Köstum atkvæði okkar ekki á glæ

- Ég ætla ekki að kasta atkvæði mínu á glæ í þessum kosningum, sagði vinur minn úr Tungunum við mig í vikunni og ég hummaði eitthvað á móti um að ef maður greiddi atkvæði væri það nú alltaf framlag til lýðræðisins.

- Nei, það er ekkert framlag til lýðræðisins. Það er afbökun á því, svaraði þessi félagi minn og var heitt í hamsi. Ég vissi varla hvert þetta símtal var að fara. Ætlaði maðurinn að koma með þessa lummu um að við fengjum ekki nógu mikið fylgi og atkvæðið dytti því dautt niður. Tilbúinn að benda á að í þeirri einu könnun þar sem mitt nafn var nefnt reyndust 44% íbúa Suðurkjördæmis óska þess að ég yrði kjörinn. Æi, mér leiðist að halda svo sjálfhverfum hlutum fram en meðan engin önnur mæling hefur farið fram á mínu eigin fylgi gæti ég neyðst til þess... En nú gáfust ekki tímar til heilabrota, rödd þessa gamla sveitunga var í tólinu og hélt áfram.

- Síðast kaus ég VG, mest  út af andstöðunni við ESB. Því atkvæði var svo sannarlega kastað á glæ og verra en það því þetta lið sem vill ná af okkur fullveldinu fékk það og þá þingmenn sem ég studdi afhenta á silfurfati. Ég var ekki svona heppinn eins og þú að hafa kosið Atla Gíslason...

- Ja...!

En ég komst ekkert að og hafði svosem ekkert mikið að segja. Maðurinn var farinn að segja mér frá föður sínum öldruðum sem var kominn með nýtt hné og hafði til skamms tíma kosið íhaldið. Þegar hann áttaði sig á að gamla hægri stjórnin hafði stolið ríkisbönkunum og allskonar fyrirtækjum fannst þeim gamla hann hafa verið svikinn. Atkvæðunum sínum stolið og hann ætlaði svo sannarlega ekki að láta það henda sig oftar að kjósa þá sem allt svíkja og öllu stela.

- Við ætlum báðir að kjósa þennan Regnboga ykkar þó að þetta sé nú hálfskrýtið nafn. Ef þetta héti bara Listi Bjarna og Guðmundar þá hefðuð þið rakað inn í skoðanakönnunum. Það veit enginn að þú sért á lista sem heitir Regnbogi  en ég er viss um að þið fáið fylgi í sjálfum kosningunum. Þið farið líklega báðir inn og vertu blessaður!

- Ha, já blessaður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Mér sýnist á öllu að það ertu að gera, nákvæmlega það sem þú ert að vara aðra við.

Í stað þess að standa þétt með ríkisstjórninni sem hefur allt kjörtímabilið verið í basli að halda meirihluta sínum, þá gerast menn bíræfnir eins og verstu villikettir. Sundurlyndið er besta von íhaldsins hvort sem það kennir sig við „Framsókn„ eða „Sjálfstæði“.

Þöggun er ekki ókunnugt fyrirbæri. Það hefur lengi síðan þótt sjálfsagt t.d. í stjórnmálum að þegja um það sem vel hefur verið gert en draga athygli að öðru sem minna máli skiptir. Þeir jafnvel útskúfaðir sem leyfa sér að hafa aðra skoðun á málefnunum. Við horfum upp á þetta margsinnis í dag þegar fremur minniháttar málum er gert meira en tilefni gefur til, þau blásin upp í tilfinningalegt raus fremur en að sinna betur þeim málum sem meiru skiptir. Af nægu er að taka: Af hverju er nánast engin umræða um Magma málið, eignarrétt og notkun náttúruauðlinda en einhver lifandi ósköp um Icesave sem virðist fá góðan enda? Engin umræða er um viðskiptasamningin við Kína þó gríðarlegu púðri sé eytt í Evrópusambandsumræðuna. Stjórnarskármálinu ýtt út í horn. Látum við hagsmunaaðilana, lýðskrumarana og auðmennina stýra umræðunni? Sjálfsagt er óvíða að finna jafn sundurlausa hjörð og við Íslendingar erum.

Guðjón Sigþór Jensson, 25.4.2013 kl. 18:59

2 Smámynd: Elle_

Bíræfnir eins og verstu villikettir?  Ja, hjerna.  Villikettirnir voru vitið sem VG missti, nema Ögmundur, hann fór ekki þó hann passi ekkert inn í þennan hrikalega flokk.  VG var nær. 

Elle_, 25.4.2013 kl. 21:28

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Bjarni mikið rétt fólk á að kjósa með hjartanu ekki skoðankönnunum eða áróðursmaskínum fjórflokksins.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.4.2013 kl. 21:40

4 identicon

Hverju orði sannara Bjarni.

http://www.sunnlenska.is/adsent/11957.html

Axel Óli Ægisson (IP-tala skráð) 26.4.2013 kl. 11:10

5 identicon

Ef ég kýs Regnbogann, viltu þá lofa mér að gera alla daga að fánadögum, Bjarni?

Ennfremur þætti mér vænt um að vér Íslendingar fengjum að syngja a.m.k. "Öxar við ána" eða "Ísland er land þitt" tvisvar á dag.

Síðan væri vel til fallið ef þú gætir fengið einhver skáld til að semja nýjan brag um fullveldi og krónuna.

Þar mega gjarnan koma fram hendingar um mikilvægi og ágæti íslensks landbúnaðar.

Áfram Regnboginn!

Hann lengi lifi: ísland, ísland, íslaaaaaaaaand!!!!!

Jóhann (IP-tala skráð) 27.4.2013 kl. 00:02

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þegar rök þrýtur er gripið til......................................

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.4.2013 kl. 00:55

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þið höfðuð ekki neitt fylgi. Hefði ekki verið betur heima setið en að standa í þessu stússi?

Guðjón Sigþór Jensson, 28.4.2013 kl. 13:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband