Orkumálin og sandkassaleikurinn

Helgi Hjörvar alþingismaður hefur nú þráfaldlega flutt ræðu þá á Alþingi að Framsóknarmenn skuli síst tala um að einhverju sé ábótavant í lagaumhverfi landsmanna svo langan tíma sem þeir sátu á stjórnarstóli. Einkanlega telur þingmaðurinn þetta eiga við um orkumál og mun ólag í þeim efnum sem og allt annað sem miður hefur farið í stjórn landsins vera nefndnum flokki að kenna.helgi_hjorvar

Ekki hefur mér gefist tóm til að svara ræðum þessum í púlti þingsins og enginn annar hirt þar um svo að brátt fer að jaðra við ókurteisi að virða stjórnarþingmann þennan ekki svars. Vil ég því bæta hér nokkuð um og vona um leið að útrætt sé þar um misskilning þennan.

Fyrst er að segja að seint mun verða sú stjórn við völd í landinu sem svo er full af viti og forspá að engin lög þurfi framar að setja eða nokkru að stjórna í framtíðinni. Slíkri fabúlu trúðu sósíalistar hér í gamla daga en einhvernveginn hélt ég að flestir í Samfylkingu væru fyrir margt löngu komnir úr því öngstræti. Lög og stjórnarathafnir sem taka ágætlega á vandamálum samtímans geta verið handónýt við breyttar aðstæður. Þessvegna starfa löggjafarþing.

Þegar kemur að orkumálunum sem þingmanninum er mikið í mun að segja að Framsóknarmenn hafi skilið við með handónýtri löggjöf þá er þar margs að gæta. Eins og glöggt kemur fram í ítarlegri umræðu Morgunblaðsins um jarðhita og fallvötn 3. febrúar sl.þá hefur Alþingi rætt breytingar á lagaumhverfi þessu í hartnær öld. Að þeirri umræðu hafa allir flokkar komið. Viðfangsefnið var þekkt í tíð Jóns Sigurðssonar iðnaðarráðherra Alþýðuflokksins sem nú tilheyra flokki Helga Hjörvar, þeir báðir raunar,  Jón og Alþýðuflokkurinn sálugi. Viðfangsefnið var líka þekkt í 12 ára samfelldri setu Framsóknarmanna í iðnaðarráðuneytinu. Það eru engin tíðindi og það er engum að kenna að lögum þessum hefur ekki verið breytt. Þegar komið hafa fram tillögur í þá átt þá hafa menn einfaldlega ekki náð samstöðu um málið og undanfarin ár hafa menn talið önnur mál brýnni.

Það sem að þingmaðurinn Helgi Hjörvar áttar sig ekki fyllilega á að það sem var viðunandi og ásættanleg lagaóvissa í fyrra og hitteðfyrra getur verið óþolandi vandamál samtímans eins og staðan í orkumálum er kannski besta dæmið um. Á liðnu sumri urðu miklir loftfimleikar meðal íslenskra fyrirtækja og sveitarfélaga í verslun með hlutabréf í Hitaveitu Suðurnesja. Það voru atburðir sem enginn sá fyrir í tíð síðustu ríkisstjórnar þó svo að forsögu þeirra megi rekja til athafna hennar þegar hlutabréf í HS voru seld einkaaðilum. Ég held meira að segja að núverandi ríkisstjórn hafi ekki fyllilega áttað sig á því sem var að gerast á liðnu sumri. Sumt í því sem lýtur að Reimálinu  hefur máske enginn skilið til fullnustu eins og ljóst er af hinni nýju REI skýrslu! En þegar myndin fór að skýrast réðist iðnaðarráðherra í það að vinna að lagasetningu og hann á hól skilið fyrir það. Nú bíðum við í stjórnarandstöðu þess að fá að sjá þá lagasmíð og ég hef talið að það liggi á að ljúka þessu máli á yfirstandandi þingi vegna þeirra miklu gerjunar sem er í þessum geira.

Flestir sem að umræðunni koma hafa skilið að hin brýna ástæðan fyrir því að Össur Skarphéðinsson kýs að leggja strax fram ný lög um orku í iðrum jarðar eru aðstæður sem fyrst komu upp á yfirborðið eftir að núverandi ríkisstjórn settist að völdum. Það er alveg óskylt uppbyggilegum samræðustjórnmálum að blanda fyrri ríkisstjórn í þá umræðu. „Þér að kenna, mér að þakka pólitíkin" er hinn eiginlegi sandkassaleikur þeirra stjórnmálamanna sem stöðugt horfa aftur fyrir sig og fáu koma til leiðar.

Þeir sem eru í pólitík eiga svo að horfa fram á veginn. Það gerum við Framsóknarmenn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón H Finnbogason

Er Reymálið allstaðar.

Guðjón H Finnbogason, 12.2.2008 kl. 22:49

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Satt Bjarni gefðu þeim inn það veitir ekki af/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 12.2.2008 kl. 23:02

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Bjarni, er orkulagafrumvarpið ekki í frysti hjá þingflokki Sjálfstæðisflokksins? Því er það spurningin um bakarann og smiðinn, ef þú stefnir á að hengja Helga fyrir tafir á málinu. Mbk.

Gunnlaugur B Ólafsson, 12.2.2008 kl. 23:56

4 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Bjarni.

Tímasetning þessa tilstands í hlaupum og kaupum á hlutabréfum allra handa í orku fram og til baka á Reykjanesskaganum öllum, sl sumar, með nýja ráðaherra glæra í gegn var flott tímasett með tilheyrandi aðgerðaleysi og ráðvilnan.

Það verður mjög fróðlegt að sjá útskýringu minna manna hér í Hafnarfirði á hlaupum og kaupum allra handa þegar fram líða stundir.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 13.2.2008 kl. 02:44

5 Smámynd: Steinn Hafliðason

Þú ert mikill listamaður með pennan

Steinn Hafliðason, 13.2.2008 kl. 14:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband