Framsóknardyggðir og framtíðarsýn Framsóknar

(Ræða flutt á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í Ketilhúsinu á Akureyri laugardaginn 10. nóvember. Birtist hér í fullri lengd en var stytt nokkuð í flutningi þar nyrðra vegna eðlilegra takmarkana á ræðutíma. Hér hefur millifyrirsögnum líka verið bætt inn til að gera textann allan læsilegri. Margar gagnlegar ábendingar fékk é g á fundinum, bæði í spjalli og úr ræðustól sem ég felli ekki inn í þennan texta en sumt hefur áhrif á það hvernig ég mun skrifa um sömu mál í blöðum á næstu dögum og mánuðum. Fundurinn var allur hinn ánægjulegasti og einkar vel til fundið að halda fundi sem þessa utan höfuðborgarsvæðisins þar sem ákveðinslökun og skynsemi færist jafnan yfir þegar út fyrir mesta stresspottinn kemur. Móttökur Norðanmanna voru frábærar og ekki voru veðurguðirnir Eyfirsku lakari!)

Fyrir um ári síðan sagði við mig viðskiptavinur í bókabúð þeirri sem ég rek á Selfossi að kona sín væri haldin framsóknardyggðum, eiginlega afsakandi um leið og hann rétti mér greiðslu bókar í beinhörðum peningum. Framsóknardyggðin var semsagt að nota reiðufé í stað plasts...

Ég hváði svolítið við og fór eftir þetta að spyrja eina og aðra hvort þeir þekktu þetta hugtak, framsóknardyggðir og það var nú frekar fátíðara. En orðið, - með þessari samsetningu á dyggðum og framsókn var engu að síður merkingarbært fyrir þessu fólki og vakti mig til umhugsunar. Þeir voru vitaskuld til sem reyndu að leggja í orð þetta neikvæða merkingu einhverra  klækimennsku stórkalla.

Hinir voru þó miklu fleiri sem af vinsemd nefndu í gamansömum tón dyggðir eins og þjóðrækni, sparsemi, hófsemi, ættrækni og trúmennsku fyrir nú utan þá sem komu með spaugileg dæmi eins og það að ganga í stígvélum og lopapeysu, borða slátur, rækta kartöflur eða éta svið. Og sárasjaldan voru menn mjög ósammála í fjörlegum umræðum sem um þetta spunnust og ég gætti mín sem aldrei áður að vera hér fremur hlustandi en veitandi í orðapottinn.

310101

Einhverjum kann að þykja það ganga vitleysu næst að ræða um svo léttvæga hluti sem þessa á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins. En eins og þeir þekkja sem lagt hafa stund á mannfræðigreinar að þá er yfirleitt mest alvara umræðunnar fólgin í vel heppnuðum gamanmálum. Gamanmál sem hitta eru mörkuð hinni römmu speki að þeim fylgir nokkur alvara.  Gamanmálalaus umræða er miklu oftar sennileg til að vera líka merkingarlaus og algerlega sambandslaus við umhverfi sitt og veruleikann.

En þessir undarlegu sleggjudómar um framsóknardyggðirnar hafa nú velst þráfaldlega um í mínum gráa kolli í fullan meðgöngutíma fíls og mál að láta hér nokkuð af fæðast.

 

Engar falskar nótur

Orð eru merkingabær og stjórnmál eru skorðuð af þeim merkingum. Sósíalismi og frjálshyggja eru skýrt afmörkuð hugtök þó svo að blæbrigðamunur geti verið á þeim sem þessum stefnum fylgja. Þegar kemur að hugsjónum framsóknarflokksins er vandamálið örlítið flóknara. Við getum ekki flett upp í bókum þeim sem skrifaðar eru um stjórnmálakenningar og leitað þar undir eff-inu og kannski gefur þetta okkur ákveðið frelsi til að spila af fingrum fram líkt og góðir djassarar eiga til að gera og heitir með þjóðum að impróvisera og eru þeir menn aldrei tærari í sinni list. En líkt og djassleikararnir þá byggir pólitískur fingraleikur á ákveðnum reglum og engin nóta má vera falskt slegin. Pólitískur trúverðugleiki er því enn vandasamari í svo opnu kerfi.

Ég tel að hann liggi þar að slegið sé í takti sem er í samræmi við skilning almennings á Framsóknarhugtakinu sem hefur ákveðna merkingu fyrir fólki, - kannski breiða og á köflum opna en samt merkingu. Ef tónarnir passa ekki við þá mynd er alveg sama hvernig allt annað verkast, trúverðugleikinn er fyrir bí og tónverkið, hin pólitíska sinfónía hljómar falskt.

Ég ætla ekki að gera hér að umfjöllunarefni öll smáatriði þess hvernig Framsóknarflokkurinn þarf að yfirfara og endurskoða sína stefnu. Oft er deilt um hvort í pólitík skuli horft í baksýnisspegil - hvort það sé til nokkurs yfir höfuð að horfa til baka og það er rétt að slíkt gláp er tilgangslaust nema það sé liður í því að rata inn í framtíðina. Gildir bæði í akstri og pólitík.

dyrasaga-1

Kýrrassa tók ég trú

traust hefur reynst mér sú.

Í fjósinu fæ ég að standa

fyrir náð heilags anda.

Svo orti hinn vesturheimski fjósamaður, hagyrðingur og snillingur Kristján N. Júlíusson, Káinn öðru nafni. Mig langar til að víkja aðeins nánar að þessum sérstæðu trúarbrögðum okkar Káins hér á eftir.

 

Endalok eða nýtt upphaf!

Framsóknarflokkurinn hefur glímt við þau vandamál að vægi þeirra byggða og þeirra stétta sem hann hefur helst reitt sig á hefur ekki verið vaxandi í samfélaginu og margir hafa óttast að þar með hljóti vegur flokksins að fara minnkandi. Þegar við bætast áratugalangar efasemdir ´- í meira en hálfa öld eða allt frá seinna stríði - efasemdir um þjóðræknishugsun í stjórnmálum í heimi aukinnar hnattvæðingar er okkar flokki nokkur vorkunn að villast útaf sporinu. Eða hvað hefur nokkur heimur við Framsóknarhugsun að gera nú þegar jafnvel eins og gömul vinkona mín í hreppunum sagði með þjósti,- það eru meira að segja komnar tuuuulvur.

Eru framsóknardyggðirnar ekki dæmdar til endaloka, er ekki tímabært að flokkur okkar þvoi af sér sveitasvipinn með því að henda frá okkur tveggja alda þjóðernisrómantík, útúrborulegri kýrrassatrú eða búauðgistefna að ég tali nú ekki um endalausar áherslur á átthagafræði og byggðapólitík sem ekki snertir nema fimmtung þessarar þjóðar og færri með ári hverju.

Við getum í staðin orðið borgarsækinn, alþjóðlega þenkjandi nútímalegur flokkur, laus undan rímnastagli og fjósalykt kýrrassatrúarinnar.

Það er kannski ekki fallegt að orða hlutina svo hreinskilnislega sem ég geri hér en ég held að hugsun af því tagi sem ég færði hér í óheflaðan búning hafi þráfaldlega látið á sér kræla í leit flokksins að nýjum löndum, nýjum kjósendum, nýjum stefnumiðum. Það er ekki við neinn að ásakast í þeim efnum og fjarri því að vera hermt upp á fáa leiðtoga, þetta er andrúm samfélags næstliðinna áratuga og ekkert skrýtið eða flókið við það. Framsóknarflokkurinn stendur hér millum þeirra vita, áttlaus eins og Hólamenn urðu um árið á Holtavörðuheiði og staður í að gera það upp við sig hvert skuli haldið,- endar máske eins og þeir norðanmenn á að grafa sig í fönn og verða úti. Þá er illa.

En nú eru þeir dagar upp runnir að heimsmyndin er að breytast,- ekki af því að hnattvæðingin sé fyrir bí heldur af því að hún er orðin svo mikil. Sú hugmynd að þjóðrækni og átthagatryggð væru deyjandi hugsjónir var giska algeng fyrir nokkrum áratugum en með aukinni alþjóðavæðingu, harðnandi alþjóðakapítalisma og minnkandi heimi hefur þjóðmenningin um heim allan snúist til varnar og augu heimsbyggðarinnar lokist upp fyrir því hve sérstaðan, þjóðernið og ja, raunar bara þessar gömlu rykföllnu framsóknardyggðir, eru mikið verðmætar og áherslan í þeim efnum er alltaf að aukast. map_scotland

Við sjáum þetta í landi okkar með sífellt auknum áhuga á hinni sérstæðu þjóðmenningu, nýrri og gamalli. En við sjáum þetta ekki síður á ferðalögum með sífellt vaxandi áherslu byggðalaga á rætur sínar, þjóðernishópa á sérstöðu sína, landssvæði á sjálfstæði sitt, fólksins á verðmæti hins smáa.

 Inúítar í Grænlandi og Kanada, Færeyingar, Samar og nú síðast Skotar eru allt dæmi um smáþjóðir hér á okkar hjara veraldar sem risið hafa upp á allra síðustu árum, einmitt þegar alþjóðavæðing í anda Disneys og Börs Börssonar hélt sig vera að mylja allt ofan í svörðinn. Tilraunir stórþjóða til að fletja út sérkenni hinna smáu eru ekki bara að mistakast heldur teljast þær allt að því óhæfa og illvirki í þeim samtíma sem nú er að renna upp. Greenfeld_000

Bandaríska fræðikonan Liah Greenfeld sem hingað kom 17. Júní síðastliðinn segir í bók sinn fimm vegir til nútímans að af öllum þeim ráðandi hugsjónum samtímans sé engin eins sterk og þjóðhyggjan og styrkur hennar fari vaxandi í heiminum. Til fleiri fræðimanna mætti vitna þessu sambandi en sjálfum hýrnaði mér um hjartarætur að sjálft Morgunblaðið skyldi í itarlegri umfjöllun um konu þessa nota sama hugtak til þýðingar á notkun hennar á orðinu nationalism eins og Jón Sigurðsson formaður okkar fyrrverandi notaði til að orða það mikilvægasta í stefnumáli okkar flokks.

 

Hin napra mynd af Framsókn...

Í þessum samtíma telst ekki trúverðugt að Framsóknarflokkurinn yfirgefi og fyrirlíti þau gildi fullveldis og sjálfstæðisbaráttu sem hann var talinn standa fyrir, bregðist sínum minnstu bræðrum í bændastétt og landsbyggðarlýð á ögurstund í nútímalegri krossferðarleit að kjósendum í blokkarhverfum nýrrar aldar. Því hvernig á blokkarfólkið að treysta þeim flokki sem ekki stendur með sínum gömlu liðsmönnum. Fer þá brátt fyrir okkur eins og segir í Lúkasarreglunni að frá þeim sem ekki á mun tekið verða en hinum sem mikið hefur mun gefið verða. 1438306_6-jonsig

Höfum þetta hugfast því ég held að í þessari nöpru mynd af Framsóknarflokknum liggi mikið af fylgishruni flokksins á síðustu árum og ég held líka að sóknarfæri flokksins á nýrri öld liggi í því að heimfæra hinar gamalgrónu og sveitalegu framsóknardyggðir upp á nýja tíma, varðveita þær en fordjarfa þeim ekki. Nútimavæða þessar hugsjónir og færa þær fram sem heilsteyptur flokkur og þá mun okkur vel farnast, jafnt úti á landi sem á suðvesturhorninu. Þriðjungsfylgi á landsbyggðinni getur sjálfkrafa skilað okkur sjöttungsfylgi á suðvesturhorninu og þá er betur en nú.

Auðvitað úreldast einstakar skoðanir og margt af því sem við stóðum fyrir í eina tíð á ekki erindi í dag. Mér líst ekkert á að stofna samvinnufyrirtæki í verslun í dag og hefi efasemdir um gildi kílræsa sem voru okkur í eina tíð mikil hugsjón. En það er ekki bara misskilningur heldur beinlínis heimska að halda að hugsjónir úreldist - þær eru ævarandi. Hugsjón samvinnumannanna fyrir 100 árum var að vinna að málefnum neytenda í heimi harðrar einokunarverslunar og fákeppni og þar er enn erindi og síst  minna. Hugsjónir mýrarframfræslunnar var að gera landinu gott út frá þekkingu og forsendum þess tíma og slík ást á landinu er alltaf gild.

Fullveldishugsjónir og áræði!

Fullveldishugsjón íslenskrar þjóðar er mikilvægari nú en nokkru sinni þegar skrifræðisblokk hnignandi efnahagsveldis suður í Brussel horfir gráðugum augum á okkar litla en ríka land. Allt frá dögum Hriflu-Jónasar hefur Framsóknarflokkurinn verið áræðinn flokkur í utanríkispólitík sinni og á að vera það á nýrri öld. En það er útilokað og í algerri mótsögn við grundvallarhugsjónir Framsóknarstefnunnar að gera Framsóknarflokkinn að Evrópusinnaflokki. Þjóðin á sér einn miðjuflokk með þá skoðun og það er mín trú að hún muni á næstu árum eignast stóran hægri flokk með sömu meinlokuna. Í Sjálfstæðisflokki stendur Davíðsarmurinn einn á móti og veldi hans fer hratt minnkandi. Þegar að því kemur að risaeðlan í íslenskum stjórnmálum kýs að velta sér á hina hliðina - það styttist í það - þá er mikilvægt að Framsóknarflokkurinn hafi hér náð vopnum sínum og markað sér stöðu sem flokkur andvígur Evrópusambandsaðild. Þið fyrirgefið bersöglina í viðkvæmu máli en ég hefi aldrei trúað á tæpitunguna.

En ég vil að menn átti sig á að þar með þarf enginn klofningur að verða í okkar flokki,- fjarri því. Af fjórflokkunum gömlu hefur Framsóknarflokkurinn einn borið kápuna á báðum öxlum í Evrópumálum og ekki beint hagnast af því ef marka má niðurstöður kosninga. Í Samfylkingu er til álitlegur hópur andstæðinga Evrópusambandsaðildar og aðildarsinna er að finna bæði innan Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks og hefur alltaf verið. Stjórnmálaflokkar eru vitaskuld ekki þannig að þar megi ekki kveða upp úr í neinu máli nema allir séu sammála enda væru þeir þá harðla vaklandi allir. Ég geri einfaldlega ráð fyrir því að við munum áfram hafa álitlegan hóp málefnalegra aðildarsinna innan okkar flokks,- mikinn minnihluta að vísu,-  sem kjósa samt að halda sig í okkar liði því flokkur okkar komi næst þeirra hugsjónum í fleiri málum heldur en nokkur annar flokkur. Þannig virkar lýðræðið.

Dollara í stað krónu

En ég sagði að Framsóknarflokkurinn hefði verið djarfur í utanríkispólitík sinni og það var hann vissulega þegar Hriflu - Jónas þorði fyrstur stjórnmálamanna að berjast fyrir herstöð á Íslandi á friðartímum. (Sjálfur hefi ég alltaf átt erfitt með að fyrirgefa kallinum þetta en það er önnur saga). Sú tillaga sýndi djarfleik á viðsjártímum.

1_first_dollar

Í dag eru viðsjártímar í peningamálum þjóðarinnar og ég held að í þeim efnum þurfi Framsóknarflokkurinn að sýna djörfung og eigi þar að vinna út frá þeirri skoðun sem Valgerður Sverrisdóttir sló fyrst fram í umræðu hér á landi að Íslendingar gætu án Evrópuaðildar tekið upp annan gjaldmiðil en krónuna. Af nýlegum orðum seðlabankastjóra Evrópusambandsins er reyndar ljóst að okkur býðst ekki að taka upp hina margumtöluðu evru enda teldi ég sjálfur það ekki heppilegt svo mjög sem sjálfstæði okkar stafar ógn af Evrópusambandinu. Þegar talað er um að meirihluti okkar utanríkisviðskipta sé við evrulönd þá byggir það á misskilningi,- stór hluti af Evrópuviðskiptum okkar og mörg þau mikilvægustu eru einmitt við Evrópusambandslönd sem eru utan myntbandalagsins og evran dekkar lítið meira en þriðjung utanrikisviðskipta okkar.

En það er í mínum huga alveg mögulegt að á næstu misserum eða árum verði krónan of lítil og of veik til að vera sjálfstæður fljótandi gjaldmiðill í heimi hákarla og hér er í raun og veru orðið til tvöfalt hagkerfi. Eini heimsgjaldmiðillinn sem reynsla er fyrir að frjálsar og fullvalda þjóðir taki upp er ameríski dollarinn og ég hef lengi haft þá skoðun að það sé okkar næsta skref að skoða þann möguleika. Stórkostlegir möguleikar okkar sem eru nú að opnast í viðskiptum i Asíu, opnun siglingaleiða um norðurhöf og einstæð hnattræn lega gera það að verkum að með dollara sem gjaldmiðil getum við á næstu áratugum orðið alþjóðleg fullvalda fjármálamiðstöð á mörkum þriggja heimsálfa, Ameríku, Evrópu og Asíu.

Íslandi allt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær ræða.

Barði (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 22:17

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Heiðarlegir og óspilltir menn tala hreint út.En til þess að við getum tekið upp dollar í staðinn fyrir krónur þurfum við einhversstaðar að fá dollara.Við höfum ekki efni á að kaupa alla þá dollara sem við þurfum ef við hendum krónunni.Þá er annaðhvort að ganga í ríkjasamband við Bandaríkin eða Kanada, tæpast myndu Nýfundnalendingar ráðleggja okkur það.Það sama er, ef við ætlum að taka upp evru, það eru tveir kostir.

Sigurgeir Jónsson, 12.11.2007 kl. 23:22

3 identicon

Allt tal um það að við þurfum að taka upp evru vegna þess að viðskipti okkar eru svo mikill við evru þjóðir er ekki rök í þessu máli.

Við gætum allt eins sagt að við þyrftum að taka upp dollar, allur okkar útflutningur á áli er bundinn við dollar og ál verður innan tíðar stærri hluti af okkar útflutningstekjum en sjávarútvegur. Eru þetta þá rök fyrir því að taka upp dollar?

Ekki finnst mér það, þetta er rökleysa og gert til að leiða umræðuna um aðild að ESB út af sporinu. M.ö.o. fá okkur til að gleyma okkur í þessari umræðu um gjaldmiðilinn.

Eysteinn Jónsson (IP-tala skráð) 12.11.2007 kl. 23:58

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

já frábær ræða!!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 13.11.2007 kl. 01:41

5 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Já, það er yfrið nóg af málefnum að vinna að í þágu bænda. Það þyrfti t.d. að fara að endurskoða forsendur mjólkurkvótans sem hleður miklum kostnaði ofan á mjólkina, kostnaði sem trúlega kemur fyrst og fremst í hlut bænda að greiða. Hvort það er pólitískur vilji meðal bænda til að fara í svona skoðun veit ég ekki, en hitt veit ég að það er ekki verið að vernda neina auðlind með þessu skömmtunarkerfi, heldur verkar það sem hemill á framkvæmdagleði og frumkvæði.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 13.11.2007 kl. 21:53

6 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Almáttugur Bjarni! Ég hafði ekki áttað mig á þessu. Að vísu á ég ekki nothæfa lopapeysu eins og er, en sannarlega ét ég svið og slátur.  Rækta kartöflur og tek þær upp í stígvélunum mínum. Aldrei nota ég plastkort nema í útlöndum og þá til að hafa fé af heiðarlegum peningakössum. Og til að toppa nú allt annað þá á ég ekki gemsa og hef ekki átt síðan þeim síðasta var slátrað hér um árið.  Heldurðu þá að ég sé framsóknarkona?

Helga R. Einarsdóttir, 13.11.2007 kl. 22:01

7 identicon

Ég hélt nú að kýrrassatrú Káinns væri í ætt við fjóstrúna sem Grímur Thomsen orti um:

 

Verst af öllu er villan sú

vonar og kærleikslaust

á engu að hafa æðri trú,

en allt í heimi traust,

fyrir sálina setja lás,

en safna magakeis

og á vel tyrfðum bundinn bás

baula eftir töðumeis.

 

Var Káinn ekki að gera lítið úr sjálfum sér með kveðskapnum sem Bjarni vitnar til, kannski svolítið svipað því sem Sigurður Jónsson frá Brún gerði þegar hann kvað:

 Áður hafði ég áform glæst,átti von sem gat ei ræst.Nú er sú mín hugsjón hæst

hvenær verður étið næst.

Atli Harðarson (IP-tala skráð) 15.11.2007 kl. 14:05

8 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Bjarni þetta er mjög svo merkileg ræða og margt gott sem þú segir,eg er sammála þessu með Dollar það er það sem við eigum að athuga !!!!kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 15.11.2007 kl. 14:14

9 Smámynd: Bjarni Harðarson

káinn var ólíkindatól og ég held að hann hafi bara veirð að koma af sér trúboða sem gerði honum lífið leitt við mjaltir, minnir til að hafa lesið eitthvað í þá veru einhverntima en kannski var eins og þú segir bróðir dýpri merking í þessu.

Bjarni Harðarson, 16.11.2007 kl. 11:16

10 Smámynd: Magnús Jónsson

mig minnir að vísan sé svona :

Kýrrassa tók ég trú,

trygg hefur reynst mér sú

Í flórnum ég fæ að standa,

fyrir náð heilags anda.

Káinn var þarna að svara trúboða sem vildi leiða hann til betra lífs, og messaði yfir honum við gegningar í fjósinu.

En er ekki komin tími á ykkur framsóknarmenn að gera upp við fortíðina, beið flokkur ykkar ekki mest afhroð vegna ofríkis og klaufaskapar Halldórs formanns, þegar hann ætlaði að ráða því sjálfur hver yrði hans eftirmaður, með því að skáka fram manni sem almenningur þekkir sem einn spilltasta eiginhagsmunasegg sem sögur fara af, og vel á minnst honum tókst að vekja athygli á, taumlausri heimtufrekju sinni núna nílaga auðkýfingurinn, og ekki var að ykkur til framdráttar á sínum tíma að eiga samstarf við tækifærissinnan sem gjarnan er kallaður Sleggjan.

Aftur að Káinn kona nokkur átaldi hann fyrir fyllirí, og taldi það vera honum  fyrir bestu að giftast góðri konu og hætta sínu sukk lífi, þá kvað Káinn :

Gamli Bakkus gaf mér smakka,

gæða öl og brennivín.

Honum á ég það að þakka,

að þú ert ekki konan mín.

Kveðja Magnús

Magnús Jónsson, 18.11.2007 kl. 10:23

11 identicon

Yndisleg vísa.Og hlýtur að vera að hún sé ort fyrir munn hinna staðföstu kjósenda stjórnmálaflokka allra landa.  En mig langar að koma með enn eina útgáfuna.

Mig minnir að hún sé svona:

Kýrrassa tók ég trú

trú þessa hef ég nú.

Í flórnum fæ ég að standa

fyrir náð heilags anda.

aslaugben (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 15:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband