Jónsmessudraumar á Eyrarbakka

(Úti er albjört Jónsmessunótt og varla að ég tímdi inn en ég var áðan ræðumaður við Jónsmessubál okkar Eyrbekkinga en til þeirra tel ég mig alltaf enda bjuggum við þar í rúm 5 ár. Var búinn að semja þessa ræðu á blaði aldrei þessu vant og var svo að bauka við í dag að lesa hana og taka úr henni stikkorð til að geta flutt hana blaðlaust en komst að því eftir smá æfingu yfir minni góðu konu að líklega væri bara betra að flytja hana af blaði. Og ekki nema nokkrar vikur síðan ég ræddi það við kollega í kaffistofu þingsins að ræður af munni fram væru alltaf betri en af blaði - en líklega er með þann sannleika eins og annan að hann á oft við en ekki alltaf. Ræðan var auðvitað alvarleg, kannski of alvarleg við þær aðstæður að fólk var að staupa sig á bjór og viskíi en samt var gerður að henni góður rómur fannst mér og margir lögðu vel við hlustir. Semsagt, takk Eyrbekkingar fyrir kvöldið sem var bæði fagurt og skemmtilegt. Meðfylgjandi mynd tók forseti Hrútavinafélagsins, Björn Ingi Bjarnason. Já og ég er í peysunni sem Dóra í Stærri Bæ og vinkonur hennar í Grímsnesinu gáfu mér í kosningabaráttunni. )

Gleðilega Jónsmessu - er óvanaleg kveðja og þó á þessi hátíð sér talsverða samsvörun við jólin. Sex mánuðum á undan meistaranum mikla frá Nasareth fæddist Jóhannes skírari eða Jón babtisti eins og miðaldamenn íslenskir kölluðu þann mann og eftir þeim manni dró nafn sá fyrsti Íslendingur sem kallaður var þessu stutta og skemmtilega nafni, Jón, semsagt Jón Ögmundsson biskup á Hólum á 11. öld og messa þessi síðan helguð þeim nöfnum báðum, Jóni helga á Hólum og Jóni babtista í Jórdánardal...1182643938bjarnihabakkanumvideld

En Jónsmessan er merkileg fyrir fleira en bara nafnstyttingu Jóhannesar skírara. Messa þessi er um aldir messa alþýðunnar, ekki kannski sérstaklega hér á Íslandi en samt vel þekkt. Um alla Evrópu vóru á þessari nóttu dansar, söngur og ærsl við Jónsmessubálin, víðar en hér á Bakkanum. Í stað hinnar trúarlegu helgi sem jólanóttin réði yfir ríkti á Jónsmessunni náttúruhelgin. Hjáguðadýrkun sögðu hinir sanntrúuðu. Hátíð manna og landvætta. Hátíð jarteikna og kraftaverka.

Og hér hafa vissulega orðið kraftaverk og eitt þeirra birtist okkur nú á 21. öldinni þegar gömlu húsin á Bakkanum verða að þeim verðmætum að Eyrarbakki á sér kannski aðra og meiri möguleika en nokkurt annað sambærilegt pláss. Þökk sé þeirri sögu sem dæmdi Eyrarbakkann til útlegðar frá hagkerfinu þegar verslunin hvarf héðan til Reykjavíkur og svo á Selfoss. Þeim þungbæra dómi þegar Bakkinn tapaði helmingi sinna íbúa í burtu og engin þörf var því á að ryðja gömlum bárujárnshúsum um eins og annars er regla á Íslandi.

Hin íslenska húsbrotsstefna verður mér reyndar alltaf jafn mikið umhugsunarefni og við sjáum af þeirri umræðu og þeim atburðum sem nú eru bæði eru orðnir á Selfossi og í henni Reykjavík,- að þar hefur ekkert breyst. Eyrarbakki einn stendur uppi sem raunverulegt griðland þeirrar bárujárnsmenningar feðra vorra sem í fagurfræðilegu tilliti tekur samt langt fram öllu sem útlærðir arkitektar hafa fært þjóðinni síðustu 50 árin.

Og stundum dettur mér í hug að landið allt sé í menningarlegu tilliti ekki hluti af Evrópu eins og haldið er fram í sögubókum heldur Ameríku. Við séum einhverskonar Amerískt klondike með kostum þess og göllum. Allt nema Eyrarbakki.

En ég var að tala um kraftaverk sem er kannski það eina sem á að tala um á nóttu sem þessari. Og það hafa vissulega búið kraftaverkamenn hér á Bakkanum. Nafni minn Herjólfsson þeirra merkastur en öfugt við það sem gjarnan er fleiprað um þá var það hann Eyrbekkingurinn sem fyrstur fann þá Ameríku sem þá var týnd öðrum en þeim vísu og góðu skrælingjum sem höfðu á sama tíma týnt Evrópu. Sú er saga Bjarna Herjólfssonar frá bænum Drepstokki við Eyrarbakka að hann lagðist ungur í ferðalög og þegar hann kom heim úr einu þeirra voru kofar hans hyskis hér á Bakkanum tómir og hann frétti að fólkið hefði þá farið til Grænlands og lagði auðvitað þegar í stað á eftir sínum foreldrum en hreppti hafvillur og kom að Hellulandi. Seinna fór svo Strandamaðurinn Leifur Eiríksson á sömu slóðir, líklegast að vísan skipverja Bjarna.

Ástæðan fyrir því að heiðurinn er yfirleitt eignaður Leifi fremur en Bjarna er að sá fyrrnefndi steig fyrstur á land í heimsálfu þessari en Bjarni vissi sig engin erindi eiga í lönd þessi og sigldi hjá.

En nú hafa kraftaverkin fleytt okkur til í tíma og rúmi. Ég minntist á það hér fyrr að Ísland væri eins og Ameríka og fráleitt má skilja það sem áfellisdóm yfir okkar samfélagi. Í hinni gömlu Evrópsku heimsmynd skiptist heimurinn í tvennt, nýja heiminn sem numinn er af hvítum mönnum eftir að miðöldum lauk og gamla heiminn sem byggður hefur verið sama ættfólkinu um árþúsundir. Skilgreining Evrópu verður til það snemma að þá er hugtakið nýi heimurinn ekki til enda fyrrgreindar ferðir Bjarna og Leifs gleymdar. Kaninn okkar Þorfinnur karlsefni farinn sinn veg.

En þegar sagan er skoðuð sjáum við glöggt að í heimssögunni er ekki nema augnablik millum þess að Evrópumenn nema Ísland og Ameríku, rétt 600 ár sem er stutt í mælikvarða bronsalda, járnalda og steinalda. Og í þjóðareðlinu erum við Íslendingar um margt líkari könum en Evrópubúum sem er stærsta ástæðan fyrir því að okkur gengur enn vel í efnalegu tilliti meðan stjórngleði, uppdráttarsýki og stöðnun eitra nú okkar gömlu álfu miklu meira en grannana í vestri. Hagfræðingar telja margir að Evrópa sé nú komin 20 ár aftur fyrir Ameríku í hagrænni þróun og það bil aukist enn. Ísland stendur aftur á móti með því fremsta sem gerist í Ameríku og það er gott.

En hin íslensk-ameríska gróðahyggja á sér sínar skuggahliðar og þær stærstar í heimsku jarðýtunnar. Þess hugsunarháttar sem einkenna öll hin amerísku samfélög að alltaf megi ýta yfir það gamla fyrir nýja. Alltaf megi ryðja hinum veikari úr vegi fyrir sterkari. Alltaf megi peningurinn ráða för. Þessa sjáum við illu heilli merki hvevetna í okkar samfélagi í dag og höfum séð um áratugi. Eins og í öllu er ekkert algott og ekkert alrétt. Allt er í senn rétt og rangt.

Mitt í þeirri ómennsku og heimsku og dýrmætt að eiga að minnsta kosti einn gamlan Evrópskan bæ eins og Eyrarbakka sem þvert á lögmál samfélagsins verndar hið gamla. Við skulum dansa og skála í nótt fyrir því dýrmæti sem Eyrarbakki er og á eftir að verða geðheilsu íslenskrar þjóðarsálar.

Ps. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning og af gefnu tilefni eftir umræðu við bálið, - með vísan í húsbrotsstefnu á Selfossi og Reykjavík er ég ekki að taka undir með þeim sem vilja nú enn og aftur stöðva miðbæjarskipulagið á Selfossi. Þó svo að ég hefði helst viljað sjá menn þyrma Ingólfi og gömlu húsunum við Eyraveg þá tel ég samt að öllu vandaðri stjórnsýsluvinnubrögð hafi ekki verið hægt að viðhafa og við það situr að ég er í þessum húsamálum hér við Ölfusá - í Klondækinu sjálfu - í miklum minnihluta. Og þá er að sætta sig við það!)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er plássleysi á Eyrarbakka?

Sem Eyrbekkingur mann fram af konu vil ég leyfa mér að koma með smá innlegg í sambandi við væntanlegt niðurrif húsanna við skemmtilegu beygjuna á Bakkanum.  

 Mikið er leiðinlegt að heyra þetta því eins og fram kom í þinni góðu ræðu hefur tekist að vernda ákveðinn heildarsvip við gömlu götuna á Eyrarbakka. Nýrri byggð hefur fengið að rísa umhverfis bæinn og ... er ekki nóg pláss,  þarf nokkuð að rífa úr hjarta bæjarins?

Ég veit til þess að Árbæjarsafn hefur bjargað húsum sem átti að rífa þorpi austur á landi og nú er verið að reyna að fá þau til baka því sem betur fer eru margir farnir að átta sig á þessum menningarverðmætum okkar.  Byggjum þar sem er pláss því við munum sjá eftir niðurrifinu.

Jónína Óskarsdóttir 

Jónína Óskarsdóttir (IP-tala skráð) 25.6.2007 kl. 09:49

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Alltaf gaman að lesa svona greinar,þær eru meirháttar og þós vo eg sé ekki unandi þess að vernda mikið gömul Hús það er hægt að mynda þau eins og Mennina sem eru farnir/En svona er þetta ,eg  t.d.er tó ekki hress með að Slippurinn okkar gamli stofnaður 1902 se bara Jaríðitubráð/það er næst elsta hlutafelag a Islandi/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 26.6.2007 kl. 12:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband