Kratar allra flokka og hrátt kjöt

(Eftirfarandi birti ég í hinu góða íhaldskratablaði 24 stundum í dag. Í sömu opnu skrifar leiðarahöfundurinn leiðara um sama mál og reynir þar að draga upp að fráfarandi landbúnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins beri alla ábyrgð á hráa ketinu þar sem embættismenn unnu að undirbúningi málsins í hans tíð. Hafi ritstjórinn rétt fyrir sér þá eru stjórnmálamenn greinilega óþarfir,- allt sem embættismenn vinna að eru lög um leið og þeir hafa lagt sína stjörfu höndu þar á. Málið var sett í gang af Davíð Oddssyni á sínum tíma en ég hefi jafnvel efasemdir um að hann hefði hleypt því fram með þeim upplýsingum sem nú eru fram komnar. Og hin pólitíska ábyrgð og umræða er Alþingis. En svona er Ísland í dag - þar sem stjórnarliðar ráða öllum fjölmiðlum og beita þeim jafnvel til að svara í sömu opnu ef á kratastefnuna er orðinu hallað.)

Það eru Framsóknarmenn í öllum flokkum skrifaði leiðarahöfundur 24 stunda fyrir nokkrum dögum og vísaði þá til þess að ekki væru all jafn ginnkeyptir fyrir því að galopna landið fyrir innflutningi á kjöti. Ég er ritstjóranum sammála í þessu þó okkur greini á um hver stjórnmálastefnan sé gæfulegust.kind_m_2_lomb22

Og það eru ekki bara Framsóknarmenn í öllum flokkum. Það eru líka kratar í öllum flokkum og orðnir hættulega margir í flokki ritstjórans, Sjálfstæðisflokki. Aðall þeirra er að leysa vanda með fórnum og óvinaleit. Í dag er óvinurinn íslensk kjötframleiðsla og leysa má vanda neytenda og hagkerfis með því að koma svína- og kjúklingabændum á kaldan klaka. Ef því fylgir svo að við rústum um leið 30% af hefðbundnum landbúnaði og allri kjötvinnslu í landinu eru það bara eðlileg jaðaráhrif krossferðarinnar.

Atvinnumissir í borginni

Það er reyndar ekki nýtt að kratar allra flokka beini spjótum sínum að íslenskri framleiðslu og íslenskum bændum sér í lagi. Það sem er nýtt í þessari umræðu að krafan um skefjalausan innflutning á hvítu kjöti er um leið krafa um að hundruð Reykvíkinga missi vinnuna. Hagtölur telja að álíka margir vinni á höfuðborgarsvæðinu við úrvinnslu og framleiðslu á hvítu kjöti eins og eru við störf í álverinu í Straumsvík.

Fyrir ári síðan hefði það kannski ekki hljómað svo alvarlega að störfum í borginni fækkaði því þá spruttu upp ný eins og gorkúlur. Sá tími er liðinn. Í hönd fer krepputími með atvinnuleysi og á slíkum tímum er mikilvægt að standa saman um að verja þau störf sem við þó höfum. Frjáls innflutningur á fersku kjöti og í framhaldinu lækkun tolla eins og Samfylkingararmur ríkisstjórnarinnar hefur lofað er ekki það sem við þurfum á þessari stundu.

Við höfum á undanförnum árum tekið þátt í alþjóðlegri lækkun tolla á matvörum ýtt úr vegi ýmsum hindrunum. Þar höfum við síst verið eftirbátar annarra vestrænna þjóða. En hugmyndin um að heimila innflutning á hráu kjöti til landsins er hættuleg bæði innlendri framleiðslu, innlendu lífríki, náttúru landsins og fólkinu sem í landinu býr. Við erum eyríki en ekki hluti af meginlandi Evrópu og eigum að njóta þess.

Lífshætta fyrir fólk

Það hefur reyndar komið fram í mati dýralækna að dýrastofnum hér og villtri náttúru stafi ekki stórkostleg hætta af þessum innflutningi en þó einhver. Tríkín verði vafalaust landlægt í rottum o.s.frv. Alvarlegra er þó að viðurkennt er að neytendum stafar vissulega hætta af þessum innflutningi. Þannig er viðurkennt að með þessu aukum við verulega hættu á salmonellusýkingu í fólki og opnum fyrir möguleika á smiti af kúariðu sem er banvænn sjúkdómur. Salmonellusmit geta valdið varanlegri örorku.

Ávinningurinn er möguleg lækkun kjötverðs sem er þó svo óveruleg að hún mælist ekki þegar tekin er kvarði á vísitölu neysluverðs. Verst er að í þeim þrengingum og verðbólgu sem nú gýs upp er hin hallærislega tillaga landbúnaðarráðherra um hrátt kjöt það eina sem lagt er til! Ráðherrann fór í Valhöll á fund frjálshyggjukrata síns flokks og barði sér á brjóst. Eins og hægt sé að bjarga andliti og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar með því að etja fólki saman á móti bændum.

Þjóðarsátt í stað illinda

En það eru sem betur fer Framsóknarmenn í öllum flokkum og við urðum margir fyrir vonbrigðum með landbúnaðarráðherrann nýja í þessu máli. Töldum hann máske í okkar liði. Við Framsóknarmenn höfum lagt fram heilsteyptar og mótaðar tillögur til þess að koma til móts við heimilin í landinu í vaxandi dýrtíð. Þar höfum við m.a. lagt til að matarskattur verði afnuminn samhliða víðtækri þjóðarsátt um aðgerðir gegn verðbólgunni.

En kratastjórninni sem nú situr hentar ekki að horfa til þjóðarsáttar. Í stað þess að þjappa þjóðinni saman skal stéttum att saman, leitað óvina og  í metingi og stríði sem engu skila.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

ég se, kjötiðnaðarmaður hef ekki stórar áhyggjur af þessu þar sem talsverður kjötskortur er í landinu nú þegar.. það sem ég hef áhyggjur af er Bónus og Krónan.. þessir tveir munu alveg pottþétt stefna beint í innflutning og etja innlendum framleiðendum gegn niðurborguðum innfluttum kjötvörum.

Neytendur verða líka að axla ábyrgð með því að versla innlent þegar sá tími kemur.. laun verða einnig að vera nægjanlega há í landinu til þess að almenningur hætti að eltast eingöngu við ódýrustu vörurnar. (bónusruslið)

Óskar Þorkelsson, 19.4.2008 kl. 12:05

2 identicon

Um þetta segi ég:

http://fridrik.eyjan.is/2008/04/hrtt-mat.html

Kveðja

Friðrik

Friðrik Jónsson (IP-tala skráð) 19.4.2008 kl. 15:05

3 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Að flytja inn ódýrt kjöt erlendis frá er engin lausn. Við vitum ekki einu sinni uppruna þess. Við erum vön hreinu, ómenguðu kjöti. Eigum við að stefn því í hættu fyrir nokkrar krónur.  Einkennilegt í þessari umræðu að enginn nefnir svimandi hátt verð á fiski. Það er orðinn lúxus að vera með fisk í matinn, ferskan fisk. Ég fór í eina ágæta fiskbúið í bænum og keypti þar ýsuflak og saltfisk fyrir fjóra, tók reyndar aðeins ríflega en það kostaði mig rúmlega 2.200,- krónur. Við hlið mér í búðinni stóð maður sem keypti 1/2 þversneið af stórlúðu sem vó um 1300 gr. Þessi biti kostaðin mannin ríflega 3.000 krónur! Þetta talar enginn um.  Þegar ég ólst upp var fiskur í matinn 4-5 sinnum í viku, það getur enginn í dag.

Sigurlaug B. Gröndal, 19.4.2008 kl. 18:20

4 Smámynd: Loopman

Voðaleg framsóknarmennska er þetta í ykkur. Bændur eru bara lítill hluti vinnandi manna hér á landi. Hvers vegna á að vernda landbúnað sem er rekinn með bullandi tapi og gríðarlegum ríkisstyrkjum til þess eins að ég þurfi að sætta mig við að borga 4 sinnum meira verð á kjöti heldur en í Bretlandi til dæmis?

það mætti svo sem smá skarna á framsóknarmenn í þeirri von að þeir vaxi uppúr fyrirgreiðslupólitík og eigin hagsmuna pólitík. Ég bind vonir við þá aðgerð. Ætli ég fái ríkisstyrk til þess?

Bestu kveðjur frá Loopman

Loopman, 19.4.2008 kl. 18:32

5 identicon

það verð sem bændur fá í sinn hlut er talin vera um 4% af heildarút- gjöldum fjölskyldnna.         Væri það nú ekki skynsamlegt að skoða fyrst hvort  ekki sé eitthvað bitastætt sem mætti spara í hinum 96% sem fjölskyldurnar þurfa til framfærslu sinnar áður en stjórnvöld rústa íslenskum landbúnaði.Ekki meira núna.Kanski seinna.

                                              Gissur á Herjólfsstöðum.

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 19.4.2008 kl. 20:56

6 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Það vildi ég að stjórnmálamenn hefðu varið Íslenskan skipasmíðaiðnað ef sama offorsi og einnig iðnað. En það er nógu gott fyrir okkur sem störfum í þeim geirum að vera í stöðugri samkeppni við bæði erlendan iðnað og erlent vinnuafl ég býð bændur bara velkomna í Íslenskan raunveruleika hann á jú að ganga jaftn yfir alla ekki satt

Jón Aðalsteinn Jónsson, 20.4.2008 kl. 00:11

7 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Og eitt enn það er mikið látið með að neytendum stafi hætta af þessu. Ég sé ekki betur en hin vestræni heimur þrífist vel og sé ekki örkumla af salmonellu. Og svo mætti nú fara að skera helv hæklana af lærunum áður en maður kaupir þau.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 20.4.2008 kl. 00:14

8 identicon

14. apríl 2008

Fræðslufundur um Evrópumál
Landssamband Framsóknarkvenna býður til fræðslufundar um Evrópumál laugardaginn 19. apríl kl. 10-15.
Dagskrá:
Kl. 10:15 Fundur settur: Ólöf Pálína Úlfarsdóttir formaður LFK
Kl. 10:20 Valgerður Sverrisdóttir varaformaður Framsóknarflokksins: Framtíðin liggur í heimsvæðingunni
Kl. 10:45 Siv Friðleifsdóttir þingkona Framsóknarflokksins: Norrænt og evrópskt samstarf
Kl. 11:05 Andrés Pétursson ráðgjafi:  Fall eða frami? Á Ísland að taka skrefið til Evrópu?
Kl. 12:00 -13:00 Hádegismatur – þjóðleg kjötsúpa – kr. 1000,-
Kl. 13.00 Erna Bjarnadóttir sviðsstjóri: Er ESB aðild það sem við þurfum?
Kl. 14:00 Kaffihlé
Kl: 14:15 Fyrirspurnir
Kl. 15:00 Fundarlok
Framsóknarmenn eru hvattir til að mæta og taka þátt í umræðu um eitt heitasta mál dagsins í dag.

Hannes (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 00:21

9 identicon

Þegar rökin bresta tekur hræðsluáróðurinn við. Það var meira að segja fundið upp nýyrði í þessu skyni: fæðuöryggi!

Það hefur greinilega borgað sig fyrir framsókn að hafa utanríkisráðuneytið í öll þessi ár. Væntanlega var það þar sem þið kynntuð ykkur hræðslutaktík George W. Bush.

Bjarki (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 00:50

10 Smámynd: haraldurhar

   Bjarni við eigum ekki að vinna að því að stuðla að okursamfélaginu, heldur vinna bug á því. og þar á meðal gefa innfluting frjálsan á allri matvöru, og lækka tolla og aðrar álögur á matvæli.

haraldurhar, 20.4.2008 kl. 14:40

11 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Gunnar Helgi Eysteinsson, 20.4.2008 kl. 16:55

12 identicon

"

Fréttir | 20. apríl 2008 valgerdur.is

Evrópumálin - ný tíðindi

Í gær gekkst Landssamband framsóknarkvenna fyrir fræðslufundi um Evrópumál. Auk undirritaðrar og Sivjar Friðleifsdóttur fluttu framsögur Andrés Pétursson formaður Evrópusamtakanna og Erna Bjarnadóttir sviðsstjóri hjá Bændasamtökunum.

Málefnalegar umræður fóru fram um Evrópusambandið og starfsemi þess. Kostir og gallar aðildar voru rædd og hvernig aðild hefur breytt hlutum hjá nágrannaþjóðum okkar eins og t.d. Finnum. Í aðildarviðræðum Finna að ESB var mikið tillit tekið til mikilvægis landbúnaðar í þjóðarbúskapnum. Þeir fengu heimild til að styrkja landbúnað um 35%, meira en önnur aðildarríki ESB gera, að Svíum undanskildum.´

Öllum er ljóst að breyta þarf stjórnarskránni ef Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu. Fram kom á fundinum að fv. formaður Framsóknarflokksins, Ólafur Jóhannesson, hafi sennilega verið fyrstur til að koma fram með þá skoðun, árið 1962, að rétt væri að setja opnunarákvæði í stjórnarskrána um framsal valds. Ólafur hefur séð fyrir sér fyrir nær hálfri öld að þróunin yrði sú að alþjóðlegt samstarf myndi aukast og að einhverju leyti yrði um valdaafsal að ræða til alþjóðlegra stofnana.

Eftir að hafa lesið Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins í gærkveldi var mér hugsað til þess að höfundur þess hefði haft gott af að sitja fund framsóknarkvenna fyrr um daginn.

Reykjavíkurbréf er við sama heygarðshornið, Evrópusambandið er stórhættulegt og evran sennilega á útleið. "Þýska blokkin" stendur auk þess fyrir hávaxtastefnu sem er að sliga aðildarþjóðirnar.

Vissulega rétt að það er kvartað yfir sterkri evru í aðildarlöndunum. Það gerðu útflutningsgreinarnar líka á Íslandi þar til krónan féll.

Frá Noregi berast þær fréttir að menn óttist hrinu gjaldþrota í sjávarútvegi vegna þess hve sterk norska krónan er. Hún hefur styrkst umtalsvert að undanförnu og menn óttast að frekari styrking sé í pípunum.

Það var ekki orð um þetta í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins.

Í Fréttablaðinu í dag er birt niðurstaða skoðunarkönnunar. Þar kemur fram að samkvæmt könnuninni vilji 67,8% þjóðarinnar undirbúa ESB-umsókn.

Það er athyglisvert að 56,9% sjálfstæðismanna vilja hefja undirbúning aðildarviðræðna.

Þetta staðfestir það að sjálfstæðismenn eru hættir að líta á pólitíkina í Morgunblaðinu sem vegvísi í skoðanamyndun.

Það sem meira er, þeir eru líka hættir að hlusta á forystu Sjálfstæðisflokksins.

Ætli að forystan viti af því?

"

Hannes (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 17:48

13 identicon

Ef að Framsóknarmenn eru á móti innflutningi þá eru þeir á móti lækkun matvælaverðs á Íslandi. Þeir eru að vinna fyrir gömlu sérhagsmunahópa sína og enga aðra. Þetta er hrein og klár og mjög ógeðfelld hagsmunapólitík. Það er staðreynd að matvælaverð breytist ekki neitt hér á landi nema að innflutningur verði leyfður, að segja annað er hrein og klár lygi.

IG (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 17:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband