Að kveikja í púðurtunnu

tn_andlit2
 

Leiðtogar Íran, Afganistan og Pakistan ákváðu í vikunni að taka saman höndum gegn hryðjuverkamönnum. Á sama tíma halda Bandaríkin uppi árásum á sjálfstjórnarsvæði ættbálkahöfðingja á landamærum Pakistan og Afganistan.

Þrettán féllu í vikunni, meintir hryðjuverkamenn. Sjálfstjórnarsvæðin eru innan Pakistanska ríkisins og árásir Bandaríkjamanna mælast illa fyrir og auka á andúð almennings á Vesturlöndum.

Þessi fagurtennti maður í Peshawar hrópaði að mér, niður með Ameríku, niður með Ameríku en róaðist þegar honum var ljóst að ég var Evrópumaður. Hann stillti sér upp fyrir myndatöku og við skildum vinir. Ég fjallaði aðeins um þetta stríð Bandaríkjamanna við meinta hryðjuverkamenn í Pakistan í Morgunblaðinu sunnudaginn 12. febrúar.

Greinina má einnig lesa hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Bjarni

Vertu hjartanlega velkominn til suð vestur asíu. Það er auðvelt að lesa á skrifum þínum að þú ert nýkominn á svæðið og að þú hefir ákveðið að taka stöðu með pakistönum. Undirritaður hefur verið í Afghanistan í 2 ár og þar sem ég vinn er nánast daglegt brauð að sjálfsskipaðir réttlætissinnar frá Pakistan renni hér við og sprengi sig og aðra í loft upp.

Hinn venjulegi afgani eyðir dögum sínum í að dreyma um langþráðan frið og kærleik sem réði ríkjum hér á árum áður. Allt frá því að Sovétmenn réðust hér inn hefur verið stríð og í raun löngu fyrir það. Heilu kynslóðirnar hafa alist upp á ölmusu herveldanna og kunna ekkert annað en að rétta út hönd og bíða eftir brauðmola.

Ef friður myndi komast á hér í Afghanistan myndi augu almennings fara að beinast að Pakistan. Það vilja þeir alls ekki og halda uppi daglegum árásum og skattpína alla flutninga á vörum og öðrum nauðsynjum sem þurfa að fara í gegnum Khyber skarð. Dæmi eru um að það taki allt að 2 vikur að komast 10 kílómetra leið vegna þess að pakistanskir bófar stjórni öllu þar.

Allt snýst þetta á endanum um peninga og margir munu missa vinnu og lífsviðurværi ef heimsfriður kæmist á.

Ég hvet þig til að kynna þér allar hliðar málanna og skrifa svo hlutlausa ferðasögu, alþjóð veit að þú kannt sæmilega að skrifa.

Gangi þér vel.

Björn

Björn (IP-tala skráð) 18.2.2012 kl. 17:22

2 Smámynd: Bjarni Harðarson

Kærar þakkir fyrir innleggið Björn. Það sem þú skrifar hér staðfestir það sem ég hef verið að skrifa. Meðan Nató sem þú vinnur væntanlega hjá og aðrar alheimslöggur halda áfram að framleiða hryðjuverkamenn á ættbálkasvæði Pakistana halda sömu menn áfram að sprengja sig í loft upp í Afganistan. Hófsömum Pakistönum og hófsömum múslimum yfirleitt gengur illa í baráttu við öfgamennina meðan morðárásir vesturvelda halda áfram.

Bjarni Harðarson, 19.2.2012 kl. 03:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband