Aðstoðarráðherra í grjótkasti

Það er drýldinn maður sem skrifar á vef Víkurfrétta í vikunni um að Framsóknarflokkurinn sé helsti þrándur í götu álvers í Helguvík og vitnar þar í viðtal við formann flokksins í hádegisfréttum síðastliðinn fimmtudag. Og það er rétt að þar sagði formaður flokksins að það væri ekki tímabært við núverandi aðstæður að ráðast í uppbyggingu á umræddu álveri.

En það er rangt að Framsóknarflokkurinn leggist gegn umræddu álveri. Við teljum þetta brýna framkvæmd þegar þær aðstæður hafa skapast í efnahagslífi landsmanna að mögulegt sé að ráðast til framkvæmda. Við teljum okkur skylt að reka ábyrga stefnu í stjórnarandstöðunni og tölum ekki á sama tíma fyrir tveimur nýjum álverum og því að ná verði tökum á verðbólgu og ofurvöxtum. Það er nóg að stjórnarflokkarnir séu ábyrgðarlausir um stjórn efnahagsmála þó svo að stjórnarandstaðan sé ekki öll sama marki brennd. bodvar_jonss

Hvað vill ríkisstjórnin?

Fréttir af framkvæmdum við umrætt álver koma í sömu viku og ákvörðun Seðlabankans um að lækka ekki stýrivexti og sömu daga heyrum við af því að verðbólgan er enn að sækja sig. Það eru engin sólarmerki um að stjórnarflokkarnir geti náð samstöðu um aðgerðir í efnahagsmálum. Þeir ná reyndar heldur ekki samstöðu um losunarkvóta fyrir stóriðju sem er alger forsenda þess að hér sé hægt að ráðast í verkefni eins og Helguvíkurálverið og þaðan af síður ná þeir samstöðu um það í hvaða forgangsröð álver skuli rísa í landinu, hvort sé fyrst Bakki eða Húsavík.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar tala út og suður um forgangsröðun álvera og einnig um það hvort byggja megi nokkurt álver á kjörtímabilinu. Framsóknarflokkurinn hefur skýra afstöðu í þessu þar sem við leggjum áherslu á Bakka vegna byggðasjónarmiða en útilokum hvorki Helguvík né Þorlákshöfn í framtíðinni. Sú afstaða er ekki tekin til að ganga í augu kjósenda eins og fjármálaráðherra reynir nú að gera með fagurgala heldur til að sýna ábyrgð og festu. Við hringlanda stjórnarflokkanna er líklegast að öll þessi verk tefjist. Ef ekki næst að koma böndum á efnahagslegan óstöðugleika eru aðstæður stórfyrirtækjanna til uppbyggingar hinar verstu og hagur almennings af því að ráðist sé í stórverkefni enginn. Allt eru þetta heimatilbúnar aðstæður sitjandi sundurlyndisstjórnar.

Stjórnleysi hamlar uppbyggingu!

Í ljósi alls þessa er það merkilegt að Böðvar Jónsson sem titlar sig bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ skuli kasta steinum að Framsóknarflokki og forystu hans fyrir ábyrga afstöðu til stóriðjuframkvæmda. Það vill nefnilega til að umræddur bæjarfulltrúi hefur að aðalatvinnu að vera aðstoðarmaður fjármálaráðherra og ber sem slíkur mikla ábyrgð á þeim aðstæðum hagkerfisins sem nú standa í vegi fyrir stóriðjuuppbyggingu.

Vitaskuld geta þeir Böðvar og Árni varið tíma sínum í að taka skóflustungu að nýju álveri en væru verkinu samt þarfari með því að reyna að ná lendingu um það innan eigin stjórnar. Meðan svo línulagnir eru allar í óvissu og orkuöflun sömuleiðis má velta fyrir sér hvaða tilgangi skóflustunga við þessar aðstæður þjónar.

Stjórnarflokkarnir hafa ástundað þann ljóta leik allt frá hausti að tala hér upp atvinnuleysi og réttlæta með því að spenna upp fjárlög og nú síðast að setja í gang margfalda stóriðjuvæðingu. Það rétta er að íslenskt hagkerfi stendur frammi fyrir alvarlegum vandamálum verðbólgu, hárra vaxta og gengislækkunar. Á sama tíma ríður yfir alþjóðleg kreppa á hlutafjármörkuðum og er svo sannarlega komin að bæjardyrum hér heima. Atvinnuleysis er samt fráleitt farið að gæta og ekkert víst að það sé í kortunum. Því er alls ekkert sem bendir til að réttu viðbrögðin við þessum aðstæðum sé stóriðjuinnspýting. Þvert á móti getur slíkt flan aukið á vandann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Held Bjarni og vísa til talsmanna atvinnulífsins að  horfunar í efnahagsmálum séu mun verra en almenningur gerir  sig grein fyrir.
Mikill samdráttur er framundan á öllum sviðum, og nú fer hin mikla
kvótaskerðing að segja til sín á fullu. Svo er litið sem ekkert framundan í stórframkvæmdum. Þannig að bygging álvers í Helguvík
myndi koma á réttum tíma og Húsavík í framhaldi af því. En þetta
þýðir að við VERÐUM að halda íslenzka ákvæðinu inni og fá viðbót
á því svo við Íslendingar höfum áfram óskoruð yfirráð yfir okkar
orkilindum í framtíðinni. Það ætlar Samfylkingin augljóslega að
koma í veg fyrir, með því m.a að koma í veg fyrir að íslenzka
ákvæðið haldi,  með tilheyrandi kreppu í efnahagsmálum.
Því eigum við að styðja byggingu álvers í Helguvík og Húsavík líka.
Enda kemur nú í ljós hvað  öll álframleiðslan í dag er að bjarga
meiriháttar okkar þjóðartekjum þegar samdráttur er í fiskveðum
og hrun á hlutabréfamarkaði.  Því þegar allt kemur til alls þá er
það hin RAUNVERULEGA VERÐMÆTASKÖPUN sem skiptir þjóðar-
búið ÖLLU máli, en ekki verðlausir pappórar, draumórar eða
haldlaus óskhyggja. Sem sagt Bjarni. Áfram Helguvík og Húsavík
líka. Eða halda menn þeir geta farið að lifa á loftinu einu saman?
Hvenær hefur það dugað ?

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 16.2.2008 kl. 13:58

2 Smámynd: Hallur Magnússon

Gera menn sér ekki grein fyrir því að þetta er spurningum um val - annað hvort Helguvík eða Bakki! Sjálfstæðismenn hafa valið Helguvík og áframhaldandi þenslu - en mun Samfylkingin velja betri kostinn - Bakka og ekki þenslu?

Losunarkvótan til álvers á Bakka eða í álbræðslu í Helguvík? 

Hallur Magnússon, 16.2.2008 kl. 16:27

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Auðvitað á Bakki að hafa forgang,þar eru komin fyrirheit um nóga orku og það er málið,svo þar er þó einn sennilega af mörgum Sjálfstæðismönnum komin/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 16.2.2008 kl. 16:47

4 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Hallur. Þetta eru 2 aðskildar framkvæmdir, og gætu fyllilega farið
saman næstu árin, og yrðu meiriháttar innspýting í íslenzkt efnahagslíf. EKKI SÍST með tilliti til efnahagslegra horfa í heiminum
í dag.  En ef Samfylkingin sem augljóslega ætlar að vera allsherjar
dragbítur á efnahagslegar framfarir m.a að vinna gegn íslenzka
ákvæðinu þá getum við bara gleymt áframhaldandi hagvexti í
framtíðinni með tilheyrandi kreppu og volæði. Eru menn virkilega
að kalla eftir því?  Ef menn sjá ekki hvað er að gerast í okkar
efnahagsumhverfi í dag þá eru þeir blindir... Hrun á fjármála-
morkuðum, fiskveðum, og s.frv.  Halda menn að þetta muni ekki
hafa gríðarleg áhrif innan skamms?  Á öllum sviðum þjóðlífsins!

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 16.2.2008 kl. 17:02

5 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Jón. Ef einhverjir ættu að biðja þjóðina afsökunar eru það einmitt
þeir sem voru andvigir Kárahnjúkavirkun´og álversins fyrir austan.
Nú malar þetta gull í þjóðarbúið og stór eykur okkar útflutningstekjur einmitt nú þegar þær dragast saman vegna afla-
samdráttar og mikils samdráttar á fjármálamörkuðum. Þökk sé
framsýni Framsóknarflokksins þá. Þá framsýni þurfum við áfram
að halda nú þegar virkilega aðkreppir. Ef ekki hefði komið til þessara framkvæmda fyrir austan hefðum við staðið frammi fyrir mun meiri
samdrætti nú en ella.
 

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 16.2.2008 kl. 19:35

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Auðvitað er það rétt hjá J.K.A. að mikill fjöldi stjórnmálamanna ætti að biðjast fyrirgefningar á mesta hryðjuverki allra tíma á íslenskri náttúru.

Og láta sér að kenningu verða.

Árni Gunnarsson, 16.2.2008 kl. 22:13

7 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Framsóknarþingmennirnir í Suðurkjördæmi lugu sig inn á þing.Sennilegast er, að þeir séu á móti álveri í Helguvík, vegna þess að þeir hafa áttað sig á því að þar verður ekki fjósalykt. Eftir kosningar hafa þeir verið á móti öllu sem gert er á Suðurnesjum.Sama hvað það er.

Sigurgeir Jónsson, 16.2.2008 kl. 22:27

8 identicon

Sæll Bjarni. Þú veist náttúrulega ekki hver ég er. Ég er maðurinn hennar Kötu Gróu og er forhertur framsóknarmaður síðan þið losuðuð ykkur við Halldór. Ég skil ekki þessa suðurnesjamenn alveg fyllilega þeir eru greinilega ekki landsbyggðamenn eins og þú og Guðni. Pólitík er nefnilega ekki þannig að Reykjavík og suðurnes eigi að sitja fyrir öllu heldur landsbyggðin í heild og þetta skylja þeir ekki sem alla tíð hafa haft forgang hjá íhaldinu og krötum því ekki er Samfylkingin neitt annað en samsafn af krötum sem lugu sig til vinstri. Kv. Tóti.

Tóti (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 12:01

9 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Tóti. Hef mikla samúð með landsbygðinni enda fæddur og

bjó á Vestfjörum yfir 40 ár. Þess vegna styð ég mjög

að olíuhreinsunarstöð verði þar byggð. En eins og kom

skýrt fram hjá forsætisráðherra í Sílfri Egils þá geta

framkvæmdir í Helguvík og Húsavík farið mjög vel saman

við þær GJÖRBREYTTU efnahagsaðstæður sem hafa skapast í

dag. Þess vegna skora ég á þig Bjarni og Framsóknarflokkinn

að styðja heilshugar álver í Helguvík eins og álver á

Húsavík. Ef Framsóknarflokkurinn ætlar að setja sig á

´móti Helguvík getur hann alveg glymt því að byggja

sig upp á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Bara skil

alls ekki ef Framsóknarflokkurinn ætlar að gerast

STÖÐNUNARFLOKKUR eins Samfylkingin og Vinstri-grænir.

Bara skil það alls ekki eins og efnahagshorfur eru

hrikalegar í dag.

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 17.2.2008 kl. 15:26

10 identicon

Það er ekki rétt að ég hafi bara að ég hafi bara samúð með landsbyggðinni ég hef samúð til landsins alls en það þarf að gera alla hluti af skynsemi og meta þá eftir þörf og efnahagslegri vitund þjóðarinnar en ekki stundarhagsmunum eins landshluta ef svo væri þá ætti olíuhreynsunarstöð að koma á undan álveri á suðurnesjum. Kv. Tóti

Tóti (IP-tala skráð) 17.2.2008 kl. 16:53

11 Smámynd: Bjarni Harðarson

sæl öll og takk fyrir líflegar umræður. ég vil að það sé alveg á hreinu að hvorugur okkar guðna erum á móti álversuppbyggingu í helguvík. hitt er umdeilanlegra hvort að hér séu komin þau merki í hagkerfinu að sjálfsagt sé að gefa í með tveimur álverum í senn - og jafnvel stóriðju lika á vestfjörðum. ef allt fer á versta veg í atvinnulífinu getur þetta átt rétt á sér og það verður ekki framsóknarflokkurinn sem leggst gegn uppbyggingu atvinnu í landinu. mikilvægast í augnablikinu er að skapa aðstæður til að halda þeim árangri sem við höfum náð,- bæði í uppbyggingu atvinnulífs hér heima og útrás fjármálafyrirtækjanna út um heim. og ef málum er svo komið að við höfum aðeins losunarkvóta fyrir eitt álver - þá tel ég ekki sjálfgefið að það álver sem menn eru fyrstir að klambra upp fái þann kvóta...

Bjarni Harðarson, 17.2.2008 kl. 18:20

12 identicon

                              Þetta er síðasta álverið   

Núverandi meirihluti Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ virðist vera að komast út úr þeirri afneitun sem hann hefur verið í allt of lengi hvað varðar væntanlega stálpípuverksmiðju sem átti að rísa í Helguvík. Þessu loforði héldu Sjálfstæðismenn á lofti fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar og hafði afgerandi áhrif á fylgi flokksins.

En nú duga engar viljayfirlýsingar, þörf er á að fara að spýta í lófana eða draga að sér hendurnar eftir því hvernig á málið er horft þar sem stöðugt gengur á eigið fé bæjarsjóðs.

Atvinnuuppbyggingin hér á svæðinu hefur því miður ekki reynst sem skyldi svo hægt væri að tryggja atvinnuöryggi fyrir hundruð manna til framtíðar. Það gengur ekki og dugar ekki til lengdar að byggja endalaust íbúðarhúsnæði, án þess að leysa um leið vandann að atvinna þurfi að fylgja hverju húsi.

Betra er að hafa einn fugl í hendi en 5 út í skógi er sagt einhvers staðar því nú ber nýrra við.

Það er komin viljayfirlýsing um að setja álver niður í Helguvík.
Hæstvirtur iðnaðaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir þingmaður Eyfirðinga og Húsvíkinga, vill tryggja að álver verði á öðrum hvorum staðnum.

Staðir þessir eiga það sameiginlegt að vera mjög sérstakir: Eyjafjörðurinn er einn af fallegustu og skjólbestu landbúnaðarsvæðum landsins með höfuðstað norðurlands, Akureyri, á einu glæsilegasta bæjarstæði sem fyrir finnst hér á landi; Húsavík er einn af aðal ferðamannastöðum á þessu stóra svæði sem Norðausturkjördæmið er og hefur að geyma stórkostlega náttúrufegurð eins langt og augað eygir.

Erlendir ferðamenn fyllast lotningu þegar þeir líta fjöllin, lækina, vötnin, árnar, fossana, jöklana og alla okkar íslensku flóru sem er ómetanleg fyrir ferðamanna- og frístundaiðnaðinn.

Eitt er víst að álver á ekki heima á þessum svæðum fyrir norðan enda sjá það flestir sem vilja horfa á þetta hlutlaust.
Valgerður Sverrisdóttir ráðherra hefur átt það til að verja sig í þessari álversumræðu um væntanlega staðsetningu þess að fjárfestar muni eiga um það síðasta orðið.

Það er ekki rökrétt hjá henni að hugsa þetta svona því við erum að tala um síðasta álverið sem reist verður hér á landi eins og hún hefur stundum komið inn á í umræðunni.

Því ætti lögmálið að hafa snúist við, iðnjöfrarnir nú í keppni um að ná til sín síðasta bitanum þegar stjórnvöld í samráði við viðkomandi bæjarfélag hafa ákveðið staðsetningu þess.

Helguvík er án efa besta staðsetningin fyrir álver því hún hefur ekki að veði það samspil hagsmuna og náttúru eins og lýst var hér að ofan.

Helguvík er með dýpstu höfnum landsins með stórskipahöfn.

Þar þarf ekki að óttast hinn forna fjanda Norðlendinga, hafísinn, né stillur í veðri, vikum saman.

Sjónmengun er lítil vegna sjálfrar byggingarinnar því hún fellur vel að umhverfinu t.d. þegar horft er eftir sjóndeildarhringnum í áttina að Keflavíkurflugvelli.

Háspennulínur mætti hafa í jörðu meðfram þjóðvegum eins og t.d. meðfram Reykjanesbrautinni og vel út fyrir byggð.

Álver í Helguvík yrði álíka langt frá byggð og álverið í Hafnarfirði en þar virðist ríkja mikil sátt.

Þetta er síðasta álverið sem reist verður á Íslandi eins og sjá má þegar litið er á Kyoto-bókunina.

Samkvæmt útdrætti úr Kyoto-bókuninni og útfærslu hennar gagnvart Íslandi eru útstreymisheimildir Íslands tvíþættar:

Í fyrsta lagi skal almennt útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi ekki aukast meira en sem nemur 10% frá árinu 1990, það er innan við 3.100 þúsund tonn koltvíoxíðígilda árlega að meðaltali 2008 til 2012.

Í öðru lagi skal koltvíoxíðútstreymi frá nýrri stóriðju eftir árið 1990 ekki vera meiri en 1.600 þúsund tonn árlega að meðaltali árin 2008-2012.

Ísland fullgilti Kyoto-bókunina 23. maí 2002.

Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur koma til með að leika stórt hlutverk þegar og ef ákveðið verður að reisa álver í Helguvík til að afla orkunnar úr iðrum jarðar á Reykjanesskaganum og mun sú framkvæmd efla enn frekar og styrkja þann þekkingariðnað sem býr í mannauði þessara fyrirtækja og vakið hefur heimsathygli eins og við sáum nú síðast í Kínaheimsókn forseta Íslands.

Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 31.maí 2005

Baldvin Nielsen (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband