Umsátursástand um fullveldið

Grein Guðmundar S. Brynjólfssonar og Bjarna Harðarsonar
í Sunnlenska fréttablaðinu í morgun, 24. apríl.  

Þriggja ára „samningaviðræður" Íslands og ESB hafa leitt fram þá niðurstöðu að ESB lítur með skilningi á sjónarmið Íslands að selja ekki áfengi í almennum verslunum. Enginn samningur verður þó verið undirritaður um það atriði og viðræðustautið sem hundruðir Íslendinga hafa setið yfir hefur ekki leitt af sér niðurstöðu í neinu öðru máli. Óskaplega sem þessum pakka er vel innpakkað! Eða getur verið að það sé verið að plata okkur.

Á heimasíðu stækkunardeildar ESB segir:

Hugtakið "samningaviðræður" getur verið misvísandi. Aðlögunarsamningar einblína á skilyrði og tímasetningar á því hvenær og hvernig umsóknarríki lagar sig að reglum ESB.. sem eru ekki umsemjanlegar.

Í aðlögunarviðræðum felst að regluverki aðlögunarþjóðar er breytt og þær breytingar mega samkvæmt fyrirmælum ESB ekki vera með þeim hætti að auðvelt sé að snúa til baka. Fyrirkomulagið var sniðið að austantjaldsþjóðunum sem voru vitaskuld mjög frábrugðnar Evrópu í allri stjórnsýslu. Þessar aðlögunarviðræður eru gerólíkar því ferli sem Noregur fór tvisvar í gegnum á síðustu öld og voru samningaviðræður. Þar var í reynd hægt að kíkja í pakka en hér fer samkvæmt yfirlýsingum stækkunardeildar fram hægfara innlimun Íslands í ESB. Samhliða er borið fé á opinberar stofnanir, sveitarfélög og einstaklinga. Þessa innlimun verður tafarlaust að stöðva.

ESB sinnar allra flokka gera sér grein fyrir að þöggun kemur sér vel fyrir innlimunarsinna. Þar með hafa flokkarnir frítt spil eftir kosningar enda ályktanir þeirra meira og minna opnar í báða enda. Það er helst að reiða megi sig á landsfundarályktanir Sjálfstæðisflokks en nú hafa bæði formaður og varaformaður þess flokks boðað að þeir ætli ekki að fylgja þeim ályktunum. Þögn Framsóknarframbjóðenda um málið er þögn þeirra sem vita að málið klýfur þann flokk algerlega í tvo andstæða hópa. Að undanförnu hafa einstakir stuðningsmenn Framsóknar túlkað ályktanir flokksins svo að hér eigi að kíkja í pakka.

Fullveldi Íslands er ekki í vari fyrr en áróðursöfl ESB hafa verið send heim og mútusjóðum þess hafnað. Meðan umsátursástand ESB varir verða kjósendur að fara gætilega með atkvæði sitt og vera þess fullvissir að þeir kjósi ekki aðra en fullveldissinna á þing.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband