Á Sturlungaöld

Það er Sturlungaöld í borgarstjórninni í Reykjavík og ekki ofsagt að innan ráðhússins er nú annarhver maður með hnífasköft upp úr skyrtuhálsmálinu. Ástandi gæti kallað á nýja hönnun stóla og kannski að verða full þörf á endurnýjun í þeim efnum, svo mjög sem stólar í þessu húsi eru valtir og ótraustir. Líklega það sem í orðabók hrútavina kallaðist þríleppingar.

Sá mæti stjórnmálafræðingur Gunnar Helgi var í útvarpinu og sagðist aðspurður hafa verið of kjarklaus til að spá síðasta meirihluta öðru en lífi og sama yrði að eiga við um þennan. Sjálfur er ég alls ekki forspár - en teldi samt alveg eins miklar líkur á að íhaldið hrökklaðist aftur frá - eða þá að það setti undir meirihlutann aðra stoð á næstu vikum. Það er úr nógu að velja!

Annars er mér meira umhugað um efnahagsmálin og óttast að áhrif þessara bræðravíga við Tjörnina verði einmitt þau að ríkisstjórnin verði enn fjarri því að vera starfhæf. Þar hefur taugastrekkingur einkennt samstarfið þar sem hvorugur vill hinn styggja og var mjög áberandi í fari Sjálfstæðismanna fyrst eftir myndun vinstri meirihlutans. Það lagast ekki núna þó svo að titringurinn færist ögn til og er auðvitað gaman fyrir okkur í stjórnarandstöðunni. En samt áhyggjuefni því það er líka mikil sturlungaöld í efnahagsmálum þjóðarinnar og þeir tímar að þjóðin þarf trausta og samhenta stjórn - allt frekar en taugastrekktan meirihluta þar sem enginn hreyfir legg né lið...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Ekki svona neikvæður Bjarni ,það væri ekkert gaman að Guðspjöllunum ef engin væri i þeim bardaginn/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 22.1.2008 kl. 13:15

2 Smámynd: Eiríkur Harðarson

Satt segirðu Bjarni, það er líka orðið ískyggilegt hvað margir eru tilbúnir til að selja sálu sína fyrir völd. Gildir einu hvaða flokk um ræðir það er virkilega sorglegt að horfa uppá hvern stjórnmálamanninn á fætur öðrum, falla í þá gryfju að verða hrútavinafélagsorðinu að bráð 1-2-3-4leppingur. Maður spyr sig? er Ólafur F. eini maðurinn með einhvern snefil af hugsjón EÐA HVAÐ? Síðan fallast manni nú bara hendur yfir þessum málefnasamningi, þó ég sé öryrki get ég engan veginn séð að allt þetta muni ganga upp, það er bara FÁI ÉG VÖLD viðkvæðið allt á að lækka þá á ég við gjöld. Síðan ætla þau að byggja Laugaveginn upp í 19. aldar stíl, kaupa 300 félagslegar íbúðir fram að næstu kosningum, gefa afslátt af fasteignasköttum til lífeyrisþega, láta líeyrisþega og námsmenn fá frítt í strætó. Betra er að koma fáu en göfugu og raunhæfu í verk heldur en að vera með svona endemis lygi.

Eiríkur Harðarson, 22.1.2008 kl. 13:21

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Afar tíðskast nú hin bbreiðu spjótin í Framsókn, sagði ég við hana Önnu Kristins, á bloggið hennar.

ÞAð eru engin tíðindi, að menn vegast á í pólitíkk og svo er ekki óþekkt, að sumir samstarfsmenn eru  egósentrískari en aðrir.

Einnig þekkist allvel, að ákveðin hópur manna nefni aðra illum nöfnum, vegna hlluta, sem þeir sjálfir hafa gerst ,,sekir" um.

Það er með hreinum eindæmum, hve yfirlýsingaglaðir sumir stjórnmálamenn eru.  Stjarna VG fer stóryrðum um Ólaf og Sjálfstæðisflokkinn.  Guðni minn ætti að temja sér frekari hófsemi í orðræðu og skreyta mál sitt varfærni, í ríkari mæli en nú.  Steingrímur veldur mönnum ekki vonbrigðum með yfirlýsingar, frekar en fyrri daginn og Ingibjörg talar sig út, gleymin á sínar eigin ræður og gerðir í pólitíkkinni.

Geir má þó eiga það, að hann talar með hófstillum hætti og varfærnum.  Hann veit sem er, að mey skal að morgni lofa og dag að kveldi.  EInnig ættu Rvíkingar að vita að menn skyldu lofa Dag að loknu verki.

Annars þakka ég þér skemmtilegt blogg og á köflum smellið.

Miðbæjaríhaldið

á sér lítið og lágreist helgarafdrep við bakka Hrófárslækjar austan við Hellu

Bjarni Kjartansson, 22.1.2008 kl. 13:42

4 Smámynd: Bumba

Komdu sæll meistari Bjarni. Alltaf gaman að lesa eftir þig og sakna ég þín oftar en ekki í útvarpinu. Sé þig aldrei í sjónvarpinu vegna þess að ég horfi aldrei á sjónvarp, hef ekki gert það í tæp tvö ár. Það er nú önnur saga.

Já, þetta er sérkennileg öld hérna í borgarstjórn en hvort er hægt að líkja henni við sturlungaöld skal ég láta ósagt um, "þá riðu hetjur um héruð",  og allt það. Ég get engan veginn séð neitt hetjulegt við þessa vesalings lygamerði, (svo vitnað sé aftur í fornsögurnar), sem þarna virðast ráða á báða bóga í Ráðhúsinu.  Hef aldrei kynnst öðru eins hvorki fyrr né síðar.

En það mun koma einhvern tímann fram góður stjórnmálakraftur, en þess verður því er ég hræddur um dálítið lengi að bíða. Með beztu kveðju.

Bumba, 22.1.2008 kl. 19:52

5 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Góður Bjarni.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 23.1.2008 kl. 02:00

6 identicon

Svo eru menn á launum hjá okkur við vígin, í stað þess að vinna að málefnum borgarbúa. Rætt var um ærin óleyst verkefni fyrir kosningarnar síðustu, en fulltrúarnir virðast helst sjá eitthvað óleyst undir eigin sitjanda.

Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 12:38

7 identicon

Rétt Guðmundur. Hvers konar siðgæði er þetta með þjóðinni? Finnst henni bara allt í lagi að atast í andstæðingum í pólitík og skella þeim úr störfum, til þess eins að "koma þeim frá?"  Og sölsa í leiðinni undir sjálfa sig peninga úr sameiginlegum sjóðum landsmanna/borgarbúa, sem svo sannarlega þarf að nota til þeirra fjölmörgu verkefna, sem nóg er af en menn virðast ekki hafa getu til að framkvæma.

Sigurgeir  

Sigurgeir (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 13:43

8 identicon

Ef þessi taugatitringur kemur í veg fyrir sérstakar efnahagsráðstafanir af hálfu ríkisstjórnarinnar þá hefur hann þó að minnsta kosti eitthvað gott í för með sér. Til langs tíma litið er fátt verra fyrir afkomu almennings en efnahagsráðstafanir - þær geta jafnvel verið enn verri en skattahækkanir og byggðastefna.

Annars hélt ég að ef menn hefðu lofað að starfa saman í fjögur ár þá ættu þeir að standa við það eins og önnur loforð. Ég geri ekkert upp á milli Björns Inga og Ólafs. Eftir því sem ég best fæ séð hafa þeir báðir ósköp einfaldlega gengið á bak orða sinna.

Atli Harðarson (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 21:33

9 identicon

Til upprifjunar:

Ólafur F. í Silfrinu 2. des. 07
Hér er slóð á viðtal við Ólaf F. Magnússon í Silfri Egils 2. desember síðastliðinn:

http://http.ruv.straumar.is/static.ruv.is/geyma/olafurf.2007-12-02.wmv


Kristján Þór Júlíusson um nýja meirihlutann í Reykjavík:
http://www.visir.is/article/20080124/FRETTIR01/80124016


Hér er því haldið fram að sjálfstæðismenn hafi lekið upplýsingum um heilbrigðisvottorð

Ólafs F,Magnússonar:

http://eyjan.is/hux/2008/01/22/bjortu-hli%c3%b0arnar/


kv. gb

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 17:32

10 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ég verð að viðurkenna að flokksbróðir þinn, Björn Ingi, hefur leikið besta leikinn. held hann hafi leikið snilldarleik, með afsögn sinni. hann mun standa sterkari á eftir. hann er ekki á leið úr pólitík. svo mikið er víst.

Brjánn Guðjónsson, 24.1.2008 kl. 18:16

11 Smámynd: Guðrún

þessvegna bý ég í Kópavogi frændi

Guðrún, 26.1.2008 kl. 01:26

12 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Bjarni. Ég bý í Kópavogi og kæru mig kollótta um málefnin í Reykjavík. Kópavogur er eins og allir vita í stórum höndum Gunnars Birgissonar og þar virðist ekki vera mikið vopnaskak. Ég vil þó ekki spá um framhaldið enda framsóknarmenn þar um borð og eru nokkuð hnífaglaðir um þessar mundir :). Ótrúlegt að horfa á ykkar mann í borgarstjórn hlaupa svona frá miklum völdum og áhrifum til algerrar uppgjafar.  Sama má svo sem segja um ríkisstjórnarflokk Framsóknar. Hann var ekki tilbúinn í frekara samstarf með Sjálfstæðisflokki þó hann gæti tryggt sig með stuðningi Frjálslynda flokksins. Á báðum vígstöðvum naut flokkurinn miklu meiri valda en kjörfylgi gef tilefni til og mátti því vera sáttur með sinn hlut.

Ég deili með þér áhyggjum af efnahagsmálum þjóðarinnar.

Vonandi gengur endurreisnin flokksstarfsins betur en útlit er fyrir svona utan frá séð. kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 26.1.2008 kl. 12:54

13 Smámynd: Snorri Hansson

Frá mínum bæadyrum er (eða var ) Björn Ingi einn frambærilegasti Framsóknarmaður landsins. Framkoma samflokksmanna hans í hans garð hefur einkennst af tortryggni og þar ert þú Bjarni engin undantekning. Það er spennandi að fylgjast með hvort það kemst í tísku að þeir sem verða undir í prófkjöri eða uppstillingu fari að henda skít og níða niður flokksfélaga sína. Á verður stutt í að “sumir” flokkar komast í sömu stöðu og geirfuglinn forðum.

Snorri Hansson, 27.1.2008 kl. 13:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband