Kafkasaga af Selfossi

Í dag var ég persóna í sögu eftir Kafka. (Það var hann sem skrifaði hryllingssögur fyrir fullorðna þar sem fórnarlömbin voru læst í rugli stjórnsýslunnar.)

Ég rölti upp á sýsluskrifstofu með bunka af pappírum í innanverða jakkavasanum, hægra megin. Þar voru skjöl sem ég hafði með nokkurra tíma stauti við aðskiljanleg yfirvöld þvælt blýantsfólki til að láta af hendi. Sum við fé, við önnur dugði mér auðmýkt og sú lipurð sem við Tungnamenn erum annálaðir fyrir.

Ég hafði hér eitt skjal frá sjálfu manntalinu fyrir sunnan sem sannaði að ég væri til, annað sem sannaði að ég byggi í húsinu mínu og það þriðja sem sannaði að húsið þar sem ég segist reka kaffihús er til og enn viðurkennt sem hús af bæjaryfirvöldum. Sem er vel í lagt því þetta er nú gamalt.

Loks voru svo í þessu sérstakir pappírar sem sýndu að virðisaukanúmerið mitt væri raunverulega mitt virðisaukanúmer en ekki bara gamalt símanúmer hjá úreltri hjásvæfu tekið úr velktu gulu símabókinni hjá frænda mínum. Og svo pappírar sem sýna að ég hef alltaf átt góð og farsæl samskipti við lífeyrissjóði enda aðeins kjánar sem skapa sér fjandskap bófa.

Þegar ég kom á sýsluskrifstofuna keypti ég af mínum borðalagða sýsselmand sakavottorð til þess að gefa sama sýslumanni. Og annað vottorð til sem ég líka gaf sýslumanninum. (Svosem enginn til að kvarta yfir þessu, ég hef séð fólk kaupa bók í búðinni hjá mér og svo seinna tekið við sömu skræðu sem gjöf til mín.)

Þegar öllum þessum kaupskap var lokið var komið að því að afhenda sýslumannsfulltrúunum allt pappírsklandrið og það var ánægjulegt. Bæði af því að þá vissi ég að nú fengi ég senn að fara út úr þessari sögu og svo eru stúlkurnar þarna á neðri hæðinni hjá sýsla bæði geðugar og fallegar. Kappsvo mikið eins og húsið sem er eitt það fegursta á Selfossi.

Allt snerist þetta um pappír sem heitir umsókn um starfsleyfi I í flokki B eða eitthvað. Samskonar og ég fékk fyrir fjórum árum og í hvert sinn færi ég sýslumanni opinbera staðfestingu á því að ég sé til, húsið sem ég sýsla í sé til og að allt hitt sem stendur skýrum stöfum á tölvuskjám sýslumanns sé með einhverjum hætti rétt og satt. Séu áhöld um að þessar sannanir fylgi með er allt ógilt og leikamaður er sendur á byrjunarreit eða í fangelsi. Þannig er kaffihús sem er rekið í húsi sem ekki tekst að sanna að sé til, slíkt kaffihús er umsvifalaust innsiglað.

Það er vitaskuld mikilvægt og sálræn bót fyrir illa launaða opinbera embættismenn að fá staðfestingu á því utan úr bæ að þeirra heimur sé til. En fyrir mér er það hálfvegis fyrirkvíðanlegt að þurfa að leggja í sömu Pílatusargönguna eftir fjögur ár. Og hvað veit ég nema að þá hafi einföldunarnefndir hins opinbera og EES stjórnir bætt því við ég skuli nú einnig sanna að sýslumaðurinn sé til, en slíkt gæti hæglega riðið mér að fullu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Óskalag til sýsla. Með strákunum sem kenndu Rollingunum að semja lög:

http://www.youtube.com/watch?v=hfWEPu0w-7w

Þjóstólfur (IP-tala skráð) 1.10.2013 kl. 20:56

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

"Og svo pappírar sem sýna að ég hef alltaf átt farsæl og góð samskipti við lífeyrissjóði enda aðeins kjánar sem skapa sér fjandskap bófa".

Ekki sem verst!

Árni Gunnarsson, 2.10.2013 kl. 10:28

3 identicon

Takk fyrir nafni, að koma einhverju svo leiðinlegu sem þessu pappírsþjarki, til að kitla hláturtaugarnar.

Ég er annars hreint ekki viss um að sýslumaðurinn sé til, held að hann sé jafnvel einhverskonar sýndarpersóna.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 2.10.2013 kl. 12:24

4 Smámynd: Gestur Janus Ragnarsson

Flott. Gaman að lesa um kunnugleg, furðu fyrirbæri. Þörf væri að mynda hreifingu, er kæmi því til leiðar að sumir í stöðu sýslumanna og bæjarstjórna,langskólagengnir og valdsmannslegir, kæmust til endurmenntunar. Lærðu þar um jafnræði og virðingu, til handa almenningi

Kv.

Gestur Janus Ragnarsson, 2.10.2013 kl. 15:21

5 identicon

Gleðileg jól Bjarni minn. Njóttu jólanna vinur.

Valgeir Matthías Pálsson (IP-tala skráð) 25.12.2013 kl. 18:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband