Heimskan í góðærinu

Fyrir fám árum lofaði Framsóknarflokkurinn þjóðinni 12 þúsund nýjum störfum ef hann kæmist til valda og þótti bratt. Margir hlóu að kokhreysti þessa gamla sveitaflokks en einhverjir hrifust með og flokkurinn vann varnarsigur í hinum pólitíska slag.emu

Og án þess að eftir væri tekið komu 12 þúsund ný störf og miklu fleiri. Þenslan, góðærið og hagvöxturinn hefur verið langt fram úr öllum vonum í stjórnartíð Framsóknar og Sjálfstæðisflokks síðastliðin 12 ár. Og hvað með það, segir þjóðin.

Doðinn gagnast íhaldinu...

Það þarf nefnilega sterk bein til að þola góða daga og óumflýjanlegur fylgifiskur hóglífisins er heimskan. Og samt ekki venjuleg heimska þess sem heimalinn er heldur meðvitundarleysi og firring þess sem alla daga hefur fullar hendur fjár. Engum þykir þá til um þau gæði sem fengin eru hvort sem það er nægilegt atvinnuframboð eða aukinn kaupmáttur. Afleiðingin er pólitískur doði.

Það eru nokkur misseri síðan ég heyrði á tal nokkurra ungmenna um pólitík. Flest í þeim hópi voru undrandi á jafnöldrum sem væru úr hófi pólitísk. Sjálf töldu þau sig ekki vera það og þegar ég truflaði samræðurnar og spurði hvað þau kysu þá í sínu hlutleysi kom svarið blátt áfram. Sjálfstæðisflokkinn. Það er furðu ríkjandi og nær raunar langt út fyrir okkar íslenska veruleika að það að kjósa stærsta flokkinn jafnist á við hlutleysi. Með því að styðja hinn ráðandi stóra flokk er bátnum ekki ruggað. Með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn leggur hinn hlutlausi, óvirki og hugsunarlausi kjósandi blessan sína yfir ríkjandi ástand og gefst valdinu í hlýðni.

Það þarf því engan að undra að í gegndarlausum hagvexti og góðæri undanfarinna ára fitni íhaldið og jaðri nú við að vera meirihlutaflokkur á öllu Suðvesturhorni landsins þar sem mangið og gullslátturinn er mestur.

...en firringin kommunum

En góðærið kallar líka á firringu og andóf sem stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og heilbrigðri sjálfsbjargarviðleitni. Góðæri hefur alltaf kallað á slíkan æringjahátt. Í firringunni er að finna fylgisaukningu Vinstri grænna sem boða þjóðinni fjallagrasapólitík þar sem aðeins skal eytt og einskis aflað. Aðeins gerðar kröfur á aðra en enginn skyldi gera neinar á sig sjálfan. Samfylkingin fylgir VG fast á eftir með kröfum sínum um ótakmarkaða samneyslu og stopp-áróður gagnvart atvinnuvegunum.

Það er raunar ekkert nýtt við það að skynsemin lúti í lægra haldi á fjáraflatímum. Þenslan elur á vitleysu en í hennar skjóli vill líka margt verða útundan. Framsóknarflokkurinn hefur eftir mætti reynt að halda hlífiskildi yfir byggðum sem standa höllum fæti og yfir þjóðfélagshópum sem staðið hafa höllum fæti þrátt fyrir að samstarfsflokkurinn hafi þar á köflum viljað heyja stríð. Þar þarf að gera betur og mörg verkefni óleyst. Þessum vandamálum verða ekki gerð betri skil í nýrri Viðeyjarskottu Íhalds og Samfylkingar þar sem saman fer blind markaðstrú og ómannlegur blýantskratinn.

Skynsemin er í Framsókn

Sjálfum hefur mér oft þótt minn Framsóknarflokkur dulítið hallærislegur. Hvorki eins töff og frjálshyggjugaurarnir eða vígmóðir kommar. En einmitt þessi jarðbundnu hallærislegheit eru mælikvarðinn á að flokkur þessi er afl skynseminnar,- líkt og í lífsins dansi að það hallærislega iðulega skynsamlegast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Auðunsdóttir

Já Bjarni, margur verður af aurum api

Helga Auðunsdóttir, 22.4.2007 kl. 19:39

2 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Hvur andskotinn, nú hefurðu aftur sett einhvern fjandann útí kaffið Bjarni......Skynsemi hvað....Já það er hallærislegt að svíkja flest kosningaloforðin kosningar eftir kosningar og Framsókn er miklu meira en "dulítið hallærislegur" flokkur fyrir vikið.....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 22.4.2007 kl. 21:06

3 Smámynd: Magnús Jónsson

Góð grein hjá þér hérna Bjarni, en ég er að velta því fyrir mér hvar þú fékkst myndina af mér nívöknuðum eftir áramótafylliríið síðasta ?Kveðja frá íhaldinu í Reykjavík  

Magnús Jónsson, 22.4.2007 kl. 21:56

4 Smámynd: Benedikt Halldórsson

Ég vona að engin ættingi minn lesi þetta. Amma mín heitinn var í veislu fyirr nokkrum áratugum ásamt öðrum ættingjum. Í veislunni var lögrfræðingur nokkur sem ömmu minni leist afar vel á, hún mændi nánast á hann allt kvöldið og dáðist af mælsku hans en sneri sér svo allt í einu að einum syni sínum og sagði nánast í ásökunartón; "Óskar, af hverju ert þú ekki lögfræðingur?". Spurning mín er hinsvegar þessi: "Bjarni, af hverju ertu ekki formaður Framsóknarflokksins".

Benedikt Halldórsson, 22.4.2007 kl. 22:27

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Íhaldsfleytan fiskar vel,

 Framsókn hlýtur straffið.

En Bjarni Harðar ber sig vel

og bætir víni í kaffið.

Árni Gunnarsson, 22.4.2007 kl. 22:34

6 Smámynd: Magnús Vignir Árnason

Snilldar vísa Árni

Magnús Vignir Árnason, 22.4.2007 kl. 22:37

7 Smámynd: Auðun Gíslason

Kjósendur eru fífl!  Er það það sem þú ert að reyna að segja okkur? Það þarf ekki mikla útsjónarsemi til skilja þennan pistil þinn þannig. Kannski þú ættir að sleppa kaffinu!

Auðun Gíslason, 22.4.2007 kl. 22:55

8 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Bjarni minn skynsemina er líka að finna hjá okkur Frjálslyndum.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 23.4.2007 kl. 01:05

9 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég tek undir með Benedikt, af hverju ert þú ekki formaður framsóknar? Þú hefur sjarmann til að "fiska vel"

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 23.4.2007 kl. 05:19

10 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Ég deili þeirri skoðun með þér Bjarni að oft eru hallærislegheitin hinn skynsamlegasti kostur, tek t.d. klárlega kjötbollur fram yfir kavíar standi ég frammi fyrir slíku vali. Málið er bara að framsóknarflokkurinn hefur í mörg ár keppst við að afneita hallærislegheitunum og hangið utan í valdamestu klíkunni. Í stað jarðbundinna manna í lopapeysum eru komnir litgreindir ungliðar á Hummer jeppum. Minnir um margt á amerískar unglingamyndir þar sem einn úr nördahópnum fer í litun og klippingu og fær inngöngu í flottustu klíkuna, afneitar sínum gömlu gildum og gerir meira gagn en ógagn þegar allt er talið. Í Hollywood hamingjusömu endanna fer það þó iðulega svo að nördinn snýr aftur til uppruna síns og allir verða glaðir. Ég sé því miður engin merki um að það verði raunin með framsókn.

Heimir Eyvindarson, 23.4.2007 kl. 08:36

11 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Ég held að vinsældir sjallanna séu svona svipaðar og þegar nýtt lið nær titlinum í enska boltanum, þá er alltaf einhver hóður sem segist halda með þeim, einfaldlega af því að þeir eru bestir, og þegar annað lið nær þeim titli þá er skipt um uppáhald.

Margir kjósa Sálfstæðið af því að það er stærsti flokkurinn og ekki af neinni annari ástæðu, þessvegna vildu vinstri menn, með stofnun samfylkingarinnar sameina alla sem á vinstri vægnum voru, til að eiga möguleika á því óvissu fylgi.

Ég hef reynt að fá marga félaga mína og vini til að segja mé, hversvegna X-D og fátt hefur verið um svör, því miður.  Ég gæti ekki í sjálfu sér fundið að því við neinn ef að hann gæti sagt mér afhverju......

En hvað um það

Ég er allavega Nörd.............

Eiður Ragnarsson, 23.4.2007 kl. 09:26

12 identicon

Framsókn lofaði nú fleiru en 12000 störfum t.d. barnakortinu fræga. Hvað varð um það? Sniðugt að tengja skynsemi og framsókn ég fór strax að hugsa um trabant.

hildur (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 09:56

13 identicon

Framsókn lofaði nú fleiru en 12000 störfum t.d. barnakortinu fræga. Hvað varð um það? Sniðugt að tengja skynsemi og framsókn ég fór strax að hugsa um trabant.

hildur (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 09:57

14 identicon

Fín grein Bjarni, sammála að margt skynsamlegt megi finna í hallærislegheitum Framsóknar.

Það er nánast öruggt að ég kysi Framsókn og væri framsóknarmaður ef ekki væri fyrir landbúnaðarstefnu flokksins, sem Jón Baldvin lýsti svo ágætlega í Silfri Egils og heimfærði réttilega uppá Vinstri Græna.  Það er ekki hægt að binda okkur Íslendina lengur á þessa landbúnaðarpólitík og um leið og Framsókn fattar það þá fær flokkurinn 25% fylgi.

Nú vantar komment til að sannfæra mig um að mér sé óhætt að kjósa Framsókn, þrátt fyrir landbúnaðarmálin.

Baráttukveðjur
Ólafur H. Guðgeirsson

Ólafur H. Guðgeirsson (IP-tala skráð) 23.4.2007 kl. 11:09

15 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Ef Guðni myndi "lofa" að taka ekki þetta ráðuneyti að sér oftar? Myndi það eitthvað duga? Eða bara hætta að horfa á "Silfrið" og Jón B.?

Helga R. Einarsdóttir, 23.4.2007 kl. 13:40

16 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum að lesa þetta hjá þér, bjóst við betra af þér en að þú tækir þátt í áróðrinum um að VG sé alltaf á móti, vilji bara eyða en ekki afla. Þegar skoðaðar eru stefnuskrár flokksins sést að það er hreint ekki rétt. Margar tillögur þar að ýmsu í stað álvera, hvað ýmsir aðrir kjósa að ignorera með látum.

Við viljum bara ekki setja öll eggin í sömu állituðu körfuna. Ekki er ég aðdáandi Microsoft en þúsund sinnum frekar vildi ég fá hingað netþjóna þeirra (eða þá Google, eins og vinur minn sem er í framboði í Reykjavík suður er með á sinni stefnuskrá) heldur en að hrúga niður einu álskrímslinu í viðbót. (eða voru það tvö? þrjú?)

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 23.4.2007 kl. 14:14

17 Smámynd: Bjarni Harðarson

þú ert glögg hildur að fatta að þetta slagorð okkar, skynsemin ræður er arfur sem ég hlaut frá trapantárum mínum en ég átti tvo slíka eðalvagna á mínum ungdómsárum og líkaði vel. varðandi landbúnaðarstefnuna ólafur: undir forystu framsóknarflokksins hafa verið unnin stórvirki í þá veru að lækka tolla, minnka beinan stuðning við greinina og auka hagkvæmni. þetta hefur skilað því að við erum nú komin með verðlag sem er svipað noregi og nálægt danmörku. þetta er ekkert sem hægt er að gera í einu vetfangi og ekki vilji til þess hvorki í okkar góða flokki né með þjóðinni en ég er sannfærður um að með skynsemina að vopni takist að auka hagræðingu í þessari grein enn meira... já og hildigunnur, kæra vinkona, það eru að koma kosningar og auðvitað gagnrýna flokkarnir hvorn annan. og ekki viljum við setja ekki öll egg í sömu álkörfuna...

Bjarni Harðarson, 23.4.2007 kl. 19:15

18 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

eitt er að ljúga upp á flokka og annað að krítísera það sem verið er að gera en maður er ósammála.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 24.4.2007 kl. 12:31

19 Smámynd: Hallur Magnússon

Hildigunnur!

Gott þetta hjá að opna umræðun aum að ljúga upp á flokka. Ég get bæstum fullyrt að það hefur ekki verið logið eins miklu neikvæðu upp á einn stjórnmálaflokk eins og logið hefur verið upp á Framsókn.

Hallur Magnússon, 24.4.2007 kl. 13:11

20 identicon

Sæll Bjarni minn. Mikið hefði framsókn nú verið nær að halda hlífiskildi yfir öðru en íhaldinu síðustu kjörtímabil t.d. almenningi í  Darfur og víðar þó þar sé kannske ekki jafnmikil auðæfi að finna og í Írak. Merkilegt hvað þið hafið látið teyma ykkur langt í viðleitni íhaldsins að útrýma ykkur. Ert þú ekki annars í sama flokki og þeim framsóknarflokki sem hefur verið hækja íhaldsins síðustu árin

Þórbergur Torfason (IP-tala skráð) 24.4.2007 kl. 17:47

21 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Þetta er góð spurning Þórbergur. Bjarni er kannski skráður í framsóknarflokkinn, en í mínum huga tilheyrir hann alls ekki flokknum. Til þess er allt of mikið í hann spunnið

Heimir Eyvindarson, 24.4.2007 kl. 18:25

22 identicon

Ólafur H. Guðgerisson

ég skrifa þetta til þín af því að ég vona að þú kjósir rétt.  Einnig til annara sem skilja ekki landbúnað.

Ég held að fólk sem tali illa um landbúnaðinn einfaldlega skilji hann ekki og mest allur fréttaflutningur um hann er tóm tjara.  Til dæmis var sagt í Silfrinu að það færu 16 milljarðar á ári í landbúnaðinn, sem er alls ekki rétt, það fer miklu minna.  Inní þeirri tölu er líka greiðslur til Hólaskóla og skólans á Hvanneyri, sem eru skólar á háskólastigi og mundi þeim væntanlega verið haldið áfram hvort sem landbúnaður er styrktur eða ekki.  Held líka að greiðslur til Landgræðslunnar og Skógræktarinnar sé líka í þessari tölu.  Landbúnaðarstefnar snýst ekki bara um landbúnað heldur einnig um byggðarstefnu.  Hvar væri svæðið milli Þjórsár og Hafnar í Hornafirði ef ekki væri Landbúnaður? Þar er enginn höfn.  Greiðslur sem fara til niðurgreiðslur á verði til neytenda (beingreiðslur til bænda, mjólk og lambakjöt) skíla sér margfalt til baka til þjóðarinnar í formi skatttekna og stuðlar að byggð um landið. 

Fólk sem er fúlt útaf háu matvælaverði, ég skil það vel.  En það er ekki landbúnaðarstefnunni að kenna.  Heldur fákeppni á markaði.  Haldið þið virkilega að matvælaverð muni lækka ef tollar yrðu afmundir? Ekki eru lyfín ódýr, eða fötin? ekki eru tollkvótar á þeim!  Er ekki miklu betra að halda landinu öllu í byggð og skyrkja landbúnaðinn með sjálfbærum hætti heldur en að leyfa stórkaupmönnum að flytja inn hvað sem er og láta okkur borga hvað sem er.  Hver segir að kaupmaðurinn flytji inn gott og velætanlegt kjöt og mjólkurafurðir, þegar landbúnaður hefur verið þurrkaður út á Íslandi.  Landbúnaður í formi mjólkur og lambakjöts lifir ekki á beingreiðsla.  Íslendingar eru heppnir að hafa hreinar og góðar landbúnaðarafurðir, án sjúkdóma og stera, sem notaðir eru víða og eru sumstaðar leyfilegir.

Björgvin (IP-tala skráð) 25.4.2007 kl. 00:04

23 identicon

Ólafur H. Guðgerisson

ég skrifa þetta til þín af því að ég vona að þú kjósir rétt.  Einnig til annara sem skilja ekki landbúnað.

Ég held að fólk sem tali illa um landbúnaðinn einfaldlega skilji hann ekki og mest allur fréttaflutningur um hann er tóm tjara.  Til dæmis var sagt í Silfrinu að það færu 16 milljarðar á ári í landbúnaðinn, sem er alls ekki rétt, það fer miklu minna.  Inní þeirri tölu er líka greiðslur til Hólaskóla og skólans á Hvanneyri, sem eru skólar á háskólastigi og mundi þeim væntanlega verið haldið áfram hvort sem landbúnaður er styrktur eða ekki.  Held líka að greiðslur til Landgræðslunnar og Skógræktarinnar sé líka í þessari tölu.  Landbúnaðarstefnar snýst ekki bara um landbúnað heldur einnig um byggðarstefnu.  Hvar væri svæðið milli Þjórsár og Hafnar í Hornafirði ef ekki væri Landbúnaður? Þar er enginn höfn.  Greiðslur sem fara til niðurgreiðslur á verði til neytenda (beingreiðslur til bænda, mjólk og lambakjöt) skíla sér margfalt til baka til þjóðarinnar í formi skatttekna og stuðlar að byggð um landið. 

Fólk sem er fúlt útaf háu matvælaverði, ég skil það vel.  En það er ekki landbúnaðarstefnunni að kenna.  Heldur fákeppni á markaði.  Haldið þið virkilega að matvælaverð muni lækka ef tollar yrðu afmundir? Ekki eru lyfín ódýr, eða fötin? ekki eru tollkvótar á þeim!  Er ekki miklu betra að halda landinu öllu í byggð og skyrkja landbúnaðinn með sjálfbærum hætti heldur en að leyfa stórkaupmönnum að flytja inn hvað sem er og láta okkur borga hvað sem er.  Hver segir að kaupmaðurinn flytji inn gott og velætanlegt kjöt og mjólkurafurðir, þegar landbúnaður hefur verið þurrkaður út á Íslandi.  Landbúnaður í formi mjólkur og lambakjöts lifir ekki á beingreiðsla.  Íslendingar eru heppnir að hafa hreinar og góðar landbúnaðarafurðir, án sjúkdóma og stera, sem notaðir eru víða og eru sumstaðar leyfilegir.

Björgvin (IP-tala skráð) 25.4.2007 kl. 00:11

24 identicon

Það má vera að ég skilji ekki landbúnað - er ættaður úr Mýrdalnum af góðu framsóknarheimili og var þar í sveit á hverju sumri þar til ég var orðinn átján ára að mér datt í hug að finna mér aðra sumarvinnu.

Ég skil hins vegar alls ekki þá afstöðu að halda því fram að landbúnaður, kjöt- og mjólkurframleiðsla, geti ekki þryfist án niðurgreiðslna og ríkisstuðnings.  Íslenskir bændur framleiða frábæra vöru sem stenst samanburð og samkeppni við hvaða lífrænt ræktuðu vöru sem er.  Markaður fyrir vörur sem eru framleiddar með þeim hætti sem íslenskir bændur framleiða sínar vörur er einhver mest spennandi og mest vaxandi markaður á vesturlöndum í dag.  Það sem íslenska bændur vantar er frelsi frá ríkisstyrkjum, tollavernd og pólitískum afskiptum svo þeir fari virkilega að beita sér í hagkvæmri framleiðslu og hugmyndaríkri markaðssetningu.  Það er svo sem ofnotuð klisja að benda á hvernig fjármálageirinn blómstrar hérlendis eftir að pólitískum afskiptum lauk, en ég hef þá trú að íslenskur landbúnaður muni taka sambærilegann sprett um leið og ríkið sleppir krumlunni af greininni.

Ég á einnig vont með að skilja af hverju framsóknarmenn leggja ofurkapp á að verja handónýta landbúnaðarstefnu meðan flokkurinn hefur allt til að bera til að ná árangri ef menn einbeita sér að styrk flokksins en hætta að velta sér uppúr göllunum.  Styrkurinn felst til dæmis í afstöðu flokksins til Evrópumála, styrk, reynslu og persónu Jóns Sigurðssonar og frábæru starfi Jónínu Bjartmarz.

Ég hallast helst að því að kjósa flokkinn því ég vil umfram allt tryggja að hún haldi áfram sem umhverisráðherra.  En það dregur vissulega úr að flokksmenn kjósa að berjast harðast fyrir máli sem er tapað í stað þess að berjast fyrir málum sem skila árangri.

Baráttukveðjur
Ólafur H. Guðgeirsson

Ólafur H. Gugeirsson (IP-tala skráð) 26.4.2007 kl. 11:47

25 identicon

Það má vera að ég skilji ekki landbúnað - er ættaður úr Mýrdalnum af góðu framsóknarheimili og var þar í sveit á hverju sumri þar til ég var orðinn átján ára að mér datt í hug að finna mér aðra sumarvinnu.

Ég skil hins vegar alls ekki þá afstöðu að halda því fram að landbúnaður, kjöt- og mjólkurframleiðsla, geti ekki þryfist án niðurgreiðslna og ríkisstuðnings.  Íslenskir bændur framleiða frábæra vöru sem stenst samanburð og samkeppni við hvaða lífrænt ræktuðu vöru sem er.  Markaður fyrir vörur sem eru framleiddar með þeim hætti sem íslenskir bændur framleiða sínar vörur er einhver mest spennandi og mest vaxandi markaður á vesturlöndum í dag.  Það sem íslenska bændur vantar er frelsi frá ríkisstyrkjum, tollavernd og pólitískum afskiptum svo þeir fari virkilega að beita sér í hagkvæmri framleiðslu og hugmyndaríkri markaðssetningu.  Það er svo sem ofnotuð klisja að benda á hvernig fjármálageirinn blómstrar hérlendis eftir að pólitískum afskiptum lauk, en ég hef þá trú að íslenskur landbúnaður muni taka sambærilegann sprett um leið og ríkið sleppir krumlunni af greininni.

Ég á einnig vont með að skilja af hverju framsóknarmenn leggja ofurkapp á að verja handónýta landbúnaðarstefnu meðan flokkurinn hefur allt til að bera til að ná árangri ef menn einbeita sér að styrk flokksins en hætta að velta sér uppúr göllunum.  Styrkurinn felst til dæmis í afstöðu flokksins til Evrópumála, styrk, reynslu og persónu Jóns Sigurðssonar og frábæru starfi Jónínu Bjartmarz.

Ég hallast helst að því að kjósa flokkinn því ég vil umfram allt tryggja að hún haldi áfram sem umhverisráðherra.  En það dregur vissulega úr að flokksmenn kjósa að berjast harðast fyrir máli sem er tapað í stað þess að berjast fyrir málum sem skila árangri.

Baráttukveðjur
Ólafur H. Guðgeirsson

Ólafur H. Gugeirsson (IP-tala skráð) 26.4.2007 kl. 13:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband