Grunsamlegt vegabréf ...

Flugstöðvar eru svolítið eins og hindrunarhlaup, endalausar hindranir og endalaust spurt að því sama. Ég er semsagt á heimleið og sit núna í biðsal flugstöðvarinnar hér í Rawalapindi eftir að hafa beðið hálftíma á einum póstinum niðri meðan vandvirkir verðir landamæra leituðu að því hvort þetta land væri til.

tn_kaupmadur

Það var alveg sama hvernig maðurinn reyndi, hann sló inn Iceland, Island og eitthvað á úrdustafrófinu sínu. Tölvan hans vildi alls ekki samþykkja að það væri til land með þessu nafni. Svo brosti hann:

- Ísrael?

Nei, alls ekki Ísrael. Iceland, Islanda.

- Ireland?

Á endanum sannfærðist hann samt um að ég væri ekki heimamaður að lauma mér úr landi með fölsuð skilríki og hleypti mér í gegn. Eftir það komu aðrir þrír stimplarar og einn heimtaði peninga fyrir að hleypa mér úr landi. Ég varð að fara aftur til baka í flugstöðinni í litla bankann við hliðina á fíkniefnaleitinni. Þar var ég nýbúinn að skipta öllum rúbíunum mínum í pund en það yfirgefur enginn Pakistan nema borga 1220 rúbíur og það í rúbíum, engin pund (=1700 kr).

Svo allt aftur nema nú var ekkert verið að elta ólar við það lengur þó ég væri sennilegast geimvera eða draugur frá ævintýralandi sem enginn hefur heyrt um ...

(Malik kaupmaður á myndinni hér að ofan biður að heilsa!)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Lenti í svipuðu á slóðum fyrir óralöngu á slóðum sem þá voru álíka exótískar og Pakistan, en tilheyra nú bara skógum Króatíu. Þetta var um miðja nótt í Austurlandahraðlestinni. Þá var bara hlegið að mér þegar ég kom með gamla, stóra gúmmípassann minn, sem á stóð Ísland. Mér var vinsamlegast bent á að þetta væri ekki nafn á landi, heldur þýddi orðið: Eyja. Ég rukkaði mennina um Evrópukort og viti menn, þar voru öll Evrópulöndin NEMA Ísland. Það varð mér til happs að passinn minn var gefinn út í Reykjavík og allt í einu hugkvæmdist mér að benda á útgáfustaðinn og segja: Reykjavík - Fisher/Spasskí! Og skákáhugi Júgóslavanna brást ekki, ég flaug inn í landið.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 22.2.2012 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband