Að leika hetju...

- Heimskinginn skelfur hálfnakinn og heldur að það sé fínt - hygginn maður klæðir af sér kulda.-

Eftirfarandi er úr gömlu almanaki vinar míns Helga Hannessonar kaupfélagsstjóra og mér varð hugsað til þess arna þegar ég vaknaði með kvef og ræfildóm á fimmtudaginn og hef verið eins síðan. Var nefnilega daginn áður í Þorlákshöfn þar sem Jóhanna Vigdís fréttakona fékk mig til að standa fyrir á mynd á bryggjunni og einhvernveginn hafði það lent í undandrætti að fara í frakkann, sem lá úti í bíl, enda veðrið eiginlega þannig að það var hvorki kalt né heitt en það vita þeir sem lent hafa fyrir framan sjónvarpsvélar að þar er alltaf kalt. Ég lét samt á engu bera og varð eins og fermingarstrákur þegar hin fagra fréttakona fór að dást að því hvað ég væri mikill nagli að þola þennan kulda á jakkanum einum.

En hetjuleikir hafa aldrei farið mér vel...

En kosningabaráttan gengur sinn gang þrátt fyrir nefrennsli og í gær lenti ég á kostulegum fundi í Þingborg þar sem saman voru komnir margir hinna rótttækustu í umhverfismálum hér í héraði. Innan um var líka margt af hófsömu góðu framsóknarfólki en það ber minna á því á svona fundi. Við fulltrúar flokkanna sátum fyrir svörum og þrátt fyrir að umræður væru sæmilega málefnalegar blöskraði mér skelfilega að sjá sveitunga mína marga sýna sínar verstu hliðar. Það var klappað í ákafa fyrir mestu öfgunum og flissað illkvitnislega þegar fjármálaráðherra talaði. Hvað sem pólitík er, þá megum við aldrei gleyma að sýna háttvísi og kurteisi. Auðvitað var það lítill hluti fundarmanna sem hagaði sér svona en til skammar samt.

Dagurinn endaði svo frábærlega með friðarbáli okkar Framsóknarmanna á Stokkseyri þar sem um 200 manns mættu og endaði á Draugabarnum þar sem Guðni Ágústsson fór á kostum í sögum frá Brúnastöðum og Bessastöðum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég get rétt ýmindað mér stemmninguna þar sem þeir róttækustu koma saman og ræða þau mál er eru efst á ræðulista hvers og eins, kannski miður skemmtilegt þegar þessir ágætu menn eru dregnir upp á púlt og látnir svara fyrir gjörðir annara í flokknum og eða þeirra skoðanir,,frjálslyndir''

 En ég vill minna á kostningafund í Skóla Ísaks Jónssonar þar sem flokkarnir munu senda mannskap til þess tjá sig um stefnu flokkanna er ber að líta einkaskóla! einkarekna skóla,,, menntamál og þau málefni er eru á fremsta bekk hvers og eins flokks. Salurinn mun spyrja og verður enginn annar en Egill Helgason er dæmir leikinn. Þann 3. maí kl: 20

amphinn (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 11:12

2 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Ráð til að vinna bug á óværunni (kvefinu) er að fara í gufu í hálftíma og svo í heitasta pottin annan hálftíma. Fara svo inn í klefa og í fötin. Alls ekki synda neitt. Endurtaka þetta í þrjá daga. kv.

Helga R. Einarsdóttir, 29.4.2007 kl. 11:39

3 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

 Ég og konan mín sátum þennan fund og  hann var athyglisverður, gagnlegur þó ekkert nýtt hafi kannski komið fram nema að við vissum ekki nógu vel af hættunni af því hve hraunið sé gljupt og geti eytt ræktuðum túnum. Við vissum af öllu hinu eins og kemur fram í greinum okkar hér fyrir neðan.

Það var ekki klappað fyrir öfgum eins og Bjarni heldur fram. Það var klappað til stuðnings tilfinningum þeirra sem finnst vera verið að misþyrma Þjórsá. Þegar tæplega níræðir bændur sjá ástæðu til að koma á svona fund og tala um hvað við séum að gera barna-barna-barnabörnum okkar er allt í lagi að leggja við hlustir. Eða finnst Bjarna það til of mikils mælst?. Eitt af því sem hann notaði sem varnartrikk fyrir sig og sitt spillingarbæli var að það væri líklega of seint að hætta við. Af hverju er það of seint?. Það lýsti bóndi sem á land að ánni því yfir að hann myndi aldrei selja eða samþykkja þessa virkjun. Bæði Bjarni sem talaði um sátt í málunum og 'Arni Matt sem ekkert vissi höfnuðu því aldrei að farin yrði sú leið að neyða menn með eignarnámi. Þetta er mikil riddaramennska stjórnarflokkanna.

 

Að lokum vil ég mælast til þess að Framsóknarflokkurinn verði lagður til hinstu hvílu. Það er fyrir löngu orðin ólykt af hræinu. 

Ævar Rafn Kjartansson, 30.4.2007 kl. 00:36

4 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Við vitum það öll að Landsvirkjun á eftir að geta beitt þessu úræði ef þeim sýnist. Og Bjarni, þú ert greinilega húmanisti og tengdur sveitinni og náttúrunni. Átt þú ekki heima í einhverjum öðrum flokki?

Ævar Rafn Kjartansson, 3.5.2007 kl. 00:07

5 Smámynd: Bjarni Harðarson

drengir - eignarnámi er beitt til dæmis þegar byggja á blokk í þéttbýli og verktaki er búinn að ná samningum við alla nema einn. það hefur verið gert hvaða pólitíski flokkur sem ráðið hefur og er vissulega umdeilanlegt og ég er alveg tilbúinn til að styðja það að menn endurskoði þá framkvæmd. þetta er oft gert í mjög groddalegri græðgisvæðingu. í slíkum tilvikum eru "almannahagsmunirnir" fyrst og fremst fjárhagslegir hagsmunir verktakans, sveitarfélags og þeirra annarra sem selt hafa hús sitt sama verktaka með fyrirvara um að allir selji. á sama hátt yrði litið á land eins bónda þegar nágrannar hans væru búnir að semja um hundruðir milljóna fyrir sinn vatnsrétt og ættu á hættu að fá enga peninga út af þessum eina. þetta er auðvitað umdeilanlegt - en bara til upplýsingar - svona er þetta. ég tók á fundinum í þingborg í þessu tilviki dæmi af swaki bræðrum sem ráku bílapartasölu við rauðavatn en urðu að víkja þaðan nauðugir undan eignarnámi því byggð var blokk á lóðinni þeirra. R-listinn réði þá og engir húmanistar eða vinstri menn vörðu þá félaga mína! almannahagsmunirnir voru bara fleiri blokkir sem kannski er svo meira að segja ofaukið á fasteignamarkaði...

Bjarni Harðarson, 3.5.2007 kl. 17:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband