Í skjóli flokksræðis

Guðmundur S. Brynjólfsson og Bjarni Harðarson skrifa:

Afnemum verðtrygginguna, breytum kvótakerfinu, lækkum skuldirnar, styðjum litlu fyrirtækin, afnemum launajafnréttið. Allt eru þetta eins og bolsíur frá bernskutíð. Gamalkunn lygi sem þulin er upp á fjögurra ára fresti því að okkur finnst svo værðarlega gott að láta ljúga að okkur.

Ekki svo að skilja að þjóðin ekki viti að skrökulygi er alltaf skrökulygi. Það að heyra frambjóðendur fara með slíkar möntrur fyllir okkur einfaldlega öryggiskennd eins og útsynningur eftir langa dvöl á Kanarí. Heimurinn er kominn til okkar aftur, gamalkunnur eins og daunillur afi.

Í Ameríku hefur fólk fyrir spakmæli þessa romsu sem Íslendingar fá seint skilið: Fool me once, shame on you; fool me twice, shame on me. Á íslensku útleggst þetta. Ef þú lýgur að mér einu sinni þá er þá er það þín skömm, takist þér að plata mig tvisvar er skömmin mín.

Sjaldan hafa kosningar farið fram undir eins litskrúðugum  loforðaflaumi og nú á þessu vori. Eru þó eldri met hástemmd, svo sem um eiturlyfjalaust Ísland á aldamótum. Um langt árabil hefur meirihluti þingmanna sest á bekki með loforðið um afnám verðtryggingar en enginn stjórnarmeirihluti hreyft litla fingur. Hvað veldur? Nú getur ekki verið að verðtryggingin sé greypt í fjöllin því hér er um frekar mistækar mannasetningar að ræða.

Það skyldi þó ekki vera að flokkakerfið hafi með þetta að gera. Það fyrirkomulag að sitjandi þingmenn eru starfsmenn stjórnmálaflokka sem starfa eftir nútímalegu markaðslögmáli. Aðal hlutverk þingmanna og starfi seint sem snemma er að sjá til þess að flokkurinn sem gaf þingsætið skori hátt í könnunum og vinsældum, fái til sín bitlinga og eigi von í enn fleiri. Og flokkurinn er stofnun þar sem öll helstu áhrifaöfl samfélagsins hafa komið sér saman, útgerðaraðall, lífeyrissjóðir, peningamenn og þar til uppfyllingar allskyns beiningamenn og spámenn. Völdin eru vitaskuld öll í höndum hinna fyrrtöldu.

Þegar flokkar segjast hafa endurnýjast, orðið sem nýir við nýja þingmenn þá eru það leiktjöld. Meðan ráðandi öfl flokkanna eru þau sömu breytist lítið. Meðan nýgræðingarnir á þingi hafa sama skjól og sömu leiðsögn, hendur bláar og grænar, þá er lítil von breytinga.

Skjól flokksræðisins er höfuðástæða þess að stjórnmálamenn starfa ekki af heilindum, ekki saman að þjóðþrifamálum og ekki í samræmi við loforð. Lykill að breytingum á þessu fyrirkomulagi er að stjórnmálamenn bjóði sig fram án þess að stofna um þingsetu sína stjórnmálaflokk sem dregur að sér peningaöflin og klíkumyndun. Regnboginn sem við félagar bjóðum okkur fram er fyrir slík ópólitísk fylking manna og kvenna. Setjum X við J á kjördegi.

Höfundar skipa forystusæti á J lista Regnbogans í Suðurkjördæmi


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband