Lögleysu við uppboð mótmælt

Í dag var boðað uppboð á heimili vinar míns og nágranna Páls Valgeirssonar á Engjavegi, það þriðja og síðasta. Aðgerðasinnar höfðu boðað frambjóðendur á staðinn og við vorum nokkur sem mættum. Engir samt af oddamönnum stóru flokkanna. Nú þegar liðnir eru þeir sérstöku frestir sem veittir voru skuldugu fólki fyrst eftir hrunið skiptir fjöldi slíkra fógetaaðgerða inni á heimilum fólks tugum í hverri viku og hér er lítið skeytt um tilfinningar, friðhelgi, einkalíf eða almenna neytendavernd gagnvart lánastofnunum. Sitjandi þingmenn gátu fyrir þinglok ákveðið að framlengja fresti vegna þessara mála en gerðu ekki.

Framan af fór uppboðsgerð Ólafs Helga Kjartanssonar sýslumanns vel fram en þegar gerðarþolinn Páll vildi koma sjónarmiðum sínum á framfæri og lesa í heyranda hljóði upp bókun við gerðina krafðist Ólafur Helgi þess að fá að lesa bókunina fyrir hann. Skiljanlega hugnaðist Páli það ekki og eftir nokkurt fum og umræðu um það hvort öll gögn væru fram komin kvað Ólafur Helgi upp þann úrskurð að aðgerðum væri frestað til kvölds. Þessu var almennt fagnað og í framhaldi af því kynnti Páll bókun sína sem ritari sýslumanns tók að skrifa niður þrátt fyrir að aðgerðum verið frestað. Þegar því var lokið tilkynnti sýslumaður svo að úr því bókunin væri komin fram þá væri nú óþarft að fresta uppboði. Þessu mótmæltu viðstaddir, m.a. Maríanna dóttir Páls sem þarna var stödd og taldi að frestunin til kl. 9 í kvöld stæði. Hófust um þetta nokkrar umræður og pex sem lyktaði með því að sýslumaður bauðst til að fresta málinu um sex vikur!!!

Að vonum voru allir mjög ánægðir með þessar málalyktir. Páll og sýslumaður rituðu undir samkomulag þessu til staðfestu og margir urðu til að lofa sýslumann fyrir stórmannlega framkomu, mildi og réttsýni. Páll bauð þeim sýslumanni og starfskonu Arionbanka sem þarna var til kaffidrykkju inni í eldhúsi en þá svarar bankastarfsmaður. „Þetta er nú ekki alveg búið."

Í þeim töluðu orðum hóf sýslumaður uppboðsgerð að nýju með þeim formála að frestun hefði ekki átt við sjálft uppboðið heldur gæfist með þessu frestur til að semja og greiða úr málum þrátt fyrir uppboðið allt fram til 6. júní.(Svokallaður samþykkisfrestur). Við urðum öll mjög undrandi á þessu og engir vissu hvaðan á sig stæði veðrið. Nokkru áður en gerð hófst hafði Páll beðið mig að rita undir skjal þar sem ég tók að mér ásamt nokkrum öðrum að tala máli gerðarbeiðanda ef ég teldi þess þörf og ég reiknaði alls ekki með að til þess kæmi.

 

En nú lá fyrir að sýslumaður ætlaði sér að halda uppboði áfram eftir að hafa talið 20 manna hópi trú um að þessum óskemmtilegu fógetaaðgerðum væri lokið og frestað fram í júní. Hvað sem liði uppboðsreglum var greinilegt að sýslumaður hafði algerlega farið á svig við upplýsingaskyldu sína gagnvart gerðarþola en lög kveða einmitt á um að stjórnvaldi beri að upplýsa við aðstæður sem þessar hvað er um að vera. Vitaskuld getur einn maður misskilið orð embættismanns en hér „misskildu" allir orð hans og því flutti ég stutta tölu þar sem við mótmæltum þessum gerningi og því að sýslumaður villti með þessum hætti fyrir gerðarþola.

Áður kynnti ég sýslumanni að ég talaði í þessu máli í umboði gerðarþola en engu að síður hélt sýslumaður áfram löglausum gerningi og þóttist framkvæma uppboð án þess að nokkuð heyrðist til þeirra verka og fékk svo viðstadda lögmenn og fulltrúa banka til að undirrita hina ímynduðu uppboðsgerð sína sem svo sannarlega fór ekki fram í heyranda hljóði. Vitaskuld eru það alvarleg lagabrot að sýslumaður hlustaði hér ekki á sjónarmið gerðarþola sem bætist við frægð embættisins þennan morgun.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband