Góð Palestínuferð Ingibjargar

Við Íslendingar erum fáir og smáir og á stundum er svo látið hér heima að þessvegna eigum við hvergi upp á dekk í alþjóðamálum. Til skamms tíma hefur líka öll okkar afstaða í utanríkismálum verið svo lituð af því að gera Bandaríkjamönnum til hæfis að það hálfa væri nóg. Það rofaði til í þeirri mynd í utanríkisráðherratíð Valgerðar Sverrisdóttur og skipti þar miklu að herinn á Miðnesheiði var þá á förum. Víst gerir smæðin okkur margt erfitt en hún getur líka verið til bóta. egill3

Það er þessvegna rangt hjá vinum mínum í Vinstri Grænum að hafa allt á hornum sér varðandi Palestínuferð Ingibjargar Sólrúnar. Sjálfur hefi ég alltaf haft mætur á Ingibjörgu ef frá eru taldar Evrópuskoðanir hennar. Og í Palestínumálum treysti ég henni vel til að geta hlustað á sjónarmið beggja og staðið föstum fótum á því sem henni þykir rétt. Hún er ekki af engu af Haugskyni hér úr Flóanum en menn þaðan þykja hafa staðið hátt og skýrt á sínu þó margt hafi verið þeim andhælis.

Það er auðvitað miður að ekki tókst að halda lífi í þjóðstjórninni í Palestínu og þar skipti miklu að vestræn ríki voru ekki tilbúin til að viðurkenna þá stjórn vegna þátttöku Hamas - sem eru þó lýðræðislega réttkjörnir fulltrúar Palestínu. Hér á landi lýsti Valgerður yfir vilja til að fara sömu leið og Norðmenn gagnvart stjórn þessari en Sjálfstæðisflokkurinn setti stein í þá götu og er skömm að. En þó svo að við séum ósáttir við þau málalok þá þýðir það ekki að við leggjum árar í bát í málefnum Palestínu eins og mér virtist fulltrúi Vinstri grænna tala fyrir í sjónvarpi fyrir nokkrum dögum. Eða þá að rétt sé af okkur Palestínuvinum að fordæma það að Ingibjörg skuli tala við Ísraela. Slíkur málflutningur leiðir aldrei til friðar eða farsællrar niðurstöðu þar í þessum versta suðupotti heimsins.

Ég veit að sumir telja það nú vera mitt hlutverk að gagnrýna allt sem stjórnarliðar gera. Í pólitík eru það samt málefnin sem skipta máli - ekki hitt að halda alltaf með ákveðnu liði. Takist Ingibjörgu að koma að því með öðrum alþjóðakempum að þoka málum á Vesturbakka og Gasa til betri vegar þá er okkur Íslendingum öllum mikill sómi að því. Mestu skiptir þó að vandamálið þar ytra er svo tröllaukið og raunalegt. Mín fyrsta ferð til útlanda var einmitt hálfsársdvöl þarna niðreftir fyrir aldarfjórðungi og þá var ég þar lengstum með Palestínumönnum en kynntist Ísraelum einnig vel og að góðu. Síðan þá hefur ástandið þarna syðra bara versnað. Útaf þessum kunnugl eikum er mér mikil alvara með það að við höfum ekkert leyfi til níða ferð Ingibjargar niður, bara í karpi okkar hér heima millum stjórnar og stjórnarandstöðu. 


(Myndina tók sonur minn Egill Bjarnason í Palestínudvöl sinni í fyrra.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll, Bjarni !

Heyr á endemi !

Þú hefðir kannski átt að nefna, þegar þau Geir H. Haarde og Valgerður Sverrisdóttir skriðu á fjórum fótum, suður til Washington, í fyrrahaust; til þess að skrifa undir bleðla, þeirra Rice og Rumsfeld, í tilefni af heimkvaðningu hers Bandaríkjamanna frá Miðnesheiði. Hvílík reisn.

Jú, jú víst hefir Haugs kynið staðið fyllilega fyrir sínu, en...... gættu að, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fellur í nákvæmlega sömu gryfjuna, og fyrirennarar hennar, nokkrir síðustu, þ.e., flakka um heiminn, í hlutverki utanríkisráðherra leppríkis Bandaríkjanna og mjálma upp í ginið á Filisteum (Palestínumönnum) og Gyðingum (Ísraelum). Þvílík flottheit, Bjarni minn.

Hygg, að Íslendingum sé sæmst, að koma ekki nálægt þessarri ormagryfju, þarna í Mið- Austurlöndum, þessu svæði er ekki við bjargandi hvort eð er; heimsku trúarbrögð og bandarísk heimsvaldastefna, ein og sér sjá til þess.

Væri ekki nær, að íslenzkir stjórnmálamenn nýttu krafta sína; hér heima fyrir, í stað þess að garfa í óleysanlegum málum, úti í heimi ? Eru ekki næg verkefni hér heima fyrir, Bjarni ? 

Vona, að þú hafir ekki glatað öllu jarðsambandi, við almenning; við kjörið til Alþingis, nú í vor. Hefði, persónulega kosið, að hafa þig kyrran á þínum rétta vettvangi, sem er; jú, hin ágæta bókhlaða þín, hjá Selfysskum. Að mæra persónur, eins og Valgerði Sverrisdóttur (hver sýnir ei þá lágmarks kurteisi, að svara bréfum, til hennar) sýnir nú ekki mikinn pólitískan styrk, eða hvað hyggur þú þar um, Bjarni ? Nema þú sért viðhlæjandi, út í eitt ?

Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason      

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 22.7.2007 kl. 15:54

2 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Hér skrifarðu af miklu viti og sanngirni Bjarni svo þér er sómi af. Gæti ekki verið meira sammála. Hafðu þökk fyrir þennan pistil.

Vonandi að ekki hangi um hálsinn á henni nein vandræði vegna stuðnings okkar við stefnu Bush á sínum tíma.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 22.7.2007 kl. 18:50

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mei skal að morgni lofa ,segir máltækið,eg bið og vona að eitthvað komi ut úr þessu/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 22.7.2007 kl. 21:27

4 Smámynd: Róbert Tómasson

Ég verð að segja að mér finnst akkúrat enginn sómi að þessari ferð, væri miklu nær að taka til heima fyrir áður en farið er að troða nefinu í málefni annarra þjóða. 

það þarf ekki að fara til miðausturlanda til þess að sjá þjáningar, við höfum heimilislaust fólk á íslandi, aldraða sem stritað hafa alla ævi til þess að skjóta rótum undir þá velferð sem við búum við í dag og eru síðan aðskyldir frá ástvinum sínum, fólk sem hefur örkumlast í slysum og fær ekki viðeigandi vistun vegna sóunar og óstjórnar í heilbrigðiskerfinu.

Því endur tek ég, " Tökum til heima fyrir fyrst."

Róbert Tómasson, 22.7.2007 kl. 22:46

5 identicon

Róbert: Viltu þá að við leggjum niður þetta ráðuneyti?

Er ekki eðlilegt að hún kíki tíl útlanda á meðan hún er í þessum stól? 

Geir Jónsson (IP-tala skráð) 23.7.2007 kl. 00:27

6 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Hef lýst yfir mikilli andstöðu og efasemdum gagnvart þessu
vanhugsuða flandri Ingibjargar til Mið-austurlanda, og vísa til
bloggfærsla minna í því sambandi...........

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 23.7.2007 kl. 01:02

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mér sýnist á viðbrögðum VG að þeir séu hræddir við að henni takist vel til. VG telur sér til tekna að hafa samúð með Palestínumönnum og vilja sjálfsagt hafa einkaleyfi á því, líkt og með umhverfismálin.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.7.2007 kl. 03:21

8 Smámynd: Upprétti Apinn

Hahaha!  Bloggið er yfirfullt af fyndnum innleggjum þennan morguninn.  Ég þakka þetta innlegg með tárin í augunum.

Fyrst þetta:  http://polites.blog.is/blog/polites/entry/268365/

Og nú þínir gullmolar kæri Bjarni.  Endilega meira svona.

Upprétti Apinn, 23.7.2007 kl. 08:39

9 Smámynd: Róbert Tómasson

Það er ekki meining mín að leggja þurfi niður utanríkisráðuneytið Geir enda þurfum við að eiga samskipti við umheiminn, en að ætla að friða allan heiminn ennþá blaut á bak við eyrun finnst mér lýsa óttalegum barnaskap  og ákveðinni veruleikafirringu

Róbert Tómasson, 24.7.2007 kl. 00:47

10 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Samfylkingin segir pass í sjávarútvegsmálum, hefur ekki áhuga lengur. Er þessi Palestínuför ekki bara leiksýning?

Sigurður Þórðarson, 24.7.2007 kl. 15:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband