Af hráu keti, Grýlu og englabörnum ESB

Í Evrópusamstarfi er Ísland í sérflokki þegar kemur að hlýðni við regluverk Evrópusambandsins. Meðan ESB og ESA stofnunin gáfu út liðlega 1300 kærur á hendur aðildarlöndum var aðeins einni stefnt að Íslandi en 184 að Frakklandi svo dæmi sé tekið.

Um þetta má lesa í greinagóðri skýrslu Evrópunefndar forsætisráðuneytis sem út kom á síðasta ári en þar lögðu saman krafta sína fulltrúar allra stjórnmálaflokka. Niðurstaðan er athyglisverð í ljósi þess hvernig núverandi ríkisstjórn notar evrópureglur sem skálkaskjól fyrir reglugerðarfargan sem hún leggur á margar atvinnugreinar.

Grýla og englabörnin

Frægust af endemum er deilan um hvíldartíma ökumanna. Heldur  minni athygli hlaut vinnutímatilskipun hjúkrunarfræðinga sem vakti þó upp mikla andstöðu í þeirri stétt. Þegar deilan á sjúkrahúsunum var komin í hnút hjó heilbrigðisráðherra svo á allt saman með því að setja evrópureglurnar í pappírstætarann vitandi að vitaskuld megum við óþekktast gagnvart Brusselvaldinu eins og aðrir.

Annað dæmi um fáránleika hinnar miklu löghlýðni Íslendinga eru útskipti Grímseyjarferjunnar. Ástæða þess að leggja varð gamla Sæfara var alls ekki óánægja Grímseyinga með skipið heldur að nokkrir ráðuneytismenn höfðu af samviskusemi sinni fundið út að ferjan myndi innan tiltekins árafjölda hætta að uppfylla skilyrði ESB.

Umtalað var að þá fóru starfsmenn og verktakar ríkisins að leita að skipi erlendis. Á Írlandi spurðu þessir Íslendingar þarlenda hvort ferjur sem falar voru myndu nú uppfylla evrópustaðla. Svörin voru þau að Írarnir sem eru þó í ESB hefðu aldrei leitt hugann að slíku og ætluðu sér ekki að gera. En Íslendingar voru hér eins og englabörn að leita uppi hvað hægt væri að gera til að þóknast reglugerðarverksmiðjunni miklu. Í þessu tilviki kostaði þessi sérstæða "samviskusemi" landsmenn beggja vegna Grímseyjarsunds hundruð milljóna og ómæld leiðindi.

Og þess í millum eru ESB-reglur notaðar sem grýla á launþega eins og í deilu við hjúkrunarfræðinga eða skálkaskjól þegar kemur að eðlilegu viðhaldi á skipalyftu í Vestmannaeyjum.

Fyrir nokkrum árum var innleitt að bændur yrðu vegna Evrópureglna að merkja öll sín lömb með sérstöku Íslandsmerki svo að þau rugluðust ekki saman við búpening Evrópumanna. Síðan stendur ISLAND í öðru hverju lambseyra. Á ferðalagi um Frakkland gat ég ekki betur séð en vinir mínir sem stunda þar sauðfjárbúskap séu lausir undan sambærilegri vitleysu og eru þó meiri líkur á að frönsk kind þvælist yfir til Spánar heldur en að sú íslenska syndi yfir til Íra. Svo mætti áfram telja.

Kannski erum við bara óhæfir í Evrópusamstarfi vegna minnimáttakendar gagnvart útlendu regluverki. Á ástandsárunum voru það heimasætur sem fengu í hnén gagnvart borðalögðum dátum, nú eru það möppudýrin og tæknikratarnir á landinu kalda.

Hrátt ket og heiðarleiki stjórnmálamanna

Og vitaskuld eru það barnalegar viðbárur að Íslendingum sé nauðugur sá kostur að innleiða hinn forkostulega landbúnaðarbálk ESB. Miklu sennilegra er að hluti þeirra stjórnmálamanna sem halda því fram geri það gegn betri vitund. Allt tal um að fisksöluhagsmunum okkar sé ógnað er ósennilegt ef ekki hrein fjarstæða við ríkjandi aðstæður þar sem eftirspurn eftir okkar afurðum er meiri en nokkru sinni.

Ógnin í þessu máli er sú að hér verði fluttir inn áður óþekktir dýra- og mannasjúkdómar því vitaskuld er ófrosið kjöt afar líklegt til sýkinga og um sumt líklegra til að vera sýkt heldur en kjöt á fæti. Um sýkingarþáttinn mætti skrifa aðra grein en bíður betri tíma.

Ef menn vilja galopna á innflutning landbúnaðarafurða einir þjóða og drepa af sér innlenda framleiðslu þá eiga þeir að hafa heiðarleika til að viðurkenna það sem sína skoðun en ekki kenna útlendingum um. En það er von að menn hiki því þetta er frekar skrýtin skoðun nú þegar kreppir að allri matvælaframleiðslu í heiminum og horfir í ofanálag í atvinnuleysi hér heima. Málið snýst ekki bara um hagsmuni bænda því bara á Reykjavíkursvæðinu munu tapast álíka mörg störf og eru í álverinu í Straumsvík. Og það hefur þótt muna um minna.

(Birt í 24 stundum í dag, laugardaginn 17. maí)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

það daprasta í umræðunni um ESB eru skotgrafirnar. hér ertu aldeilis í skotgröf;

„Á ástandsárunum voru það heimasætur sem fengu í hnén gagnvart borðalögðum dátum, nú eru það möppudýrin og tæknikratarnir á landinu kalda.“

Varla svara vert.

Brjánn Guðjónsson, 17.5.2008 kl. 21:07

2 identicon

Bjarni minn, hættu nú þessu harmakveini um blessaða bændurna. Ekki trúið þið því virkilega að landinn kaupi frekar erlent kjöt en innlent? Þetta bændavæl er að verða efni í heilann ljóðabálk.

Svo hefur ykkur í framsókn ekki verið skotaskuld hingað til að henda upp einu og einu álveri til að rétta af atvinnuleysi 

Diesel (IP-tala skráð) 17.5.2008 kl. 22:16

3 Smámynd: Þórir Kjartansson

Alveg sammála þessu, Bjarni.  En hvar er nú undirlægjuhátturinn varðandi athugasemdir mannréttindaskr. SÞ. vegna kvótamálsins?  Á ekkert að gera með það?

Þórir Kjartansson, 18.5.2008 kl. 07:43

4 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Fínn pistill Bjarni. Þetta lýtur einmitt að því hvernig Evrópubúar nálgast reglur á mismunandi hátt. Íslendingar vilja fara eftir bókstafnum í þessu sem og í öðru. Kannski hefur þetta með að gera hefðbundna nálgun þjóða að því hvað lög og reglur eru. Í Suður Evrópu eru lög og reglur eitthvað sem fólk lítur til sem fyrirmyndar um rétta hegðun en ekki endilega eitthvað sem fara eigi eftir í smáatriðum sér í lagi þegar lögin fara að vera mjög smásmuguleg.

Þetta mismunandi viðhorf hefur til að mynda verið greinilegt í viðhorfum fólks til ýmissa reglna kaþólsku kirkjunnar. Þar eru strangar reglur en viðhorf Suður-Evrópubúa til þeirra er að líta á þær sem fyrirmynd um góða breytni frekar en járnaga sem fara verði eftir í smáatriðum. Skilningur Sunnanmanna er semsagt sá að reglurnar séu leiðarvísir um góða breytni og ef einhver misstígur sig á vegi dyggðanna þá býðst honum fyrirgefning að viðlagðri yfirbót og loforði um bót og betrun. En jafnframt er einstaklingsfrelsið í miklum metum og fólk er ekki með nefið ofaní hvers annars koppi. Þetta er eflaust sú útfærsla sem við sjáum ganga aftur svo greinilega í algerri hunsun Frakka á lambamerkingunum. Þeir líta á þetta sem sitt mál og þeir gera ekki ráð fyrir því að neinn fari að skipta sér af þessu.

Við erum frekar inni í Þýsku - norrænu nálguninni að boðum og bönnum, þ.e. að þeim skuli fylgja eftir í smáatriðum og samkvæmt bókstafnum, sem er hin evangelíska nálgun. Í þeirri nálgun hengir fólk sig í stök orð og setningar í ritningunni og enginn fær mótmælt þeim því það er það sem bókin segir að þeirra mati. Það er m.a. þess vegna sem fólk hér á Íslandi hrekkur í kút aftur og aftur yfir boðum kaþólsku kirkjunnar svo sem viðhorfum hennar til getnaðarvarna og skilur ekki hvernig nokkur maður getur verið kaþólskur. Nei, ef þessi þjóð gerist kaþólsk þá verður hún kaþólskari en páfinn og ef hún gengur í Evrópusambandið þá mun hún sjálfsagt ganga lengur í Evrópurétttrúnaðinum en nokkurn okkar órar fyrir. Þannig er þetta vel skiljanlegt í menningarsögulegu ljósi.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 18.5.2008 kl. 10:44

5 identicon

Er ég einn um að finnast það öfugsnúið að þingmaður sé að mælast til þess að Íslendingar fari ekki eftir þeim reglum sem við höfum samið okkur undir að þurfa að fylgja?

Gildir þá ekki það sama fyrir almenna þegna gagnvart Alþingi?

Ragnar Sigurmundsson (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 13:35

6 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Áhugaverður og flottur pistill.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 18.5.2008 kl. 15:23

7 identicon

Mjög góður pistill hjá þér Bjarni. Þessi rétttrúnaður kringum regluverkið er alveg yfirgengilegur á Íslandi. Enda hefur eftirlitsiðnaðurinn tútnað út um mörg hundruð prósent síðan við gengum í EES. Mjög gott innlegg hjá Ragnari Geir um skýringar á þessum einkennilega púrítisma. Þannig að ég held að með fullri aðild að ESB þá myndum við alveg fara yfir um í þessu rugli. Mér er minnisstætt á þeim árum þegar við gengum ínní EES að þá þótti mér gott að fá mér Campari. Síðan hlóð ég tómu flöskunum inní skáp. Þegar ég er svo að tæma skápinn, þá tek ég eftir því mér til mikillar furðu að flöskurnar sem voru aftast í skápnum voru stærri en þær sem voru fremst og höfðu síðast farið inní skápinn. Þarna voru semsagt 1 lítra flöskur og svo 3ja pela flöskur. En sjálfur hafði ég ekkert tekið eftir þessu þegar ég gerði innkaupin. Þarna var þá komin skýringin á því hversvegna mér hafði í seinni tíð aldrei fundist ég finna almennilega á mér af þessu Camaríi. Næst þegar ég fór í Ríkið í Austurstræti spurði ég virðulegan afgreiðslumann hvort ekki væri hægt að fá Camparíið í 1 ltr flöskum. Hann setti upp ábúðarmikinn svip embættismannsins og þuldi upp fyrir mér að samkvæmt reglum EES þá mætti aðeins selja vín í 3ja pela, eða 750 ml flöskum. Ég var undrandi á þessu en sennilega væri þetta tilskipun commiserana í Brussel  til að hafa vit fyrir sauðsvörtum pöplinum að það drykki nú ekki of mikið. Ég lét mér nú ekki segjast og labbaði út með 2 flöskur af Camparíi.

Nokkrum mánuðum seinna skrapp ég til Englands. Þar labbaði ég inn í búð að leita mér vínfanga og leitaði náttúrulega að Camaríi og hvað sé ég þarna er gamala góða Camaríið mitt og meira að segja í 1 lítra flöskum. Þetta var sennilega árið 1993 og Bretland hafði þáverið í Evrópusambandinu í áratugi. En við Íslendingar vorum nýbúnir að undirrita EES samningin.

Þetta dæmi lýsir þessum fáránleika ágætlega. En þó þótti mér þetta enn kindugra með öll íslensku lömbin sem eru merkt með sérstöku Íslands merki.

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 19.5.2008 kl. 10:28

8 identicon

Ég verð að játa að ég skil ekki afstöðu þína, Bjarni. Hvernig getur þú sem atvinnumaður í reglusetningu hvatt menn til að hlýða ekki þeim reglum sem eru settar? Hvað vakir fyrir þér þegar þú situr á Alþingi og samþykkir lög?

Styður þú kannski sum frumvörpin í þeirri von að menn hunsi lögin  í framkvæmd og ert á móti öðrum í þeirri von að menn fylgi anda þeirra samt? Svo geri ég ráð fyrir að stundum styðjir þú góð mál í þeirri von að þeim verði fylgt eftir. 

 Getum við verið sammála um það að þú hefjir með þessari stefnu þinni víðfræga jájá-neinei stefnu Framsóknarflokksins upp á hærra plan? 

Hvað varðar landmerktar kindur á íslenskum heiðum þá eiga glöggskyggnir fulltrúar íslenska stjórnkerfisins að koma auga á reglur sem eiga eftir að ganga á skjön við  íslenskan veruleik. Og hafa yfirleitt nokkur ár til að koma athugasemdum á framfæri og sækja um undanþágu. Það er óþarfi að gera ráð fyrir því að embættismenn í Brussel geri sér grein fyrir því að íslenskar heiðar séu einangraðar frá evrópsku meginlandsvalllendi ef íslensku fulltrúarnir gera það ekki.

Jóhannes Þorsteinsson (IP-tala skráð) 23.5.2008 kl. 09:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband