Baugsstjórnin sem Össur kjaftaði frá daginn eftir kosningar!

Refsskák stjórnmálanna er aldrei grimmari en fyrst eftir kosningar. Ég sem er bara úr sveit kann ekkert annað en að segja það sem mér finnst en gerði mér samt grein fyrir að ég yrði að tala varlega,- kominn á hið háa Alþingi. Mér var þessvegna svolítið brugðið þegar ég heyrði því haldið fram að daginn eftir kosningar hefði ég sagt í Silfrinu hjá Agli að Framsóknarflokkurinn væri ekki stjórntækur. Þetta sagði ég auðvitað aldrei og aldrei neitt í líkingu við það einu sinni. Sagði bara sem satt var að áframhaldandi stjórn væri ekki sennileg og að Framsóknarflokkurinn myndi ekki hafa forystu um stjórnarmyndun, hvorki til hægri né vinstri. ossur

En svo trúgjarn er ég að núna áðan lagði ég á mig að hlusta á allan Silfursþáttinn á netinu sem var mjög fróðlegt miðað við það sem síðan hefur gerst. Ráðlegg öðrum að gera hið sama  til að skilja þar með betur það sem síðan hefur gerst. Það eru orð Össurar í þessum þætti sem vekja sérstaka athygli mína en hann talar að minnsta kosti þrívegis um það í þættinum - sem er semsagt nokkrum klukkustundum eftir að talningu lauk, - að boltinn væri hjá Geir H. Harde, Geir hefði fengið það umboð hjá þjóðinni, hann og Þorgerður séu sigurvegararnir og það sé þeirra að ákveða hvað verður... í einu tilvikinu grein stjórnandinn inn í og benti Össuri reyndar á að Framsóknarmenn gætu haft áhrif á það,- sem þeir líka gerðu í vikunni.

En einmitt þessi orð eru sláandi núna. Og sömuleiðis hvernig Össur vék sér algerlega undan því að ræða sína afstöðu eða síns flokks til mögulegrar vinstri stjórnar í landinu. Sumt sagði Össur reyndar undir yfirskini um það að hann væri að skýra og túlka orð mín og Ögmundar Jónassonar sem hvorugt þurfti því báðið töluðum við ágæta íslensku. En í túlkun Össurar lá mjög sterkur tónn sem sagði allan tíma,- það er Geir sem ræður þessu. Verið ekkert að rugga bátnum, - hann ræður hvenær núverandi ríkisstjórn hættir og hver talar þá við hann næst. Enginn annar hefur neitt með það að gera,- og nefndi flokkssystur sína Ingibjörgu Sólrúnu ekki á nafn.

Þegar reynt var að þýfga krataforingjann um mögulega vinstri stjórn í landinu varpaði hann ábyrgðinni á slíku yfir á Framsóknarflokkinn sem er hefði þó alltaf orðið minnsti flokkurinn í slíku starfi og alveg ljóst að hann hefði þar ekki forystu. Forystuhlutverkið í myndun vinstri stjórnar hefði verið hjá Ingibjörgu og Össuri og hvergi annarsstaðar. Og þau voru greinilega um allt annað að hugsa á sunnudagsmorgni eftir kosningar og fannst mikilvægast að fá að vera í friði fyrir öllu vinstra tali.

Það mat Össurar á stöðunni að allt væri nú í hendi Geirs var þá aðeins rétt að Samfylkingarmenn hafi þá þegar verið búnir að lofast Sjálfsstæðisflokki svo rækilega að þar hafi legið fyrir loforð um að skoða ekkert annað. Og þessi flokkur gerir tilkall til að vera kallaður vinstri flokkur,- handbendi stærsta auðhrings landsins og sá flokkur sem leiða mun peningaöflin í landinu til valda í Baugsstjórninni...  svei því aftan og framan!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bjarni

Framganga ykkar fyrir kosningar svo og viðbrögð, nánast frá fyrstu tölum á kosninganótt gaf öllum til kynna að þar færi sá sem sigraður var og nú myndi vígamóður flokkur framsóknar draga sig í hlé, sleikja sár sín, meta stöðuna og hefja vinnu að því að ná vopnum sínum að nýju - í stjórnarandstöðu. Þetta voru skilaboð sem fáir gátu misskilið. Allt ykkar fas einkenndist af þessu og létuð þið það óspart í ljós í ræðu og riti.

Af virðingu við ykkur eftir áralangt farsælt samstarf en einnig af hyggindum klóks stjórnmálamanns tel ég að Geir hafi ákveðið að best væri að leyfa ykkur að kasta mestu vígamæðinni og fara sér hægt í þær sakir að slíta stjórnarsamstarfinu. Hann gat leyft sér það því hann hafði svigrúm til þess þar sem stjórnin féll ekki og skoða yrði auðvitað hvort einnig eitthvert vit væri í að halda lífi í þeim glæðum sem eftir lifðu. Þið gerið honum rangt til, ábyrgð hans og hyggindum, ef þið haldið í alvöru að hann hafi litið svo á að þann tíma mætti ekki nota til að þreifa á öðrum kostum, allt benti jú einnig til þess að það gæti verið óumflýjanlegt ekki síst framganga ykkar undangengnar vikur. Komandi úr sveit, þið Guðni amk., ættuð þið nú að þekkja þetta með kálfinn og ofeldið og láta slíkt ekki henda ykkur.

Til hmingju annars með þingsætið. Ég veit að akkur verður af þér þar.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 20.5.2007 kl. 10:43

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég mundi það eitt skýrlega frá þessum þætti að þú varst ákaflega málefnalegur og "óframsóknarlegur" í málflutningi, mtt áframhaldandi stjórnarsamstarfs.  Ég óska þér hjartanlega til hamingju með "þingmanninn" og er viss um að þú munt láta sannfæringu ráða í því starfi.

Ég lagði það á mig að hlusta grannt eftir því hvað Össur hafði að segja í téðum þætti og er þér algjörlega sammála.  Hann er líka "hugfanginn" af verkefninu (þe stjórnarmynduninni) en sagði á kosningafundi nú fyrr í mánuðinum að hann hefði verið í stjórnarsamstarfi með íhaldinu "kalinn á hjarta".  Ég útnefni hann tækifærissinna næstu tveggja alda.

Takk fyrir pistil.

Jenný Anna Baldursdóttir, 20.5.2007 kl. 14:54

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Bjarni það er margt rett sem þu segir,En kjosendur kusu og þið fenguð ekki það sem Þið þurftuð og tölduð ykkur eiga/En ykkar timi mun koma aftur ef Þið standið ykkur vel i Stjórnaranstöðunni,!!!!Eg er ekki á sama máli og eitthver sem segir að Guðni eigi að taka við Formensku,hann er ekki maðurin,annars bara aftur gaman að fá þig á þing,þú ert Jafnaðarframsoknarmaður!!!Kveðja Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 20.5.2007 kl. 14:55

4 identicon

Sæll frændi og til hamingju með þingsætið.

Svei að aftan og framan segir þú. Eins og þú veist bý ég á Flateyri og hef gert alla mína hunds og kattartíð. Við vöknuðum upp við þann ófögnuð í vikunni óforvarendis að stærsti atvinnuveitandinn segist vera að bugast yfir stöðunni í sjávarútveginum  og efnahagsmálunum sem þið frammarar hafið stýrt í 12 ár ásamt sjálfstæðisflokknum. Ég held að réttast væri að reka alla þingmenn og láta Jóhannes í bónus um að koma skikk á hlutina

Hvernig stendur á því að það hefur ekki heyrst í einum einasta framsóknarmanni um þessa stöðu sem hér er komin upp. Þið vælið og vælið um að hafa verið rændir valdastólum. Ég hef verið rændur aleigunni og öllu sem ég trúi á.

Ég á eftir að tjá mig frekar um þessi mál.

kv sig haf

sigurður j hafberg (IP-tala skráð) 20.5.2007 kl. 15:36

5 identicon

Hvað á Jóhannes í Bónus að gera í málunum Sigurður? Hvað hefur hann sýnt sem gefur til kynna að þar sé á ferðinni maður sem væri góður í stjórnmálum?

Aðalsteinn J. Halldórsson (IP-tala skráð) 20.5.2007 kl. 17:17

6 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Málin stæðu kannski öðruvísi í dag ef að Framsókn hefði farið að þínum hugmyndum strax Bjarni að mynda vinstristjórn. Mynnir endilega að þú hafir stungið upp á því daginn eftir kosningar. En flokkurinn hélt í viðræður við Sjálfstæðisflokkinn þess í stað. Hefði verið mun klókara fyrir ykkur að fara strax til forseta og segja ykkur út stjórn og þar með slíta stjórninni. En þess í stað létuðu þið Sjálfstæðismönnum eftir allt frumkvæði.

Magnús Helgi Björgvinsson, 20.5.2007 kl. 22:17

7 identicon

Sæll Bjarni.

 Til hamingju með nýja djobbið.

 Viltu segja okkur kjósendum nánar frá hugmyndum ykkar um vinstristjórn ?  Ef hún hefði verið stofnuð, undir forrustu Samfylk.....hefði það ekki einnig verið Baugs-óstjórn ?

 Þar sem þú ert úr sveit og voða saklaus og allt það, ætla ég að leyfa mér að tala við þig íslensku........

Hættu þessu helvítis væli drengur, og sættu þig við orðinn hlut! Farðu að tala um framtíðina og málefnin sem þú og hinir 6 vinir þínir ætlið að berjast fyrir næstu 4 árin.  Þetta er algerlega óþolandi að hlusta á ykkur "framsóknar" menn væla þetta!

 Hættu þessu!

 Með vinsemd og virðingu

 Tumi T.

Tumi T. (IP-tala skráð) 20.5.2007 kl. 22:53

8 Smámynd: Brynjólfur Bragason

Sæll og blessaður Bjarni og til hamingu með að ver kominn inn á Alþingi.

Bauð Framsókn að Sjálfstæðisflokkur fengi 8 ráðherra eins og Fréttablaði hermir ?

Afhverju var Framsóknarflokkurinnn að huga að áframhaldandi stjórnarsetu með íhaldinu í stað þess að óska strax eftir R lista stjórn?

Brynjólfur Bragason, 20.5.2007 kl. 23:45

9 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Sæll Bjarni og til hamingju með þingsætið.

Mjög er það líklegt að Össur hafi í þessum þætti vitað eitthvað meira en þið um hvernig næsta ríkisstjórn yrði saman sett.

Jens Sigurjónsson, 21.5.2007 kl. 00:51

10 Smámynd: Halldór Jónsson

Ef til vill  hefur einhverjum ekki hugnast að eiga náttstað undir pólitískri exi þinni . Af hverju sem er ?

Halldór Jónsson, 21.5.2007 kl. 07:43

11 identicon

Skriðu þeir bara ekki upp í nákvæmlega sama rúmið og þinn flokkur var að reyna að skríða upp í. Hver er munurinn?

Helgi Pétursson (IP-tala skráð) 21.5.2007 kl. 08:49

12 Smámynd: TómasHa

Er þetta ekki sú stjórn sem þú talaðir fyrir? Amk. komu þau skilaboð strax frá þér að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki málið.  Í kjölfarið er mjög eðlilegt að menn bregðist við. 

Málið hefði sjálfsagt litið öðruvísi út ef allir hefðu verið samstíga. 

TómasHa, 21.5.2007 kl. 11:54

13 Smámynd: Júlíus Valsson

Vinsamlegast haltu áfram að tala "óvarlega".
Það er miklu skemmtilegra en hitt!

Júlíus Valsson, 21.5.2007 kl. 12:45

14 Smámynd: Bjarni Kjartansson

ÞEir sem þekkja mig vita, að ég er enginn Framsóknarmaður, í það minnsta ekki að hætti Finns Ingólfssonar og félaga.

Hitt er jafnsatt, að ég er enginn bragðarefur í stjórnmálum, né á öðrum vetvangi, svona fremur blátt áfram.

Ég ber því ákveðin kinnroða af þeirri aðferð sem brúkuð var, til að ljúka samstarfi fráfarandi samstarfsflokka.  Hefði semsé viljað, að menn hefðu farið fram með meiri heilindum. 

Svo er að skilja, að einhverjir aðrir (látið liggja að því,að þar hafi Þorgerður farið fyrir liði, ásamt og með einhverjum vinkonum Ingibjargar) hafi vélað um þessa niðurstöðu.  Hvort rétt sé, veit ég ekki klárlega um en vona samt, að frekar sé formaður minn ekki einn í ráðum, frekar en að teljast óheill.

Samstarfsmenn á borð við Jón Sigurðsson, verða að líkum ekki í boði fyrir okkur Sjálfstæðismenn til nokkurar framtíðar.  Það er ógott.

Vonandi tekst með harðfylgi, að verja fullveldisrétt þjóðarinnar yfir ÖLLUM auðlindum sínum og koma þannig í veg fyrir að hægt verði að selja í hedur útlendra, með einum eða öðrum hætti.

Þarna á ég við lendur, vatnsréttindi, fugla himinsins og dýr sjóvar.

Lög um fullveldisréttur afkomenda okkar á gæðum landsins sem okkur ól, er ekki bara sjálfsögð kurteisi, ehldur skylda hverrar kynslóðar.

Með von um að sumri vel.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 21.5.2007 kl. 15:13

15 Smámynd: haraldurhar

Sæll Bjarni.

     Bjarni þú varst ærlegur í Kastljósi, þegar þú llistir því yfir að Framsókn hf., væri stjórntæk,  þjóðin hefur verið að reyna kjósa Framsókn af sér í seinustu kosningum, en við höfum því miður mátt sitja uppi með hana bæði í Landstjórnar og Sveitastjórnum, þó fæstir hafi viljað nokkuð með maddömuna hafa. 

   Það er öllum ljóst að Framsókn hf,  hefur ekki á undangegnum árum stafað sem stjórnmálaafl, heldur frekar sem vinnumiðlun, og úthlutun á fjármunun og eignum ríkisis til þeirra sem hún hefur haft velþóknun á. Eg veit að þú hefur ekki verið þiggjandi á þessum gæðum, en trú hef ég á að heldur hafi þér liðið ónotalega í yfirreið þinni með Guðna á undaförnum vikum, er hann var að úthluta allmannafé í reiðhallinar ofl.  Veistu hvort hann úthlutaði fjamagni til byggingar reiðhallar á landi Guðmundar Jónssonar  kenndan við Birgið.

    Baugur á ekki að vera skammaryrði, því hafi eitthvað fyrirtæki stuðlað að bættri afkomu fólks þá er það Baugur, sem hefur verið með lægsta matvöruverð til fjölda ára, auk þess að færa verulegar fjarmunatekjur inn í landið af fjárfestinartekum sínum inn í landið.  Það er aumt að sitja undir því að fyrirtæki eins og Baugur og Jón Ólafsson kenndur við Skífuna skuli sæta pólitískum ofsóknum að hálfu stjórnvalda.

   Mitt álit er að ef Sjálfstæðisfl. og Samfylkingin ná saman  um stjórn núna, muni það verða tímamótastjórn,  og við upplifum nýtt siðferði í stjórnmálum framtíðarinnar. Eg gæti sem best túað að þú Bjarni verði stuðningsmaður hennar fyrr en varir.,því ég vona að hún standi fyrir þeim gildum sem þú villt í heiðri hafa.

Óska þer til hamingju með kjörið og gangi þér allt í haginn.

haraldurhar, 21.5.2007 kl. 17:23

16 identicon

Rauðan kall og Múhameð
man skal ikke tegne -
fordi livs vil fölge med
fare alle vegne

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 21.5.2007 kl. 23:18

17 Smámynd: Eiríkur Ingvar Ingvarsson

Til hamingju með sætið.

Það eru alverlegri mál sem kalla, Ómar Ragnarsson ætlar í forsetaframboð...Fyrsti Græni forseti heimsins.

Höfðum til skynsemi þjóðarinnar.

Eiríkur Ingvar Ingvarsson, 22.5.2007 kl. 20:25

18 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Þarna held ég að þú sláir feilnótu. Ég er auðvitað ekki viss. Þegar ég horfði á þennan kafla í þættinum tók ég sérstaklega eftir því sem Þorgerður Katrín sagði eftir að hún var búin með upphafsræðu sína og Egill spurði: Þú vilt sem sagt áframhaldandi stjórn? Þá sagði hún: Sagði ég það?

Gier hafði þetta í hendi sér eins og Össur sagði. Og allir gátu sagt það án þess að taka þátt í neinum launráðum. Vafasamt að lesa í það. En það þarf ekki mikið að lesa í þetta svar Þorgerðar. Strax daginn eftir kosningar vill hún ekki gangast við því að sigurvímutal hennar og hlý orð til Framsóknar þýði að hún vilji áframhaldandi stjórnarsamstarf.

það sem stendur uppúr í þættinum er hins vegar hversu þú varst ærlegur og algerlega einn á bátu. Þú varst raunsær og sagðir að Framsókn gæti ekki gert tilkall til neinnar forystu en ef aðrir vildu vinstristjórn þá stæði Framsókn ekki í veginum. Glóparnir í VG buðu ykkur að sleikja tærnar á vinstriflokkunum og þar með var það mál úr sögunni. Því fór sem fór.

Ég held að samsæriskenningar séu vafasamar hér. Auðvitað hafa allir talað við alla. Auðvitað hefur Samfylkingin sjálfsagt rætt við einhverja Sjálfstæðismenn um möguleika á stjórn ef til þess kemur. Það hafa VG líka gert enda máttu sjá Moggann sem telur að sá kostur hafi í rauninni verið betri en Bleikjan.

Pétur Tyrfingsson, 24.5.2007 kl. 01:29

19 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Bjarni.  Tókstu eftir því á visir.is að "foreldrið" í búningi Haga hf. hrósaði afkvæminu fyrir stefnu þess í verslun með landbúnaðarafurðir..

Hreiðar Eiríksson, 24.5.2007 kl. 20:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband