Spilling í stjórnmálum og aldur stjórnmálaflokka

Í ástum og stríði hefur aðeins einn rangt fyrir sér. Það er sá sem tapar. Sama á að breyttu breytanda við í pólitík sem er kannski sambland af þessu tvennu, ástarsjarmör frambjóðenda og hjaðningavígum keppinauta.

Framsóknarflokkurinn hefur ekki farið varhluta af hinum kalda raunveruleika og títt er að almenningur telji flokk þennan öðrum flokkum fremur einkennast af spillingu og fyrir vikið talinn hugsjónum firrt hagsmunastía. REI - málið svonefnda hefur ýtt undir þessa umræðu en ég fjallaði nokkuð um þá endileysu að kenna Framsókn í heild um það mál í síðustu grein. Hér verður horft lengra í söguna.

 

Aldraður og því spilltur?

Framsóknarflokkurinn er elstur íslenskra stjórnmálaflokka, kominn á tíræðisaldur og hefur marga fjöruna sopið. Það mun ekki ofmælt að öll stjórnmálasaga Íslendinga frá millistríðsárunum sé lituð af þessum flokki sem muna má fífil sinn fegri og hefur komið að allri uppbyggingu samfélagsins í smáu og stóru.

Menn geta svo deilt um hvort vel eða illa hafi til tekist og miðað við hugmyndir manna um himnaríki er Ísland svo sannarlega ófullkomið ríki. En sé horft til annarra þessa heims ríkja, ungra og gamalla, hefur harla vel til tekist. Gildir þá einu hvort horft er til hagsældar, lýðræðisþróunar, menntunar, jafnræðis þegna eða jafnrétti kynjanna. Ísland 21. aldarinnar er grundvallað af stórhuga og fátæku hugsjónafólki sem kom úr frumstæðu bændasamfélagi með vonina eina að vopni. En auðvitað má enn gera miklu betur.

Aldurinn einn og mikil ítök í íslenskum stjórnmálum dugar því illa til að klína á Framsóknarflokkinn spillingarstimpli og halda því fram að flokkur okkar eigi sér engar hugsjónir. En þar er annað sem ræður nokkru um stimpilinn.

 

Engar útópíur

Það eru kallaðar útópíur framtíðarlönd þau sem hugsjónamenn eiga til að smíða í sófum sínum. Frægast í slíkri smíð eru draumalönd sósíalista sem snerust hvevetna í veröldinni upp í martröð. Eftir stóð þó að þeir sem draumanna áttu voru taldir miklir hugsjónamenn þar sem þeir köfðu ofan í gulnuðum Marxismanum.

Á sama tíma og allt eins í dag hafa frjálshyggjupostular á hægri kanti trúað á útópíu hins algera frjálsræðis í efnahagsmálum þar sem sá sterkasti hefur ætíð sigur og dreifir silfrinu af góðmennsku sinni og gróðafíkn til alþýðunnar.

Meðan báðir þessir hafa verið iðnir við að mála upp hita sinna hugsjóna og ömurleika samtímans strituðu Framsóknarmenn í íslenskri mold án þess að hafa þar önnur háleitari markmið en að gera gott sem fyrir var betra - með brjóstvitið eitt að vopni. Og hefur orðið vel ágengt meðan hinir skipta um markmið eins og sokka.

 

Lítill en samt valdamikill

Stærstur glæpur Framsóknarflokksins og sá sem ef til vill á mest í hinum þráláta spillingarstimpli er þó smæð flokksins og mikil völd hans þrátt fyrir smæðina. Er þar komið að hinu gamalkunna að hver sá sem tapar í kosningum hefur vitaskuld haft rangt við!

Nú er það auðvitað frumskilyrði að flokkur virði lýðræðislega niðurstöðu kosninga. Af þeirri ástæðu meðal annars töldum við margir Framsóknarmenn erfiða göngu inn í áframhaldandi stjórnarsamstarf þrátt fyrir að ríkisstjórnina sáluga hafi haldið velli með eins manns meirihluta.

Um hitt verðum við ekki sakaðir að vera þar staddir í öfgalausri miðju íslenskra stjórnmála að flokkar jafnt í landsstjórn sem sveitarstjórnum telja hag sínum og sinna umbjóðenda oft og einatt best borgið með samstarfi við Framsóknarflokkinn. Það liggur einfaldlega í því að þar með ganga menn skynsamlegu meðalhófi á hönd og það er misskilningur að Framsóknarflokkurinn hafi legið hundflatur undir Sjálfstæðisflokki í 12 ár. Miklu nær sanni er að Framsóknarmönnum tókst oftar en ekki að laða fram það besta og framsóknarlegasta í Sjálfstæðisflokknum í 12 ára stjórnartíð þó oft hefðum við mátt ná meiri árangri. En um spillingarstimpilinn og leikmenn Framsóknarflokksins mun ég fjalla í næstu grein.

(Birt í Mbl. sl. sunnudag.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki er öll vitleysan eins. Maður hlær svona, ja svona í gegnum nefið :)
Hvernig er með landbyggðarþingmanninn, ætlar hann að spyrja áhugasama útrásarmenn hvort ekki sé sama eða meiri gróðavon í verkefnum innanlands? Skyldi enginn vilja taka áhættu og fjárfesta í íslenskri uppfinningu, fullvinnslu afurða, hagkvæmari búskaparháttum eða slíku? Eða á einungis að bíða eftir að þingmenn skaffi meira af almannafé í slíkt - eins og jafnan. Það virðist auðveldast. En kannski er réttast að halda sig við gufuna, hún á jú að skaffa tíu (Björn Ingi), fimmtíu (Dagur) eða þúsund (Össur) milljarða. Hvaðan kemur annars orðið búskaparhættir? Virðist óttalegt orðskrípi.

-sigm. (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 05:51

2 Smámynd: Einar Ben Þorsteinsson

Talað úr mínu hjarta -sigm.

Einar Ben Þorsteinsson, 8.11.2007 kl. 14:40

3 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Þú kemur alltaf meir og meir á óvart Bjarni í jákvæðum skilningi. Ég sem maður framsóknar á öllum sviðum sendi þér baráttu kveðju.

Þorkell Sigurjónsson, 8.11.2007 kl. 15:39

4 Smámynd: Kristján Eldjárn Þorgeirsson

Það var skrýtið með síðasta ríkisstjórnarsamstarf, að framsókn var kennt um allt sem miður fór og oft á tíðum leit út eins og Framsóknarflokkurinn hefði verið einn við völd í landinu, allavega var það matreitt þannig, af stjórnarandstöðu og fjölmiðlum, ofan í landsmenn, sem svo refsuðu Framsóknarflokknum á meðan Sjallar silgdu lignan sjó í gegn um kostningarnar.  Það var þetta, ásamt mörgu öðru, sem ég ætla ekki að tíunda hér, sem kom flokknum í þessa stöðu sem hann er nú í.

Kristján Eldjárn Þorgeirsson, 9.11.2007 kl. 23:53

5 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Aþýðuflokkurinn sálugi var jafngamall Framsóknarflokknum.Hann dó drottni sínum fyrir 8 árum.Af hverju. Framsóknarflokkurinn á sín sóknarfæri á hverjum þeim tíma sem uppi er, ekki í fortíðinni.En að sjálfsögðu er öllum hollt að horfa til fortíðar til þess að geta lært af henni. Sá forystumaður  Framsóknarflokksins sem stendur upp úr af öllum forystumönnum Framsóknarflokksins, er Jónas frá Hriflu.Hann var alltaf maður nútíðar, horfði alltaf fram eins og framsóknarmenn eiga að gera,leit ekki aftur.Hann leit líka til annara landa og vildi eiga við þau samstarf ef það gæti orðið fólkinu í landinu til hagsbóta.Til þess að Framsóknarflokkurinn geti aftur orðið sterkur flokkur þurfa framsóknarmenn að finna nýjan Jónas sem hefur alla hans kosti en enga hans galla. 

Sigurgeir Jónsson, 10.11.2007 kl. 10:46

6 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Satt og rétt eins og ávalt...

Eiður Ragnarsson, 10.11.2007 kl. 19:54

7 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Fannst Guðni kenna valdaskessum og dauflegum körlum um ástand flokksins í sjónvarpinu áðan. Hann náði sjálfur ekki hinum orkuríka ham fornmannsins, sem stundum hefur reddað honum inn í að vera skemmtilegur.  - En ert þú ekki brattur? - Þetta hlítur að vera argaþras á stundum og nauðsynlegt að hafa hæfileikann til að vera snöggur að setja nýtt lag á fóninn - fremtidsmusik - .

Gunnlaugur B Ólafsson, 10.11.2007 kl. 21:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband