því að torfæruhjól eru ekki eyðileggingar tæki, heldur mesta líkamsrækt sem hægt er að fá. Maur með viti á torfæruhjóli skemmir helmingi minna en maður með viti á hestbaki, þó svo að þið viljið ekki viðurkenna það.

Aron (IP-tala skráð) 31.1.2007 kl. 09:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband