Reiðilestur Marshallsins og píslarvætti kratanna

Margir hafa haft á orði við mig reiðilestur Róberts Marshalls aðstoðarsamgönguráðherra í sunnudagsmogganum þar sem hann kýs að kalla mig ómarktækan og óvandaðan rudda, fíl, tudda, grjótkastara, naut (sem er reyndar það sama og tuddi Róbert!) og endar palladómana á að halda því fram að ég sé í vandlætingarrússi. robert_marshall

Sé Róbert vini mínum fróun að munnsöfnuði sem þessum þá er honum ekki nema velkomið að skrifa um mig á þessum nótum og birta svo lengi sem íslensk dagblöð telja slík fúkyrði innan velsæmis. En þetta er vitaskuld langt utan þess sem getur talist málefnalegt og algerlega óþarft að hafa slík orð um pólitíska andstæðinga.

Ástæða alls þessa ku vera að ég var ósammála sleggjudómum sem samgönguráðherra kaus að viðhafa um Einar Hermannsson og tel þá byggja á ákveðnum ósannindum um þann mæta mann. Verst er þó að samgönguráðherra skuli hafa látið sér detta í hug að gefa stofnunum sínum pólitísk fyrirmæli um að ekki mætti framar skipta við skipaverkfræðinginn Einar Hermannsson. Það er langt utan þess sem getur talist hlutverk stjórnmálamanna að gefa út slík fyrirmæli enda ekki hægt að flokka þetta undir annað en pólitískar ofsóknir. Morgunblaðið gengur raunar svo langt í fréttaskýringu sinni að segja það aðeins tímaspursmál hvenær Kristján L. Möller biðjist afsökunar á þessum ummælum.

Í einu Reykjavíkurblaðanna var því á dögunum haldið fram að aðförin að Einari Hermannssyni væri runnin undan rifjum Róberts Marshall. Stóryrði aðstoðarráðherrans útaf málinu styður heldur þá kenningu.

Skrýtnast af öllu er píslarvætti þeirra Össuar Skarphéðinssonar, Kristjáns L. Möller og nú Róberts Marshall í Grímseyjarferjumáli sem þeir allir áttu að geta leitt hjá sér. Þess í stað hafa allir þessir skaðað sig pólitískt á máli sem snýst þó ekki um annað en ráðslag Sturlu Böðvarssonar og Árna Mathiessen og þessir þurftu aldrei að skipta sér af. Eini Samfylkingarmaðurinn sem virkilega þarf að láta þetta mál til sín taka er Gunnar Svavarsson formaður fjárlaganefndar og hann hefur líka gert það mjög faglega og af myndarskap!

PS: Í síðustu viku skrifaði ég pistil um Grímseyjarferjumálið í Morgunblaðið sem ég læt fylgja hér neðanmáls. Tek samt fram að ég tel Morgunblaðið mjög hafa tekið sig á í málinu síðan þetta var skrifað þó svo að leiðarahöfundur þess blaðs reyni í morgun að draga athyglina mjög frá aðalatriði málsins sem er vitaskuld ráðslag fjármálaráðherra:

 

Af Össuri og fjölmiðlum ríkisstjórnarinnar

Grímseyjarferjumálið er merkilegt fyrir tvennt. Annarsvegar þann dæmafáa valdhroka sem málið sjálft endurspeglar og hinsvegar fyrir það hverjir taka nú að sér þann flórmokstur að verja gjörðir Sjálfstæðisflokksráðherranna í málinu. Þeir sem ávirðingum eru bornir hafa að mestu kosið að þegja sem í minni sveit var nú talið jafnast á við samþykki.

Össur Skarphéðinsson hefur nú gengið fram fyrir skjöldu í vörn fyrir vini sína og samstarfsmenn í Sjálfstæðisflokki og heldur því meðal annars fram á heimasíðu sinni að hliðstæða þessa séu svokölluð Byrgismál. Sjálfur sat Össur í fjárlaganefnd á Byrgistímanum og hreyfði þar aldrei þeim andmælum við fjárveitingum til Byrgisins sem honum var þó í lófa lagið. Staðreyndin er að þingmenn allra flokka voru grunlausir í Byrgismálinu og höfðu raunar enga ástæðu til annars. Þegar upp komst um vafasama meðferð bæði fjár og fólks á því meðferðarheimili þá var það þáverandi félagsmálaráðherra, Magnús Stefánsson sem kallaði tafarlaust eftir skýrslu um málið og lét stöðva greiðslur. En allar greiðslur vegna Byrgisins voru samkvæmt fjárlögum.
Vöntunarákvæði fjármálaráðherra

Grímseyjarferjumálið snýst um hálfs milljarðs króna fjársukk án heimildar í fjárlögum. Ráðslag þetta er gert með sérstöku leyfi fjármálaráðuneytis sem á sér enga hliðstæðu. Það er vissulega ekki einsdæmi að embættismenn geti fært fé milli fjárlagaliða þó slíkt ráðslag sé illa samrýmanlegt lögum. En til að kóróna hina algeru lítilsvirðingu sem ákveðið er að sýna Alþingi í málinu kemur í framhaldinu lokaorð minnisblaðs fjármálaráðuneytisins: “Hafi Vegagerðin ekki svigrúm til þess að nýta ónotaðar fjárheimildir mun fjármálaráðuneytið heimila yfirdrátt sem þessari vöntun nemur.” Hér eru engar skorður settar við hversu miklu fé megi eyða; hið einstaka vöntunarákvæði kveður á um að ef það vanti pening sé ríkissjóður galopinn.
40. grein stjórnarskrárinnar tekur af allan vafa um að fjármálaráðherra hefur ekki undir neinum kringumstæðum heimild til að veita slíkan aðgang að ríkissjóði án samþykkis Alþingis. Um það snýst Grímseyjarferjumálið og þrátt fyrir nokkurt ábyrgðarleysi og samsekt þáverandi samgönguráðherra í málinu er sökin fyrst og síðast hjá fjármálaráðherra. Það er haldlaust að drepa málinu á dreif með umræðu um það hvort rétt ferja eða réttur ráðgjafi hafi verið valin í upphafi líkt og núverandi samgönguráðherra hefur gert með afar ósmekklegum hætti.


Einn flokkur...
Og þó svo að hinn sérlegi talsmaður Sjálfstæðisflokksins í málinu, Össur Skarphéðinsson kjósi að dylgja um að sambærilegar uppákomur séu þekktar í öðrum málum þá er alvarleiki þessa máls hafinn yfir slík vinnubrögð. Ef slík dæmi eru til, hversvegna hafa þau þá ekki verið tilgreind nú mörgum vikum eftir að Grímseyjarferjumálið kom upp? Og hvers fjármálaráðherratíð er Össur að tala um. Það hefur bara einn flokkur haldið um þetta ráðuneyti, allt frá því flokksbróðir Össurar, Ólafur Ragnar Grímsson lét af því embætti árið 1991.
Össur er reyndar ekki einn og það er honum nokkur huggun í vondu hreti. Morgunblaðið hefur tekið að sér að þegja um Grímseyjarferjumálið af meiri ákefð en dæmi eru til. Það er raunalegt fyrir íslenska blaðamannastétt að horfa á hversu mjög Morgunblaðið hallar sér á síðustu misserum að nýju að sínu gamla hlutverki að vera grímulaust flokksmálgagn.


...og allir fjölmiðlar!
Ritstjóri fréttablaðsins, Þorsteinn Pálsson hefur einnig tekið að sér vörn fyrir fyrrum samverkamann sinn, Árna Mathiesen og færir fyrir því einstök rök að menn eigi ekki að tala um þetta mál í leiðara um síðastliðna helgi; það ku nefnilega víðar vera sólundað með opinbert fé!
Það er alveg rétt hjá fjármálaráðherranum fyrrverandi að oft er sólundað með opinbert fé í okkar landi en Grímseyjarferjumálið snýst ekki um það. Þorsteinn Pálsson var fjármálaráðherra fyrir liðlega 20 árum. Af hverju tilgreinir hann ekki að sambærilegt ráðslag hafi þá eða síðar verið haft í fjármálaráðuneytinu eins og gerðist í Grímseyjarferjumálinu? Ástæðan er einföld, - málið á sér ekki hliðstæður.
Málflutningur Þorsteins Pálssonar minnir okkur á að Sjálfstæðisflokkurinn á núna algerlega öll dagblöð landsins. Þeir fjölmiðlar sem ekki eru undir ægivaldi Sjálfstæðisflokks er flestum stjórnað af flokkssystkinum Össurar Skarphéðinssonar. Málflutningur Össurar verður seint til alvöru metið en ægivald ríkisstjórnarflokkanna yfir fjölmiðlum þessa lands er mikið áhyggjuefni fyrir lýðræðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Er þér sammála þarna Bjarni.  RM pissar þarna í skóna sína, af einhverjum ástæðum.

Takk fyrir pistil.

Jenný Anna Baldursdóttir, 10.9.2007 kl. 09:27

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Þarna gleymir RM hinum föðurlegu ráðleggingum, sem finna má í sögum okkar. 

Reiðilesturinn væri honum holl lesning og kæmist þá að því, að hún bæði lýtir andlit og brjálar meltingu.

Varkárni svona meðalgenginna manna er, að láta sér renna reiðina, ÁÐUR en stílvopnið er gripið.

Þá hefðu rasbögurnar orðið færri.

Að vísu fer ég ekki ætíð eftir þessu en mér er það til vorkunnar, að ég er ekki í háu embætti á vegum FramkvæmdaValdsins og því skoplítið, sem það hefur áhrif, á móti þungaviktamönnum úr hátimbruðum sölum Ríkisvaldsins.

Ég viðurkeni, að ég rasa oft um ráð fram en rembist samt sem Rjúpan við staurinn, að tileink amér rósemi hugans og vera þessa vitandi, að við búum í Mannheimum og að Höfuðsyndirnar Sjö, eru bæði lævísar og liprar vel.

Vonandi hefur þú nokkra skemmtan af bæði fyrri og seinni leiunum, vonandi tekur þú ekki þátt í þeim á þínum Vél-Fáki. Það yrðu ljótu lætin í skjátunum á og öngvanveginn hægt að láta þær renna ljúft og settlega.

Hafðu þökk fyrir skrifin

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 10.9.2007 kl. 12:54

3 Smámynd: Rögnvaldur Hreiðarsson

Þú virðist hafa eitthvert lag á því að reita menn til svona skrifa. Engum þarf að bregða sérstaklega í brún þó Róbert slái vindhögg. Hann er nánast að gera það að sérstökum karríer.

Kristján Möller verður alla tíð pólitískt smámenni ef hann biður Einar ekki afsökunar á ummælum sínum. Haltu ótrauður áfram að benda á það þó svo Marshallar allra flokki firtist við.

Rögnvaldur Hreiðarsson, 10.9.2007 kl. 14:19

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Sannleikanum verður hver sárreiðastur segir máltækið/Kveðja Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 10.9.2007 kl. 15:21

5 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Mjög góð ábending að svo til öllum ruslpósti landsins er stjórnað af einflokknum sem núna er við stjórnvöl þjóðarskútunnar. Áfram Bjarni.

Baldur Fjölnisson, 10.9.2007 kl. 16:51

6 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þetta eru frábær skrif Bjarni og Róbert Marshall er minni maður af eftir skrif sín, en þessi skrif hans minna svolítið á annað bréf sem hann skrifaði Jóni Ásgeiri Jóhannessyni.  Það er alveg furðulegt hvað Samfylkingin er dugleg að "púkka" upp á menn, sem pissa svona í skóna sína.

Jóhann Elíasson, 10.9.2007 kl. 18:03

7 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Allt þetta mál með Grímseyjarferjuna,minni á þátt úr  Já ,Ráðherra , bresku grínþáttunum.

Halldór Sigurðsson, 10.9.2007 kl. 19:52

8 identicon

Ef sagnfræðingar hæðu keppni í "kontrapunktstíl" þá teldu þeir grein RM ritaða á tímabilinu 1880 til 1940.

En missti Robert ekki af góðum leik þegar hann nefnir bæði naut og tudda en minnist ekkert á drauga?

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 10.9.2007 kl. 20:37

9 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Sá vel læsi og lesni mun ávallt mala hina treglæsu í umræðum.

Baldur Fjölnisson, 10.9.2007 kl. 21:59

10 Smámynd: Kristján Eldjárn Þorgeirsson

Bjarni vinur minn!

Þetta er flott hjá þér að gagnrýna Samfylkingarmenn núna.  Það er engu líkara en RM þoli ekki að gagnrýninni er beint á hans flokk og hans mann líka.  Kanski  að RM sé svona svekktur að hann skildi ekki komsat á þing líka eins og Þú.  Bjarni!  Haltu áfram að vera þú sjálfur og segðu hlutina út frá þínu eigin brjósti og vertu áfram málefnalegur, þá mun þér eflaust farnast vel sem þingmaður

Kveðja!

Kristján Eldjárn Þorgeirsson, 10.9.2007 kl. 23:12

11 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Bjarni.

Mér var algerlega ofboðið að sjá þessi skrif aðstoðarmanns ráðherra, sá hinn sami ætti að skamma sín. Raunin er sú að ráðherrann réðst ómaklega á skipaverkfræðinginn og það fyrsta sem mér kom í hug , þessi orð munu hafa eftirmála. Það hafði hins vegar enginn manndóm til þess að bera hönd fyrir höfuð manninum gagnvart ráðherra fyrr en þú gerðir það í góðu viðtali á ruv og réttmætri og málefnalegri gagnrýni á ferli þetta allt.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 11.9.2007 kl. 00:42

12 identicon

Sæll Bjarni

Skrif Róberts M. voru honum til minnkunar og það sáu allir sem lásu þetta. Við skulum vona að Samfylkingarráðherrann sjái af sér og viðurkenni mistök sín gagnverk skipaverkfræðingnum!

mbk.

Ólafur Sveinn Haraldsson (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 20:54

13 identicon

Gunnar minn

Ummæli þín segja mikið um þig.

mbk.

Ólafur Sveinn Haraldsson (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 22:17

14 identicon

Ólafur Sveinn, er ekki einhver innsláttarvilla í þessu hjá þér: "Samfylkingarráðherrann sjái af sér"? Á þetta ekki að vera:  Samfylkingarráðherrann segi af sér

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 22:21

15 identicon

Sæll Glúmur

Þakka þér fyrir ábendinguna, mikið er nú gott að þú bentir mér á þetta. Þarna á að vera "sjái að sér". Kristján á nú það ekki skilið, að fara segja af sér. Leyfum honum að framkvæma það sem hann lofaði í kosningarbaráttunni.

mbk. 

Ólafur Sveinn Haraldsson (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 23:12

16 identicon

Sæll Bjarni

Þeir sem ég hef talað við, segja að umæli Róberts M. væru honum einum til minnkunar og helberinnar skammar. Punktur.

Þú stóðst þið með prýði í Ísland í dag gegnt varalituðum Dalvíkingi og bæjarstjóranum fyrrverandi frá Ísafirði og Akureyri. Greyið Stjáni Blái hafði sig lítið um sig enda ill ómöglegt að verja þær lítið unnu tillögur af hendi Össurar nokkurs Skarphéðinssonar. Fyrir þau sveitafélög sem kvóta skerðingin lendir mest á er erfitt að sjá hvað eigi að gera og hvernær? á næstu tveimur eða þremur árum?.....

Heillakveðjur norðan heiða.

Alex Björn Stefánsson (IP-tala skráð) 13.9.2007 kl. 14:30

17 identicon

Eitt er það sem ég ekki skil

ekki með nokkru móti.

Að Róbert Marshall sé maður til

að mega að kasta grjóti.

   kv. Gissur.

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 07:45

18 Smámynd: HP Foss

Jesús Pétur hvað hann Róbert er leiðinlegur . Var að horfa á kastljósið þar sem Bjarni Harðar tók þetta grey í bakaríið þannig að hann hafði ekkert annað en klæðnað Bjarna að hæðast að.

Svona pési á sér varla viðreisnar von.

HP Foss, 14.9.2007 kl. 19:54

19 Smámynd: Jóhann Elíasson

Óskaplega fannst mér hann Róbert Marshall lágkúrulegur í Kastljósinu í kvöld. Ef maðurinn ætlar að byggja málflutning sinn á skítkasti og persónulegum árásum á komandi kjörtímabili er Samfylkingunni lítill akkur í að hafa hann innanborðs, hingað til hefur hann frekar verið til óþurftar en hitt.

Jóhann Elíasson, 14.9.2007 kl. 21:29

20 Smámynd: Kristján Eldjárn Þorgeirsson

Sammála þér Jóhann.  Samfylkingin þarf að vera á tánum í þessu ríkisstjórnarsamstarfi til að það fari ekki fyrir henni eins og Framsóknarflokknum.  Þar sem ég er Framsóknarmaður og stuðnigsmaður Bjarna þá held ég auðvitað með honum í þessu máli.  En ef ég væri óháður kjósandi þá myndi þessi málflutningur hans Róberts ekki vera til þess fallinn að ég myndi styðja hans flokk á meðan þeir telja sig yfir gagnrýni hafðir.  Með fatnað kappanna í Kastljósinu áðan þá finnst mér það ljóst að Bjarni fer greinilega út á meðal kjósenda og það er vel.  En það virðist að Róbert hafi meiri áhuga á að veiða fisk einhversstaðar einn og yfirgefinn heldur en að vera á meðal kjósenda, sem á auðvitað að vera hlutverk þingmanna þess kjördæmis sem þeir eru kjörnir fyrir, hvort sem þeir eru kjörnir þingmenn eða varaþingmenn.

Kristján Eldjárn Þorgeirsson, 14.9.2007 kl. 21:52

21 identicon

Ég var að enda við að horfa á Kastljós þáttinn mikla með Róberti og Bjarna.  Ég verð nú að segja að þessi Róbert virðist vera ægilegur pappakassi.  Ekkert nema derringur.

Máni (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 22:23

22 identicon

Veit ekki um persónur og leikendur annað en það að RM virðist ekki hafa auðmýkt fyrir starfinu sem hann gegnir. Auðvitað á hann að biðjast afsökunar fyrir valdníðslu embættisins í máli Einars Hermannssonar og bjóða Bjarna afsökun á því að hafa talað niður til þingmanns þ.e.a.s að menn í virðingarstöðu gubba ekki úr sér reiðinni og sýni þannig af sér fádæma dómgreindarskort þegar þeir eru teknir í landhelgi heldur biðjast afsökunar. Ég held að RM sé ekki starfinu vaxinn og auðvitað, ef menn vilja ekki vera meðvirkir, á samgönguráðherrann að segja af sér fyrir að beita embættinu sem hann er í forsvari fyrir á óbreittann ríkisborgara sem enga ábyrgð ber í því hvernig komið er. Það heitir valdníðsla. Ég er þakklátur fyrir að Bjarni skuli veita ríkisstjórninni aðhald.

Axel Jón Fjeldsted (IP-tala skráð) 17.9.2007 kl. 00:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband