Um REI málið, spillingu og Framsóknarflokkinn

Harkaleg umræða um málefni Orkuveitu Reykjavíkur og útrásarfyrirtækja er nú ítrekað beint í þann farveg að málið komi Framsóknarflokki sérstaklega við. Því til sönnunar er bent á að 2,2% af hlutafé hins nýja REI fyrirtækis séu í eigu félags sem nokkrir Framsóknarmenn eiga aftur hlut í, þar á meðal einn fyrrverandi ráðherra flokksins.

Hér verður ekki lagt mat á það hvort um réttmæta viðskiptahætti þessara manna hafi verið að ræða enda er það málefni til umfjöllunar á formlegum vettvangi m.a. með aðkomu dómstóla og umboðsmanns Alþingis. Hitt er allrar umhugsunar vert hvort aðkoma þessara manna geri málið tengdara Framsóknarflokki heldur en öðrum flokkum.   

REI menn eru úr mörgum flokkum!

Það er alveg ljóst af fréttum liðinna daga að meðal eigenda að hinu nýja félagi eru margir menn tengdir öðrum stjórnmálaflokkum en Framsóknarflokki og flestir þeirra auðvitað Sjálfstæðisflokki enda er hann stærstur allra flokka. Tvö af um tuttugu til þrjátíu nöfnum athafnamanna sem hafa komið upp á yfirborðið í málinu tengjast Framsóknarflokknum. Það er sambærilegt hlutfall og væri í slembiúrtaki meðal þjóðarinnar, m.v. skoðanakannanir Gallup.   

 

Eru öll umferðarslys Kópavogsbúum að kenna?  863829e0fc8e0dcd88f44c6a63db836aa

Raunar er þessi fréttamennska sambærileg því ef að við alla umfjöllun um umferðarslys væri tekið fram ef einhver viðkomandi slysinu væri búsettur í Kópavogi en þar býr nú tæplega tíundi hluti landsmanna. Með því að tilgreina svo aldrei búsetustað annarra sem lenda í umferðarslysum fengi þjóðin fljótlega þá mynd að umferðarslys væru aðallega íbúum í Kópavogi að kenna, einfaldlega vegna þess að þeirra þáttar væri getið í að minnsta kosti tíundu hverri slysafrétt og aldrei talað um íbúa annarra hreppa. Umfjöllunin um Framsóknarþátt REI málsins einkennist þannig af ákveðinni krossferð og þjónar þeim tilgangi fyrst og síðast að festa í sessi ómaklegan spillingarstimpil á orðspori Framsóknarflokksins. Víst er reiði Sjálfstæðismanna gagnvart borgarstjórnarflokki Framsóknar mikil en réttlætir samt engan vegin þessi vinnubrögð.  

 

Óháð stofnunum flokksins

Þegar horft er á þátt einstakra stjórnmálamanna hafa menn á vegum Framsóknarflokksins vissulega komið að þessu máli en þá má það ekki gleymast að þeir hafa komið að því beggja vegna. Annarsvegar sem gerendur með samstarfsflokki og nú samstarfsflokkum í borgarstjórn. Og hins vegar sem gagnrýnendur en þar hafa bæði formaður flokksins, varaformaður og sá sem hér ritar talað mjög skýrt. Talsvert skýrar reyndar heldur en forysta Sjálfstæðisflokks. Málið sjálft varð einnig til án hlutdeildar formlegra stofnana Framsóknarflokksins.

Ég mun á næstunni fjalla nánar um Framsóknarflokkinn, sögu hans og almennan áróður um spillingu þess flokks. 

(Birt í Morgunblaðinu 26. okt. 2007 - Myndin er af umferðarslysi í Kópavogi. Ef því alltaf væri tekið fram þegar Kópavogur og menn þaðan kæmu við sögu umferðarslysa en önnur sveitarfélög ekki nefnd á nafn í slíkum slysafréttum fengi þjóðin fljótlega þá mynd að umferðaslys væri öll Kópavogsbúum að kenna. Slík er aðferðafræði þeirra sem vilja gera nafn hins gamla og góða Framsóknarflokks sem óhreinast. Myndin er tekin af einum af betri ljósmyndavefum netsins, steinar.is, en ljósmyndari þar er Steinar Hugi,- hnuplað þar en reyndar ekki að sjá að lagt sé bann við því á vef þessum - biðst annars forláts!)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Athugasemd Staksteina sl. sunnudag:

Stundum verða menn svo sjálfhverfir að þeir taka allt til sín, sem um er rætt, þótt efni umræðnanna snúizt um eitthvað allt annað.
Stundum verða menn svo sjálfhverfir að þeir taka allt til sín, sem um er rætt, þótt efni umræðnanna snúizt um eitthvað allt annað.

Dæmi um þetta er grein, sem Bjarni Harðarson, alþingismaður Framsóknarflokks (og einn sá athyglisverðasti úr þeirra röðum frá því að Guðni Ágústsson kom fram á sjónarsviðið) skrifaði í Morgunblaðið í gær.

Í grein þessari fjallar þingmaðurinn um umræður um málefni Orkuveitu Reykjavíkur og telur að þær snúi sérstaklega að Framsóknarflokknum vegna þess, að tilteknir einstaklingar, sem hafa gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn, eru hluthafar í Geysir Green Energy.

Það er algjör óþarfi hjá Bjarna Harðarsyni að taka þessar umræður til Framsóknarflokksins með þessum hætti.

Hins vegar er æskilegt, að þeir einstaklingar, sem um er að ræða geri grein fyrir aðkomu sinni að málinu, sem þeir hafa ekki gert, svo að ekki sé verið að saka Framsóknarflokkinn um að hafa haft einhverja milligöngu um það.

Eina ástæðan fyrir því, að einhverjir hafa í almennum umræðum tengt Framsóknarflokkinn eignaraðild umræddra einstaklinga að Geysir Green er hörð framganga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins í málinu.

Það þarf mikið að vera í húfi til þess að slíta meirihlutasamstarfi í borgarstjórn Reykjavíkur!

Og gera sjálfan sig áhrifalausan eða áhrifalítinn að auki.

Staksteinar (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 10:32

2 Smámynd: Hlynur Hallsson

Það er bara svona "Staksteinar" farnir að svara fyrir sig á bloggsíðu Bjarna Harðar. Hvernig væri það nú ef höfundur Staksteina kæmi úr felum og þorði að skrifa undir nafni. Það væru góð tíðindi af Mogga. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 29.10.2007 kl. 11:53

3 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Auð vitað reyna sjálfstæðismenn að gera allt sem þeir geta til að kenna öðrum um sitt eigið klúður í borgarstjórn Reykjavíkur.  Það var löngu vitað að stirt var orðið á milli borgarfulltrúa og Vilhjálms Þ. og spurning hvenær upp úr syði.  Því verður aldrei hægt að leyna að það var Guðlaugur Þór Þórðarson þáverandi stjórnarformaður OR sem beitti sér fyrir stofnun REI og Haukur Leósson sem tók við formennsku af Guðlaugi er sjálfstæðismaður og mikill vinur Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar.  Í hugum fólks er sama hvað sjálfstæðismenn reyna að þvo hendur sínar af öllum þessum mistökum þá tekst það aldrei.  Eini maðurinn sem virðist hafa unnið af heilindum í fyrrverandi meirihlutasamstarfi er Björn Ingi Hrafnsson, sem er nú á fullu með nýjum meirihluta, að þrífa upp allan skítinn og óþverrann sem íhaldið skildi eftir.  Þeir ættu að skammast sín og hafa vit á að steinhalda kjafti. 

Jakob Falur Kristinsson, 29.10.2007 kl. 14:38

4 Smámynd: Einar Vignir Einarsson

Sæll Bjarni

Takk fyrir þetta það er óhætt að ræða málin eins og þau eru ekki rétt.  það má líka ræða aðkomu annarra flokka að málinu.  það er spilling í öllum flokkum og það má ræða það og það mikið. 

Einar Vignir Einarsson, 29.10.2007 kl. 22:13

5 identicon

Bjarni,það þarf engum blöðum um það að flétta ef svo má að orði komast,spilling í þessum flokki þínum er landsþekkt,og er hún spillingin að aukast.Ef einhver alvöru rannsóknarblaðamaður er til ,þá er hægt að komast að ýmsu.En valdahrottarnir sem eru að sópast saman í Framsóknarflokknum eru varasamir.

Jensen (IP-tala skráð) 29.10.2007 kl. 22:27

6 identicon

Já já, auðvitað erum við framsóknarmenn spiltir, en hinir eru það líka! Er þetta boðskapurinn sem þú ert að færa okkur með þessu bloggi? Framsóknarflokkurinn lyktar af spillingu langt aftur fyrir rei málið, gaman væri ef þú gerðir okkur grein fyrir því hvernig þessir ónefndu spilltu framsóknarmenn hafa hagnast í gegnum tíðina og fram til þessa dags. Segðu okkur söguna alla Bjarni. 

sax (IP-tala skráð) 30.10.2007 kl. 06:01

7 identicon

Jóhann og Gunnar Þór

Er ekki kominn tími til að slappa af ?

Kannski eruð þið of litaðir af því að "ykkar" flokkur sé svo frábær - hver svo sem hann er - Að þið virðist bara alls ekki ná því að Framsóknarflokkurinn hefur mjög oft á undanförnum árum verið hengdur í fjölmiðlum, þið vitið þessum sem styðja annarsvegar Sjálfstæðisflokkinn og hinsvegar Samfylkinguna.

Staðreyndin er sú að frá ca. 1950 hafa þrír flokkar skipt gæðum landsins á milli sín og sá fjórði verið meira en reiðubúinn til að taka þátt í því þegar tækifæri hefur gefist.

Þannig er það og þarf ekkert að hafa verið slæmur hlutur þar sem "in theory" hafa þessir flokkar verið fulltrúar fólksins í landinu.

Ef þið náið ekki upp í nef ykkar yfir því að menn tengdir Framsóknarflokknum stundi viðskipti ættuð þið að minnsta kosti að vera samkvæmir sjálfum ykkur og bölsóttast jafn harkalega útí aðra athafnamenn fyrir að vera tengdir öðrum stjórnmálaflokkum.

Að lokum finnst mér það virðingarvert að Bjarni hafi opið fyrir athugasemdir á síðunni sinni - væri ekki eðlilegt að endurgjalda honum traustið og halda umræðum í athugasemdakerfinu á málefnalegu nótunum ? Eða að minnsta kosti undirbyggja fullyrðingar um "varasama valdahrotta" með einhverju öðru en því að treysta á að allir taki því sem DV og mismálefnalegir bloggarar tyggja upp eftir hvor öðrum.

Barði (IP-tala skráð) 30.10.2007 kl. 14:03

8 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Það er bara gott hjá Bjarna að hefja mál á þessu/það á að ræða málin af skinsemi ekki alltaf á annan vegin/ flokkar beitast ekki allaf með nýjum nöfunum og svo frv.en Framsókn hefur ekki skift um nafn ,bara menn/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 30.10.2007 kl. 15:19

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Með fádæma dugnaði, ósérhlífni og síðast en ekki síst óheilindum hefur íhaldinu tekist að nudda allri eigin spillingu á Framsóknarfl.

Spilling og græðgi hefur verið næring íhaldsins frá fyrstu dögum og þeim til happs hafa frammarar ævinlega átt nokkra álíka athafnamenn líka.

Þegar þessir flokkar tveir ákváðu að koma frjálshyggjuaflinu til fullnustu á Íslandi og skipta um leið með sér auðlindum þjóðarinnar fóru frammarar halloka að vonum. Þeir áttu engan Hannes Hólmstein né heldur Kjartan Gunnarsson.

Samt eru sjallarnir fúlir. Þeim fannst,- og finnst enn að þeir hafi átt að fá þetta einir.

Ég ber nú pínulitla virðingu fyrir Birni Inga. Ég held að hann hafi beitt svolitlum refshætti í samskiptum við Villa Þ. Villi vissi ekki annað en það væri hefð fyrir því á Íslandi að í öllum stórum samningum um afsal samfélagseigna væri kaupréttarsamningur fyrir ákveðna menn og þeir ættu að vera á þægilegum kjörum.

Hann vissi ekki heldur annað en að allir samningar sem ritaðir væru á ensku hlytu að vera pottþéttir.

Ég trúi því að þeir Guðni og Bjarni eigi eftir má af flokknum það óorð sem við hann festist í tíð Halldórs og Finns. Það er að sönnu mikið verk og það er mikið undir í því að flokkurinn verði áfram undir forystu Guðna. Verði sú ekki raunin á næsta flokksþingi þá á Framsóknarflokkurinn ekki erindi lengur í stjórnmálum á þessu landi.

Takið hinni postullegu kveðju!

Árni Gunnarsson, 31.10.2007 kl. 00:41

10 identicon

Sæll, Bjarni og aðrir skrifarar !

Tek undir hvert orð, með Jóhanni Erni ! 

Barði ! Þú ert; dæmigerð fylgirödd meðalmennskunnar, hver tekur ekki hið minnsta, á svínaríi Halldórs tímabilsins, sem og þeirra Steingríms Hermannssonar og Ólafs Jóhannessonar. Spilling; í öðrum flokkum réttlætir ekkert óþverrann, innan Framsóknarflokksins. Reyndu svo, viðlíka ýmsum öðrum, í já- kór Bjarna, að koma fram, undir FULLU nafni.

Árni ! Hygg; að þeim Bjarna takist seint, að afmá sóða stimpil flokks síns, með álægjur, eins og þau Valgerði Sverrisdóttur og Björn Inga Hrafnsson innanborðs. Furðuleg, blinda manna, fyrir þessum ósköpum öllum.

Hitt er annað; Barða hálfnefningi til forsorgunar, að víst þarf, að taka; óþyrmilega, á spillingar dammi annarra flokka, hver víða liggur í landi. 

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi vestur / Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 01:57

11 identicon

Sæll Óskar,

Ég þakka hlýleg orð í minn garð.

Hef aldrei skammast mín fyrir að vera meðalmaður - ég hlusta á Bubba Morthens og Bob Dylan því til sönnunar -

Ég sé ekki hverju það breytir þig að vita hvert fullt nafn mitt er en ef þér að því einhver fróun þá máttu vita að ég heiti

Barði Erling Barðason

Annars stendur það allt sem ég sagði og þú mátt alveg kalla Valgerði og Björn Inga "álægjur" ef þér er einnig einhver fróun í því. Ekki þekki ég þau en vill þó benda á það sem mér var kennt ungum að aðgát skal höfð í nærveru sálar og það er fullreynt af hatursmönnum Framsóknarflokksins að tala forystufólk fólksins til þess að brotna saman og hætta, svo ég skil ekki alveg tilganginn í þessum allrahanda blammeringum.

Barði (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 16:44

12 identicon

Sæll, Bjarni og aðrir skrifarar !

Barði Erling ! Þakka þér, skorinorð svör, en,....... enga aðgát vil ég hafa, í návist eða fjarveru Valgerðar, né Björns Inga. Megin ástæða gremju minnar, ekki einasta út í Framsóknarflokkinn, heldur og ekki síður hina er; sú þjófnaðarbylgja, sem hann átti hlutdeild að, á sínum tíma; OG Á ENN, fyrir aðförinni að mér, og minni kynslóð, með ''verðbótum'' lánanna og ofurvöxtunum. 

Á sama tíma, og kynslóðin, fyrir ofan okkur; var, og er enn að borga, ársfjórðungslega 300 - 400 krónur, af lánum sínum, þá skulum við, þessi yngri vera að borga tugi þúsunda króna, mánaðarlega. Hvert er réttlætið; Barði Erling Barðason ???

Geti; og geri síðuhafi, Bjarni Harðarson bragarbót á þessum óþverra, með setu sinni á Alþingi, Barði, jah....., þá væri vel, um framtíð og hag okkar, að nokkru.

Barði ! Skora á þig, að gaumgæfa það, sem ég hefi sagt hér, í fáum orðum, um þann viðbjóð, sem, m.a., Framsóknarflokkurinn hefir staðið fyrir, þarna á ég ónefnt, t.d. fiskveiðikerfið m.a.

Ég á 4 systkini, búsett á Norðurlöndunum. Ég mun aldrei; gerast sá ódrengur, að hvetja þau til, að flytja heim, í óþverrann hér heima á Fróni !!! 

Eflum þungavigtarsveit Frjálslynda flokksins, sem verðugt er, til allra góðra viðfangsefna, Barði. Þá kynni að rofa til, að nokkru.

Mbk., sem fyrr / Óskar Helgi Helgason     

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 17:54

13 identicon

Það verður ALDREI ALDREI hægt að þrífa innan úr Framsóknarflokknum,ALDREI sama hvað Bjarni Harðarson heldur.

Jensen (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 00:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband