Af álfum og afbragðsmanni

Í fjarveru okkar góða varaformanns sem er við kosningaeftirlit í Rússlandi settist afbragðsmaðurinn Jón Björn Hákonarson frá Norðfirði á þing í gær og sló nýtt þingmet eins og frægt er orðið. Kappinn var semsagt ekki jómfrú lengur en 17 mínútur sem er fádæmi þó mörgum hafi tekist að komast í ræðustól sinn fyrsta dag. 20070112144113890

Það var í umræðu um eignarhald á bújörðum sem Jón Björn talaði í einnar mínútu ræðu en lengur megum við óbreyttir ekki tala í fyrirspurn sem þessari. Málið var kveikt af félaga Birki Jóni og er þarft umræðuefni. Sjálfur vakti ég þar athygli á nauðsyn þess að tryggja aðgang almennings að landinu, jörðunum sem æ fleiri lenda nú bakvið læst hlið svokallaðrar tvöfaldrar búsetu. Ég hef raunar lengi talið að þessir gömlu sögustaðir séu þeirrar náttúru að allir landsmenn þurfi að eiga þangað aðgang. Ræðan var reyndar bara mínútu löng og fyrir

Þó ég sé almennt hlynntur frjálsum viðskiptum með land og með jarðir þá held ég að það séu ákveðnir hlutir sem hér er að varast og við sjáum þegar smámerki um þá í því að einstakir auðmenn hafa keypt upp mjög stór landsvæði. Ég legg áherslu á það eins og ég hef gert áður í þessu ræðupúlti að við þurfum að tryggja aðgengi og við þurfum að lagfæra löggjöfina varðandi aðgengi allra að löndum og takmarka rétt landeigenda til að girða lönd alfarið af. Raunar er eignarhald á jörðum, þessum gömlu sögustöðum sem jarðirnar eru, háð nokkuð öðrum annmörkum heldur en eignarhaldi á annars konar eigum og við skulum ekki gleyma því að þetta eru menningarstofnanir, jarðirnar. Fólk rekur ættir sínar til þeirra og heima á gömlu jörðunum búa ekki bara menn, þar búa huldar vættir og draugar og lögin þurfa að taka mið af þessu öllu saman.

Nokkra athygli vakti að álfar og draugar skyldu komast í ræðupúlt  og jafnvel kátínu manna en landbúnaðarráðherra vék að þessu í lokaorðum málsins:

Að lokum þetta. Athyglisverður punktur kom fram hjá hv. þm. Bjarna Harðarsyni varðandi álfa, huldufólk og drauga. Ég er að vísu ekki vel (Forseti hringir.) kunnugur þeim efnum. En ég hef aldrei vitað til þess að álfar, huldufólk og draugar kynnu ekki sæmilega við sambýli við auðugt fólk.

Víst og víst hafa draugar gaman af ríkisbubbum en við sem lesum draugasögur, rekjum ættir okkar til manna sem gengu í björg álfa og vitum að landið er meira en bara eign á þinglýsingarskjala,- viljum eiga aðgengi að helstu kennileitum þjóðsagnanna á Myrká, Rimakoti og Háfi héreftir sem hingaðtil...

Auðvitað á ég að blogga um fjárlögin í dag á fjárlagadegi sem eru rædd hér í dag og verða rædd í alla nótt til morguns. Mikilvæg umræða og ég þarf að vera í hlutverki sem talsmaður flokksins í fjárlagamálum. Leið reyndar eins og ég væri að fara í próf þegar ég sofnaði í gærkvöldi með rit Seðlabankans um Peningamál í fanginu en meira um það allt síðar...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þakka þér fyrir að standa vaktina Bjarni og ykkur þeim örfáu sem það gerið.

"Ef bóndi býr á jörð eingöngu í því augnamiði að græða á því peninga, er hann undir eins búinn að breyta öllum nytjum hennar í peninga og gera hana að flagi. En ef hann býr á jörð til þess að græða jörð bætir hann jörð sína alltaf í ábúð sinni, og hún skilar honum alltaf meiri og meiri arði og þægindum í ábúðinni. Hann gerir hvort tveggja í senn, að búa í haginn fyrir eftirkomendur sína og helga sögu þeirra sem á undan honum bjuggu. Mannkynssagan er ónýt ef mennirnir hætta að vera menn. Forfeður ónytjungsins hætta að hafa sögulegt gildi, hversu dugmikið fólk sem þeir hafa verið. Sá sem selur sitt land gerir alla sögu sinna forfeðra ómerka, enda á hann enga eftirkomendur í því landi........"

(Vitnað í Benedikt Gíslason frá Hofteigi í bókinni Íslenski bóndinn."

Ég er honum sammála í þessum meistaralegu ályktunum og mikið vildi ég geta eignað mér þessa tímalausu snilld:

"Mannkynssagan er ónýt ef mennirnir hætta að vera menn.!"

Ég hygg að fáir sitji nú á Alþingi Íslendinga sem lappa mikið upp á Íslandssöguna, að maður tali nú ekki um Mannkynssöguna.

Árni Gunnarsson, 29.11.2007 kl. 21:53

2 Smámynd: HP Foss

Eftir 17 ára búsetu á meðal krata og þessháttar manna í Hafnarfirði, finnst mér loksins einhver tala mínu máli. Ég sé eftir því að hafa ekki fundið Bjarna Harðarson á minni leið á þennan voðalega stað, þar sem framsóknarmenn eru hundeltir og að þeim hlegið, hvað sem þeir fara. Og það er nóg að vera úr sveit, þá er maður stimplaður framsóknarmaður.

Það hefur verið aumt að horfa á hina og þessa skipa  sæti Framsóknarmanna á alþingi í gegnum árin án þess að hafa snefil af framsóknarmanni í sál sinni. Og sumir urðu jafnvel ráðherrar.

Takk Bjarni, nú á ég mér orðið bærilegt líf í bæli kratanna.

HP Foss, 30.11.2007 kl. 00:15

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæll Bjarni. Þörf umræða. Þekki það að peningamenn keyptu Hof í Álftafirði, fornan kirkjustað fyrir austan og lokuðu fljótlega löngum fögrum dal, Hofsdal fyrir allri umferð. Þó vegagerð þangað hafi verið styrkt af ríkinu. Svona þarf að koma í veg fyrir. Hinsvegar þekki ég líka dæmi um að jarðir hafi verið keyptar af efnamönnum t.d. Hvalnes og Bær í Lóni þar sem byggt hefur verið upp á glæsilegan hátt og eigendur í góðum tengslum við nágranna og sveitunga. Slíkt er betri þróun en einhver eyðijarðastefna þar sem að álfarnir og huldufólkið er eitt á vappi um kletta og holt sveitanna.

                                       Mbk,

Gunnlaugur B Ólafsson, 30.11.2007 kl. 01:00

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Já Bjarni þu stendur þig bara vel í stjórnarandstöðunni mikið málefnalegur!!!!!,ekki veitur af,þessi meirihluti okkar er of mikill veður yfir allt og alla/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 30.11.2007 kl. 15:48

5 identicon

Segjum það bara eins og það er, hugmyndafræði Framsóknarflokksins er í molum. Menn ganga þar inn og út og róta í hlutunum, flestir með því hugarfari að reyna að láta þennan sundurleita hugmyndafræðilausa flokk upphefja þá sjálfa og helst að skaffa sér bitlinga. Afhverju viðurkennir þú ekki Bjarni að það þurfi að setja mörk fyrir því hversu miklar efnislegar eigur menn geti sankað að sér, hvort sem það eru jarðir eða eitthvað annað? Þetta er sjúkleiki, krankleiki í sálinni þegar menn eltast endalaust við að sanka að sér efnislegum auði, langt framyfir það sem menn þurfa til að fullnægja sínum grundvallar þörfum. Slíkir sálarsjúklingar gera bæði sjálfum sér skaða og skapa ójafnvægi í samfélaginu. Heldur þú að það sé einhver glóra í því að menn festi fyrirtæki með fullt af starfsmönnum, jarðir, hús og auðlindir á pappíra sem menn spila síðan með í alþjóðlegu fjárhættuspili í gegnum kauphallir. Og skyndilega á einum sólarhring getur allt verið tapað. Svona hagkerfi er úr öllum takti við þau andlegu lögmál sem ráða velferð okkar mannanna. Ég vildi gjarnan  hjálpa ykkur í þessum volaða flokki til að hrófla upp bitastæðri hugmyndafræði, sem væri í dálitlum samhljómi við hugsun venjulegs heiðvirts alþýðufólks. en fyrst verðið þið að losna undan heilaþvotti markaðshyggjupreláta og hlusta á rödd hjartans.

Með framsóknarkveðju,

Guttormur Sigurðsson

stuðningsfulltrúi og rithöfundur 

Guttormur Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 16:59

6 identicon

Að sönnu er umræðan fyllilega tímabær og nauðsynleg. En ég ætla svosem ekki að blanda mér í hana, en hinsvegar í málfar.  Það setur nefnilega alltaf að mér hroll þegar gegnir sveitamenn tala um að slá nýtt met.  Ný met eru nefnilega sett um leið og þau gömlu eru slegin.  Ég geri þá ráð fyrir að Nobbarinn hafi sett nýtt þingmet án þess að ég hafi vitneskju um hversu gamalt metið var sem hann sló við það tækifæri.

Libbðu svo heill;

Þ

Þorvaldur (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 14:08

7 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þegar ég las orð Norfirðingsins, þá rifjaðist upp fyrir mér sá timi í Íslandssögunni þegar blaðið Austurland kom reglulega á sveitabæinn sem ég ólst upp á.Var það sent af kommúnistanum, bæjarstjóranum á Norðfirði í þrjátíu ár,til frænku sinnar móður minnar.Faðir minn sem var framsóknarmaður í tæp níutíu ár vildi helst að það færi á kamarinn.Mér fannst eins og Bjarni bæjarstjóri á Norðfirði væri að lifna við þegar ég las þessa fyrstu ræðu þessa nýja framsóknarþingmanns á Alþingi.En nú eru breyttir tímar í Framsóknarflokknum.Nýjir þingmenn Framsóknar sem þykjast bera hag landeigaenda í sveitum fyrir brjósti, bænda, halda vart vatni yfir málflutningi hins nýja þingmanns frá Norðfirði.Samhliða því segjast þeir bera gamlar hugsjónir Framsóknarflokksins í brjósti sér og nefna þá kannski Jónas.Sýnist mér að hinir nýju þingmenn Framsóknar séu stundum nær stefnu Lenins.Kanski ætla hinir nýju þingmenn Framsóknar að sjóða saman ný þjóðlendulög,sérlög sem nú tíðkast, til að komast framhjá stjórnarskrárvörðum lögum um eignarétt, svo ríkið í anda Lenins geti haldið áfram að ræna landi af landeigendum ,bændum.   

Sigurgeir Jónsson, 2.12.2007 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband