Forsætisráðherra kveinkar sér

Innanflokksvandi Sjálfstæðisflokksins kemur okkur sem erum utan þess félags lítið við. En þegar meinsemdir landsstjórnarinnar stafa af sama vandamálinu er nauðsynlegt að sjá samhengið. Forsætisráðherra landsins var í Silfursviðtali um á dögunum og opinberaði þar þá ákvarðanatökufælni sem skaðar nú bæði flokk hans og efnahag landsins.

geirharde

Þannig er það ekki mjög trúverðugt að lýsa í sama viðtalinu yfir hálfvelgju stuðningi við oddvita borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna í borgargstjórastól og biðja hann um að fara nú að fara. Reyndar upplýsti forsætisráðherra að hann hefði átt fund með borgarstjóraefninu og greinilegt að margir eru fundirnir þó þeirra sjái endilega stað í aðgerðum. Þannig hélt Geir H. Haarde loksins fund með forsvarsmönnum bankanna í landinu, nú 6 mánuðum eftir að alvarlegra erfiðleika fór að gæta á íslenskum peningamarkaði. Sama dag og fundurinn var haldinn upplýsti svo Davíð Oddsson þjóðina um að það hefði verið hann sem sendi Geir á fundinn með bankastjórunum!

Framsóknarmenn hafa nú allt frá vori reynt að vekja ríkisstjórnina til efnahagsstjórnunar sem er brýnt verkefni. Slag í slag höfum við farið í ræðupúlt Alþingis til umræðu um vandann en jafnan fengið sömu svör að allt sé nú í skoðun, stjórnarflokkarnir séu að velta hlutunum fyrir sér og að allt sé nú í farvegi. Þegar spurt hefur verið um verðbólgumarkmið eða önnur úrræði hafa svörin verið þau að engra tíðinda sé að vænta.

Í umræðu um gjaldmiðilismálin er það yfirlýst stefna að segja ekkert nýtt sem kom skýrast fram á Viðskiptaþingi þar sem forsætisráðherra byrjaði ræðu sína á því að tiltaka að hann hefði nú rætt málið á aðalfundi Seðlabankans fyrir ári síðan og þar sem enginn myndi nú lengur þá ræðu ætlaði hann að endurflytja hana nú. Rétt eins og ekkert hefði gerst í íslensku efnahagslífi í heilt ár.

Nöturlegast er þó hið staðlaða svar forsætisráðherra vegna þenslu í ríkisfjármálum þar sem klifað á þeirri staðleysu að þar sé gætt aðhalds. Rökin eru þau að metafgangur sé á fjárlögum. Reyndin er að fara þarf langt á síðustu öld til að finna álíka óráðsíu í ríkisfjármálum, jafn mikil hækkun milli ára hefur ekki sést síðan fyrir þjóðarsátt og ríkisútgjöld hafa ekki verið jafn stór hluti af landsframleiðslu um mjög langt skeið.

En öll svör forsætisráðherra eru í vörn þess leiðtoga sem ekki tekur af skarið. Finnur fyrir þrýstingi úr mörgum áttum innan síns eigin flokks og frá samstarfsflokknum og kýs að svara því áreiti með þögn og aðgerðaleysi.

Ákvarðanatökufælnin var raunar ljós strax við stjórnarmyndun síðastliðið vor þegar Framsóknarmenn reyndu að knýja fram svör við því hvort Sjálfstæðisflokkurinn vildi efna til viðræðna um áframhaldandi stjórnarsamstarf. Okkar stefna var skýr,- við töldum í fyrsta lagi að frumkvæðið ætti að vera í höndum forsætisráðherrans en ekki okkar. Í öðru lagi að við gætum ekki vísað möguleikanum frá okkur nema vita hvað væri í spilunum. Eftir nokkurra daga þóf var ljóst að það var bara eitt í spilunum. Meðan formaðurinn streittist við að gera ekkert var varaformaður Sjálfstæðisflokks að mynda kratastjórn með Samfylkingunni.

Miðað við raunverulega atburðarás er það því aumkunarvert að heyra Geir H. Haarde nú kveikna sér í Silfrinu undan gagnrýni Morgunblaðsins og kenna undirrituðum um það að ekki var mynduð almennilega starfhæf ríkisstjórn í landinu. Það er rétt að ég lýsti því yfir í Silfri Egils að ég teldi vinstri stjórn að mörgu leyti betri kost en áframhaldandi stjórnarsamstarf. En ég útilokaði aldrei áframhaldandi samstjórn með Sjálfstæðismönnum. Forsætisráðherra getur ekki kennt mér um þær óvinsældir sem hann og menntamálaráðherra fá nú að kenna á í eigin flokki. Það var fyrst og síðast ákvarðanatökufælni forsætisráðherra sem kallaði yfir þjóðina hina dapurlegu kratastjórn Þorgerðar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Egilson

Sæll Bjarni, finnst þér ásættanlegt að vera talinn stjórntækur með xD vegna þess eins að þú ert ekki talinn ógna famgangi og vexti Sjálfstæðisflokksins -að mati ritsjóra morgunblaðsins!
Nei, ef þú ert í alvöru félagshyggjumaður þá skaltu reyna að girða ykkur famsóknarmenn í brók svo fyrra skilyrðinu um að hægt sé að mynda hér samhenta lýðræðis- og velferðarstjórn sé fullnægt.
Það má Geir Hilmar eiga að hann er sem betur fer búinn að stimpla strumpana í fílabeinsturninum að Hádegismóum að hluta til út.

Kveðja,

Þorsteinn Egilson, 1.3.2008 kl. 06:42

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Veit ekki hvort að stjórn sem mynduð er af flokkum með fylgi yfir 70% þjóðarinnar getur kallast "dapurleg kratastjórn". Þar á meðal eru margir fyrrverandi Framsóknarmenn og ég er ekki viss um að það sé rétta leiðin hjá þér ef þú vilt ná þeim til baka að ávarpa þá sem dapurleg krata.

Ég myndi frekar tala um áreynslulausa og árangursríka stjórnarhætti. Man til dæmis ekki eftir því að áður hafi gengið eins fumlaust að gera kjarasamninga í þessu landi. Samninga sem allir eru ánægðir með, bæði verkalýður og atvinnulíf. Þar verður launafólki meðal annars gefinn kostur á að fá greitt í evrum, sem margir eiga eftir að nýta sér.

Gunnlaugur B Ólafsson, 1.3.2008 kl. 09:26

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ef svo er komið að það stenst , að einhverjir atvinnurekendur geti greitt laun á íslandi með erlendum gjaldeyri, hvað þá með hina sem eiga eftir að semja.Það hljóta allir að gera þá kröfu að fá greitt í öðrum gjaldmiðli en Íslenskum krónum, því slíkt er bein ávísun á kauplækkun.

Sigurgeir Jónsson, 2.3.2008 kl. 10:19

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Mér sýnist Framsóknarflokkurinn vera þróast til betri vegar og ef þú átt einhvern þátt í því þá er það vel.

Sigurður Þórðarson, 2.3.2008 kl. 14:52

5 Smámynd: Vendetta

Það er rétt, Bjarni, að aðgerðarleysi Geirs Haarde, sem stafar af dugleysi hans og skorti á leiðtogahæfileikum, er átakanlegt. En hann heldur áfram að halda að sér höndum gleiðbrosandi meðan landið er á hraðri siglingu til heljar.

Vendetta, 3.3.2008 kl. 08:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband