Er Ingibjörg enn og aftur ofjarl Davíðs

Þau láta ekki mikið yfir sér ummæli Péturs Blöndal formanns efnahagsnefndar Alþingis um peningastefnu Seðlabankans en eiga þó eftir að marka mikil tímamót. Á undan honum fór Vilhjálmur Egilsson fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks og báðir eru samdóma í gagnrýni sinni á peningastefnu bankans. petur_blondal

Þar með hafa tveir málsmetandi Sjálfstæðismenn sagt það sem beðið var eftir. Að Seðlabankinn færi villur vegar og væri að verða að hálfgerðu nátttrölli í efnahagsumræðunni. Þetta þýðir með öðrum orðum og það sem enginn í stóra flokkinum þorði almennilega að segja,- tími Davíðs Oddssonar í stjórnmálum er liðinn. Reyndar löngu liðinn og þar með á hann ekki að fara með stjórn efnahagsmála.

Þetta segi ég þrátt fyrir talsverða aðdáun á þessum fjarskylda frænda mínum af Sámsstaðakyni og þrátt fyrir að hafa dáðst að því hvernig hann hélt Sjálfstæðisflokki við rétta skoðun í Evrópusambandsmálum. En þó svo að ég sé forsætisráðherranum fyrrverandi algerlega sammála þegar kemur að hugmyndum um aðild að Evrópusambandinu held ég vandamál vegna krónunnar verði ekki afgreidd með vaxtaokri. Þvert á móti viðveldur vaxtaokur á lánamarkaði alþýðunnar vaxandi óánægju með krónuna og getur grafið undan sjálfstæði þjóðarinnar.

Það skondnasta í málinu er vitaskuld það að þessa lotu í umræðu um Seðlabankann og vaxtastefnu hans byrjaði enginn annar en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og eiginlega finnst mér sjálfum að það sé högg langt undir beltisstað ef Sjálfstæðismenn ætla að nota hennar orð til að klekkja á löngu úreltu veldi Davíðs...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Um það er ekki deilt,að i minum flokki er sennilega meirihluti manna á þessari skoðun Bjarni,er það nokkuð undarlegt,nei það er það ekki,þetta verður að endurskoða alla okkar fjármálapólitik/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 24.9.2007 kl. 21:28

2 identicon

Í "vaxtaokrinu" sem þú svo kallar, kann að verða óánægja með krónuna. Það er hinsvegar einkenni sjúkdómsins en ekki orsök. Ennfremur veldur núverandi ástand því að fátækir skuldarar verða fátækari, og ríkir fjármagnseigendur verða ríkari. Hversvegna heldurðu að það sé? Það er ekki af því að skuldararnir eignast ekki pening - heldur vegna þess að þeir eyða honum öllum - ýmist jafnharðan eða fyrirfram. Reyndu að koma í veg fyrir það með skrifum og skrafi - og ástandið lagast. Þó er ég ekki að hvetja til að við verðum eins og japanir, en einhverstaðar þar á milli væri ágætt. Íslendingar yrðu þannig sælir með sína krónu.

-sigm. (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 21:37

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Nú er að bíða og sjá til hvaða ráða Davíð grípur sem gera honum fært að reka Villa Egils.

En af gömlum vana segir hann nú líklega til að byrja með að hann sé fífl.

Árni Gunnarsson, 24.9.2007 kl. 22:43

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég tek undir orð sigm

Gunnar Th. Gunnarsson, 24.9.2007 kl. 23:32

5 identicon

Sem gegn og góður framsóknarmaður þá bið ég þig Bjarni að leggjast ekki jafn lágt í þinni stjórnarandstöðu og samfylkingin gerði og spila á þekkingarleysi fólks. Þú veist betur. Um Seðlabankann gilda lög  sem honum er skylt að fara eftir. Þessi lög kveða mjög skýrt á um hlutverk og markmið Seðlabankans þ.e. að halda verðbólgu innan ákveðinna marka. Peningamálastefnan er í raun eina þekkta verkfærið sem bankinn hefur yfir að ráða í þessu samhengi.  Það getur vel verið að verkefærið sé ekki að virka sem skildi en guð hjálpi okkur ef vextir yrðu lækkaðir í einni sviphendingu niður í það sem gerist í Evrópu. Þá sæjum við alvöru verðbólgu. Að blanda Davíð í málið er smekklaust. Þetta hefur ekkert með hans skoðanir eða polítík að gera, hann er eingöngu að sinna starfi sínu og er örugglega að fara eftir ráðleggingum hagfræðinga bankans. Þó svo að okkar ástkæri formaður Guðni Ágústsson væri í sömu stöðu þá yrði niðurstaðn sú sama nema að við viljum að menn brjóti lög.

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 10:11

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er mikil einföldun eða öllu fremur einfeldni að halda því fram að umdeildar ákvarðanir Seðlabankans hafi ekkert með skoðanir Davíðs að gera. Þessi mál eru afar mikið umdeild og Davíð hefur komið sínum skoðunum á framfæri, umbúðalaust eins og hans er vandi. Nú er Davíð reyndar ekki eini starfsmaður eða yfirmaður þessarar stofnunar, enda að eigin sögn vitlausasti maðurinn á vinnustaðnum þegar hann hóf þar vinnu að húsverðinum meðtöldum sem ég er ekki að gera lítið úr. Hlutverk þessarar stofnunar í stjórnsýslunni er skilgreint með lögum. Þrátt fyrir það er deilt um stýrivextina sem eina ráðið við áhrifum þenslunnar. Má reyndar teljast augljóst hverjum manni að þar er komið vel fram yfir þolmörk hins almenna neytanda lánsfjár. Ummæli forsætisráðherans í hádegisfréttum benda til þess að almenn sátt ríki um það sjónarmið að lög Seðlabankans séu orðin barn síns tíma. Eftir situr þó ennþá ábyrgð stjórnenda stofnunarinnar sem er sú að meta áhrif stýrivaxtanna á viðskiptalífið og þolmörk skuldara.

En af öllu þessu er nú orðið ljóst að okkar örsmáa hagkerfi hafði ekki burði né þroska til að mæta hinni gífurlegu árás á jafnvægi viðskiptalífsins sem ástandið ber vott um í dag.    

Á því ber hinsvegar enginn pólitíska ábyrgð.

Árni Gunnarsson, 25.9.2007 kl. 15:12

7 identicon

Vill semsagt enginn horfast í augu við vandamálið og færa það bara framfyrir sig. Hætt er við að eldra fólk og þeir sem hafa byggt sér einhverja sjóði fyrir hin síðari ár verði illa úti í verðbólguflaumi (sem verður til staðar í raun þrátt fyrir upptöku annars gjaldmiðils). Nær væri að horfa til þess, fremur en að tryggja að fólk geti endalaust fengið sér nýja bíla, hús og ísskápa - að láni frá banka.

-sigm. (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 15:45

8 identicon

-sigm. þorir að segja sannleikann. Hann ætlar greinilega ekki í framboð.

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 27.9.2007 kl. 20:03

9 identicon

Sigm. hefur lög að mæla. Vandamálið er ekki Davíð og ekki vaxtastefna Seðlabankans heldur landlægur skortur á hófsemi og ráðdeild.

Háir vextir eru afleiðing af mjög mikilli eftirspurn eftir lánum.

Ef vextir lækka án þess að óhófið minnki neitt skuldsetja menn sig bara enn meira. Sá sem tekur lán þannig að tekjur rétt dugi fyrir afborgunum tekur meiri lán ef afborganir af hverri milljón minnka og meiri neyslulán eru trúlega hættulegri fyrir þjóðarhag heldur en háir vextir. 

Atli Harðarson (IP-tala skráð) 27.9.2007 kl. 22:30

10 identicon

Atli Harðarson ætlar heldur ekki í framboð.

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 28.9.2007 kl. 20:07

11 Smámynd: Óðinn Þórisson

vandamálið er að það eru alltaf of fáir sjálfstæðismenn á íslandi.

Óðinn Þórisson, 29.9.2007 kl. 14:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband