Boðið til byltingar!

- Það ætla ég að vona að Framsókn fái meirihluta í þessum kosningum, sagði vinur minn sem oft lítur við í Bókakaffinu hér við Austurveginn. Kannski var ég eitthvað seinn til svars því einhvernveginn átti ég ekki von á að þessi maður af öllum kysi minn gamla ástkæra flokk. Það bærðust í mér blendnar tilfinningar undrunar, klökkva og kvíða fyrir því hvert þetta samtal ætlaði.

Þegar ég var búinn að færa tékknesku pari á næsta borði tvo moccabolla leit ég samt yfir og sagði svoldið hægt eins og ég væri að herma eftir gömlum Skeiðamanni:

- Meiri-hluta!

- Já, já, meirihluta og þá fyrst verður gaman að lifa. Hefurðu áttað þig á því hvað ástandið er alvarlegt og hvað gerist þegar þessir andskotar svíkja þetta allt saman...

- Neeeeeei, sagði ég og var nú alveg hættur að látast.

- Svíkja, það er hreinlega ekki hægt að efna neitt af þessu sem þeir eru að lofa og ef þeir reyna þá fer samfélagið algerlega á hvolf, það verður óðaverðbólga og við förum öll á hausinn. Og ef þeir reyna ekki þá verður allt vitlaust hérna og gott ef ekki blóðug bylting. Ætli það sé ekki bara það sem við þurfum hérna á skerinu. Þetta hættir ekki fyrr en einhver hefur verið drepinn!

Svo dró aðeins niður í þessum vaska spámanni. Hann setti í brýrnar og hvíslaði næstum því eins og tékkarnir væru að njósna um okkur.

- Þessar kosningar verða mjög merkilegar hvernig sem fer. Þegar veruleikatengslin í umræðunni eru næstum því engin og fólk fer á kjörstað í von um að fá pening þá hriktir í.

Ég ætlaði að segja eitthvað án þess að vita hvað það ætti að vera en í sama mund kom frelsandi amerísk fjölskylda inn í kaffihúsið, fimm saman á ferð um Ísland og ég losnaði úr þessari umræðu.

Ég var samt enn að hugsa um þetta meðan ég fræddi amerískan menntaskólakennara um Sturlungu þar sem sagt er frá því hvernig íslenskir oflátungar brutu fjöregg þjóðarinnar. 

(Birt í Mbl. 24. apríl 2013) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottur Bjarni minn...Stendur þig ávalt vel vinur.

Haðfu það sem best og vegni þér vel vinur áfram.

Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 24.4.2013 kl. 22:29

2 Smámynd: Sólrún Guðjónsdóttir

gott hjá þér Bjarni

Sólrún Guðjónsdóttir, 24.4.2013 kl. 23:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband