Spennandi heimur og afbragðs ástarpungar

Var á Suðurnesjum í dag þar sem við heilsuðum fólki í flugstöðinni og enduðum á að kynna okkur starf Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Ekki bara að þar hafi ég fengið þá bestu ástarpunga með kaffinu sem ég hefi komið tönnum í heldur var starf þessa merka félags áhugavert.

152_THFK-020

Raunar held ég að það sé ekkert eins spennandi og merkilegt í atvinnutækifærum framtíðarinnar. Þessi yfirgefna herstöð á Miðnesheiðinni býður upp á óteljandi möguleika til framsækinnar alþjóðlegrar starfssemi sem getur um leið haft margföldunaráhrif út um allt land. Og erindi Kjartans Þórs Eiríkssonar framkvæmdastjóra Þróunarfélagsins sannfærði mig um að þar á bæ verður unnið að þessum málum af viti og framsýni. Það er mikils virði. Við megum alls ekki líta á fasteignirnar þarna sem stríðsgóss í hermang fyrir einkavinavæðingu...

 

Vinur minn og mikill Framsóknarmaður sagði mér draum sinn núna áðan. Hann var við Þjórsá og barg þar tveimur börnum frá drukknun og við vorum sammála um að þetta er fyrir úrslitum kosninganna. Annað barnið var öruggt á land en hitt bjargaðist naumlega. Gæti verið fyrir því að við Guðni förum báðir inn en líka gæti barnið sem bjargaðist naumlega sé Helga Sigrún og við verðum þá þrjú. Það gengur nefnilega ekki upp að landvættur eins og Guðni birtist sem barn í draumi...

 

En pólitíska lífið er skemmtilegt. Ég fæ til skiptis hrós og skammir og þannig á það að vera. Stærsta feilspor liðinnar viku var þegar ég hélt innblásna pólitíska ræðu á aðalfundi Búnaðarsambands Suðurlands og sagði bændum sem satt er að þeir gætu ekki búist við sama góðærinu í landbúskapnum ef Framsóknarflokkurinn lyti í gras í þessum kosningum. Það var ekki ræðan sem var vond en mér skilst að þetta hafi þótt bratt af stjórnmálamanni á þessum stað þar sem menn í hæsta lagi ávarpa samkomu sem þessa með kurteisisorðum. Mér leiðist svoleiðis. Eftir mér komu í pontu íhaldsmenn og einn fyrrverandi framsóknarmaður taldi okkur fyrrum liðsmenn sína heimska. O, jæja...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband