Lífsreynslusögur af fyrsta þingvetri!

267Það fylgir því alltaf eftirvænting og spenningur að byrja vinnu á nýjum vinnustað. Fyrir þann sem hefur í áratugi unnið hjá sjálfum sér og eigin hlutafélögum er spenningurinn enn meiri og vitaskuld laumast að ofurlítil vanmetakennd, ekki hvað síst ef vinnustaðurinn er mjög virðulegur.

Það erfiðasta við pólitíska þátttöku mína sem hófst fyrir rúmlega ári síðan tengist klæðaburði en ég hefi allt til þessa kunnað því best að ganga í flauelsbuxum og lopapeysu en hermannaúlpu í kuldum. Síðan ég settist á Alþingi hefur bindishnúturinn verið í stöðugri æfingu...

Þó að þér séuð fagur!

Það kom því vel á vondan í fyrstu umræðu fjárlaga nú á haustþingi að þar hafði ég rifið mig upp úr sæti mínu og beið þess að fá aðeins að þenja raddböndin yfir orðum stjórnarliða í efnahagsmálum en veit þá ekki fyrr til en hinn ljúflyndi og ágæti skrifstofustjóri Alþingis stendur við hlið mér og hvíslar í eyra mér svo engir nærstaddir heyri:

helgi_bernoduss

- Þó að þér séuð fagur Bjarni,- svo kom nokkur þögn eins og Helgi Bernódusson vissi ekki alveg hvernig hann ætti að orða framhaldið: ...þá held ég samt að þú ættir að hneppa neðstu skyrtutölunni áður en þú ferð í ræðupúltið.

Hér hafði það gerst sem mér var hvunndagslegt í kæruleysi blaðamennskuáranna að skyrtan var komin hálf upp úr buxunum og fráhneppt þannig að skein í bert sem ég efa reyndar að standi almennt undir þeirri einkunn skrifstofustjórans að teljast fögur sjón!

Með hjónasvip!

Pólitíkinni fylgja ferðalög og á stundum skondnar uppákomur. Þegar kosningabaráttan stóð sem hæst síðastliðinn vetur var ákveðið að senda okkur tvö austur á Höfn til fundahalda, undirritaðan og Helgu Sigrúnu Harðardóttur skrifstofustjóra þingflokksins og nú varaþingmann okkar. Með okkur Helgu tókust ágæt kynni og það var líklega eftir þessa ferð sem við félagarnir gáfum henni einkunnina „Nagli úr Njarðvíkunum," sem síðar var notað í auglýsingum. Slíkur er kraftur þessarar ágætu Suðurnesjakonu.

49047_HSHEn af ferðinni. Eftir fund í Öræfunum og flakk um Hornafjörðinn var ekki laust við að okkur svengdi þegar við lentum á Höfn um kvöldmatarleyti á sunnudegi og fundur að hefjast eftir stutta stund. Skunduðum því á fyrsta veitingastaðinn sem viðblasti og undruðumst svolítið hvað þar inni var fjölmennt og hátíðlegt. Við sem ætluðum okkur skyndibita en ég náði að hvísla að prúðbúnum þjóni sem gekk hjá með sósukar:

,- ...er einkasamkvæmi?

- Nei, það er opið, var svarið og í því kem ég auga á eldri hjón sem ég kannast lauslega við og ákveð að taka þau tali meðan við bíðum þess að fá borð.

- Og þið eruð í framboðsferð segir bóndinn sem kann á okkur báðum öll skil enda vel að sér í pólitíkinni sem er hér aðeins hreyfð í fáeinum sundurlausum setningum. Samtalið beinist í aðra átt því nú lítur eiginkonan á okkur og segir svo dálítið eins og ofandottin:

- Eruð þið bæði á listanum?
- Já.
- Það er nú örugglega einsdæmi.
- Jaa, já, það er það kannski,- svarar Helga þess minnug að við höfum ekki verið áður saman á lista.
- Jahá, segir þessi aldraða heiðursfrú og lítur yfir sig hlessa á eiginmann sinn og endurtekur. Þetta er örugglega algert einsdæmi.
- Ha, segir bóndinn orðinn svolítið úti á þeirri þekju sem við frambjóðendurnir erum löngu lentir á og vitum eiginlega ekki hvar einsdæmi þetta muni enda fyrr en húsfreyjan bætir við og það er ekki laust við að hún dæsi yfir nútímanum um leið:
- Það er örugglega einsdæmi að hjón séu svona saman á lista!!!

Og það er þá sem það rennur upp fyrir okkur Helgu Sigrúnu að það erum við en ekki hin öldnu hjón sem eru á villigötum þetta kvöld sem er semsagt konudagskvöld og vitaskuld fer enginn út að borða á konudagskvöldi með annarra konur og hana nú!

Þú ferð ekki jómfrú út í sumarið

En aftur til þingmennskunnar. Eitt það vandasamara þar eru hinar margháttuðu reglur sem gilda um tungutak í ræðustól Alþingis. Þannig er óheimilt að ávarpa nokkurn úr ræðustól nema forseta þingsins. Umræðan fer þannig öll fram sem eintal þingmanns og forseta og stundum velti ég því fyrir mér að hve miklu leyti skrýtluna um leikhúsið við Austurvell megi rekja til þessarar sérstæðu venju.

Tala verður um ráðherra, þingmenn og aðra í salnum sem þeir séu fjarstaddir og öll annarrar persónu ávörp eru óheimil. Sömuleiðis er óheimilt að nefna þingmann öðru vísi en að geta þess að hann sé háttvirtur og þegar talað er um ráðherra eða forseta þingsins skal þess að viðkomandi séu hæstvirtir. Við gárungar þessa leiks höfum velt því fyrir okkur hvernig sé þá háttað ávarpi bílstjóra, þingvarða og annarra starfsmanna þingsins og komist að því að þar væri við hæfi ávarpið „mikilsvirtur."

Sjálfum skjöplaðist mér mjög á í þessu við jómfrúarræðu og hafði þó ekki eins hratt á hæli með að missa minn þinglega meydóm eins og garpurinn Jón Björn Hákonarson af Norðfirði sem settist inn sem varamaður nú í nóvember og náði í ræðustól á 17 mínútum eftir undirritun eiðsstafs. Mun það vera met í sögu Alþingis!20070112144113890

Ég fékk að sitja hinn rólegasti á fremsta bekk vinstra megin heila tvo þingfundi og eitthvað datt upp úr mér á þingflokksfundi eftir þann fyrsta hvort það lægi nokkuð á að flytja jómfrúarræðu á þessu vorþingi sem við reiknuðum þá með stuttu. Formaður Framsóknarflokksins leit á mig með þeim ógnandi augnsvip síns vinstra auga sem jafnan fylgir hjá honum í alvörumálum og mælti svo sinni dynjandi bassaröddu aftan úr forneskju Íslendingasagnanna:

- Ertu orðinn vitlaus drengur, heldurðu að þú farir jómfrú út í sumarið!

Þriðji fundur hófst því með hjartslætti og támeyru en svo er ég undarlega af guði gerður að svitna frekar þar en í lófum þegar eitthvað er alvörulegt. Aðallega var ég samt hamingjusamur að geta gert þjóðlendumál að jómfrú og spurt þar fjármálaráðherra um vanefndir hráblautra kosningaloforða sem enn bergmáluðu í afdölum íslenskra fjalla. Undir þessum lið fær þingmaður þrjár mínútur til að spyrja og síðan tvisvar eftir það mínútu til ítrekunar en ráðherra má vitaskuld fara jafn oft og á því síðasta orðið. Orðaskipti urðu hvöss í málinu en sjálfum þótti mér vænt um lokaorð ráðherrans og vinar míns Árna Mathiesen:

„Ef það eina sem hv. þingmaður fer rangt með í þessum stóli á þingtíð sinni eru ávörpin held ég að hann verði farsæll þingmaður."

Orðfæri Guðna og fundarstjórn forseta

Ég varð vitaskuld að sæta snuprum forseta þegar ég í hita þjóðlendumála sagði í miðræðunni orðið „ætlarðu." Þetta er einfaldlega bannorð nema ef vera kynni að beina mætti því til forseta undir sérstökum kringumstæðum. En það getur orðið háværara ef gamlir þinghundar (orðalagið vísar til langrar setu og er ekki móðgandi!) eru sneyptir af forseta eins og gerðist í októbermánuði í umræðu um einu af hitamálum vetrarins, hringlanda með ráðuneytin og aftöku ráðuneytis landbúnaðarmála.

Eftir langa og snjalla ræðu Guðna Ágústssonar sá varaforseti þingsins Einar Már Sigurðsson ástæðu til að áminna þennan margreynda ræðusnilling um þingsköp og var smásmugulegur að því er okkur mörgum fannst. Fann meðal annars að því að þingmaður hafði lesið eina eða tvær setningar úr bók án þess að fá fyrir því leyfi forseta. Reyndar eru aðfinnslur um þingsköp daglegt brauð í þinghúsinu - eða a.m.k. vikulegt. En hvort það var svolítið skelmislegt bros Norðfirðingsins eða hitinn í sjálfru arni_johnsenumræðunni sá Guðni ástæðu til að fara sérstaklega í umræðu um fundarstjórn forseta sem varð að nokkurri deilu millum þessara tveggja. Síðasta orðið í henni átti þá mannasættirinn og ljúfmennið Árni Johnsen sem tók hér með afgerandi hætti málstað vinar síns Guðna Ágústssonar. Ræða Árna er stutt og snaggaraleg og þótti skemmtan í fásinni Austurvallarins. Hún er hér birt í heild sinni:

„Virðulegi forseti. Mér finnst aðeins ástæða til að hvetja til þess að menn séu ekki of háðir böndum í þessum efnum. Mér finnst mildilegt að kvarta varlega undan því við hæstv. forseta. Ég verð að segja að mér finnst það að ætla sér að breyta ræðustíl hv. þm. Guðna Ágústssonar jaðra við að menn láti sér detta í hug að breyta ljóðum eftir Jónas Hallgrímsson."


Bjarni Harðarson þingmaður Stór-Suðursveitarsvæðisins
- að hluta til birt í jólablaði Eystra Horns á aðventu 2007


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: gudni.is

Sæll Bjarni.

Kærar þakkir fyrir ánægjulega bloggvináttu á liðnu ári. Ég óska þér og fjölskyldu þinni farsældar á komandi ári.

Ég er stolltur af þér sem framsóknarmanni. Ég verð að viðurkenna það að þú hefur komið mér og örugglega fleiri framsóknarmönnum mikið á óvart á liðnu ári. Ég a.m.k. vissi ekkert um þína hagi í upphafi, en þú hefur ekki á nokkurn hátt valdið mér vonbrigðum! Þú kemur almennt rosalega vel fyrir sjónir manna held ég og þú ert duglegur við það að koma þér áfram og á framfæri.

Keep on going in the good work !!

XB kveðja,
Guðni Þorbjörnsson

gudni.is, 31.12.2007 kl. 14:23

2 identicon

Sæll Bjarni og GLEÐILEGT NÝTT ÁR og bestu þakkir fyrir góð kynni á því liðna!

Ég vona að þér gangi þingmennskan vel og að þú verðir ávallt trúr þinni sannfæringu, því hún er góð!

Áramótakveðjur, Sigrún Jónsdóttir

Sigrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 14:33

3 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Gleðiliegt nýtt ár

Takk fyrir góð kynni á árinu 2007.

Ester Sveinbjarnardóttir, 1.1.2008 kl. 00:30

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Gleðilegt ár 2008 Bjarni og fjölsk.þakka góð kynni á árinu sem leið/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 1.1.2008 kl. 16:44

5 identicon

Bjarni:GLEÐilegt KOMANDI ÁR. Kærar þakkir fyrir það liðna.

Nú er stefnan bara upp:Einn fyrir alla og allir fyrir einn.

Bestu kveðjur. Gissur á Herjólfsstöðum.

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 1.1.2008 kl. 17:44

6 identicon

Gleðilegt ár gamli Bakkabúi, gangi þér allt í haginn á komandi ári.

Kveðja Rúnar og C.O

Rúnar (IP-tala skráð) 2.1.2008 kl. 23:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband