Skarpari Framsóknarflokk...

IMG_9491

(Um helgina héldum við Framsóknarmenn í Suðurkjördæmi okkar kjördæmisþing austur á Hvolsvelli sem var bæði vel sótt, hreinskilið og skemmtilegt. Þar var Birgir Þórarinsson í Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd kjörinn nýr formaður sambandsins en hann sést hér ásamt fráfarandi formanni Guðmundi Elíassyni og Guðna Ágústssyni formanni flokksins. Hér á eftir birtist ræða sem ég flutti um Framsóknarflokkinn á hátíðarfundi á föstudagskvöldinu. Sleppt er formálsorðum sem fjölluðu aðallega um samlífi okkar Bergs Pálssonar í Hólmahjáleigu sem deildi með mér herbergi á þinginu fyrir ári...) 

...Hver er vegferð Framsóknarflokksins.

Framsóknarflokkurinn hefur gengið í gegnum sínar erfiðustu kosningar allrar sinnar 90 ára sögu og slík niðurstaða kallar á umræðu og endurmat sem standa mun allt þetta kjörtímabil.

Þar með er ekki sagt að kollsteypur eða byltingar séu framundan í stefnumálum Framsóknarflokksins, það teldi ég ekki heppilegt. En ég tel nauðsynlegt að skerpa á stefnumálum Framsóknarflokksins, fornum og nýjum. Framsóknarflokkurinn er svo sannarlega ekki á leiðinni að verða lítill staðnaður flokkur sem einskorðar sig við stefnumál landsbyggðar eða hagsmuni hennar. Þvert á móti mun flokkurinn nú sem fyrr stefna fram sem aldrei fyrr sem nútímalegur framsækinn flokkur með sterka áherslu á frjálslynda þjóðlega umbótastefnu á miðju hins íslenska litrófs.

 

Samvinnuflokkur að fornu og nýju 

Rætur Framsóknarflokksins liggja í samvinnuhreyfingunni sem var neytendahreyfing síns tíma gegn ævivaldi einokunarverslunar og auðvaldi þess tíma. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Við Framsóknarmenn 21. aldarinnar teljum að nú 100 árum síðar sé ekki síður þörf á sterkri hreyfingu neytenda og aðhaldi gagnvart vaxandi fákeppni. Neytendavernd og barátta gegn fákeppni verður þannig áhersluatriði Framsóknarflokksins á nýrri öld.

Hluti af baráttunni fyrir hag neytenda er að flokkurinn standi vörð um velferðarkerfið. Þar er stórt verkefni framundan að veita aðhald þeirri endurskoðun á allri trygginga- og lífeyrislöggjöf landsmanna sem ríkisstjórnin hefur nú hrundið af stað undir forystu frjálshyggjutalsmanns Sjálfstæðisflokksins, Péturs Blöndal. Baráttumál samtímans eru varðstöðu gagnvart kostnaðarþátttöku almennings í heilbrigðis- og menntakerfi landsmanna og krafa samtímans er vitaskuld að öll menntun, frá leikskóla til loka skyldunáms verði gjaldfrjáls.

 Skuggahliðar þenslunnar

Nátengt baráttunni fyrir framgangi neytendamála er vitaskuld áherslan á aukinn jöfnuð í samfélaginu. Hin mikla efnahagslega uppsveifla liðinna ára sem Framsóknarflokkurinn á mikinn þátt í og er með réttu stoltur af á sér sína galla eins og öll mannanna verk. Þann stærstan að hafa stuðlað að stórlega aukinni misskiptingu auðs í okkar litla samfélagi og áður óþekktu bili milli stétta.  Þó svo að allur almenningur hafi notið góðs af uppsveiflunni í kjörum sínum fylgir hinum óhefta kapítalisma líka dýrtíð og harðandi lífsgæðakapphlaup. Stórlega hækkandi verð á fasteignum, gríðarleg skuldasöfnun heimilanna og þensla sem haldið er uppi með handafli af gróðaöflum landsins. Allt er þetta áhyggjuefni sem Framsóknarflokkurinn þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar og athugunar. Í því er ekki fólgin nein gagnrýni á störf okkar í samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks heldur eðlilegt framhald og eðlileg pólitísk glíma við verkefni samtímans.

Það mætti á stundum ætla að eini liðsmaður Sjálfstæðisflokksins sem gerir sér fyllilega grein fyrir þessu vandamáli sé fyrrverandi formaður þess flokks og núverandi seðlabankastjóri. Í hans hefur komið að standa einn á handbremsu ofþenslunnar og dugir hvergi til. Það er mikill misskilningur að á Íslandi sé aðeins vandi á landsbyggðinni vegna of lítilla umsvifa þar. Vandamálasvæðin á Íslandi eru tvö og samverkandi, ofþenslusvæði höfuðborgarinnar sem kostar alþýðufólk á því svæði miklar fórnir í háu húsnæðisverði og dýrtíð. Hitt er samdráttarsvæði landsbyggðarinnar.

Framsóknarflokkur 21. Aldarinnar þarf vitaskuld að vera trúr þeirri köllun sinni að standa vörð um hag landsbyggðarinnar, bæði sjávarplássanna og sveitanna og leggja nú sem fyrr áherslu á að halda byggðahringnum á Íslandi. Sú barátta er brýnni í dag en nokkru sinni og ljóst að á dögum erfiðleika í sjávarútvegi er enn brýnna að Framsóknarmenn standi hér vörð og herði enn á frá því sem verið hefur í sinni byggðapólitík og baráttu fyrir jafnrétti millum landshluta.

 

Fullveldisbarátta í gunnfána flokks

Í gunnfána hugsjóna Framsóknarflokksins er að fornu og nýju barátta fyrir fullveldi þjóðarinnar sem mörkuð var með sjálfstæðisbaráttu, lýðveldisstofnun og eitilharðri baráttu okkar fyrir útfærslu landhelginnar. Við hvert skref hafa heyrst úrtöluraddir og hrakspár um að við séum til þessa of fáir og smáir til að standa á eigin fótum. Efnahagslegir stórsigrar hinnar litlu þjóðar hafa aftur og aftur gert hrakspár þessar heimaskítsmát en þær vakna þó alltaf með hverri nýrri kynslóð. Saga 20. aldar undirstrikar nauðsyn þess að við stöndum áfram fast í fæturna þegar kemur að umræðu um fullveldi og frelsi landsins.

 

Þegar kemur að umræðunni um aðild landsins að Evrópusambandinu á Framsóknarflokkurinn að tala skýrar en gert hefur verið. Marka ber flokknum stefnu þar sem staðið er föstum fótum í fullveldi og frelsi jafnframt því að unnið sé að opnun viðskiptalandamæra. Slík afstaða útilokar engan vegin skoðanaskipti innan flokksins og þar má benda á að meðal annarra flokka, bæði hérlendis og erlendis, sem hafa haft mun skýrari stefnu í þessum málum hafa engu að síður verið skiptar skoðanir meðal flokksmanna. Stefnuleysi Framsóknarflokksins í þessum málaflokki hefur að mínu viti reynst honum afar dýrkeypt.

Varðandi gjaldeyris og gengismál er okkur mikilvægt að halda í þau hagstjórnartæki sem innlendur gjaldmiðill er,- svo lengi sem það telst fær og skynsamleg leið. Við verðum jafnframt að vera opin fyrir breytingum á alþjóðamarkaði þar sem margir spá fækkun gjaldmiðla á næstu árum og áratugum en íslenska krónan er einn minnst ef ekki alminnsti fljótandi gjaldmiðill heims. Í þessum efnum er brýnt að horfa vítt til hagsmuna atvinnulífs og neytenda og horfa of heim allan þannig að litið sé á fleiri kosti en upptöku Evrunnar ef aðstæður knýja okkur til þess að láta af sjálfstæðri myntsláttu. Hnattræn staða Íslands og breytingar á siglingaleiðum í heiminum geta skapað þjóðinni ómetanlega möguleika sem miðstöð milli hins vestræna og hins austræna. Við þær aðstæður og sókn Íslendinga í austurvegi er mikilvægt að loka hagkerfið ekki inni í tolla- og regluverksmúrum stórvelda.

Framsóknarflokkurinn er flokkur atvinnulífs, flokkur jákvæðrar uppbyggingar og samvinnu byggða, stétta og atvinnugreina. Eitt af mikilvægustu verkefnum stjórnmálanna er að tryggja hag atvinnulífsins með einföldu og skilvirku stjórnsýslukerfi sem sniðið er að þörfum fólksins fremur en að líf fólks sé sniðið að regluverkinu.

 

Baráttan við spillinguna

Í umræðu um siðferði og spillingu í stjórnmálum hafa margir talið sig hafa skotleyfi á Framsóknarflokkinn og margt í þeirri umræðu svo fjarri öllum raunveruleika að varla tekur því að gera að umfjöllun. Þar er þó enginn dómari í eigin sök og víst er um það að siðferði í viðskiptum og stjórnmálum er víða ábótavant á Íslandi og um sumt lakara en í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við.

Svar Framsóknarflokksins við gagnrýni almennings getur aldrei verið að fara í karp um liðna daga heldur hlýtur það að vera hlutverk okkar að taka undir með þeim almennum línum að hér sé úrbóta þörf. Flokkurinn á þannig að vera í fararbroddi fyrir bættu siðferði stjórnmála og atvinnulífs án þess að leggja mat á verk og sögu forvera okkar. Í því felst skýlaust að einstakir flokksmenn geta ekki vænst þess að eiga skilyrðislausa vernd og samtryggingu innan flokks þvert á almenningshagsmuni.

(Umrædd orð urðu til þess að ég var síðar á fundinum spurður um REI málið sérstaklega og sagði þá m.a.: Ég geri mér fulla grein fyrir að einhverjir hlutu að súpa hveljur yfir þeim orðum sem ég lét falla um svokallað REI mál og tek fúslega við skömmum þar um enda fengið þegar þakkir mjög margra málsmetandi manna innan okkar góða flokks, því meiri sem menn hafa verið betur áttaðir á alvarleika þessa máls. Í stjórnmálum er eðlilegt og sjálfsagt að stjórnmálamenn komi flokksbræðrum sínum til liðsinnis í erfiðum pólitískum málum og sýni flokkslega samstöðu þegar reynir á. Þetta á við í öllum pólitískum málum og ég taldi það því eiga við þegar skipt var um meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur nú á haustdögum. Þegar kemur aftur á móti að aðdraganda þess að upp úr meirihlutasamstarfi flokkanna slitnaði og hinni einstæðu gjörð þar sem stór hluti af orkufyrirtæki almennings var með mjög óvanalegum hætti kominn í einkaeigu fárra manna þá tel ég að þar sé hin flokkslega samstaða í hæsta máta óviðeigandi. Samstaða stjórnmálamanna og flokksbræðra má aldrei verða þeirri skyldu og sannfæringu hvers stjórnmálamanns að verja hagsmuni almennings. Það sem fyrir mér vakti með afskiptum af þessu máli sem er vissulega utan míns kjördæmis var að firra Framsóknarflokkinn skaða af málinu og því fer fjarri að ég hafi þar staðið einn með mína afstöðu. Ég lét málið brjóta á mér og tel mig ekkert of góðan til þess þó að þau átök og glósur sem fylgt hafa hafi ekki verið mér sársaukalaus. Um leið lá fyrir að engir af þingmönnum flokksins færu vafasömu ferli REI- málsins til varnar og fyrir þá gæfu getum við Framsóknarmenn verið þakklátir. Þeir sem gagnrýna mig geta spurt sig að því í tómi hversvegna engir þingmenn eða málsmetandi menn flokksins hafa látið mál þetta til sín taka. Máli þessu er fráleitt lokið og ég óttast enn um orðspor borgarstjórnarflokks Framsóknarflokksins í þessu máli. Hér gildir hið fornkveðna að við skulum vona það besta – en vera viðbúin hinu versta.)

 

Auðlindir í eigu fólksins 

Íslendingar eru fáir að tiltölu í stóru og um margt gjöfulu landi sem býr yfir miklum náttúruauðlindum. Það hefur verið stefna Framsóknarflokksins að nýting auðlinda landsins sé best komið hjá atvinnulífinu en eignarhald auðlindanna sé fólksins, ríkis og sveitarfélaga. Það er mikilvægt að skerpa á þessari stefnu og gæta dyggilega að hagsmunum almennings gagnvart aukinni ásókn alþjóðlegra hlutafélaga í þessum efnum,- hvort sem um er að ræða háhita í iðrum jarðar, orku fallvatna á miðhálendinu  eða auðlindir sjávar.

Íslandi allt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

BJARNI HARÐASON ER AÐ GRÍNAST:

Jensen (IP-tala skráð) 4.11.2007 kl. 21:59

2 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Þessar hugleðingar þínar Bjarni eru í tíma töluð og mjög margt af
því sem hægt er að taka undir.

Þjóðin vantar Framsóknarflokks með skýra stefnu í  öllum þeim málum sem þjóðinni varðar, ekki síst á tímum mikillar alþjóðavæðingar og gróðrahyggju.

Sem ÞJÓÐLEGUR miðjuflokkur á Framsóknarflokkurinn að standa
VÖRÐ um íslenzka þjóðmenningu, tungu, og fullveldi og sjálf-
stæði Íslands. Flokkurinn verður því að hafa SKÝRA og afdrátta-
lausa stefnu í Evrópumálum, nokkuð sem skort hefur á í
seinni tíð, og sem stórskaðað hefur flokkinn. Stefnu sem alfarið
hafnar aðild að  Evrópusambandinu.

  Flokkurinn á að standa vörð að helstu auðlindir landsins og að
þær verði í þjóðareign. Flokkurinn á nú í stjórnarandstöðu að nota tækifærið og umbylta stefnu sinni í sjávarútvegsmálum. Núverandi fiskiveiðistjórnunarkerfi hefur beðið skipbrot. Það á
að afleggja hið gjörspillta kvótakerfi. Þá ber að umbylta land-
búnaðarkerfinu til hagsbóta fyrir neytendur og bændur.
Íslenskur landbúnaður á mikla framtíð fyrir sér.

Framsóknarflokkurinn á að gerast málsvari neytenda og hins
almenna borgara eins og þú Bjarni leggur áherslu á. Tilkoma
samvinnuhreyfingarinnar í breyttri mynd er þar áhugavert
umhugsunarefni. Gæti orðið sterkt andsvar gegn yfirþyrmandi
einokun gróðraaflanna í dag á allt of mörgum sviðum í íslenzku
viðskiptalífi.

   Þannig. Þjóðlegur Framsóknarflokkur sem ber hag íslenzkra
borgara fyrst og fremst fyrir brjósti, og að fullveldi og sjálfstæði
Íslands verði tryggt,  yrði flokkur sem virkilega ætti erindi við hina
íslenzku þjóð í byrjun 21 aldar.

  Flokkurinn þarf því sem fyrst að fastmóta slíka stefnu og
kynna hana og úskýra á sem skýrastan og einfaldastan hátt.

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 5.11.2007 kl. 10:39

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Las þetta vel yfir Bjarni,og er bara að mörgu leiti sammála /Batnandi Mönnum er best að lifa/og horfa til framtíðar það er málið/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 5.11.2007 kl. 12:26

4 identicon

Það er þörf ástæða fyrir Framsóknarflokkinn til að fara í naflaskoðun, það þurfa allir flokkar að gera reglulega. Flokkur sem hefur starfað í yfir 90 ár getur ekki enn haft það á stefnuskrá sinni að berjast fyrir sjálfstæði frá Danaveldi, eða hvað??? 

Það eru líka ýmsar áleitnar spurningar allt um og í kringum flokkinn sem bíða eftir svörum og aðgerðum. Ein þeirra er af hverju er fylgi flokksins ekki meir en raun ber vitni á Stór-Reykjavíkursvæðinu?  Og önnur er af hverju hættir fólk sem flytur á mölina úr dreifbýlinu allt í einu að kjósa Framsóknarflokkinn? 

Auðvitað þegar flokkurinn er svona ofarlega í hugum allra þá koma tímabil sem skipta má í hæðir og lægðir og nú er lægð, kannski vegna þess að nýasta taktíkin í pólutíkinni er að persónugera alla skapaða hluti og skrumskæla út frá mjög þröngu sjónarhorni, nokkuð sem Framsóknarmenn hafa ekki enn tamið sér að gera, lof sé því. Þannig er REI Birni Inga að kenna, kvótinn er Halldóri að kenna, já og lakkrísinn líka, auðvitað os.frv. Ekki að það skipti máli að REI, kallað PÚFF um þessar mundir er barn og barnabarn Sjálfstæðismanna og breytingar til óheilla á kvótakerfinu voru annarra flokka gjörðir.

Við skulum ekki heldur gleyma þætti fjölmiðla. Ég tek nú eftir fréttaþögn í fjölmiðlum um stríðið í Írak, af hverju? Pólutískt grín er nánast horfið úr Spaugstofunni, af hverju? Máttlaus er umræða umhverfisverndarsinna eftir því sem álverin nálgast suðvesturlandið, af hverju? os.frv.

Jú það er alveg nauðsynlegt að Framsóknarflokkurinn fari í gegnum naflaskoðun, nái áttum og sátt um fortíðina (sem hann getur verið stoltur af) og seti stefnuna á framtíðina en það má ekki  alveg horfa framhjá þeim óvægnu og ómálefnalegu árásum, stundum vel undir beltisstað, sem dunið hafa á Framsóknarflokkinn síðustu árin, bæði innan og utan frá.

Gísli Guðmundsson (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 15:49

5 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Það sem mun ráða úrslitum um framtíð Framsóknarflokksins í næstu kosningum er hvort skipt verður um formann og varaformann, í síðasta lagi eftir eitt og hálft ár.Birni Inga og Sæunni verði skipt inn á í staðinn fyrir Guðna og Valgerði.

Sigurgeir Jónsson, 6.11.2007 kl. 20:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband