Sorglegt slys fjallmanna

"... væri gaman ef þér tækist að útskýra fyrir mér hvernig drekking 108 kinda (maður hefur á tilfinningunni að pynding og aftaka hafi stafað af hefð, öllu heldur íslenskri karlmennskuhefð og þvermóðsku í stíl framsóknarmannsins Bjarts í Sumarhúsum) getur peppað upp sjálfsmynd mína eða tínt saman hugsanleg framtíðarbrotin.

Göngur og réttir eru ekkert annað en dýramisþyrmingar, framdar af mismunandi sauðdrukknu fólki.  Ég mun fagna þeim degi þá þetta athæfi leggst af!"saudfe_skaldabudir

Sko,- ég var ekki þar sem 108 kindur drukknuðu á Flóamannaafrétti en klausan hér á undan var í athugasemdum á blogginu og svipað hefi ég heyrt úr ýmsum áttum undanfarna daga. Frá venjulegu fólki sem gengur illa að skilja hvernig slys sem þetta getur átt sér stað. Eða öllu heldur undrast eitthvað sem þeir telja augljósan aulaskap og kæruleysi við rekstur. Já og að ölvun hljóti að hafa spilað hér inn í.

En flestir þeir sem sjá þetta með þessum hætti hafa ónóga reynslu af hegðan hinnar merku sauðkindar til þess að gera sér grein fyrir eðli málsins. Sjálfur bý ég ekki að áralangri reynslu af smalamennsku en hef komið þar nálægt og geri mér grein fyrir að við rekstur yfir á er alltaf hætta á ferðinni. Eins og alltaf þegar slys verða er auðvelt að vera vitur eftir á og segja að smalamenn hafi ekki gætt sín nægilega.

Kindur eru hópdýr og oft styggð í fjallfé sem gengið hefur sumarlangt á afrétti,- margt af því eiginlega alla ævi! Þegar ein kind byrjar að fara vitlaust í vað eða út í vatn sem hún ræður ekki við þá fylgja hinar eftir og gæta ekki sérstaklega að sér. Slys eins og þetta eru sem betur fer ekki tíð en þau hafa samt orðið og eru nánast jafn óumflýjanleg og umferðarslys. Mig minnir menn nefna ártalið 1989 sem síðasta sambærilega atvikið á þessu tiltekna svæði.

Í gömlum frásögnum af vetrarbeit og fjörubeit sem hvorutveggja var stunduð hér á landi í 1000 ár sjáum við fjölmörg dæmi um menn hafi misst fé vegna hliðstæðra atvika. En einnig fjölmörg dæmi um að forystufé og dugmiklir smalar hafi afstýrt slysum.

Fjallmenn hefi ég hitt drukkna og ódrukkna en man samt aldrei eftir að hafa séð vín á manni utan að það sé að kvöldi í náttstað eða þá réttum. Slysið sem hér um ræðir gerðist snemma morguns og samkvæmt mínum heimildum alveg ljóst að þar spilaði enginn drykkjuskapur inn í. Það eiginlega segir sig sjálft að menn sem vinna aðra eins púlsvinnu og smalamennska er geta hvorki verið daglangt drukknir eða vakað næturlangt við ölið.

Talandi um hundruðustu og elleftu meðferð á dýrum. Af henni er vissulega of mikið - en þó allra síst gagnvart sauðkindinni sem gengur frjáls í fjallasal sumarlangt og smalamennskur eru sauðfé tæpast  kvalræði. Fjallferðir leggjast heldur ekki af nema hvíta kjöt verksmiðjubúanna yfirtaki alveg kjötmarkaðinn en það er síður en svo dýraverndinni þóknanlegt. En nú er ég kominn inn á jarðsprengjusvæði í umræðunni og mál að hætta.

(Myndin sem sýnir hreinsunarstarf eftir slysið er af fréttavef Suðurlands, sudurland.is og er tekin af Guðmundi Karli Sigurdórssyni.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

þetta er bara vont mál, virkilega sorglegt, og auðvitað finnur maður til með þeim sem voru nálægt þegar þetta gerðist eða áttu hlut að máli.

halkatla, 18.9.2007 kl. 11:11

2 Smámynd: Baldur Kristjánsson

það er alveg rétt hjá Bjarna að stundum verður ekki við neitt ráðið og tala ég af reynslu því farið hef í ófáar leitir. það er eingin leið að kenna einum eða neinum um svona lagað.

Hitt er svo annað má að svona rekstur er ákaflega erfiður fyrir margt sauðfé og mörg lömb. Féð er þreytt, hrætt ogslæpt eftir margra daga eftirrekstur.

Baldur Kristjánsson, 18.9.2007 kl. 11:38

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er auðvitað í besta falli barnaskapur að bera á borð fyrir fólk sem þekkir til smölunar að drykkjuskapur valdi slysum á fé í rekstri. Lengi vel mun það hafa borið við að vín væri haft um hönd á þeim tíma er bændur riðu heim úr kaupstaðaferðum í sláturtíð en nú er sá tími liðinn. Það er mikið slys hversu margt kaupstaðafólk hefur byggt upp ranghugmundir um bændur og búalið.

Það er morgunljóst að þarna var ekki drykkju um að kenna. 

Árni Gunnarsson, 18.9.2007 kl. 11:47

4 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Það er sorglegt þegar menn taka sér það vald að dæma til hægri og vinstri á bloggsíðum án þess að hafa nokkuð til síns máls. Ég á afskaplega gott vinafólk sem er reyndar mér tengt í Breiðavík skammt frá Látrabjargi og eru þau hjónin með stórt fjárbú þar. Í fyrra þegar skellti á stuttum en hörðum kafla vetrarhríða, töpuðu þau hátt í um 100 fjár sem fóru fram af hömrum í skafbyl. Þar hafði forystukind leitt hópinn í gegnum blindhríð út í opinn dauðann. Þannig gerist þetta bara.  Þó að menn fái sér í "stóru tána" í réttum til að ylja sér er það ekki meinið. Dýrin eru óútreiknanleg.

Sigurlaug B. Gröndal, 18.9.2007 kl. 14:01

5 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Þessi ritari hefur verið við skál er hann setti þessa klausu inn hjá þér, ég hef farið í margar göngurnar, í sumum sást til manna staupa sig, en aldrei sá ég gangnastjóra undir áhrifum, oftar hef ég þó farið í  göngur þar sem vín var bannað á meðan á göngunum stendur.

Ég hef oft verið með í að reka fé yfir vað, aldrei sem betur fer hef ég upplifað svona slys, en það vita allir sem eitthvað þekkja til íslensku rollunnar að hún fer hiklaust beint áfram hver sem fyrirstaðan er, og hinar fylgja á eftir.

Í raun, er ég hissa á að ekki skuli verða fleyri svona slys, en raun ber vitni, og tel ég það sé góðum smalamönnum að þakka.

Kveðja:

Sigfús Sigurþórsson., 18.9.2007 kl. 14:18

6 Smámynd: HP Foss

Ekki öfunda ég þig af þessari "mágkonu", Bjarni.

HP Foss, 18.9.2007 kl. 14:56

7 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Mikið er ég ánægður með, að svona margir bloggarar hafi persónulega reynslu af göngum. 

Það segir mér, að enn eer nokkur von til að jarðsambandið rofni ekki alveg en hef þó verið sífellt hræddari þar um hin síðari skelfilegu misseri, hvar ,,Banki allra Landsmanna" ætlar að taka upp útlendar tungur sér til brúks í vinnunni og þá auðvitað nota okkar móðurmál, bara svona spari, og á tillidögum, þá þeir rabba við einhvern viðskiptavininn, sem ekki er sleipur í útlensku.

Svo er eitt sem ég hnaut um, líkt og þreittur klár í klungri, helvítis maðurinn sagði Bjart Framsóknarmann.  Hann var gegnheill Sjálfstæðismaður. Vildi vera sjálfstæður, hvaða verði sem greiða þyrfti.  Minn maður og þessvegna íhald á það sem hald er í.

Kærar kveðjur, svona milli leita.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 18.9.2007 kl. 15:15

8 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Ekki get ég ímyndað mér að tekjur sauðfjárbænda séu svo mikklar að þeir eigi fyrir víni sem endist þeim allann fjalltímann hvað þá að þeir séu að ala féð til þess eingöngu að fleyta því eftir ánum, hefðu þeir þá nokkuð rekið á fjall eða í það minnsta smalað í sólinni fyr í sumar.

Sammt ein spurning sem ég velti fyrir mér, hefði verið hægt að hægja á rekstrinum um sólarhring á meðan vötn rénuðu?

Högni Jóhann Sigurjónsson, 18.9.2007 kl. 15:50

9 identicon

Ég sé þarna einn sem ekki öfundar þig af svona "mágkonu" (af hvurju gæsalappir?) - óöfundarmaðurinn ætti að hyggja að því að það er afskaplega erfitt að losa sig við mágkonur, miðað við hvursu auðvelt er að varpa einni eiginkonu fyrir róða.

Skensi um mína meintu áfengisneyslu við kommentaskrif vísa ég til föðurhúsanna og nenni í rauninni ekki að svara.

Eftir stendur stóra spurningin: Af hverju ráku menn ekki féð yfir brúna?  Hafi menn gist á bæ (og geymt safnið í hólfi) hlýtur að vera brú.  Eða sundríða ábúendur á bænum á þessa  í hvert sinn sem þeir fara í kaupstað?  Það að velja gangnadaga þá daga sem ítrekað hafði verið varað við veðri og færð; að ákveða að prufa nýtt vað á ánni, sem aldrei hafði áður verið jafn bólgin og straumhörð og að nenna ekki að reka safnið að brúnni yfir ána finnst mér bera vott um heimskulega karlmennskutakta, í skásta falli, eða óljós tengsl við umheiminn, í versta falli.

Harpa mágkona (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 16:03

10 identicon

Ég gleymdi að benda manninum sem telur Bjart sjálfstæðismann (sem hann er ekki, þrátt fyrir eigin yfirlýsingar) á að ég kann illa við að vera kölluð "helvítis maðurinn". Mér finnst það ókurteisi og bera slöku uppeldi mælanda skýrt merki. (Nema náttúrlega hann sé frá Raufarhöfn en þá myndi hann ekki misskilja Sjálfstætt fólk svona hrapalega ;)

Harpa mágkona (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 16:09

11 Smámynd: Finnbogi Haukur Birgisson

Sæll Bjarni.

Þetta er augljóslega hræðilegt slys - og slysin gerast það er óumflýanlegt. 

Ég hef heyrt frá mörgum mönnum að smalar séu ekki drukknir á fjalli, en bíði þeir spenntir eftir fyrsta sopanum þegar í réttir er komið.  Gæti ekki verið að þetta sé slys af völdum áfengis?

Frá fyrri slysum ættu menn að læra af reynslunni.  Bændur hljóta að finna fyrir þessu fjárhagslega.  Ég skil ekki hversvegna þeir eru ekki með flotbrú sem þeir draga á traktorum eða jeppum ár hvert og hleypa bæði dýrum og sér sjálfum yfir ánna á brú.

Með kveðju, 

Finnbogi Haukur Birgisson, 18.9.2007 kl. 16:12

12 identicon

Nú veit ég ekki hvort Magga systir Gunnars er kona Jónatans málara, en sé svo þá hefur mér oft fundist vit í hennar skrifum, reyndar meira vit í þeim um ketti en hún hittir líka naglann á höfuðið í umfjöllun um rótnagandi sauðfé.

Sjálfri finnst mér skrítið að strætóstjóri skuli hafa svona miklu meira og betra vit en ég á lífi í sveitum og þessari tilteknu skepnu, sauðkindinni.  Ég er alin upp í sveit, eins og margir Íslendingar, þótt foreldrar mínir hafi ekki átt fjárhús og einungis einu sinni heimaling (sem endaði í kæfu).  - Ef út í það er farið hefur eigandi þessa bloggs, minn ágæti mágur, engin fyrstu kynni af rollum enda alin upp í gróðurhúsum en ekki fjárhúsum.

Að lokum vil ég bæta við að mér finnst myndin úr hlýlegu þurru göngunum okkar, á bloggsíðu Gunnars, alveg einstaklega falleg! 

Harpa Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 18:46

13 identicon

Sæll veri fólkið..ég var fjallmaður í þessari ferð, en var sendur í skaftholtsréttir og missti af þessu sem betur fer. 

 Langaði að svara nokkrum sp.

Af hverju fóru menn ekki brún? það er ræsi þarna en það er mjög vond að komast að því... Og vond að þurfa að breyta um leið á hverju ári.. leiðinni var breytt í fyrra. og aftur nú vegna nýs safngerðis. Þetta hefði fari vel höfðu þær farið yfir vaðið og ekkert líklegara en að þetta hefði farið eins ef við höfum farið yfir ræsið.

Ég get vottað það að enginn hafi verðið fullur eða þunnur. Menn voru mjög þreyttir og fóru snemma að sofa kvöldið áður.enda ein erfiðasta fjallferð sem menn munna eftir.  

Af hverju var ekki farið sólhring seinna af stað? Það er varla gerlegt vegna þess að það var þurrt í veðri og þetta leit ekkert illa út höfðu þær farið á réttan stað.

Einar Magnússon (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 23:00

14 identicon

Gleymdi.. Horfi áðan á þig Bjarni rífast við Marshallinn.. og þú tókst hann alveg í nefið...

Staddu þig á þingi og vertu okkur framsóknarmönnum til sóma..

Einar Magnússon (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 23:06

15 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Bjartur var víst Sjálfstæðismaður af ástríðu.  Misskil ekki kvint um þá sögu.

Biðst hinsvegar afsökunar, að hafa skjöplast illirmingslega á því að kalla yður ,,helvítis mann" hefði betur kallað yður,-- ólundar-konu.

Enn að Bjarti í Sumarhúsum.  Þar sem ég kynntist sauðfé hvað best, hvar ég var í sveit á sumrin og á stundum í Jólafríum, við tilhleypingar (maður kynnist háttsemi áa nokkuð þegar fylgst er með þeim við sem fjölbreytilegastar aðstæður, svo sem þá þeim er sleppt ú  í frerann á Jólaföstu.) var höfundur þessarar dásamlegu sögu, heimilisvinur.    Líklega er fyrirmynd hans af þessum karakter, sveitungi hans, sem var einnig mjög svo Sjálfstæður í sinni og háttum.

Er ekkert ættaður að Austan en er VESTFIRÐINGUR.

Svo annað, foreldrar mínir lögðu sig undir líma, til að koma mér sem óbrjáluðustum til manns, með vönduðu uppeldi.  Það er ekki þeirra sök, þó svo mér verði á rasbögur í pikki við konur útí bæ, sem eru úr jafnvægi, sakir sorgar yfir fé, sem lét lífið nokkru fyr en ætlað var.

Því tek ég glaður á mig allar sakir í ókurteisi við yður.

Hugsanlega hefi ég rasað nokkuð um ráð fram, hér í þessu innleggi og bið ég því hlutaðeigandi fyrirfram, --afsökunar

Miðbæjaríhaldið 

Bjarni Kjartansson, 19.9.2007 kl. 08:57

16 identicon

Þetta er dásamlega orðuð og hugsuð athugasemd sem hefur alveg bjargað deginum mínum!  Ef tómlætið grípur mig seinnipartinn mun ég lesa hana á ný. Bestu þakkir fyrir að létta mér lund, Bjarni Kjartansson.

Harpa (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 11:12

17 identicon

Ég kalla það ekki að "muna þá tíma" að minnast búsetu minnar 1996-98, fyrir austan fjall.  Aftur á móti man ég ekkert eftir þér, Gunnar Þór, en þætti jafngaman að fá staðfest hvort við erum að tala um sömu Margrétina. Einnig má nefna að aldrei hef ég verið jafn fegin á ævinni og að sleppa burt úr nefndum uppsveitum og til hinna normölu Skagamanna á ný.

Strætóstjóramisskilningurinn? Ja, hann stafar af hinni fögru mynd úr Hvalfjarðargöngunum, hvar strætó er fótósjoppaður í forgrunni. En úr því þetta er misskilningur þá reikna ég með að þú hlaðir á vetniskúta?  Vinnir sem nokkurs konar æðri bensíntittur? (Án þess ég líti niður á slíka enda hef ég unnið svoleiðis vinnu á yngri sokkabandsárum mínum - einmitt í uppsveitunum ;)

Harpa (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 12:08

18 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Hér fara hin skemmtilegustu samtöl fram og bara gaman að lesa.

Einar Magnússon útskýrir þetta ágætlega nema ef að ég man rétt þá leit þetta alls ekki vel út því að veðurspáin gekk eftir.

Enn það gengur auðvitað ekki að vera að breyta leiðum á hverju ári, hvernig í ósköpunum á féð þá að læra að rata þetta?

Högni Jóhann Sigurjónsson, 19.9.2007 kl. 13:03

19 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ef ég læsi ekki bloggð hans Bjarna af og til væri ég fyrir löngu búinn að losa mig við allt umburðarlyndi gagnvart íhaldsmönnum.

Árni Gunnarsson, 19.9.2007 kl. 13:12

20 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég meinti auðvitað Bjarna Kjartansson. 

Árni Gunnarsson, 19.9.2007 kl. 13:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband