Víííltu hnífapör...

Víííltu hnífapör, segir reffilegur ungur maður, dökkeygur, dökkhærður og dökkleitur í yfirbragði. Ég er staddur í kaffihúsi í borginni og framburður þessa unga manns leynir því ekki að hann hvorki uppalninur af Vatnsleysuströnd né Hornafirði. Fyrra orðið í þessari stuttu setningu svolítið afkáralegt en svo kemur hitt lengra eins og fullskapað úr íslenskum munni.

hnifapor

Það fer ekki hjá því að mikil fjölgun borgara af erlendu bergi veki umhugsun. Menn sem ekki áttu bernsku sína, ættir og óðul hér á Fróni. Vekur raunar bæði hugsun og tilfinningar. Í fiskvinnslustöðvum og verslunum víðsvegar um landið er talaður mikill málagrautur og sumar kassadömurnar kunna ekki annað en takk fyrir og viltu poka.

Eins og skröksaga 

Til þess að bregða upp aðeins skýrari mynd af viðfangsefninu langar mig að nefna árshátíð hjá miklu kallafyrirtæki sem ég lenti óvart inn á fyrr á þessum vetri. Þar tróð upp fær söngvari, málaður í framan og klæddur því sem helst yrði kallað sloppur eða kjóll en var þó hefðarkarla þjóðbúningur frá hans heimalandi,- forn. Sömuleiðis var mjóróma söngurinn karlasöngur hans ættarmenningar. Til þess að gera aðstæður þessar síðan enn óvanalegri var sú staðreynd að karlmaður þessi átti sér miðaldra karl annan fyrir maka úti í sal. Hefði ég sagt afa mínum þessum sögu fyrir 30 árum hefði sá sami talið hana meira skrök en öll galdraævintýri Grimmsbræðra til samans.

En um þetta allt ber okkur að tala. Látum aldrei reka okkur í það skúmaskot hræðslunnar að ekki megi tala um mismunandi menningarheima. Að umburðarlyndið liggi í þögninni. Slík bæling mun aðeins valda innibyrgðum vandræðum, líkum þeim sem við sáum glöggt í Frakklandi í fyrra og reyndar bregða fyrir víðsvegar, jafnvel hér meðal okkar. Leiðin þar út er örugglega ekki þögnin.

Þöggunin er hættuleg

En því er ég að tala um þessa hluti að margir telja þögnina allra meina bót og setja í samhengi við það að ömmur okkur kenndu okkur að benda ekki á fólk. Með því ku mega sýna öllu óvanalegu og framandlega þá tillitssemi að ganga að öllu sem gefnu. Rétt eins og hægt sé að stöðva kvarnir hugans.

Staðreyndin er hinsvegar að þögnin elur aðeins á ótta og hatri. Með því að tala um veröldina og allan hennar margbreytileik gerist tvennt. Við lærum að skilja samborgara okkar að því marki sem vit okkar og víðsýni leyfa og rekum þar með fordómana burt. Í öðru lagi léttum við af spennunni sem fylgir samskiptum hópa með mismunandi lífsviðhorf.: ‚Ég veit hvernig þú ert,- þú veist hvernig ég er - þó við séum ekki endilega sammála í lífsviðhorfum.‘

Með umræðunni verða smám saman ráðandi þau sjónarmið og þær tilfinningar flestra okkar að verða stolt af tungumálinu okkar þegar við heyrum mann af framandlegum ættum stauta við að læra það. Þó svo hann segi „víííltu" fyrir viltu. Og við gleðjumst yfir fjölbreytileika mannlífsins þegar við heyrum um lífsform sem afar okkar hefðu talið bæði óhugsandi og jafnvel ókristileg.

Umburðarlyndisfasisminn 

Þögninni og bælingunni fylgir gagnvirk spenna þeirra sem hugsa hver um annan,- þú ert skrímsli og lífi þínu fylgir margt óþolandi þó ég viti ekki fyllilega hvað það er. Neikvæðu ímyndarafli er gefinn laus taumur og af sprettur vaxandi hatur og óþol milli þjóðfélagshópa.

Það sem hér er sagt kann að vera svo sjálfsagður hlutur að mörgum þyki ekki umræðu vert. Engu að síður eru aðstæður á Íslandi líkar því sem verið hafa í Evrópu þar sem sambúð þjóða og þjóðarbrota er víða orðin að alvarlegu vandamáli.

Tvennt veldur þar mestu,- þögnin sem hér hefur verið rætt um og öfgafullt umburðarlyndi sem segir að í sérkennum frumbyggja landanna og siðum þeirra felist ögrun og árás á aðra. Þessa varð áþreifanlega vart í umræðu um meinta skaðsemi þess að kristinn siður fengi að halda sínum sess í íslenskri fræðslulöggjöf. Tilhneigingum sem þessum verður best verður lýst með hugtakinu umburðarlyndisfasismi. Hvorutveggja er nú orðið áberandi í hinu nýkviknaða fjölmenningarsamfélaginu á Íslandi.

Hér hef ég rætt um þögnina - síðar mun ég ræða lítillega um umburðarlyndisfasismann.

(Skrifað fyrir nokkru og birt í 24 stundum sl. helgi)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það mætti halda að þingmaðurinn læsi ekki einu sinni umræðurnar á eigin vefsíðu. Þeir sam hafa andmælt klausunni um kristna arfleifð hafa fæstir gert það í nafni fjölmenningar sérstaklega, heldur í nafni trúfrelsis og mannréttinda. En það vill svo skemmtilega til að flestir þeirra þingmanna sem vildu halda klausunni um kristilega arfleifð inni greiddu líka atkvæði á móti því að orðinu mannréttindi yrði bætt í lögin (sem er í sjálfu sér svolítið hrollvekjandi).

Og að tala um "umburðarlyndisfasisma" er náttúrulega álíka gáfulegt og að tala um "mannúðarofbeldi", en framsóknarmenn fara kannski létt með að fatta hvort tveggja.

Jón Yngvi Jóhannsson (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 10:49

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Er töluð íslenska á Selfossi af þeim sem þar eru fæddir og uppaldir?!

Er "hæ" og "bæ" íslenska?! Og hvað með "Mér langar." "Selfissingur". "Þú ert abi." "Það er væda údi og bleyda á gödunni." "Þess vegna er ervitt að aga núna."?!

Ekkert af þessu hefði verið talin íslenska norður í Svarfaðardal, þar sem ég ólst upp og menn segja "hebbði" og "saggði." Og Svarfdælingum finnst fáránlegt að heyra menn segja "bleyda". Og það er ekki íslenska að skrifa "seija" í staðinn fyrir "segja".

Ég ólst upp hjá þýskri konu í Svarfaðardalnum, sem fluttist hingað til Íslands eftir Seinni heimsstyrjöldina, og hún talaði alltaf kolvitlausa íslensku, enda þótt hún byggi hér í marga áratugi. Og var hún þó enginn bjáni. En ég efast ekki um að hún hafi talað og skrifað rétta þýsku. En íslenska og þýska eru náskyld tungumál og með sömu föll.

Hins vegar var hún ætíð aðdáandi Hitlers og hataði Pólverja.

En flestir útlendinganna, sem hingað hafa komið til að vinna undanfarinn áratug, eru Pólverjar. Og margir þeirra hafa orðið  íslenskir ríkisborgarar eftir margra ára búsetu hér. Hafa þeir kannski ekki tekið fullan þátt í íslenskri menningu, þrátt fyrir að pólska og íslenska séu mjög ólík tungumál og því mjög erfitt fyrir Pólverja að læra íslenskuna?! Og tala þeir kannski pólsku við okkur Íslendingana?!

En tungumál í Austurlöndum eru ennþá fjarskyldari íslenskunni en pólskan, til dæmis taílenska og filippseyska, og margir Íslendingar hafa kvænst konum frá þessum löndum.

Ég held að við ættum nú að byrja á því að kenna Íslendingum að tala og skrifa rétta íslensku áður en tekið er til við að agnúast út í útlendingana hér. Hvernig er málfarið á bloggsíðunum hér til dæmis?!

Ég skil ekki alveg hvað þú ert að fara með þessum skrifum þínum og ég efast um að þú vitir það almennilega sjálfur, Bjarni minn.

Þorsteinn Briem, 2.6.2008 kl. 11:26

3 identicon

Lesið þetta:  http://teitur-teitur.blogspot.com/

Bjarni!  Ertu búin að fá trékallinn?  Ég held að þú fáir í heilt taflborð áður en sumarið er á enda. 

Teitur Atlason (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 12:28

4 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Sæll Bjarni! Þegar menn byrja að tala um þöggun og umburaðlyndisfjanda og miðaldra homma og útlendinga þá er eitthvað á seyði. Hvað er verið að skrifa utaní kæri vinur.  Hverjir eru það sem sagt sem telja þöggunina allra meina bót?

Baldur Kristjánsson, 2.6.2008 kl. 15:50

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Flestir íslenskir karlmenn á þínum aldri tala ekkert annað erlent tungumál en ensku og hana ekki góða. "Æ hóp jú komm bakk!" Tala enskumælandi þjóðir yfirleitt svona?! Og ekki er nú orðaforðinn yfirleitt upp á marga fiska, Bjarni minn.

Þorsteinn Briem, 2.6.2008 kl. 16:51

6 identicon

Eru ekki framsóknarmenn með hnífaparasett á sér öllum stundum? Eða eru þau bara ætluð í bakið á eigin flokksmenn:)

Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 17:06

7 Smámynd: Bjarni Harðarson

vont þegar hvorki baldur né steini briem þykjast skilja. það sem ég er að tala um er að við eigum að gleðjast yfir því að útlendingar sem hingað koma læri íslendingu og hafa umburðarlyndi gagnvart lítilsháttar bjögun á okkar ástkæra ylhýra, svipað og kanar hafa gagnvart allskonar ensku. en hvorugt, hvorki gleðin né umburðarlyndið fást nema við tölum um þann mun sem er á menningarheimum og hvernig þeir geta mæst í sanngirni. það örlar á því að ég hafi stigið hér inn á tabúsvæði og það er einmitt ætlunin og helst að hafa þar slíkan hávaða að tabúin hætti að vera tabú en verði að hvundagslegum veruleik...

Bjarni Harðarson, 2.6.2008 kl. 20:32

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þetta er ekki spurning um að þykjast ekki skilja þig, Bjarni minn. Þetta er spurning um að skilja þig alls ekki.

Það skilja ekki allir rósamálið og því síður sunnlenska álfamálið.

Þorsteinn Briem, 2.6.2008 kl. 21:49

9 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Fín grein Bjarni. Hlakka til að lesa framhaldið.....

Svanur Gísli Þorkelsson, 2.6.2008 kl. 22:32

10 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Bjarni.

Alveg hreint frábær grein.

Með þeim betri sem ég hefi lesið nokkuð lengi.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 2.6.2008 kl. 23:46

11 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Já Bjarni stattu þig bara og talaðu þitt mál/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 3.6.2008 kl. 00:35

12 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Já, nú skil ég. kv. B

Baldur Kristjánsson, 3.6.2008 kl. 08:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband