Er Framtíðarlandið bananalýðveldi

Framtíðarlandið er með undarlegustu fyrirbrigðum í íslenskum stjórnmálum og ganga um margt lengra en Vinstri grænir í því að eyðileggja málstað okkar umhverfissinna í þessu landi. Bæði eru öfgarnir slíkar og þá ekki síður vinnubrögðin. Sorglegt að sjá fólk eins og frú Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta setja nafn sitt hér við.IMG_2255

Sáttmálinn sem samtök þessi leggja fram er í þremur liðum og alls ekki slæmur.

1. Við höfum kjark til að byggja upp fjölbreytt og lifandi samfélag á Íslandi þar sem hugvit og sköpunargleði einstaklinga fær að njóta sín þeim sjálfum og öðrum til heilla.

2. Við sýnum komandi kynslóðum virðingu með því að láta lögfesta áætlanir um náttúruvernd áður en nokkuð frekar er aðhafst í orkuvinnslu.

3. Við öxlum ábyrgð á tímum viðsjárverðra loftslagsbreytinga í heiminum með því að fylgja alþjóðlegum skuldbindingum um losun gróðurhúsalofttegunda.

Þetta er að vísu frekar meiningarlaust og veikt. Ég hefði viljað sjá menn skrifa undir að þeir legðu sig fram í daglegu lífi á þann veg að vera umhverfisvænni. Eyddu minna bensíni, flokkuðu sorp og svo framvegis. Í fúlustu alvöru eru það þeir litlu hlutir sem telja í umhverfisvernd en ekki gapuxahátturinn.

En ballið byrjar fyrst hjá Framtíðarlandinu með langri og leiðinlegri greinargerð með þessum tillögum. Þar kemur hið hippokratíska faríseaeðli Andra Snæs og félaga grímulaust fram. Það hefur raunar fylgt hrokafullum trúarleiðtogum allra tíma að telja vafasama og einhliða túlkun hins heilaga orðs vera sitt aðal hlutverk. Hér er fákænn almúgi látinn skrifa undir játningu sem er eins og fyrr segir frekar meiningarlaus en farísearnir sjá svo um að túlka.

Í þeirri túlkun felst til dæmis að pólitískar ákvarðanir í landinu eiga að vera afturvirkar. Slíkt er reyndar ekkert einsdæmi í pólitískum ákvörðunum og gekk raunar svo langt í sæluríkjum sósíalismans að þar var sögunni ítrekað breytt. Í sæmilega vönduðum lýðræðisríkjum er hverskyns afturvirkni ákvarðana talin út úr öllu korti.

Það er þessvegna sem ég tel mig alveg geta skrifað undir sáttmálann og það þó róttækari væri til framtíðar litið. En ég get ekki fallist á þá afturvirku skilgreiningu í greinargerðinni að við getum talið okkur fært að banna eða stöðva einhliða framgang virkjana eða uppbyggingar sem þegar er komin af stað og réttmætar væntingar eru til meðal þeirra sem eiga að njóta.

Mér er í þessu frekast umhugað um að Þingeyingar fái óáreittir að byggja sitt álver á Húsavík. Það er ekki eðlilegt að slá þær væntingar niður með ákvörðunum sem eiga að ógilda fyrri samninga og það sem þegar er komið í gang. Þessi uppbygging getur skipt sköpum um afkomu byggðar á Norðausturhorninu þar sem byggð er í þröngri varnarstöðu.

Það er auðvitað heldur ekki hægt að stöðva með stjórnvaldsaðgerðum Straumsvík eða Urriðafoss en þar getum við vonast til að þeir sem leyfið hafi sjái að sér og haldi að sér höndum. Við sem teljum okkur umhverfissinna erum öll sammála um að það ástæða til að staldra við. Meira að segja hörðustu orkusölumenn eru farnir að sjá að það borgar sig að fara hægt. Langasjó eiga menn að láta óáreittan um ókomin ár og það er fráleitt að ráðast inn á fleiri af okkar dýrmætu hverasvæðum hér á suðvesturhorninu.

En það sem hefur verið leyft og það sem hefur verið ákveðið það verður að standa. Annars er þetta Framtíðarland okkar bara eitthvert bananalýðveldi! Viljum við það?

(Ps. Svona verður það. Myndinni hér að ofan er ætlað að varpa ljósi á kjör og vitsmunalíf bænda í íslensku bananalýðveldi... Ljósmyndari er Egill Bjarnason og er myndin tekin austur á Síðu. Fyrirsæta er dæmigerður íslenskur framsóknarmaður.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

sæll takk fyrir þetta

ég á svona hatt og deili með þér býsna mörgum af þínum þönkum

Haltu áfram á þessari braut.

Bragi

Bragi (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 09:59

2 Smámynd: Baldvin Jónsson

Sæll og takk fyrir þínar hugleiðingar. Fannst rétt að árétta þó hérna að sáttmálinn fjallar ekki um að ekki eigi að verða af Álveri á Húsavík.  Sáttmálinn fjallar um að bíða með það og aðrar stóriðjuframkvæmdir þangað til að búa er að skapa alhliða þroskað plan um framtíð og nýtingu náttúrunnar okkar.

Það hlýtur að vera kominn tími á að staldra við og skoða málin í heild áður en við höldum áfram að dúndra inn hér og þar í sveitarfélög innspítingum í formi Álvera eða annarra stórdramatískra framkvæmda, sem bera meira með sér lykt af samviksubiti yfir kvótasnauð og afturför í þeim plássum heldur en þroskuðum ákvörðunum byggðum á rökum.

Fáum hlutlausa fagaðila til að meta og ráðleggja okkur áður en við leyfum pólitíkusum (hvort sem er til hægri eða vinstri) að skipuleggja landið okkar frekar út frá eigin hugmyndum.

Baldvin Jónsson, 22.3.2007 kl. 11:00

3 identicon

Já, að selja Norðurljósin er einmitt málið, Bjarni minn, enda hafa þau verið margseld hér undanfarin ár. Hingað kemur fólk hvaðanæva að úr veröld víðri til að berja þessar furður augum og eru Japanir sérlega hrifnir af þessu fyrirbæri. Stefna Sjalla og Framsóknar er hins vegar að gera hér út á mellur:

Það er í anda Björns bónda, dóms og fjallkirkju, að lögleiða hér vændi. Þessi lögleysa finnst honum sniðug. Og skattleggur svo herlegheitin. Það er víða matarholan hjá Sjöllum og Framsókn, enda þótt þeir séu nú voða mikið á móti því að ríkið sé með nefið ofan í hvers manns koppi. En blautur er nebbinn á Bíbí og er kominn hefðarréttur á þá bleytu alla. Ekki datt honum í hug að gera það bara ólöglegt og refsivert að kaupa hér vændi, sem einfaldast og affarasælast var í málinu. Sænskar leiðir eru svo rosalega sossalegar eitthvað, óálandi og óferjandi öllum bjargráðum. Hér falbjóða erlendar dráttarvélar þjónustu sína nánast daglega á einkamálavefjum og kostar drátturinn 25 þúsund kall. Björn bóndi skattheimtumaður mætir síðan í dyrunum og innheimtir vaskinn, sem færi nú aldrei í vaskinn, og tekjuskattinn: "Ðö VAT is 6125 krónur, þenk jú verí möts for ðis prógramm, end dónt forgett tú pei ðí inkom tax, gúdbæ!"

Í athugasemdum með frumvarpinu um þetta idiótí segir meðal annars:

"Í öðru lagi er það sjónarmið, sem vegur mun þyngra, að þeir sem hafi viðurværi sitt af sölu kynlífs séu í flestum tilvikum illa settir andlega, líkamlega og félagslega. Þeir séu yfirleitt þolendur sjálfir, t.d. vegna fátæktar, fíkniefnaneyslu eða kynferðislegrar misnotkunar (samkvæmt upplýsingum Stígamóta hafa 65–85% kvenna sem stunda vændi orðið fyrir einhvers konar kynferðislegu ofbeldi)."

Vatnsútflutningur héðan mun aukast gríðarlega á næstu árum, því meira en milljarð manna skortir vatn. Þessu hefur Framsókn ekki tekið eftir, því hún er öll í aqua vitae, lífsins vatni. Fjallagrös hafa verið tínd hér um aldir, enda þótt það hafi alveg farið framhjá Framsókn og Grasa-Gudda hafi ekki viljað ganga í flokkinn. Fjallalömbin, villibráðin okkar, lifa hér á rándýru timíani (blóðbergi) og eru verðlögð eftir því. Ætli báðir Framsóknarmennirnir geri ekki í brækurnar af hlátri yfir þessari firru og furðum öllum.

Klámskjóður nokkrar fengu ekki inni á hóteli hér á dögunum og þá fór landið á hliðina vegna þess að svo margir misstu spón úr aski sínum um land allt en nú eru störf í ferðaþjónustu allt í einu orðin einskis virði vegna þess að einhverjir í Hjálpræðishernum í Hafnarfirði heimta stærra álver! Er þetta trúverðugur málflutningur? Á nú að fara að flytja inn enn fleiri útlendinga, fleiri þúsund, ef ekki tugi þúsunda, til að vinna í ferðaþjónustunni, eins og gert var í fiskvinnslunni, og stækka og reisa ný álver fyrir Íslendingana?! Störf við stóriðju höfða mun meira til karla en kvenna og hér er ekkert atvinnuleysi. Er nú ekki löngu kominn tími til að leggja áherslu á konur í þessu landi? Hins vegar vinna bæði karlar og konur í ferðaþjónustunni, að sjálfsögðu. Ferðaþjónusta fer stórum vaxandi hér, árlegur vöxtur hennar er gríðarlegur og störfum í þessari þjónustu fjölgar um mörg þúsund á ári. Stóriðja og ferðaþjónusta fara ekki saman, því byggja þarf stórvirkjanir og stór raflínumöstur út um allar koppagrundir til að koma nauðsynlegri raforku til stóriðjuveranna, sem valda þar að auki mengun. Erlendir ferðamenn koma ekki hingað til að sjá slíka hluti. Það er nóg af þeim í þeirra heimalöndum. Þeir koma hingað til að njóta óspilltrar náttúru sem lítið er af í þeirra heimabyggð. Raflínur út og suður spilla öllum sjónlínum til fjalla og jökla og hvorki íslenskir né erlendir ferðamenn vilja sjá slíka hluti.


Gríðarlega mörg fyrirtæki njóta góðs af fjölgun ferðamanna hér með beinum hætti, til dæmis Flugfélag Íslands en hjá þeim var 8% fjölgun farþega í fyrra, einnig Icelandair, IcelandExpress, hótel, veitingastaðir og bílaleigur. Störf í ferðaþjónustu eru ágætlega launuð hér og með auknum fjölda ferðamanna hingað til lands yrði hægt að greiða enn hærri laun í ferðaþjónustunni, alveg eins og hægt yrði að greiða hærri laun í álverum ef eftirspurn eftir áli eykst. Hins vegar er alls óvíst hvernig hún verður í framtíðinni, því fyrr eða síðar verður farið að nota önnur efni í stað áls, ódýrari eða umhverfisvænni í framleiðslu. Auk þess verður að öllum líkindum skrifað undir nýtt alheimssamkomulag um losun gróðurhúsalofttegunda á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Danmörku árið 2009, eftir einungis tvö ár, og Kyoto-bókunin rennur út árið 2012. En að sjálfsögðu munum við halda áfram að nota hér rafmagn í einhverjum mæli, til dæmis tiltölulega ódýrt næturrafmagn til að hlaða rafbíla á nóttunum, en nú þegar hefur verið framleiddur rafbíll sem kemst upp í hundrað kílómetra hraða á nokkrum sekúndum. Þá mun Krossanesverksmiðjan og fleiri verksmiðjur framleiða umhverfisvænt eldsneyti fyrir fiskiskipaflotann okkar. Mengun af umferð og fiskiskipum verður því mun minni í framtíðinni en nú er, enda þótt umferðin komi til með að aukast.


Við þurfum ekki á frekari stóriðju að halda hérlendis. Hér búa einungis 304 þúsund manns og ef íbúunum fjölgar um 1% á ári, eins og árið 2004, verðum við orðin 320 þúsund eftir fimm ár. Á Húsavik er ekkert atvinnuleysi og þar vinna margir útlendingar vegna þess að innfæddir Húsvíkingar hafa flutt í burtu og búa nú til dæmis í Reykjavík, þar sem þeir hafa keypt húsnæði og öll þjónusta er mun betri en á Húsavík. Það er mjög hæpið að þeir færu að taka sig upp með allt sitt hafurtask, selja húsnæðið, segja upp vel launaðri vinnu og flytja aftur til Húsavíkur til að vinna í álveri, bæði hjónin. Það þarf mörg hundruð manns til að halda álveri gangandi. Ekki dytti Dalvíkingum í hug í einhverri alvöru að reisa hjá sér álver eða svipuð kompaní. Þeir hafa þar til dæmis Sæplast og fullkomið frystihús, sem greiðir góð laun, er með góðan aðbúnað og með marga Íslendinga í vinnu. Á Húsavík hafa menn til dæmis tekjur af hvalaskoðun og enginn veit hversu miklu meiri tekjur okkar af ferðamönnum yrðu ef við veiddum enga hvali, því þessar veiðar okkar eru mjög óvinsælar um allan heim. Hvers vegna þá að taka þessa áhættu með veiðunum þegar ávinningurinn er enginn og menn hlæja að þessari heimsku, sem jafnvel sjálfur fríherrann Munchhausen hefði verið stoltur af?! Hversu mikil eru ruðningsáhrif heimskunnar?


Hingað munu koma erlendir ferðamenn, hvort sem við viljum það eða ekki. Við getum ekki bannað þeim það. Við höfum gert alþjóðlega samninga um heimsviðskipti og slíkt gengi ekki. Þá myndu aðrar þjóðir geta bannað okkur að ferðast til sín og hætta að kaupa af okkur fisk. Við gætum hins vegar sett einhvers konar aðgangskvóta á erlenda ferðamenn hér til að vernda náttúruauðlindir okkar, svipað og við höfum sett kvóta á aðgang að sjávarauðlindum okkar. Ferðamenn yrðu þannig að greiða tiltölulega hátt gjald til að sjá til dæmis Gullfoss og Geysi. Sumir væru tilbúnir að greiða slíkt gjald en aðrir ekki. Einnig gætu til dæmis rútubílstjórar innheimt sérstakt gjald af sínum farþegum fyrir að keyra þá að Dettifossi. Ef einhverjum finnst slíkt fáránleg hugmynd má benda þeim á að ef 1% Kínverja kæmi hingað til Bing Dao, Snjóeyjunnar sem þeir kalla svo, yrðu það 13 milljónir manna á ári. Ef eitt prómill þeirra kæmi hingað árlega væru það 1,3 milljónir manna og velmegun vex nú gríðarlega ört í Kína og mörgum öðrum löndum í heiminum. Og ferðamennska vex einnig geysilega ört á hverju ári um veröld alla, þrátt fyrir hörmungar og stríð í ákveðnum heimshlutum. Út vil ek.


Erlendir ferðamenn eru farnir að koma hingað í stórum stíl allt árið. Þeir fá sín frí allan ársins hring, þegar vetur er hér, er sumar á suðurhveli jarðar og víða í Asíu er regntími en ekki vetur. Ferðamennirnir vilja til dæmis sjá norðurljósin hér á vetrin, þannig að þau eru nú þegar margseld, sjá snjó, fara á skíði og snjóbretti, keyra upp á jökla og skemmta sér í Reykjavík. Og á sumrin vilja þeir sjá hér til dæmis hvali, miðnætursólina, ganga á fjöll, sigla á flúðum, spila golf, njóta næturkyrrðarinnar og fuglasöngsins, óspilltrar náttúru. Raforkuver, stóriðjur og raflínur út um allar þorpagrundir er ekki óspillt náttúra. Haldi einhver slíkt er það misskilningur. Fyrir nokkrum áratugum voru grafnir djúpir skurðir um landið þvert og endilangt en nú er verið að fylla upp í þá aftur. Slíkt er að sjálfsögðu einnig hægt að gera í Hafnarfirði, ef mönnum sýnist svo, en norður í Svarfaðardal voru slíkir menn kallaðir Bakkabræður og fór mörgum sögum af þeim.


Erlendir ferðamenn hér voru um 400 þúsund talsins í fyrra og gjaldeyristekjur af þeim voru þá samkvæmt Seðlabanka Íslands um 47 milljarðar króna, um 155 þúsund krónur á hvern einasta Íslending, þar sem við erum nú 304 þúsund talsins, eða sjö milljörðum, 18%, meira en árið áður. Ferðamenn eyða hér um 100 þúsund krónum hver og einn að meðaltali, samkvæmt Ferðamálastofu, og um 20% fleiri ferðamenn komu til landsins fyrstu tvo mánuði ársins en á sama tíma í fyrra. Haldi ferðamönnum áfram að fjölga hér með sama hraða verða þeir orðnir ein milljón talsins eftir fimm ár, árið 2012. Þá yrðu tekjur af þeim orðnar um 100 milljarðar króna á ári, um 300 þúsund krónur á hvern Íslending, helmingi meiri en nú, fjölgi okkur Íslendingum um 1% á ári, eins og árið 2004, en þá verðum við orðnir um 320 þúsund eftir fimm ár. Afleidd störf í ferðaþjónustu eru að sjálfsögðu fjölmörg. Margir vinna til dæmis við leiðsögu, leigubíla- og rútuakstur, sölu á veitingahúsum, börum, skemmtistöðum, í bókabúðum og ullarverslunum. Samkvæmt launakönnun VR í fyrra voru til dæmis meðallaun í gestamóttöku um 200 þúsund krónur á mánuði, starfsfólks hótela, veitingahúsa og ferðaskrifstofa um 260 þúsund krónur, í samgöngum á sjó og landi og í flutningaþjónustu 280 þúsund krónur og í flugsamgöngum um 300 þúsund krónur á mánuði.

Steini Briem (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 12:12

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég held nú að Steini verði að setja upp eigin blog síðu þetta er full langt komment að mínu mati og plís kallaðu EKKI konur dráttarvélar, alvega sama af hvaða þjóðerni sem þær eru það er LJÓTT

Ásdís Sigurðardóttir, 22.3.2007 kl. 13:24

5 identicon

Fagra Ísland, Framtíðarlandið og hvað þau öll heita  þessi nýju samtök sýnast léttvæg. Fyrr gengi ég í MFÍK.

Gústaf Níelsson (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 14:19

6 identicon

Litið verður til danskra laga þegar kemur að því að heimta skatt af vændi. Með lagabreytingum sem gerðar voru á þingi um helgina varð löglegt að stunda vændi. Því er nauðsynlegt að greiða skatt af slíkri starfsemi. Steinþór Haraldsson, yfirlögfræðingur hjá Ríkisskattstjóra, segir að í Danmörku sé virðisauki af tekjum fólks í vændi um 24 prósent og líklegt að sama stefna verði tekin hér þó enn liggi það ekki ljóst fyrir.

Steinþór bendir á að margt í þessu máli geti verið flókið og bendir á nýlegan danskan dóm þar sem vændiskona fékk hluta af kostnaði við brjóstastækkun endurgreiddan þar sem sýnt þótti að það félli undir rekstrarkostnað.

Steini Briem (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 14:30

7 Smámynd: Eysteinn Ingólfsson

Ég er ekki sammála að þetta séu mikklir öfgar hjá þessum samtökum og mér sýnist líka Bjarni vera efins, fyrst segir hann:

"Bæði eru öfgarnir slíkir og þá ekki síður vinnubrögðin. Sorglegt að sjá fólk eins og frú Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta setja nafn sitt hér við."

En síðan þetta um sáttmálann:

"Þetta er að vísu frekar meiningarlaust og veikt"

Eitthvað bogið við þetta. 

Eysteinn Ingólfsson, 22.3.2007 kl. 15:28

8 Smámynd: Leifur Þorsteinsson

Heitir hinn óskráði ekki Steini Breim

Leifur Þorsteinsson, 22.3.2007 kl. 15:40

9 Smámynd: Bjarni Harðarson

það er ekkert bogið við það að stefnuyfirlýsingin sjálf er veik, meiningarlaus og ófullkomin en túlkunin á henni í meðfylgjandi greinargerð öfgafull og á köflum vitlaus...

Bjarni Harðarson, 22.3.2007 kl. 15:51

10 identicon

Öfgar er kvenkynsorð í fleirtölu og því er rétt að tala um miklar öfgar. Rétt málfræði er mikilvæg.

Ingunn Snædal (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 17:00

11 Smámynd: Björn Emil Traustason

Ég er innilega sammála þér Bjarni, fólk er orðið veruleikafyrt á þessu græna tali og öfgum sem því fylgja.þessi framganga hjálpar ekki Íslendingum ekki einu sinni 101.

Björn Emil Traustason, 22.3.2007 kl. 17:58

12 identicon

A þýðir atlotin þín,
B að í bölvun skín,
D fölsk ert og fáráð,
F-ið smá og forsmáð,
I-ið bara iss og piss,
S-ið þó ekkert diss,
VG-ið fögur fyrirheit,
heit ertu, ung og feit,
S-ið og VG-ið vildi fá,
ef velja þrjá stafi má.

Steini Briem (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 19:24

13 identicon

Andri Snær er strax kominn með forsetasvipinn (reyndar er hann andskoti líkur Jóni forseta) og græningjarnir Ómar og félagar horfa til hans með lotningu (eða er hann líkur Hitler?). Ég verð að viðurkenna að ég fæ hroll og er skíthræddur við svona sjarmöra með hrokafullan einræðissvip. En það er gaman að vera tilbeðinn af lýðnum ...

Ríkarður (Dufi) (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 10:04

14 Smámynd: Agnes Ásta

Flottur pistill Bjarni og flott er myndinn

Agnes Ásta, 23.3.2007 kl. 10:16

15 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég spái því að þetta undirskriftaplagg verði notað í óheiðarlegum tilgangi. Þ.e. að alverndunarsinnar veifi því málstað sínum til stuðnings. Og pólitískir vindhanar eins og Samfó og steinrunnu tröllin í VG túlki þetta sem stuðning við flokka sína. Ekki ætla ég að skrifa undir þetta.

 Og það er dapurlegt hvernig Vigdís Finnbogadóttir lætur nota sig í dægurþrasinu. Úr því við þurfum endilega að hafa þetta embætti, sem mikill meirihluti þjóðarinnar telur að eigi ekki að vera pólitískt, þá finnst mér að skyldur fyrv. forseta eigi að vera í samræmi við réttindi þeirra. Ef Vigdís er tilbúin til þess að afsala sér réttindum sínum sem fyrv. forseti Íslands, þá er henni frjálst að haga sér eins og hún vill, en á meðan hún þyggur  réttindin þá ber henni að sýna þeim hluta þjóðarinnar sem er ósammála henni þá virðingu að láta ekki nota "lógóið" sitt í pólitísku argaþrasi.

P.s. Þú þarft eitthvað að létta á síðunni þinni Bjarni, varla komandi orðið á hana því hún er svo þung. Gæti verið að fjöldi mynda af bloggvinum þínum sé að þyngja hana.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.3.2007 kl. 11:14

16 identicon

Hmm. Kampholts-Móri að terrorísera á Síðu

Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 12:35

17 identicon

Gamall íslenskukennari skrifar:

Bjarni minn. Öfgar eru kvenkyns. Sjá upphaf greinar um Framtíðarlandið

Sigurborg Hilmarsdóttir (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 14:53

18 Smámynd: Bjarni Harðarson

takk fyrir þetta sigurborg

Bjarni Harðarson, 23.3.2007 kl. 18:10

19 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Heill og sæll Bjarni

Vil skjóta inn athugasemd fyrst að þetta er nú að verða Laugvetnskur (er þetta ekki rétt skrifað:) spjallvefur. Þú ert ferskur og skemmtilegur í baráttunni. Finnst þó að þú farir stundum yfir strikið í dómhörku. Framsóknarflokkurinn er auðvitað að þreifa sig áfram í því hvernig hann geti náð í atkvæði. Finnst þó hart að sjá gamlan Maóista (eða Trotskýista) frá Laugarvatni, leita í smiðju til McCarthy og sjá vofur kommúnisma í hverju horni. Þar að auki líkt og hinn bandaríski kommaveiðari þá tvinnar þú umræðuna þeirri afstöðu að áhersla á vísindi, réttlæti og upplýsta umræðu sé afskaplega varhugaverð. Við gætum sameinast um að stofna grýlusafn en ekki draugasafn, sem fjallaði um þennan málaflokk. Þar væru ýmis skjöl og munir sem tengdust kommagrýlunni. Til dæmis hvernig var komið í veg fyrir sölu á verkum Laxness í US. Fannst ég verða að stoppa þig af áður en þú lýsir yfir formlegri inngöngu í herdeild Björns Bjarnasonar.

                Gangi þér vel

Gunnlaugur B Ólafsson, 24.3.2007 kl. 14:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband