Tóbaksnautn er jákvæður löstur

Við kristnitöku á Íslandi árið eitt þúsund er talið að reykingar eins og við þekkjum þær í dag hafi verið óþekktar með öllu. Samt eru allir þeir sem viðstaddir þessa athöfn látnir.

Samkvæmt rituðum heimildum létust sumir þessara um aldur fram. Af því leiðir að bann við reykingum eitt og sér mun ekki útrýma ótímabærum dauða og ekki þeim tímabæra heldur.

Þegar sagt er að ákveðinn fjöldi landsmanna látist úr reykingum ár hvert gleymist að flest af sama fólki hefði látist allt að einu og sumt um líkt leyti og það lést úr reykingum þó þær hefðu ekki orðið því að aldurtila. Sumt hefði lifað fram á annað hundraðið en ekki allt aukið miklu við hamingju sína. Um kostnað heilbrigðiskerfisins kýs ég að tala ekki enda ósmekkleg umræða. Við kostum öll og eigum að gera það, því meira sem við verðum eldri.

Sú hugmynd að markmið lífsins sé að gera það sem lengst hefur ekki verið studd neinum vitrænum rökum og verður enn síður rökstudd í því sæluríki sem sköpuð er af bannhelgi óbilgjarnar túlkunar á lýðheilsufræði.

Í nokkur árþúsund hefur legið fyrir að maðurinn er breisk og nautnasjúk vera. Margt bendir reyndar til að dýr geti einnig verið nautnasjúk en höldum því utan við þessa umræðu. Ekki einu sinni höfundar Gamla Testamentisins né Kóransins létu sér detta í hug að afmá mætti lesti hins mannlega eðlis en menn hafa á öllum tímum reynt að hafa á því nokkurt taumhald og draga úr hinum stærstu ókostum þess. Þeir sem ganga lengra en þessar gömlu vitru bækur eru komnir á hála braut þar sem byltingin étur á endanum börnin sín.

Tóbak er nautnalyf sem ásamt kaffi og kannski einhverjum örfáum öðrum er þekkt af því að valda hvorki tímabundinni sturlun neytenda líkt og áfengi eða varanlegri geðveiki eins og t.d. kannabisefnin. Þvert á móti er tóbak frekar skemmtilegt og félagslegt nautnalyf og sá mæti maður Bertholt Brecht taldi að það örvaði vitsmunalíf.  Mér hefur stundum fundist þetta líka enda fæ ég mínar bestu hugmyndir í þykku tóbaksrúsi vindlareykinga. 

Hamingja okkar tóbaksmanna yfir tóbaki okkar og þau lífsgæði sem það skilar okkur eru tabú sem ekki má ræða um og margir fara á mis við í lífinu. Aðrir finna mikla hamingju í því að hætta að reykja og það skil ég vel því öllum löstum fylgja nokkur útgjöld og bölvun. Sumir telja best að byrja aldrei og það er ágætt líka.

Ein af dauðasyndunum sjö og miklu verri nautnasýkinni er hrokinn. Ekkert nema taumlaus hroki getur fengið einn mann til taka að tilefnislausu yfir stjórn á sjálfsögðu og meinlausu valfrelsi annarra manna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hansson

Reykingar  eru á undanhaldi leyfum því að þróast í friði. Að láta sér detta í hug að banna reykingar á svölum er yfirgengilega fáránlegt. Jafnfáránlegt að fólk megi ekki eiga klink eftir utanferðina.

Snorri Hansson, 1.6.2011 kl. 15:03

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þegar ég var ungur reykti ég og það ótæpilega. Svo háður var ég nautninni að ég gat varla gefið mér tíma til að nærast. Þegar þetta var komið á það stig að ég kveikti í sígarettu eða pípu um leið og sú fyrri var búin, sá ég að þetta gengi ekki. Ég hætti, bar rétt sísona, ein daginn.

Þetta var fyrir rúmum tuttugu og þrem árum. Sennilega hef ég verið búinn að fá æviskammtinn af nikótíni, að minnsta kosti hefur mig ákaflega sjaldan langað í reyk, þó vissulega komi það fyrir.

Ég var ákaflega stolltur eftir að ég hætti, flestir héldu að ég myndi falla fljótt aftur, enda þekktur stórreykingamaður. Stoltastur var ég þegar ég var innan um reykingafólk. Aldrei hef ég amast við reykingum annara, enda ekki í mínum verkahring að segja öðrum til.

Nú óttast ég, ef þetta forræðishjal nokkurra þingmanna fær fylgi, að stolt mitt beri skaða, að ég verði bara venjulegur maður, eins og fjöldinn.

Það er ekki skemmtileg tilhugsun!

Gunnar Heiðarsson, 1.6.2011 kl. 15:26

3 Smámynd: Njörður Helgason

Reykingar mjög heilla rafta! Ég hætti unglingsreykingum mínum fyrirhafnarlaust um 25 ára aldur. Ekki neitt mál. Ég bara hætti eftir tíu ára reykingar.

Mér þykir gott að fá mér í nefið. Það var sérstaklega gott meðan ég vann við mitt fag í húsasmíði. Baukurinn er á vísum stað til að bjóða úr honum en ég hætti að taka þegar mér sýnist. Einbeitingin hjálpar mér. Vissulega fæ ég mér líka með þeim.

Njörður Helgason, 1.6.2011 kl. 15:56

4 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Þakka þennan hressandi og skemmtilega pistil.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 1.6.2011 kl. 17:01

5 Smámynd: Eyþór Örn Óskarsson

Mér sýnist á öllum skrifum um þetta frumvarp að allur þorri landsmanna sé vægast sagt mótfallinn svona boðum og bönnum - ég held reyndar að forræðishyggja í hvaða formi sem er, fari illa í landann og tel þennan ávana hvort eð er á undanhaldi - leyfum honum bara að hverfa í rólegheitunum 

Eyþór Örn Óskarsson, 1.6.2011 kl. 18:30

6 identicon

Væri ekki á það reynandi að hætta að selja öll lyf í apótekum og gegn lyfseðli?? Mér finnst málstaður þeirra sem reykja ótrúlega veikur, þegar lagst er svo lágt að bera saman reykingar og aðra neysluvöru, þetta er bara langt frá því að vera sambærilegt. Ekki sé ég svo þetta sama fólk amast yfir því að morfín, hjartalyf, magalyf og önnur lyf séu seld gegn lyfseðli. Reykingar eru einungis jákvæður löstur sé þeirra notið í einrúmi, eins og líklega flest öll fíkniefni.

Egill Palsson (IP-tala skráð) 1.6.2011 kl. 19:00

7 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Við vitum að reykingar eru óhollar ,og allt það en við erum samt einnig á móti boðum og bönnum,með allt sem er gott fyrir valdan hóp manna,lofum þeim að klára dæmiö það sem það má !!!!/Kveðja

Haraldur Haraldsson, 1.6.2011 kl. 19:38

8 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Ég reykti hérna í eina tíð.....en mér tókst að hætta ....og stundum sé ég eftir sígarettunum, en ég banna ekkert hvorki reykingar á svölum eða annað og skil ekki það fólk sem vill banna reykingar, mér finnst að fólk velji sjálft fyrir sig. 

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 1.6.2011 kl. 20:33

9 identicon

Sjálfur er ég ekki fylgjandi boðum og bönnum, en þau eru samt sem áður til staðar. Mér finnst bara skrítið að sjá hvergi í þjóðfélagslegri umræðu, sömu móðursýki og einkennir flótta og varnarviðbrögð reykingamanna, við því að sannanlega mjög útbreitt og sterkt fíknilyf, með vísindalega sannaða fíknivirkni, eigi nú að heyra undir strangari reglur. Mér finnst hallæristlegt að mega ekki keyra eins hratt og ég vil í mínum bíl, hvar og hvenær sem mér sýnist!...osfrv, hættið bara þessu væli. Þetta eru fíkniefni og þau ber að meðhöndla sem slík, rétt eins og önnur lyf sem valda fíkn. Ég sé hvergi að sé verið að banna fólki að reykja!!

Egill Palsson (IP-tala skráð) 1.6.2011 kl. 21:35

10 Smámynd: Gústaf Níelsson

Engu er við þennan ágæta pistil þinn að bæta Bjarni, nema því að pólitísku dagar Sivjar eru trúlega taldir með flutningi þessarar furðulegu þingsályktunartillögu. Tillagan lýsir sérkennilegu ofstæki og grimmd gagnvart fólki, sem notar tóbak, en allt er þetta þó gert í velferðar- og kærleiksskyni!!

Megi þjóðin losna við velferðar- og kærleikstalibanann Siv Friðleifsdóttur sem fyrst.

Gústaf Níelsson, 1.6.2011 kl. 21:40

11 Smámynd: Billi bilaði

Reykingar eru skaðnautnir.

Billi bilaði, 1.6.2011 kl. 22:13

12 identicon

Svo geta menn sjálfsagt skriplað á skötunni við skilgreiningu á "fíklum". Er framtíðarmúsíkin að skrifa recept upp á alla fíkn Nucleus accumbens ? http://addiction-dirkh.blogspot.com/2010/02/nucleus-accumbens.html

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 1.6.2011 kl. 23:57

13 identicon

Forræðishyggja hinna velmeinandi og réttsýnu tekur á sig ýmsar myndir. Sjálf rekst ég reglulega á pistla um að þunglyndir ættu bara að taka sér tak, fara út að hlaupa og hætta að gadda í sig lyfjum því allir viti að geðlæknar séu meira eða minna málsvarar illra lyfjafyrirtækja og haldi að algerri óþörfu geðlyfjum, svefnlyfjum og kvíðastillandi lyfjum að fullfrísku fólki sem axlar eitthvert aumingjahlutverk af eigin hvötum.

Núna gera hinir velmeinandi og réttsýnu reykingamenn að aumum fíklum en eru svo elskulegir að gera ráð fyrir að sumum sé ekki viðbjargandi í sinni fíkn.

Einhvern veginn læðist að mér sá grunur að þeir sem bera hag annarra svo mjög fyrir brjósti séu einkum fólk sem á í vandræðum með sjálft sig og líði skár ef það getur barið sér á brjóst og ráðskast með aðra, helst útnefnt valda hópa fíkla af einhverju tagi, hvort sem er lyfjafíkla eða tóbaksfíkla (þetta er nú oft sami hópurinn, t.d. reykir meirihluti sjúklinga á geðdeildum) og haft vit fyrir þeim, af umhyggjunni einni saman. Umhyggjan nær jafnvel yfir gröf og dauða því mér sýndist að í stuðningshópi Sivjar væru einhverjir þeirra sem vildu endilega þurrfrysta lík og hætta óumhverfisvænni líkbrennslu.

Kosturinn er sá að meðan þessir einstaklingar eru uppteknir af því að skipta sér af reykingamönnum og dauðu fólki eru þeir ekki að vasast í landsmálum á meðan.

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 2.6.2011 kl. 09:51

14 identicon

Öldungis frábær grein í mannúð sinni - skemmtan og skilningi!

ja, ég sé mér þann kost vænstan að játa þér enn og aftur mína andlegu ást, kæri málvinur og taka heils hugar undir með þér. Og bittinú!

H.Ág.

Helga Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 2.6.2011 kl. 12:50

15 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Góður, Bjarni.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 3.6.2011 kl. 23:52

16 Smámynd: Sigrún Óskars

Góður pistill hjá þér Bjarni. 

Næst verður áfengi bara selt út á lyfseðil, það er jú hættulegt líka og veldur fíkn eins og tóbak.  

Þegar verið er að tala um hvað reykingarfólk kostar ríkið þá má alveg tala um hvað offitusjúklingar kosta; það eru engin smávandamál þar á ferð - háþrýstingur, bakflæði, liðvandamál, þunglyndi........... bara lyfjakostnaður er svimandi hár. 

Sigrún Óskars, 6.6.2011 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband