Eldskírn ríkisstjórnar og óbilgirni á móti öfgum!

Eldskírn ríkisstjórnarinnar kom fyrr en margur vænti í formi gamalkunnrar deilu um Þjórsárver. Það á auðvitað að hlakka í mér eins sem stjórnarandstöðuþingmanni yfir því að stjórnarflokkarnir skuli nú tala út og suður um Norðlingaöldulón en svo er ekki. Ástæðan er einfaldlega sú að mér þykir sáttin í virkjanamálum meira virði. Og nú heyri ég ekki betur en að það sé langt í hana. P7290054

(Í stuttu máli: Í stjórnarsáttmálanum segir: "Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna." Samfylkingarráðherrar og nokkrir talsmenn Náttúruverndarsamtaka hafa haldið því fram að þar með sé ákveðið að engin Norðlingaölduveita verði til. Ráðherrar Sjálfstæðisflokks segja að þetta útiloki ekki veitu þessa svo fremi að það gangi ekki á votlendið. Bergur Sigurðsson framkvæmdastjóri Landverndar hefur bent á að stjórnin verði að afnema leyfi Landsvirkjunar til Norðlingaölduveitu og Landsvirkjun hefur staðfest þann skilning og segist engu afsala sér af sjálfsdáðum. Össur segist ætla að gera það sem þarf. )

Þetta mál allt er langt því frá að vera einfalt og einkennist með vissum hætti af óbilgirni á báða bóga. Þeirri óbilgirni friðunarsinna að gera ekki bara kröfu um friðun ákveðinna votlendissvæða við Hofsjökul heldur um leið af þeirri kröfu að vatn úr Þjórsárverunum verði ekki notað í vatnsmiðlun fyrir Búðarhálsvirkjun eða aðrar virkjanir jafnvel þó að það megi gera slíkt án þess að skerða Þjórsárverin. Fræg sáttatillaga Jóns Kristjánssonar var á sínum tíma tilraun til slíkrar mála- og vatnsmiðlunar og það er mín skoðun að hún hafi verið viðunandi og ekki skemmt eða skert sjálf Þjórsárverin. En bara mín persónulega skoðun, að vísu byggð á stuttu ferðalagi inn í verin og smá yfirlegu, en samt bara ein skoðun á móti skoðun margra þeirra sem telja að Norðlingaölduveita jafngildi því að fara með rask inn í merka náttúruperlu sem á að vera óröskuð um aldur og ævi. Og ég skil alveg röksemdirnar fyrir þessum sjónarmiðum sem styðjast meðal annars við það að bakvið friðun Þjórsárvera sé áratuga gömul sáttagjörð.

En ég sagði að málið einkenndist af óbilgirni á báða bóga og mörgum harðlínu náttúruverndarsinnum þykir vafalaust að ég tali virkjanalega. Enda aldrei skilgreint mig sjálfan sem einsýnan andstæðing vatnsaflsvirkjana á hálendi Íslands.

Ég sé samt óbilgirnina sem felst í því að Landsvirkjun með alla ráðherra Sjálfstæðisflokksins á sínu bandi skuli aldrei gefa þumlung eftir. Ekki frekar en harðlínumennirnir hinu megin. Sá mæti drengur Þorsteinn Hilmarsson upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar kom í útvarp nú fyrir helgi og sagði sem satt var að fyrirtækið hefði leyfi stjórnvalda fyrir miðlunarlóni þessu og gæti alls ekki afsalað sér því leyfi enda væri í því fólgin fjárhagstjón fyrirtækis sem væri í eigu almennings.

En svona einsýnn má enginn vera. Það er mikil togstreita á Íslandi um virkjanamál. Ef frá er talin baráttan um Kringilsárrana og Hálslón hefur stríðið risið hæst í umræðunni um Þjórsárverin. Ef við viljum efla þá óbilgirni, reiði og öfga sem hafa alltof mikið einkennt umræðuna undanfarið -  þá er sjálfsagt að láta hart mæta hörðu,- fara fram af fullu afli og gefa aldrei neitt eftir. Afleiðingin verður sú að við réttum öfgaöflum meðal náttúruverndarsinna mikilvæg vopn og eftir standa tveir grámúraðir hópar, virkjanasinnar og virkjanaandstæðingar.

Ég er sjálfur hvorugt. Held raunar að slík flokkun fólks í tvo hópa sé í hæsta máta óskynsamleg og ég á mér þá ósk að þeir félagarnir í Sjálfstæðisflokki, Árni, Geir og svo  sjálfur Lalli frændi*) sjái nú að sér og láti af. Það eru fjárhagslegir hagsmunir Landsvirkjunar og þjóðarinnar allrar að gefa hugmyndir um Norðlingaölduveitu upp á bátinn og horfa til annarra kosta. Allt annað er óskynsamleg og grímulaus stríðsyfirlýsing.

Mynd: Úr hjólaferð Dakarklúbbsins í Þjórsárverin fyrir nokkrum árum.

*) Lalli frændi, - götumál og merkir Landsvirkjun. Tíðum notað af fjallaferðalöngum sem njóta víða góðs af framtaki og húsakosti þessa góða frænda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Sæll félagi! Ég held að Þjórsárverum sé betur borgið (sem friðlandi) með Samfylkinguna í ríkisstjórn en með Framsókn. Heldurðu það ekki? Kv. B.

Baldur Kristjánsson, 28.5.2007 kl. 09:56

2 Smámynd: Bjarni Harðarson

nei - alls ekki félagi!

Bjarni Harðarson, 28.5.2007 kl. 10:29

3 identicon

Ég verð nú að viðurkenna að í 10 ár misskildi ég umhverfishreyfinguna á Íslandi. Mér finnst öfgasinnar hafa sprottið upp sem líta á virkjanir sem eina umhverfisvandamál heimsins. Það má malbika yfir landið, grafa upp rauðamöl í troðninga að sumarbústöðum, sóa olíu og öðrum náttúruauðlindum, bara ekki byggja virkjanir.

Fyrst maður verður að velja á milli öfga þá vel ég Landsvirkjun og Framsókn fær plús fyrir sáttatillögu Jóns Kristjánssonar á sínum tíma. Sorglegt að þið hafið misst nafna hans úr formannsembættinu.

Kveðja, Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 28.5.2007 kl. 10:45

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég vil benda á að "öfgafólkið" sem óskar eftir því að nú verði látið staðar numið í virkjun Þjórsár hefur þegar látið það yfir sig ganga að 40 prósent af vatninu sem rann um Kjálkaversfoss, Dynk og Gljúfurleitarfoss, hefur verið tekið af þessum fossum í gegnum Kvíslaveitu.

Þetta gerðí ég sem fréttamaður á grundvelli ótrúlegrar fáfræði minnar um það sem ég var að greina frá, enda hefur sú fáfræði sem virkjanasinnar leitast við að halda þjóðinni í, verið besti bandamaður virkjanafíkninnar.

Að mínum dómi er Dynkur flottasti stórfoss landsins, en því aðeins að hann fái allt vatnið sitt svo að þetta einstæða samansafn rúmlega tuttugu öflugra og háværra fossa í einu fossstæði fái notið sín.

Það er mikill munur á þeim Dynk og hins vegar hinum vatnslitla Dynk sem er aðeins ellefu sprænur þegar mest vatn er af honum tekið.

Líkja má Dynk án vatnsins sem fer í Kvíslaveitu við Samson hinn sterka án hársins.

Sem betur fer er þessi stuldur á vatni Þjórsár ekki eins skelfilega óafturkræfur og afleiðingar Kárahnjúkavirkjunar.

En ef ég er talinn öfgamaður vegna þess að ég andæfi því að skrúfað verði alveg fyrir Dynk eftir allt sem á undan er gengið, þá skal ég taka vel þeirri nafngift "hófsemdarmannanna" og "sáttargerðamannanna" sem hvika ekki í raun frá því að öll virkjanleg orka landsins lendi á útsölu með þeim snautlega afrakstri í atvinnumálum að aðeins tvö prósent af vinnuafli landsins verði í álverunum öllum sem í ráðí er að reisa.

Ómar Ragnarsson, 28.5.2007 kl. 15:07

5 identicon

Hefur einhver ykkar farið um Sultartangavirkjun? Þar sem ekkert nema áveituskurðir liggja þvers og kruss... Ef eitthvað er náttúruspjöll þá er það sú virkjun.. Hún er svo ljót og afleiðingar hennar á náttúruna í kring (þar sem heilu fjöllin hafa verið skorin í sundur) að það setur að manni grátur þegar maður fer þangað..

Björg F (IP-tala skráð) 29.5.2007 kl. 16:13

6 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Veldu þér aðra leið Björg mín, svo þú getir skoðað landið ógrátandi. kv.

Helga R. Einarsdóttir, 29.5.2007 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband