Af réttlæti og samanburði í neytendamálum - pistill fyrir EKG

(Bolvíkingurinn Einar Kristinn Guðfinnsson bað mig að skrifa pistil á síðu sína í dálk þar sem heitir önnur sjónarmið. Afrit birt hér. Veit svosem ekkert hvort sjónarmið okkar Einars eru svo ólík á öllum sviðum, allavega líkaði mér ágætlega við margt sem er að finna á vel uppsettri heimasíðu ráðherrans - og er að vona að við séum ekki mjög ósammála þegar kemur að landbúnaðarmálum.)

 ekg

Mér er heiður að því að fá að skrifa pistil á heimasíðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þykir við hæfi að víkja hér að klassísku deilumáli í íslenskum stjórnmálum undanfarinna áratuga sem snertir landbúnaðarpólitíkina. Verði á matvælum.

Í áratugi hafa reglulega orðið rokur í dægurumræðunni vegna þess að matvælaverð á Íslandi er hærra en víðast hvar annarsstaðar. Í því hlýtur að vera fólgið mikið óréttlæti, segja krossfarar lýðskrumsins og eiga jafnvel til að koma með patentlausnir eins og þær að við göngum í einhver samtök eins og Evrópusambandið og þar með muni matvælaverð sjálfkrafa lækka í landinu.

 

Göngum í Afríkusamband frekar en ES

Ég ætla að taka röksemdafærslurnar hér á eftir að hætti þess mælska Vestfirðings Jóns Baldvins Hannibalssonar í fyrsta lagi, öðru lagi og þriðja lagi.

Í fyrsta lagi þá er Evrópusambandið ekki það ríkjabandalag þar sem meðaltals matvæla er hvað lægst. Það er mun lægra í Einingasambandi Afríkuríkja og raunar ekkert fullvíst í því að okkur yrði meinað að ganga í það félag fyrir það fólk sem heldur að verðlag fylgi félagsaðild.

Í öðru lagi þá er ekkert opinbert verðlag til innan Evrópusambandsins heldur er matvælaverð þar mjög mismunandi rétt eins og allt annað. Meira að segja vextir eru misháir innan Evrópusambandsins,- okurháir á Írlandi miðað við Þýskaland o.s.frv.

 

Verðlagning og réttlæti

Í þriðja lagi og það er aðalatriði málsins þá er hátt verðlag á Íslandi ekki rakið til óréttlætis í hagkerfinu hér heima heldur til réttlætis. Ef við gefum okkur að við viljum hafa sama verðbil milli matar og annarra verðþátta þá erum við um leið að gefa okkur að það ríki meira réttlæti í hinum meintu samanburðarlöndum. Svo er alls ekki.

Tómatar í Evrópusambandslöndum eru framleiddir af gestaverkamönnum úr Austantjaldslöndum sem búa í gámum og afgreiðslufólk í stórmörkuðum í Þýskalandi hefur mikið lakari kjör heldur en afgreiðslufólk í Bónus á Íslandi, sem þó eru ekki til að hrópa húrra yfir. Störf í matvælaiðnaði hérlendis eru bág en þó til muna skárri en víðast í Evrópu. Svo mætti áfram telja.

Þegar lýðskrumsmenn fara fram með endalausar kröfur um lægra verð á þeim varningi og þeirri þjónustu sem veitt er af láglaunafólki þá er það ekki krafa um betri kjör alþýðunnar heldur einfaldlega verri. Samanburður við önnur lönd sýnir okkur að því lægra sem verð á nauðsynjavörum er því verri eru kjör hinna lægstu. Almennt er það vitaskuld svo að því hærri sem þjóðartekjur eru á hvert mannsbarn því hærra er verð nauðsynjavara og því betri eru kjör almennings. Norðurlöndin í samanburði við aðra heimshluta sanna þá kenningu ágætlega.

 

Fyrirmyndir í heiminum

Við höfum líka dæmi þar sem saman fer lágt verðlag nauðsynjavöru, viðunandi þjóðartekjur á mann og hörmuleg kúgun og eymd hinna lægstu í samfélaginu. Bestu dæmin um þetta eru mörg velmegandi olíuríki en sömu tilhneigingar gætir raunar víða í Bandaríkjunum þar sem vaxandi fjöldi lifir við kjör langt utan alls velsæmis, þrátt fyrir hagvöxt og góðar meðaltekjur. Í þessum löndum hafa læknar og verkfræðingar margföld laun við það sem tíðkast á Íslandi.

Baráttan við verðlagið kemur hástéttinni og öllum í efri millistétt vel enda getur hið raunverulega markmið aldrei verið annað en að auka stéttskiptinguna. Af öllum fyrirmyndum í heiminum eru það einmitt lönd eins og Noregur og Ísland sem helst geta verið til fyrirmyndar og okkur ber þessvegna að standa vörð um þetta réttlæti en ekki að berjast hér fyrir ranglæti.

 

Lýðskrumarar í öllum hornum

Sú spurning sem við hljótum að spyrja er hvaða verði viljum við kaupa það að fá hér lægra verð nauðsynjavöru og fyrir hvern er sú barátta háð. Það hefur margoft verið bent á að í láglaunaríkjum, t.d. við Miðjarðarhafið, þar sem matvælaverð er mun lægra en hér á landi eyðir almenningur jafn stórum hluta tekna sinna til matvælakaupa eins og á Íslandi og í Noregi. Munurinn er sá að aðrar þarfir eru mun líkari Íslandi í verðlagi sem þýðir að sama fólk þarf að vinna mun fleiri vinnustundir fyrir þeim þörfum heldur en það þyrfti við sömu vinnu á Íslandi. Í mínum huga er það undarlegt sambland af lýðskrumi og heimsku þegar baráttu verkalýðssamtaka fyrir kjörum hinna lægstu er með þessum hætti beint gegn búðafólki og bændum.

Fyrir hófsaman landsbyggðarþingmann, eins og eiganda þessarar heimasíðu, sem fær það erfiða hlutverk að vera landbúnaðarráðherra í ríkisstjórn sem styður sig við frjálshyggjumenn og evrópukrata er mikilvægt að hafa þessi sannindi í huga og standa fast á verði gagnvart heimskunni sem stundum flæðir að okkur úr öllum áttum eins og sósurnar sem flæddu að honum Þórbergi Þórðarsyni forðum tíð, bæði austanað og vestanað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Ja herna!!!! Bjarni við erum bara nánast flokksbræður/Kveðja Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 23.10.2007 kl. 01:29

2 Smámynd: Sigurður Baldursson

Já Bjarni mikið er ég sammála þér , Þetta er með betri greinum sem ég hef lesið um þessi mál.

Kveðjur að norðan  Sigurður

Sigurður Baldursson, 23.10.2007 kl. 11:56

3 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Ljómandi grein,orð í tíma töluð,sammála í öllum aðalatriðum.

Ari Guðmar Hallgrímsson, 23.10.2007 kl. 13:09

4 identicon

Bjarni, sannarlega málefni séð út frá nýju sjónarhorni;  Bolvíkingurinn okkar ágæti hlýtur að vera þakklátur fyrir þessa grein.

Árni Kr. Þorsteinsson (IP-tala skráð) 23.10.2007 kl. 16:30

5 identicon

Aðeins á ská við efnið er það, að grænmeti og ávextir hækkuðu eins og annað í EB við upptöku evru.

Á RAI3 hafa verið þættir á föstudagskvöldum þar sem hver vöruflokkurinn eftir annan hefur verið tekinn fyrir og sýnt fram á með óhrekjanlegum tölum  hvernig markaðir á Ítalíu hafa stolið að meðaltali 17 % hækkun út á glatað verðskyn við myntbreytinguna. Talið er að %an sé hærri í Grikklandi.

Allir vita hvað gerðist hér þegar núllin fóru. Þeir sem vilja ganga í EB og taka upp evru til að lækka vöruverð ættu skv. þessu fyrst að reikna með ca. 17% hækkun sem seljendur munu taka sér. Kaupahéðnar eru eins í Súdan og Grímsnesinu.

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 24.10.2007 kl. 16:12

6 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

ESB leggur okkur ýmsar skyldur á herðar sem orka tvímælis, svo sem að evrópskir farandverkamenn hafi allan forgang á fólk annars staðar frá til jafns við Íslendinga. Þetta þýðir t.d. að ættingjar Asíufólks sem hingað er komið og búið hafa hér í mörg ár hafa litla sem enga möguleika til að fá vinnu hérlendis. Við höfum ekkert val lengur það eru aðrir sem ákveða þetta fyrir okkur. Annað dæmi um hæpna þróun er Schengen samstarfið sem lítur út fyrir að vera að snúast í höndunum á okkur með galopnum landamærum. Þriðja dæmið eru smásmugulegar reglugerðir um CE merkingar. Hingað má ekkert lengur flytja í ákveðnum vöruflokkum sem er ekki með CE merkingu. Þetta leggur trúlega mun meiri hömlur á okkur en margan grunar.  Við megum t.d. ekki lengur kaupa notaðar talstöðvar frá Bandaríkjunum, ekki einu sinni CB stöðvar þó þær séu í öllum meginatriðum eins og evrópskar CB stöðvar.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 24.10.2007 kl. 20:14

7 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ekki get ég hrósað ráðherra sem fengið hefur á sig fjögur álit umboðsmanns Alþingi fyrir lögbrot, á tveimur árum og fleiri eru á leiðinni.Eftir því sem álit umboðsmanns verða fleiri því hærra rís stjarna ráðherrans,  í öllum öðrum lýðræðisríkjum hefði hann verið búinn að hrökklast úr embætti.Ég þekki landbúnað eins og þú Bjarni og ég vorkenni bændum að fá þessa sendingu.

Sigurgeir Jónsson, 24.10.2007 kl. 23:58

8 Smámynd: Jón Grétar Sigurjónsson

Eftir þó nokkur ferðalög um Evrópu og eftir að hafa búið í Evrópusambandinu held ég að ég verði að viðurkenna að ég er að verða jákvæðari á Evrópusambandsaðild með hverjum deginum. 

Fyrir mér snýst þetta ekki um verðlag eða krónuna. Það eru lönd í ES sem hafa haldið í sína gjaldmiðla (Danmörk og Bretland sem dæmi) og una hag sínum ágætlega. Eins og þú bendir réttilega á líka er verðlag í ES ekki það sama allstaðar. Það er líka munur á rétti verkafólks í mismunandi ríkjum, styrkjum til landbúnaðar, kostnaði við nám og eftirlaunarétti. Með öðrum orðum þá virðast löndin geta að mestu ráðið sér sjálf í grundvallarefnum.

Okkur íslendingum þætti vafalaust leitt ef ferðir okkar væru takmarkaðar, við gætum ekki unnið hvar sem er í Evrópu, þyrftum að borga ofurtolla fyrir allt sem inn til okkar kæmi og að viðskiptavinir okkar erlendis þyrftu að gera slíkt hið sama fyrir okkar vörur. Með EES samningnum höfum við nánast gengið í ES, fáum þar margt gott, borgum okkar pligt en hins vegar fáum engu um ráðið í lagavirki ES. En, við viljum ekki gefa neitt eftir, bara fá það sem gott er. Það var um þessa áráttu íslendinga sem afi minn commentaði: "Alltaf erum við íslendingar eins, viljum fá allt fyrir ekkert". Finnst oft þessi ES umræða fara í nákvæmlega þann farveg. Auðvitað eigum við að vera stoltir meðlimir í bandalagi Evrópuþjóða, ekki bara móast íokkar heimabyggð og loka okkur af. 

Jón Grétar Sigurjónsson, 26.10.2007 kl. 08:46

9 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæll Bjarni

Fannst greinin í blaði dagsins og ráðherrablogg vera frískandi. Nýjir fletir sem gera umræðuna ríkari. En þó þetta;

Í fyrsta lagi tel ég að áherslan á mikilvægi lækkunar matvælaverðs hér á landi sé ekki lýðskrum. Matarinnkaup eru verulegur hluti af útgjöldum hverrar fjölskyldu. Fjölbreytileiki og val á því sviði eru forsendur heilsu og velferðar.

Í öðru lagi tel ég að ríkur vilji sé fyrir því að kaupa íslensk matvæli þó að þau verði eitthvað dýrari en innflutt. Því þurfi ekki í sjálfu sér að óttast frelsi í innflutningi, ef hún er í takt við hagræðingu og aukna hagkvæmni við innlenda framleiðslu. 

Í þriðja lagi tel ég að stór hluti af háu matvælaverði hér á landi sé vegna óhagkvæms reksturs og miðstýringar sem má að verulegu leyti rekja til stefnu Framsóknarflokksins síðustu öldina.

Þessu má redda með því að:

Í fyrsta lagi að gera bændur frjálsa undan kvótakerfi og reglugerðafargani sem hindra eðlileg samskipti neytenda og framleiðenda þ.e. bænda.

Í öðru lagi með landskipulagi sem skilgreinir og tekur frá land til ræktunar og landbúnaðar. Það verður að stöðva þá þróun að stór hluti ræktanlegs lands í nágrenni Reykjavíkur fari undir aðra notkun en landbúnað. Það leiðir af sér enn dýrari vöru. 

Í þriðja lagi að taka upp nýja hugsun þar sem stefna er mótuð út frá sameiginlegum hagsmunum bænda og neytenda. Ekki plástrar til að tryggja rekstur óhagkvæmra eininga og milliliða eða að kaupa Framsókn atkvæði.

Set þetta á blað sem mínar hugrenningar ( hægt að rökstyðja í lengra máli) og af því að ég veit að þú ert ekkert á móti litbrigðum orðræðunnar. Þarf að taka mér bíltúr á Selfoss  þegar tækifæri gefst og kíkja á kaffihúsið ykkar. Gaman að sjá hvað þú ert virkur og skapandi.

                  Með kærri kveðju,

Gunnlaugur B Ólafsson, 27.10.2007 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband