Stjórnmálaflokkar, fullveldi og loforð

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins steig fyrir skemmstu fram í silfurslegnum ESB þætti og gaf undir fótinn með að svíkja stefnu sem samþykkt var á landsfundi flokksins í ESB málum. Tilefnið er fremur málefnaleg og góð samþykkt Sjálfstæðismanna um að loka beri áróðursskrifstofu þeirri sem ESB rekur á Íslandi. Nei, á varaformanninum er að heyra að þarna hafi grasmaðkanir farið yfir strikið. Gildir þá einu þó að starfsemi Evrópustofu ESB gangi þvert á alþjóðasamninga um að erlendir sendimenn megi ekki reka pólitískan áróður. Um nýafstaðna helgi bætti formaður flokksins um betur og er greinilega hættur við að slíta viðræðunum.

Þetta er sagan endalausa af samspili loforða og stjórnmálaflokka.

Ósiðlegir IPA styrkir

Þegar ríkisstjórnin keyrði í gegnum þingið árið samþykkt um að ESB mætti ausa hér fé á báða bága með IPA styrkjum var stjórnarandstöðunni í lófa lagið að stöðva málið enda þingmeirihlutinn veikur. En ekkert slíkt átti sér stað og sem fyrr sannaðist að peningar smjúga betur en vatn.

Síðan hafa sveitarstjórnarmenn, forstöðumenn stofnana og hundruðir annarra Íslendinga staðið frammi fyrir gylliboðum um styrki til hvers sem vera skal í óafturkræfum styrkjum. Þeir sem vinna að nýmælum og atvinnuuppbyggingu áttu áður vonir um nokkur hundruð þúsundir króna úr mögrum héraðssjóðum en sjá nú von í milljónastyrki og skilyrðin eru oftar en ekki léttvæg. Með IPA styrkjunum annarsvegar og rekstri hinnar evrópsku áróðursskrifstofu var loku fyrir það skotið að nokkuð gæti lengur verið lýðræðislegt við aðlögunarferli Íslands að ESB.

En er ekki gott að hingað komi óafturkræfir ESB styrkir, kann einhver að spyrja. Er ekki sama hvaðan gott kemur? Fyrir nokkrum misserum var umræða um fjárfestingastefnur lífeyrissjóða og opinberra aðila og þar var meðal annars vitnað til frænda okkar Norðmanna sem hafa lagt siðferðilega mælikvarða á fjárfestingar. Í þessum efnum megum við margt læra og vitaskuld gildir sama um styrki. Við hljótum að leggja siðferðilega mælikvarða á þá eins og annað sem við gerum.

Í Suður Evrópu gengur meirihluti ungs fólks atvinnulaus og vonlítill um sína framtíð, skortur á brýnustu nauðþurftum hrjáir milljónir og framleiðsluatvinnuvegirnir hafa verið lagðir af til að rýma fyrir markaðsvörum frá herraþjóðum ESB. Fá þessar þjóðir sambærilega styrki og þá sem er verið að bjóða okkur?

Nei, það fást ekki IPA styrkir til þessara landa því þeir eru aðeins veittir þjóðum sem eru ókomnar inn í ESB. Rétt eins og nammið utan á sætabrauðshúsi Hans og Grétu. En þessar þjóðir greiða í IPA sjóðina sem okkur veitt úr.

Það er vitaskuld fyrir neðan allar hellur af Íslendingum að þiggja þessa óafturkræfu styrki frá bláfátækum kreppuþjóðum. Og meðan þeim er veitt inn í landið er verið að bera fé á dóminn og enginn sem ann lýðræði getur samþykkt kosningar um mál sem brenglað er með ómældum fjáraustri frá erlendu heimsveldi.

 

Fylgishrun Sjálfstæðisflokks

Undirritaður hóf þessa grein með því að víkja að óheillaskrefum Bjarna og Hönnu Birnu sem keppast nú við að snúa út úr nýlegum samþykktum eigin landsfundar. Slíkar trakteringar hafa Sjálfstæðismenn áður séð, síðast í Icesaveafstöðu formanns síns.

Hinir ESB sinnuðu fjölmiðlar landsins hafa hamrað á því að undanförnu að Sjálfstæðisflokkur uppskeri nú fylgishrun fyrir harðar samþykktir í ESB málum. Slíkt eru miklar staðleysur enda ljóst af skoðanakönnunum sem framkvæmdar eru af Gallup og öðrum marktækum aðilum að mikill meirihluti vill stöðva aðlögunarferlið að ESB og stendur vörð um fullveldið. Að því leyti náði Landsfundur Sjálfstæðisflokksins að endurspegla afstöðu meirihluta þjóðarinnar.

Fylgishrun Sjálfstæðisflokks er í fyrsta lagi vegna þeirrar umræðu sem hefur verið um stöðu formanns flokksins en í öðru lagi vegna þeirrar óvissu sem margir eru í um afstöðu bæði formannsins og þingflokksformanns til ESB mála. Og nú í þriðja lagi kemur svo óheppileg eftirgjöf varaformanns sama flokks í samtali við umræðustjóra ríkisins, Egil Helgason. Kjósendur verða að hugsa sig tvisvar um áður en þeir setja atkvæði ESB andstöðu yfir á Sjálfstæðisflokkinn.

(Birt í Morgunblaðinu í dag, 27. mars 2013) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur I.

Sæll Bjarni.

Vinguls- og vindhana háttur BB og reyndar Hönnu Birnu líka er með hreinum ólíkindum.

Láta þennan háværa minnihlutahóp ESB sinna og hlutdræga ESB fjölmiðla hrekja sig til þess að svíkja allt það sem að þessi stærsta og lýðræðislegasta stofnun flokksins var nýbúinn að samþykkja með yfirgnæfandi meirihluta.

Þetta er hrein aðför þessarar vingulslegu flokkræðisklíku að lýðræði þessa stjórnmálaflokks og reyndar fjór flokksins alls.

Við þurfum á öðru vísi og heiðarlegri stjórnmálum að halda.

Við þurfum svo sannarlega á Regnboganum að halda.

Gunnlaugur I., 27.3.2013 kl. 21:10

2 identicon

Sem harður ESB andstæðingur ætla ég ekki að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Nú má vera að einhverjum finnist afstaða landsfundar flokksins hafi tekið harða afstöðu gegn ESB, og má vera að það sé rétt, en boðuð eftirgjöf BB núllar út landsfundinn.

Eftir samfelld fjögurra ára svik VG í ríkisstjórn hefur fólk eðlilega varan á sér, og ætlar að kjósa þá sem ólíklegastir eru til ESB daðurs.

Minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokks hefur ekkert með "harða" afstöðu til ESB að gera, ekki "hrunverja" eða "skuldaleiðréttingar" heimila. Fólk myndi kjósa fjandann sjálfan, ef það væri tryggt að við verðum ekki innlimuð í ESB.

Hilmar (IP-tala skráð) 27.3.2013 kl. 22:51

3 identicon

Hilmar.

 Ég er lítt  inni í pólitík.

 Þætti þar af leiðandi einkar vænt um, ef þú gætir upplýst mig nákvæmlega, hver hún er þessi " eftirgjöf Bjarna Benediktssonar ?

 Einlæglega,

 Kalli Sveinss.

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 28.3.2013 kl. 00:21

4 Smámynd: Elle_

Hann er eins og jojo í pólitík, Kalli.  Gunnlaugur kallaði það að ofan að 'láta hrekja sig til að svíkja' , 'vinguls- og vindhanahátt'.  Það má nota ýmis orð yfir að snúast þvert gegn eigin fyrri orðum og gegn landsfundi. 

Elle_, 28.3.2013 kl. 01:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband