Sáttahyggju í umhverfismálum

Mér er í barnsminni að orðið umhverfisvernd hafi merkt að vera sérlegur hatursmaður sauðkindarinnar. Skepna þessi var lengi talin upphaf og endir á allri þeirri gróðureyðingu sem orðið hefði í landinu. Kallaðir voru til vitnis í þeirri umræðu íslenskir menntamenn allt frá dögum Ara fróða. Ómar Ragnarsson gekk í þá daga að vatnsrofi í Grafningsfjöllum og kenndi um sauðfjárbúskap. Virtar leikkonur í Reykjavíkinni vitnuðu um að sauðkindin gerði landið bæði ljótt og leiðinlegt.

Bændur sjálfir voru sjaldnast kallaðir til vitnis og þótti eiginlega jafn fráleitt að tala við þá eins og að beina hljóðnemanum að sauðkindinni sjálfri. Síðan þetta er hefur mikið vatn runnið til sjávar.

Öfgarnar skila engu

Gróðurverndarumræða í landinu hefur fyrir löngu jafnað sig á þessum öfgum. Stórvirki eru í dag unnin í uppgræðslu mela og rofabarða og fremstir í þeim flokki eru nú sem fyrr bændur landsins. Engum dettur lengur í hug að kenna sauðfjárbúskap um eldgos eða harðæri fyrri alda. Miklar framfarir hafa orðið í þessum efnum en mér er til efs að öfgafull umræða á síðasta aldarfjórðungi 20. aldar eigi nokkuð í þeim árangri.

Og öfgamennirnir sem áður hrópuðu á torgum að landið væri að fjúka á haf út hafa vitaskuld fundið sér ný mið. Þeir eru jafnvel orðnir elskir að sauðkindinni en óvinur samtímans þeirra í dag er raforkan og stóriðjur. Eins og þar sé upphaf og endir alls í umhverfismálum í okkar landi.

Stærsti kostur þessara baráttuglöðu víkinga verður nú sem fyrr að þá þrýtur yfirleitt örindið áður en við er litið og hafa að líkindum fundið sér nýjan óvin áður en mörg ár eru liðin.

Sátt og vinnufriður

Nú er það ekki svo að sauðfjárbeit sé alltaf heppileg í viðkvæmu landi. Og það er heldur ekki sjálfsagt að láta undan öllum hugdettum Landsvirkjunarmanna um stóriðjur og vatnsaflsvirkjanir. En það er meðalhófið sem gildir. Án þess eru litlar líkur á farsælum niðurstöðum.

Á sínum tíma voru það farsælir og yfirvegaðir landbótamenn sem gengu inn í gróðurverndarumræðuna og tókst þar að skapa sátt og vinnufrið. Þar má nefna baráttumenn eins og Ólaf Dýrmundsson sauðfjárræktarráðunaut og Jón Helgason bónda og fyrrum landbúnaðarráðherra. Smám saman náðu rök, skynsemi og sáttahyggja yfirhöndinni í þessari umræðu og öfgafólkið fann sér sem fyrr segir ný mið.

Kjarkmiklir framsóknarráðherrar

Í umræðunni um orkumál og stóriðju gildir það sama. Iðnaðarráðherra hefur nú lagt fram mjög merkar tillögur að lögum um nýtingu auðlinda í jörðu. Þar er tekið tillit til sjónarmiða beggja og náttúran þó látin njóta vafans. Þannig viljum alvöru umhverfisverndarmenn í landinu vinna.

Öfgamenn halda áfram að hrópa og segja að þessi nýja sáttatillaga sé einskis virði því með henni sé ekki lagt blátt bann við neinu sem þegar er komið í gang. Það er rétt enda er ekki til verri stjórnsýsla en sú sem telur sig geta stjórnað afturvirkt.

Ég er mikill umhverfisverndarsinni og tel jafnframt að versti óvinur íslenskrar náttúru sé sá skotgrafarhernaður sem öfgamenn vilja halda umræðunni í. Við umhverfisverndarsinnar getum vitaskuld ekki snúið við hjóli sögunnar. Þau leyfi sem veitt hafa verið hljóta að standa en gefa engin forréttindi. Staða mála við Þjórsá er gott dæmi um þetta en þar ber að fagna nýju útspili umhverfisráðherra um að ekki skuli liðið að Landsvirkjun fari með eignarnámi á hendur bændum við Þjórsá. Jónína Bjartmarz sýnir þar meiri kjark en við höfum til þessa séð í samskiptum ríkis og Landsvirkjunar. Með þessu er líklegt að bæði Búða og Urriðafossi verði þyrmt.

Hvorutveggja vekur mér þá von að öfgarnir í umræðunni séu á útleið. Getur þetta öfgalið ekki farið að tala um stéttabyltingu aftur eða bara barist á móti litasjónvarpinu!

(Birt í Blaðinu í Reykjavík 24. feb. 2007)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Já Bjarni við erum oft einkennilega sammála um margt/Þo að þu sert Framsoknarmaður ágætur en eg af gömlum Krötum en nuna XD maður ,af þvi eg fann mig ekki sem Krata lengur /Hefi mikið verið i sveitinni ungur og þar hafði eg það gott og er i mer mikil, sveitamaður!!!!Mer fynst samt þessi flokkur þinn ekki vera i uprunanum synum Samivinnuflokkur!!!Kveðja Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 25.2.2007 kl. 09:34

2 identicon

Eru fossarnir ekki bara vatn að detta ?  Er það eitthvað merkilegt ? Má ekki alveg eins vernda lygnurnar ?  Eru þær eitthvað ómerkilegri ? Eru þær eitthvað minni náttúra ?  Það koma síður túristar að skoða þær, en túristum fylgir mikil mengun, sem gott er að vera laus við.  Mesti álnotandi er flugvélaiðnaðurinn og meðalstór farþegaþota mun nota 10 tonn af eldsneyti á klukkutíma. Það er ljóst að aukin túrismi kallar á meiri álframleiðslu og helst ódýrt rafmagn til þeirra svo hægt sé að gera flugvélarnar ódýrar og hafa fargjöldin lág.

Já, hvaða náttúra er merkileg og hver ekki ?

 

p.s. slóðin á bloggsíðu mína er http://blog.central.is/gummiste

Guðmundur Stefánsson (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 16:35

3 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Vel skrifað. Réttilega fær Jónína hrós, hún er að standa sig vel.

Ragnar Bjarnason, 26.2.2007 kl. 09:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband