Rabb í ráðleysi eftir eldmessu Davíðs

Var að koma af aðalfundi Seðlabankans sem var nú aðallega meinleysislegur rabbfundur um ráðleysi. Þar kom ekkert nýtt fram. Seðlabankastjóri hélt þar ágæta og skemmtilega eldmessu þar sem hann undir rós skammaði ríkisstjórnina fyrir ábyrgðarleysi í fjármálum og sagði m.a.:

 Ríkissjóður hefur verið rekinn með bærilegum afgangi og er vel aflögufær og þess vegna er mikill þrýstingur á hann um aukin útgjöld, sem hvorki atvinnuástand né önnur efnahagsleg skilyrði hafa enn sem komið er þó kallað á. Það þarf staðfestu til að standa af sér kröfur um aukin útgjöld, þegar ekki er hægt að segja með trúverðugum hætti að peningarnir séu ekki til, en þá staðfestu verður þó að sýna, því fullyrða má með öruggri vissu, að það verður vaxandi og raunverulegri þörf fyrir peningana innan tíðar og því mikill skaði og fyrirhyggjuleysi, ef menn gleyma sér svo í góðærinu, að þeir eigi ekki nóg til mögru áranna, sem mæta örugglega og það nokkuð stundvíslega.

Það var vitaskuld ekki öfundsverð staða fyrir forsætisráðherra að koma upp og flytja ræðu eftir eldmessu Davíðs enda fór svo að  margt í ræðu Geirs var með þeim hætti að betur hefði verið ósagt. Hér skal aðeins drepið á nokkur gullkorn:

"Allt bendir til að lokið sé að sinni mikilli uppsveiflu í íslensku efnahagslífi" - þetta vissi hvert mannsbarn fyrir misseri síðan en ekki Geir því í næstu setningum kom fram sú fullyrðing að samdráttur á heimsvísu hefði verið óþekkt þegar Alþingi samþykkti fjárlög!!! Vorum við þó margir í þingsalnum sem vöruðum þá strax við að vegna heimskreppu þyrfti að gæta varúðar.

"Aðgerðir Seðlabankans síðastliðinn þriðjudag flýta augljóslega fyrir því að krónan leyti nýs jafnvægis," - þetta er svo augljóslega rangt. Gengið er komið í sömu stöðu og það var fyrir þessu síðustu vaxtaskrúfu bankans sem gerir því ekkert annað en að skrúfa upp verðlag eins og allt okur hlýtur að gera.

"Það þýðir að ríkissjóður hefur mikinn fjárhagslegan styrk og getur tekið að láni verulegar fjárhæðir ef á þarf að halda. Það er því engum vafa undirorpið að ríkissjóður og Seðlabankinn gætu hlaupið undir bagga ef upp kæmi alvarleg staða í bankakerfinu." Þessi tími loforða er löngu liðinn og komið að athöfnum. Ef ríkisstjórnin sýndi einhverja tilburði til að gera í stað þess að tala væri ástandið betra. Það er fyrir löngu komin upp alvarleg staða í þjóðarbúinu og óðaverðbólgan er nú á þröskuldinum. Mig minnir að Björn Bjarnason hafi um daginn verið að tala um doers og talkers sem þýða mætti sem framkvæmdamenn og málæðismenn.

Bara það að Geir hefði tilkynnt á fundinum í dag um að ríkið hefði tekið verulegt lán og lagt til bankakerfisins hefði haft þau áhrif að styrkja krónuna,- það veit hvert mannsbarn! "Somewhat bizarre" sagði greiningaraðili Blomberg um athafnaleysi íslenskra stjórnvalda í vikubyrjun og þetta aðgerðaleysi verður bara meira og meira bizarrre eftir því sem á líður - hugtakið er eðlilegast að þýða með orðinu afbrigðilegt,- einhvernveginn mjög afbrigðilegt aðgerðaleysi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Bjarni.

  Var að lesa pistilinn þinn. Þú talar um meinleysislegan rabbfund og skemmtilega eldmessu seðlabankastjóra. Ég hlustaði á glefsur úr eldmessunni í kvöldfréttum sjónvarpsins. Þar talaði hann um óprúttna miðlara, sem hafi gert atlögu að bönkum og ríkissjóði til þess að brjóta niður íslenska fjármálakerfið. Hann telur fráleitt að tryggingarálagið sé hækkað um 400 punkta. Hann telur að til álita komi að gera opinbera rannsókn á slíku tilræði við heilbrigð fjármálakerfi.

 Einnig var lesin frétt um að það væri í athugun í seðlabankanum hvort ábyrgir aðilar hefðu gert tilraun til þess að fella gengi krónunnar. Hvernig á að skilja þessi orð hins nýja eldklerks? Ég veit ekki hvernig ræðan var í heild en geri ráð fyrir að fréttastofan hafi birt það sem henni fannst bitastæðast úr henni. Svo að ég noti nú orð klerksins sjálfs, þá finnst mér að þessi ummæli lykti óþægilega af því að klerkurinn eða ætti ég kannski að segja páfinn sé að gefa út aflátsbréf til íslenskra afglapa í bankakerfinu, sem hafa farið eins og logi yfir akur og látið eins og þeir gætu lagt heiminn undir sig en eru búnir að spila rassinn úr buxunum og er þá handónýt efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar ekki undanskilin. Þegar illa fer þá er ekki amalegt að hafa blóraböggul til þess að skella skuldinni á og velta síðan afleiðingunum yfir á almenning en hafa sjálfir allt sitt á þurru.

 Er hækkun tryggingarálagsins óábyrg ráðstöfun, endurspeglar hún ekki ástandið eins og það er? Það getur varla verið einhver geðþóttaákvörðun eða hvað? Hvernig ber að skilja ummæli hans um tilraun ábyrgra aðila til þess að fella gengið? Hverjir eru þessir "ábyrgu aðilar". Eru þessi ummæli öll sannleikur, eru þau dylgjur eða kannski orð ráðalauss manns? Og að lokum, er íslenska fjármálakerfið heilbrigt um þessar mundir?

 Gaman væri nú ef Messías seðlabankans færi nú á stúfana og velti um borðum víxlaranna og hreinsaði til í fjármálaheiminum, eins og forveri hans forðum daga.

  Þessar hugleiðingar urðu til á meðan ég hlustaði á eldmessubrotin.

   Kveðja, Þorvaldur Ágústsson.
 

Þorvaldur Ágústsson (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 00:40

2 identicon

Var að koma erlendis frá og las því Bjarnablogg og netmiðlana hjá Björgólfi og Baugi. Heildarmyndin því orðin skýr; " allir eru vondir við okkur og samsæri gegn sjálfumgleði íslendinga ber að kæra til Guðs..(.því enginn annar tekur við slíkri kæru) Frá því í ágúst í fyrra var ljóst að stærri aðgerða var þörf hér á landi en sést hefðu frá því Danir illu heilli slepptu okkur lausum um árið. Dýralækningar og geðvonska " ala carte Davíðs " leysa ekki vandann. Markaðurinn er eini rétti dómarinn .Hann segir að helmingslíkur séu á gjaldþroti banka og um leið þorra fyrirtækja landsins með óðaverðbólgu og atvinnuleysi sem afleiðu. Hann segir að íslenska ríkið sé EKKI með trúverðugt andlit sem skuldari. Ástæðan virðist vera alþóðleg vantrú á Mussukommúnisma og dýralækningum í efnahagsstjórn. Því eru enn og aftur orð þín Bjarni um tafarlausar aðgerðir ríkisstjórnar neyðarhróp manns sem hefur skilning dagversnandi stöðu okkar þjóðar.

Jón Ingi Gíslason (IP-tala skráð) 29.3.2008 kl. 09:02

3 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Gunnar Helgi Eysteinsson, 29.3.2008 kl. 14:17

4 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Væri nú ekki betur fyrir okkur öllum komið ef Davíð sjálfur hefði ekki með frekju og yfirgangi kæft alla umræðu um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu? Það þarf gott betur en nýríka íslenska braskara til að sveifla Evrunni til og frá........ 

Heimir Eyvindarson, 29.3.2008 kl. 18:11

5 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Úr því að fjármálaheimurinn stjórnar öllu hér á landi því rétta þeir ekki gengið við? Jú bankarnir hagnast svo mikið á gengisfellingu, og svo blæðir lýðnum í landinu. Kær kveðja frá Eyjum.

Helgi Þór Gunnarsson, 30.3.2008 kl. 01:40

6 identicon

Það er búinn að vera verðbólga meira og minna alla mína ævi og einhverjum árum betur. Hún hefur varað nær óslitið frá því í stríðsbyrjun um 1940. Bólgan hefur verið mismikil, stundum hjaðnað um tíma en alltaf einhver innbyggður bólguvaldur sem gerði það að verkum að óðar en slakað var á bremsunni óx bólgan. Það voru afnumdir aurar, tekin 2 núll aftan af og breytt í aura aftur, þeir síðan afnumdir og nú sýnist mér að það mætti fara klippa aftur núll aftan af.

Íslendingar hafa í þessa tvo aldarþriðjunga ekki eignast þá ráðamenn sem hafa getað og/eða viljað ráðið niðurlögum verðbólgunnar. Ef þeir eru fæddir nú og ganga um á meðal vor, þá hafa orðið tímamót.

Guðmundur Stefánsson (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 14:11

7 identicon

Hannes (IP-tala skráð) 30.3.2008 kl. 20:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband