Pólitískar ákvarðanir og Framsóknarhugsjónir

revolutionÉg hefi í fyrri greinum um spillingarmál fjallað nokkuð um þau endemi að Framsóknarflokkurinn og framsóknarmenn skuli taldir spilltari en önnur stjórnmálaöfl í samfélaginu, m.a. með umfjöllun um hin makalausu REI-mál. En er eitthvað í hugsjóna- eða skoðanagrunni Framsóknarflokksins sem kallar öðru fremur á þennan stimpil. Svarið við þeirri spurningu er já,- svarað af hreinskilni manns sem situr á þingi fyrir Framsóknarflokkinn.

 

Hið faglega vald

Það vill til að öfugt við hugmyndafræðinga núverandi stjórnarflokka þá trúum við Framsóknarmenn á ágæti hins pólitíska og lýðræðislega valds. Meðal krata og sósíalista allra þjóða er títt að trúa framar öllu á svokallað faglegt embættismannavald. Grundvallarhugsunin er þá að hægt sé að mennta sig til þess að komast að réttlátum og hlutlausum niðurstöðum. Þetta á sér beina samsvörun í hina útópísku sýn gamalla kommúnista um vísindalega stjórnun samfélagsins.

Í reynd eru niðurstöður þessa að í fyrsta lagi felum við fjarlægum nafnlausum embættismönnum alltof óskorðað og yfirdrottnandi vald, líkt og gerðist í Sovétríkjunum gömlu og gerist í dag í Evrópusambandinu. Í öðru lagi er slíkt andlitslaust vald gróðrastía spillingar og misneytingar. Þetta var um vinstri síðuna og á vitaskuld ekki síður við hina stjórnunarglöðu sósíalista vinstri grænna.

Hliðarkenning við hið kratíska fagvald er trúin á beint lýðræði kosninga um einstök mál sem hin spaugilega álverskosning í Hafnarfirði er gott dæmi um og þarf þar ekki fleiri orð um að hafa.

 

Hið kapítalíska vald

Alþekkt er gum hægri sinnaðra Sjálfstæðismanna af formanni sínum Davíð Oddssyni fyrir það að hann hefði í stjórnartíð sinni dregið úr valdi sínu. Fært valdið frá stjórnmálamönnum yfir til samfélagsins. Það orkar reyndar mjög tvímælis hvort eitthvað er hæft í þessu en í þessum órum liggur draumsýn frjálshyggjumanna. Að vald skuli vera í höndum kapítalistanna sjálfra, hinna sterku.

Þannig eigi að leggja sem minnstar skorður við athafnafrelsi allra manna og leyfa helst allt sem kapítalisminn telur sér gróðavænlegt. Sömuleiðis eigi að láta hverja þá þróun sem verður í samfélaginu afskiptalausa, hvort sem er hröð samþjöppun byggðar eða aukin misskipting tekna, svo dæmi séu tekin.

En látum ekki blekkjast af því að hið kapítalíska frelsi sé vald fólksins, það er vald hinna fáu yfir hinum mörgu.

 

Framsóknarhugsjónir

Öfugt við þetta allt trúum við Framsóknarmenn á meðalhófsregluna og ágæti hins pólitíska valds í lýðræðisríki. Eigum okkar hugsjónagrunn í samhjálp, þjóðlegum gildum og átthagatryggð. Trúum á lýðræðið og að fulltrúar þess séu þeir sem kjörnir eru til að fara með valdið fyrir hönd fólksins. Kjósendur hafi enda möguleika á að kjósa sér nýja fulltrúa séu hinir fyrri þeim ekki að skapi.

Hvort sem rýnt er í söguna eða grúskað í heimspeki og stjórnmálakenningum hefur mönnum ekki tekist að finna gæfulegri leið til þess að koma valdinu til almennings. Það er því raunalegt að heyra menn nota hugtakið "pólitísk ákvörðun" eða "pólitískt vald" sem skammaryrði meðan geðþóttaákvarðanir embættismanna og alræði fyrirtækjaforstjóra er hvorutveggja talið hafið yfir alla gagnrýni og umræðu.

Við Framsóknarmenn þorum að gangast við því að vera talsmenn hins pólitíska valds enda er það brjóstvörn lýðræðis og frelsis í heiminum. Fyrir þær sakir eru við ómaklega sakaðir um pólitíska spillingu og orðið pólitík notað sem skammaryrði. Þeir sem þannig tala eru um leið að vega að raunverulegu lýðræði og frelsi almennings til að ráða sínum málum. 

(Birt í Morgunblaðinu snemma í nóvember.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband