Af gustukaverkum og kjarkleysi

"Þetta var óskapar gustukaverk hjá Geir, eiginlega ekki hægt að gera meira gustukaverk neinum manni," sagði eldri maður í uppsveitunum við mig á dögunum, líklega sjálfstæðismaður, og var að tala um ríkisstjórnina nýju og þá ákvörðun sjálfstæðismanna að taka Samfylkinguna inn hjá sér. Og bætti svo við að kratana hefði langað þetta þessi ósköp og átt líf sitt undir að komast í stjórn. Þeir hefðu enda brosað látlaust síðan.imba_leidÞetta er reyndar það jákvæðasta sem ég hef heyrt frá nokkrum sjálfstæðismanni um þessa stjórnarmyndun en það verður að hafa í huga að ég hitti aðallega sveitamenn og þeir eru margir gramir forystu sinni fyrir að hafa bjargað pólitísku lífi erkióvinarins, Ingibjargar Sólrúnar.

Það er þessvegna gaman að heyra að einhverjir geta litið á myndun stjórnarinnar sem gustukaverk en ef orðið er blogglesurum of fornlegt þá merkir það hér góðverk á þeim sem á bágt. Það er auðvitað nöturlegt fyrir Samfylkinguna að komast að kjötkötlunum fyrir gustukasakir og kannski ferst okkur Framsóknarmönnum ekki að tala svona. En það er þó sá munur á að Framsóknarflokkurinn hefur ekki gefið sig út fyrir að vera höfuðandstæðingur íhaldsins í tveggja turna kerfi.Og að einu leyti eiga mínir ágætu vinir í Samfylkingunni gustukakenninguna verðskuldaða. Forysta Samfylkingarinnar sýndi dæmafátt kjarkleysi í nýafstöðnum stjórnarmyndunarviðræðum og það gerðu raunar allir flokkarnir, þó ef til vill hafi það kjarkleysi skilað Sjálfstæðisflokki ákveðinni slembilukku.

Það voru allir hræddir við að lenda í minnihluta nema þá helst Framsóknarmenn sem flestir hverjir áttuðu sig á að við gætum ekki haft forystu í neinum viðræðum. Þetta er nú að verða nógu langt um liðið til að tala hreint út um það sem gerðist og samt nógu nálægt okkur til að vera spennandi,- núna daginn fyrir þingsetningu sumarþings. Forysta Sjálfstæðisflokksins ákvað að halda í gömlu stjórnina eins lengi og mögulegt væri þó svo að það væri aldrei ætlan þeirra né kannski Framsóknar heldur að hún sæti áfram. Með því taldi Geir sig réttilega geta valdað Framsóknarmenn og gert mögulega vinstri stjórn ósennilega í augum bæði Samfylkingar og VG. Með því að telja vinstri flokkunum þannig trú um að í bígerð væri að sama stjórn sæti áfram manaði Geir þau Ingibjörgu og Steingríms til samstarfs. Steingrímur og Ingibjörg bitu bæði á agnið og tveir starfshópar þingflokks Sjálfstæðismanna fóru af stað til viðræðna við báða þessa aðila. Á meðan hélt Geir Framsóknarmönnum uppi á snakki en Frjálslyndir bönkuðu á dyrnar og buðust til að koma inn í núverandi stjórnarsamstarf. Því banki var ekki ansað. Steingrímur J. sem eðlilega óttaðist að Samfylkingin gæti haft betur reyndi að gera samstarf sitt við Sjálfstæðismenn sennilegt með því að hrauna yfir Framsóknarmenn sem tóku því mjög óstinnt - enda kosningarnar afstaðnar og svona láta menn ekki eftir kosningar. Samfylkingin sendi þau skilaboð út til Framsóknar að VG gæti ekki hugsað sér að mynda stjórn með Framsókn - sem ég held að hafi verið kratatúlkun á veruleikanum og meðvitað skrök til þess að þurfa ekki að vinna að myndun Vinstri stjórnar enda skapaði vinna við slíkt hættu á að einhver annar næði að hoppa uppí hjá íhaldinu sem hefði fyrr selt sig ódýrt en að lenda í stjórnarandstöðu!

Við framsóknarmenn voru í sárum - það eru engin leyndarmál þar. Við töpuðum næstum hálfum þingflokkinum þó svo að prósentulegt tap hafi reyndar ekki verið rétt um þriðjungur,- fórum úr 18% í 12%, en þingmannafjöldinn fór úr 12 í 7 sem er ansi mikil breyting. Við biðum átekta og það var hvorki sigurvíma né frumkvæðiskraftur í flokki okkar við þessar aðstæður. Formaður okkar þáverandi sagði einmitt á kosninganótt að miðað við niðurstöðuna hefðum við ekki frumkvæði í neinu og þeirri stefnu fylgdum við af heilindum. Við biðum eftir því hvað Geir Haarde gerði. Við vorum auðvitað í miklum vafa um það hvort við værum til í að halda áfram með Sjálfstæðisflokki í stjórnarsamstarfi en fyrst og fremst vildum við eftirláta sigurvegurum kosninganna frumkvæði í málinu.

Geir gat því boðið okkur í formlegar viðræður sem hann gerði ekki.

Geir gat því beðist lausnar sem hann gerði ekki.

Geir gat samið við aðra en haldið okkur í gíslingu á meðan í trausti þess að við værum svo brotnir að við tækjum aldrei af skarið. Og það gerði hann, - svikalaust!

Það getur vel verið að þetta hafi verið klókt hjá Sjálfstæðismönnum en stórmannlegt var það ekki og bar vitni ákveðnu kjarkleysi og óhreinskiptni gagnvart samstarfi sem allt fram að þessu hafði einkennst af heilindum og drengskap.

En kjarkleysið var mest hjá vinstri flokkunum tveimur sem beiddu báðir til Sjálfstæðisflokks í stað þess að láta á það reyna að hér yrði mynduð vinstri stjórn. Í Silfri Egils  morguninn eftir kosningar gaf ég út yfirlýsingu um það að Framsóknarflokkurinn myndi ekki standa í vegi fyrir myndun vinstri stjórnar í landinu,- (þ.e. VG, Samfylking og Framsókn) og ég gaf þessa yfirlýsingu út í fullu samráði við forystu flokksins. Strax eftir þáttinn hringdi Guðni Ágústsson í mig og hrósaði mér sérstaklega fyrir frammistöðuna og taldi mig einmitt hafa sagt það sem segja þurfti. Kjarftasögur um að ég hafi fengið tiltal fyrir það sem ég sagði eru þvaður sem ekki er svaravert. Að vísu skömmuðu mig ýmsir kjósendur mínir á eftir en aðrir hrósuðu mér en það er eins og stjórnmálamenn eiga alltaf við að búa. Og eitthvað var Þorgerður Katrín líka að skammast í mér, bæði í þættinum og daginn eftir en sú mæta kona ku í öðrum flokki en ég og kaus mig ekki.

Það er alveg rétt sem bent var á að ég endurtók þetta tilboð okkar Framsóknarmanna ekkert,- einfaldlega af þeirri ástæðu að það var óviðeigandi að þrástagast á því, slíkt kom aldrei til greina af minni hálfu. Það var komið fram og síðan var það annarra að sækja á.

Ég hef áður fjallað um viðbrögð Össurar við þessari umræðu og því er við að bæta að í lok þáttar vísaði hann þeim bolta yfir til Framsóknar að við ættum þá að hafa frumkvæði að því að mynda vinstri stjórn! Nema hvað!

Kjarkleysi Samfylkingar og Vinstri grænna varð til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafði öll spil í hendi sér og gat leikið sér að undirboðum vinstri flokkanna. Endirinn varð sá að Samfylkingin bauð sig til samstarfs á mun lakari kjörum heldur en Framsóknarflokkurinn samdi um árið 2003 sem er athyglisvert!

Að lokum þetta nú við upphaf að nýju þingi.: Það er mikið slúðrað hér á netheimum og einhverjir hafa slegið sér upp á fullyrðingum um að ég hafi haft úrslitaáhrif á það hvort fráfarandi ríkisstjórn hélt áfram eða ekki. Stjórnin hélt velli í kosningunum og hefði getað haldið áfram. Það vissum við í þingliði Framsóknar og vorum öll tilbúin til að heyra hvað Sjálfstæðismenn vildu gera og hefðum svo metið þeirra boð. Við vorum samt öll í miklum vafa um það hvað gera skyldi. Ég hef heyrt götustráka og aðra stráka halda því fram að það að ekki varð úr áframhaldandi samstarfi hafi verið vegna þess að líf stjórnarinnar hefði þá hangið á mínu atkvæði. Ég hef vissu fyrir því að þetta eru ekki almenn viðhorf í þingliði Framsóknar og þau eru það ekki heldur í þingliði Sjálfstæðisflokks. 

Allt frumkvæði í viðræðum um áframhaldandi stjórn hefði orðið að koma frá Sjálfstæðisflokki og þaðan kom ekkert og engin boð um eitt né neitt. Sem enda var ekki von. Það átti að draga okkur á asnaeyrunum. Þegar við svo fréttum að þeir hefðu í fyrsta lagi hafnað eða neitað að ansa boði Frjálslynda flokksins um þátttöku í stjórninni (tilboð sem við vissum allan tímann af en töldum ekki að við þyrftum að velta fyrir okkur nema Sjálfstæðismenn ætluðu sér eitthvað með það) og í öðru lagi að viðræðurnar við Samfylkingu væru að komast á fullt skrið - þá var okkur ekki sætt lengur að bíða forystu Sjálfstæðismanna og á þeim tímapuntki var það niðurstaða þingflokksins að fela Jóni Sigurðssyni að flytja Geir H. Haarde þau boð að stjórnarsamstarfinu væri lokið. Og það var gert.

Ég sagði hér áðan að allir flokkarnir hefðu sýnt kjarkleysi dagana eftir kosningar,- auðvitað átti það við um okkur Framsóknarmenn líka enda vorum við illa beygðir af úrslitunum. Kannski hefði verið snöfurmannlegast hjá okkur að segja íhaldinu upp strax á sunnudagsmorgni en ég studdi samt heilshugar þá ákvörðun formannsins þáverandi að fara sér í engu óðslega. Þannig var það.

(Myndin hér að ofan er af Ingibjörgu Sólrúnu eins og hún hefur komið landsmönnum fyrir sjónír í mörg ár - en þessa dagana er hún mun brosmildari. Ég er sjálfur í þeim hópi þjóðarinnar sem hefi alltaf haft nokkurt dálæti á utanríkisráðherranum núverandi - þó ég sé henni oft ósammála. Það voru mér þessvegna vonbrigði að hún sýndi ekki meiri kjark dagana eftir kosningar. Vitaskuld var hún í pólitískum lífsháska. Hún hefði ekki lifað það af að lenda með Samfylkinguna utan stjórnar. En það er eitthvað svo ósjarmerandi og hvunndagslegt þegar fólk í lífsháska bregst við með kjarkleysi...) 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mey skal að morgni lofa/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 31.5.2007 kl. 00:30

2 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Ég sem fulltrúi götustrákana verð að spyrja, ertu ekki of vinstrisinnaður?

Tómas Þóroddsson, 31.5.2007 kl. 00:59

3 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Það er þó gott að hafa björgunarhring fyrir sig og flokkinn, það gerir sitt gagn.

Ester Sveinbjarnardóttir, 31.5.2007 kl. 01:09

4 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Þú veist minn hug í þessu máli.

Hvurgi hefur komið fram, svona kvitt og klár lýsing af atburðunum innan Framsóknar.

Hjá okkur lítur út fyrir, að kvennaráð hafi nokkru þarna um ráðið, enda í takt við þau sum.

Ég hef beðið menn lesa Fóstbræðrasögu og hyggja að.  Veit ekki hvort menn hafi farið að þeim ráðum en það er hverjum manni hollt, að leggjast nokkuð í lestur okkar rita, frá þeim tíma, sem bókfell og húðir voru kaupdýr og menn þurftu að meitla hug sinn til að koma boðskap sínum fram í knöppu máli.

Þá list kann ég ekki og er því langorður með afbrigðum.

Mér er mikil eftirsjá af Jóni Sigurðssyni úr hópi samherja. 

 ÞAkka góða pistla

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 31.5.2007 kl. 14:51

5 identicon

Þessi athugasemd á við bloggið næst á undan þessu:

Þú stóðst á Ingólfs háum hól +

og horfðir yfir Suðurland; +

kjördæmi sem þig kaus og ól +

kratar ríða nú við gand, +

en Ingólfs fornum oní haug +

ekki fannst þú nokkurn draug. 

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 31.5.2007 kl. 14:52

6 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Þetta er afar raunsönn lýsing á atburðum Bjarni og mjög í takt við það sem ég hef haldið fram. Nú er bara að einhenda sér í að halda stjórninni að verki. Ekki er vanþörf á því verkefnalistinn er langur miðað við öll kosningaloforðin.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 31.5.2007 kl. 18:40

7 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Held að manngæska hafi ekki verið Geir efst í huga heldur sé hann hreinlega (með góðum árangri) að virkja hægri öflin í Samfylkingunni, nóg er af þeim. Kannski ,,leyfir" hann sumum úr forystusveitinni að blása aðeins til að halda andliti áður en ríkisstjórnin verður endanlega það sem hún stefnir í, argasta hægri stjórn af verra taginu.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 31.5.2007 kl. 23:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband