Tvær þjóðir Fréttablaðsins

Fréttablaðið, málgagn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar er skrýtin skrúfa. Um þessar mundir hamast blaðið á gjaldeyrishöftunum en gengur vitaskuld erfiðlega að benda á böl þeirra fyrir almenning. Eða hvað?

frettabl1803

Viðskiptaritstjórinn þar skrifar nýlega leiðara þar sem hann bendir á að gjaldeyrishöftin skapi misrétti. Það séu til Íslendingar, (jafnvel gamlir útrásarvíkingar) að vísu aðallega búsettir erlendis, sem fái krónur á afsláttarkjörum hjá Seðlabankanum í gegnum fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands.  Þeir geti því keypt eignir hérlendis á öðrum kjörum en við sem höfum okkar tekjur í íslenskum krónum.

Staðreyndin er aftur á móti sú að með afsláttarleið Seðlabankans er viðurkennt að krónan sé enn í nokkuð háu opinberu gengi. Við vitum að þegar Seðlabankanum sleppir er gjaldmiðill okkar jafnvel enn lægri. Hversvegna,- jú þökk sé útrásinni sem setti hér allt í kalda kol. Ef Fréttablaðið veit til þess að gamlir útrásarvíkingar búsettir hérlendis séu að nota sér fjárfestingaleið Seðlabankans þá er eðlilegt að blaðið segi okkur frá því, það eru hæg heimatökin. Það er reyndar vafamál að slíkt ráðslag standist lög því hér er skilaskylda á gjaldeyri - en hvenær hafa lög sem gilda um almenning gilt um útrásarvíkinga.

En meðfram verðum við að horfa á hróp frjálshyggjupostula, gamalla útrásarvíkinga og ESB talsmanna gegn gjaldeyrishöftunum út frá því hver hrópar. Er þetta eins og Fréttablaðið segir ást á því jafnræði að allir siti við sama borð. Eða hvaða stól á íslenskur almenningur við það hákarlaborð?

Getur verið verið að gjaldeyrisbraskarar, skortsalar og ákaflyndir landsölumenn ESB trúboðsins eigi hér samleið í þeirri vegferð að skapa íslenskum forréttindaaðli lífvænleg skilyrði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Bjarni þú skrifar:

Ef Fréttablaðið veit til þess að gamlir útrásarvíkingar búsettir hérlendis séu að nota sér fjárfestingaleið Seðlabankans þá er eðlilegt að blaðið segi okkur frá því, það eru hæg heimatökin. Það er reyndar vafamál að slíkt ráðslag standist lög því hér er skilaskylda á gjaldeyri - en hvenær hafa lög sem gilda um almenning gilt um útrásarvíkinga.

Þú ættir að vita betur en að skrifa þetta og ættir að vita betur eftir alla þína reynslu í stjórnmálum.  Þeir sem eru búsettir erlendis þurfa ekki að fara eftir íslenskum lögum og þurfa því ekki að skila gjaldeyristekjum sínum til landsins.

Morgunblaðið hefur verið duglegt við að benda á ýmsa aðila sem voru áberandi fyrir hrun sem farið hafa fjárfestingaleið Seðlabankans.  Sumir þeirra hafa jafnvel gefið út skuldabréf hér á landi og keypt þau af sjálfum sér með afsláttarkrónum í gegnum Seðlabankann.

Þú ættir einnig að vita það að þær aflandskrónur sem notaðar eru í gegnum Seðlabankann ýta undir þenslu, lækkun krónunnar og verðbólgu(sem hækkar verðtryggð lán) og því eru það fyrirtæki og almenningur sem ekki fær að nota aflandskrónur sem borgar.  Þau fá ekki reikning í pósti en borga með hærri vöxtum og þyngri skuldabyrði sem læðist aftan að þeim.  Hærri stýrivextir ryðja einnig nýfjárfestingum úr vegi til að rýma fyrir aflandskrónunum.  Þannig verður hagvöxturinn ekki eins sjálfbær og verðmæti glatast.

Þegar hugsað er um skaðsemi gjaldeyrishafta þá er of oft horft á beinan kostnað eða beinan hagnað.  Of sjaldan er litið á óbeina kostnaðinn sem stórskaðar hagkerfið og dregur nú sífellt meira úr lífskjörum í landinu sem mun verða mjög sýnilegt eftir örfá ár.

Bjarni, ertu á móti því að selja krónur á afsláttarkjörum til fárra útvaldra sem uppfylla skilyrði Seðlabankans(það fá náttúrulega ekki allir að taka þátt)?

Lúðvík Júlíusson, 20.2.2013 kl. 19:26

2 Smámynd: Bjarni Harðarson

Það er vitaskuld rétt Lúðvík að best væri að engar aflandskrónur væru til og til eru þeir menn sem telja sig geta galdrað þær burt. En heldur er nú athugasemdin þín skrýtin Lúðvík. Seðlabankaleiðin ýtir undir þenslu!! Eru ekki flestir sammála um að hér vantar fjárfestingu og hagvöxt. Áhrif þessa á gengi eru hverfandi miðað við þann dans sem verður með alfrjálsi braskarakrónu.

Bjarni Harðarson, 21.2.2013 kl. 09:55

3 identicon

(Athugasemd með auglýsingatengli fjarlægð af umsjónarmönnum.)

Ásgeir (IP-tala skráð) 21.2.2013 kl. 13:14

4 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Bjarni, hvernig væri að svara spurningunum?

Bjarni, hér eru gjaldeyrishöft og stighækkandi stýrivextir vegna þess að krónur í kerfinu eru of margar miðað við þann gjaldeyri sem er til staðar og þann gjaldeyri sem kemur til landsins.  Það hlýtur að vera óumdeilt.  Því hlýtur það einnig að vera óumdeilt að fleiri krónur í hagkerfinu, hvort sem þær fara í fjárfestingar eða annað, auka hlutfall króna á móti gjaldeyri og því fellur gengið, vextir hækka og verðbólgan eykst.  Þú færð "nýjar" fjárfestingar en hærri vextir tryggja að ekki verður farið í fjárfestingar sem annars hefði verið farið í.  Nettóávinningurinn er því enginn eða jafnvel minni vegna þess að ávinningurinn af aflandsviðskiptunum verður til í bókhaldi einstaklinga og fyrirtækja erlendis og skilar sér því ekki til fólks sem neytt er til að bera þyngri byrðar.

Ef þú heldur að fleiri krónur í kerfinu séu af hinu góða þá ættirðu að skoða hvað gerðist hér fyrir hrun, hvers vegna það eru gjaldeyrishöft og hvers vegna það er lítið traust á krónunni.

Lúðvík Júlíusson, 21.2.2013 kl. 18:32

5 Smámynd: Bjarni Harðarson

Bjarni Harðarson, 22.2.2013 kl. 14:12

6 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Sumir kunna bara að brosa á meðan aðrir vinna.

Lúðvík Júlíusson, 22.2.2013 kl. 16:15

7 identicon

Bestu kveðjur til þín Bjarni minn.

Kær kveðja.

Valgeir M.

Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 24.2.2013 kl. 19:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband