Fullveldi og ferskleika í stjórnmálin

Allt þetta kjörtímabil hafa okkur borist fréttir af því að útrásarvíkingar þeir og örlagabraskarar sem fóru langleiðina með Ísland á hausinn séu nú að taka við sínum fyrri fyrirtækjum. Þeir eru fjáðir og endurnærðir með undanskotssjóði og lausir við gömlu skuldirnar. Þær hefur þjóðin fengið í fangið.

Vitaskuld er slíkt ráðslag með öllu ólíðandi en þegar horft er til stjórnmálanna er staðan litlu skárri. Þar horfa landsmenn nú fram á að þeir stjórnmálaflokkar sem stóðu fyrir því að gefa vildarvinum sínum banka og önnur stórfyrirtæki fái völdin aftur á silfurfati. Þeir gjafagerningar voru ásamt EES aðild Íslands grunnur að hruni okkar 2008. Almenningur er að vonum ráðvilltur í þeim frumskógi nýrra framboða sem spretta upp og margir hallast þá að því að kjósa gömlu settin, þrátt fyrir fortíð þeirra. Enn eru þó margir óráðnir og flökt í fylgi hefur aldrei verið í líkingu við það sem við nú sjáum.

Sá sem hér stingur niður penna sat á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn um skamma hríð og sagði af sér eftir nokkrar ófarir sem alkunnar eru. Í því efnu er ég stoltur af því einu að hafa axlað ábyrgð á eigin gjörðum. Við þá ákvörðun var mér mjög til stuðnings að hafa þá áttað mig á að sá flokkur sem ég hafði trúað fyrir atkvæði mínu í tvo áratugi hafði misfarið svo með vald sitt við einkavæðingu íslenska bankakerfisins að fáheyrt verður að teljast. Fram til þess hafði ég líkt og margir trúað að þrátt fyrir allt hefðu bankarnir verið seldir en ekki gefnir vildarvinum flokkanna sem sátu í ríkisstjórn. Enn hefur ekkert uppgjör farið fram innan flokkanna vegna þeirra mála og engin trygging er fyrir því að ekki verði á ný efnt til sambærilegra gerninga gegn íslenskum þjóðarhag.

Síðan þetta var hafa aðrir flokkar spreytt sig á sama og ekki síst VG sem hefur sýnt eindæma árvekni við að brjóta á kosningaloforðum og stefnuskrá sinni. Þar líkt og í bankaeinkavæðingunni hefur komið skýrt fram ágalli íslenska flokkakerfisins. Forystumenn VG hafa slag í slag farið með mál andstæð eigin loforðum fyrir litlar og lokaðar flokkssamkomur þar sem frávikin eru blessuð með handauppréttingum.

Með framboði Regnbogans nú gefst kjósendum val á framboði sem hefur einarða og skýra stefnu í ESB málum en er einnig stefnt gegn flokkakerfinu sem slíku. Umfjöllun um stjórnmálamenningu landsmanna bíður næsta pistils.

(Birt í Sunnlenska fréttablaðinu 26. mars 2013)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband