Framsóknarleg framtíðarsýn I: Afstaðan til afdala

Í lífi okkar allra er það samtíminn sem skiptir máli. Þeim sem ekki tekst að lifa í núinu tekst aldrei að skipuleggja framtíðina og ekki heldur að sættast við fortíðina. Hvern dag söfnum við fortíð og leggjum hana inn fyrir góðri framtíð. Takist okkur ekki að safna góðum minningum eða fortíð eru líkurnar á að okkur takist að leggja inn fyrir góðu lífi eða framtíð minni en ella.

Íslenskt samfélag hefur á mannsaldri gengið í gegnum gríðarlegar breytingar sem okkur gengur misvel að sætta okkur við. Það gilda nákvæmlega sömu lögmálin í sýn okkar á samfélagið eins og gilda í lífi hvers og eins. Okkur er nauðsynlegt að kannast við fortíð okkar, standa traustum fótum í henni og sættast við hana með öllum þeim þolláki sem er í þeirri sögu. Aðeins þannig erum við fær um heilbrigða framtíðarsýn.

Framtíð íslensku þjóðarinnar er vitaskuld ekki í moldarkofum forfeðra vorra en hún er í afdalnum. Sjálft landið er afdalur heimsins og samt nafli hans. Við getum hatast út í þennan afdal og talað okkur niður til þess að hér sé allt verra en í milljónaborgunum. Mynt okkar heiti ekki einu sinni almennilegu nafni. Byggt okkur framtíðarsýn á fyrirlitningu á öllu sem okkur tilheyrir hvort sem það er sagan, menningin eða landið. En það er ekki heillavænlegt.

Heillavænlegra er að horfa á möguleika okkar lands út frá sögunni og þeim tæknimöguleikum sem samtíminn hefur að bjóða. Hlutverk stjórnvalda í þeirri uppbyggingu er að skapa skilyrðin með háhraðatengingum, samgöngubótum og háskólasetrum um land allt.

Fyrir mannsaldri síðan reiknuðu reiknuðu reikniglöggir menn út að við Ölfusárbrú í Árnesþingi gætu í hæsta lagi búið tvær fjölskyldur, alls ekki þrjár. Þegar íbúarnir voru nokkrum árum seinna orðnir 100 reiknuðu enn aðrir út að Selfyssingar gætu orðið 200, alls ekki fleiri. Ég man ekki ártölin eða tölurnar nákvæmlega en þetta var einhvernveginn svona. Í dag eru þeir á sjöunda þúsundinu þvert á öll vísindi.

Selfossbær er vel í sveit settur og hefur dafnað. Ef stjórnvöld halda rétt á málum geta fleiri byggðarlög í landinu dafnað. Nýting okkar náttúruauðlinda byggir á því að við byggjum landið allt. Með því að færa þekkingu og menntun út um landið sköpum við möguleika á að nútímalegri búauðgistefnu. Hún getur legið í virkjun vindorku á Vestfjörðum eða lífdíselframleiðslu í Skaftafellssýslu.

Ef við af skammsýni höldum áfram að hrúga allri uppbyggingu ríkisins og allri menntastarfssemi þjóðarinnar niður á einum stað drögum við úr líkum þess að þjóðin haldi vopnum sínum og noti til fullnustu þá möguleika sem hún á í tækni og þróun.

(Birtist í Blaðinu í Reykjavík, 13. feb. 07)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: HP Foss

Það ætla ér svo sannarlega að vona, og reyndar er afar vongóður um, að Bjarni Harðarson muni eftir Skaftfellingunum sem búa fyrir austan Mýrdalssand. Það eru þeir hlédrægir og kurteisir, seinþreyttir til vandræða og þurfta á því að halda að þingmaðurinn þeirra viti af þeim, það hefur enginn gert hingað til, ekki einu sinni Guðni karlinn, hafa menn þó stutt hann af mikili trú og einlægni, kjósann þótt þeir séu kannski ekki of kátir með hann.
Nóg er komið af bytlingum fyrir norðan, nú verða Skaftfellingar að fá að komast að garðanum.
kv
Helgi Pálsson

HP Foss, 14.2.2007 kl. 22:07

2 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Einmitt, byggð þarf að haldast í landinu öllu, til þess þurfa samgöngur að vera greiðar og menntunarmöguleikar í heimabyggð.

Ester Sveinbjarnardóttir, 14.2.2007 kl. 22:19

3 identicon

Góður Bjarni; Árborgar-svæðið, Þorlákshöfn og þar í kring gæti vissulega orðið að mjög sterkum byggðarkjarna, með fyrsta flokks aðstöðu fyrir íbúana til alls og miklu hærri tekjur en nú er.   Þetta er gósenland, sem ekki aðeins býður upp á bestu aðstæður fyrir landbúnað, heldur einnig iðnað af ýmsu tagi, hafnsækna starfsemi og gnægð af náttúruvænum orkuframleiðslukostum.   TIl að þetta geti orðið raunveruleika á sem skemmstum tíma þarf að fá öfluga kjölfestu atvinnustarfsemi sem annað getur vaxið út frá, líkt og þeir á Austurlandi hafa fengið. 

Sigurður J. (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 00:31

4 Smámynd: Arnljótur Bjarki Bergsson

Var ekki einhversstaðar "sannað" að á Íslandi gætu ekki lifað 200.000 menn?

Arnljótur Bjarki Bergsson, 15.2.2007 kl. 01:59

5 identicon

Ert þú í framboði fyrir framtíðarlandið?

Cactus Buffsack (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 11:15

6 Smámynd: Margrét Annie Guðbergsdóttir

Alveg rétt hjá þér. Best að horfa fram á veginn, og ekki láta aðra hrekja okkur af veginum.

Margrét Annie Guðbergsdóttir, 15.2.2007 kl. 11:49

7 Smámynd: Ragnar Bjarnason

"Hlutverk stjórnvalda í þeirri uppbyggingu er að skapa skilyrðin með háhraðatengingum, samgöngubótum og háskólasetrum um land allt"

Þetta er nákvæmlega það sem grunnur búsetu byggist á í þjóðfélagi okkar í dag. Innilega sammála þér.

Ragnar Bjarnason, 15.2.2007 kl. 16:22

8 identicon

"Í lífi okkar allra er það samtíminn sem skiptir máli. Þeim sem ekki tekst að lifa í núinu tekst aldrei að skipuleggja framtíðina og ekki heldur að sættast við fortíðina. Hvern dag söfnum við fortíð og leggjum hana inn fyrir góðri framtíð. Takist okkur ekki að safna góðum minningum eða fortíð eru líkurnar á að okkur takist að leggja inn fyrir góðu lífi eða framtíð minni en ella."

Mikið svakalega er ég sammála þessu Bjarni. Allt of margir dragnast með fortíðina á eftir sér í stórum poka og lifa því aldrei í núinu.

Birna (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 17:49

9 identicon

Á miðöldum voru til flagellantar: menn sem höfðu þá áráttu að píska sjálfa sig meðan þeir bölvuðu öllu sínu syndum spillta lífi. Þegar ég heyri í fólki sem talar bæði á útsogi og innsogi og af hneyklsan mikilli og vandlætingu um krónuna, spillinguna á Íslandi, verðið á matnum hérna og hvað allir eru vondir við börn og langt á eftir öðrum þjóðum (einkum þó sambærilegum þjóðum) dettur mér stundum í hug að þetta séu flagellantar sem eru ekki komnir út úr skápnum. Er þetta tal ekki mest bara sjálfsflengingarhvöt á villigötum?

Atli (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 23:40

10 identicon

Bara af því að ég er kverúlant og besservisser langar mig til að benda á að orðið mannsaldur þýðir 30 ára tímabil.  Og fyrir 30 árum bjuggu fleiri en tíu á Selfossi minnir mig.

Þorvaldur (IP-tala skráð) 16.2.2007 kl. 12:07

11 Smámynd: Bjarni Harðarson

sko - þetta með mannsaldurinn - ég hefi heyrt þennan orðskilning að mannsaldur sé 30 ár og hann er líklega réttari en hvorutveggja er þó gefið upp í orðabókum - að orðið mannsaldur þýði meðal líftími manns (ca 70 ár) og að það þýði eitt kynslóðabil - já ég skal taka mið af þessu og reyna að nota orðið þannig framvegis - sé af dæmum í orðabók að það mun líklega vera eldri merking þess... - engu að síður, hvorutveggja er rétt!

Bjarni Harðarson, 16.2.2007 kl. 18:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband