Ríkisstjórnin ráðalausa

Síðan Alþingi var sent heim fyrir hálfum mánuði hefur ríkisstjórnin keppst við að gera ekki neitt. Sem er sama stefna og sama stjórn fylgdi síðasta vetur, sumar, vor og haust og ævinlega með fyrirheitum um að þetta sé allt saman alveg að koma. Alveg að gerast. Unnið sé að aðgerðum og rætt sé um að hefja samráð um hverjar þær aðgerðir gætu verið ef í væri ráðist sem sé samt betra að bíða aðeins með...

Fram eftir vetri máttum við stjórnandstæðingar í þingsölum heyra það ítrekað að við þvældumst nú frekar fyrir í þessum efnum, ráð okkar væru misskilningur og ótti við yfirvofandi kreppu marklítið hróp þess sem í sífellu sér fyrir sér úlfinn ógurlega. Í umræðu á eldhúsdegi nú í vor mátti heyra þann málflutning varaformanns fjárlaganefndar að nær væri að hugsa eins og góðir útgerðarmenn gerðu á verðbólguárunum;- þetta reddast!

Nú þegar ráðherrar eru lausir undan þeim skyldum að mæta stundarkorn í viku hverri í þingsali eru það fréttamenn sem gera þeim lífið leitt. Í gær fengum við að heyra í hádegisfréttum að forsætisráðherra vildi svo gjarnan segja þjóðinni hvað stæði til í efnahagsmálum en gæti bara ekki staðið í því þegar dónalegir blaðamenn þvældust fyrir.

Mótsagnakenndur málflutningur

Málflutningur hins sterka stjórnarmeirihluta hefur verið með eindæmum mótsagnakenndur og einkennst af ráðaleysi. Á sama tíma og forsætisráðherra talaði fyrir þeirri skoðun að efnahagserfiðleikarnir væru óverulegir síðastliðið haust flutti fjármálaráðherra tölur langar um að fjárlög yrðu að miðast við að hér stæði fyrir dyrum samdráttarskeið sem þyrfti að mæta með sérlega bólgnum fjárlögum og aukningu framkvæmda. En ekkert skyldi þó gert til að koma í veg fyrir kreppuna!

Þegar Framsóknarflokkurinn lagði snemma á þessu ári fram tillögur um þjóðarsátt var þeim mætt með fálæti og neikvæðni en nokkrum vikum síðar kom utanríkisráðherra úr einni reisu sinni og sagði að nú yrði að efna til þjóðarsáttar. Sem Sjálfstæðismenn hafa svo ýtt þegjandi út af borðinu...

Og enn verri aðgerðir

Verst er þó hávaxtarstefnan. Það þarf minna en inngangskúrs í hagfræði til að vita að háum stýrivöxtum er aldrei haldið uppi á krepputímum. Reyndar er hávaxtastefna Seðlabanka Íslands einhver sú vitlausasta sem Íslendingar hafa látið sér detta í hug því með henni er verið að pína upp gengisskráningu með spákaupmennsku. Og  greiða niður verðbólguna með því að lækka innkaupsverð á erlendum neysluvarningi. Sem gert er beint á reikning útflutningsatvinnuveganna. Og innlendri framleiðslu um leið skákað út af borðinu.

Og samt er þetta í reynd það eina sem stjórnvöld hafa gert í efnahagsmálum. Það þarf ekki að koma á óvart að Seðlabankastjóra þyki betra við aðstæður sem þessar að veifa röngu tré en öngu en vitaskuld ber ríkisstjórnin ábyrgðina. Staksteinar gærdagsins fjalla einmitt snilldarlega um muninn á tveimur stjórnmálaleiðtogum. Annar gerir alltaf eitthvað, jafnvel þó hanngruni það vera rangt. Hinn gerir örugglega aldrei neitt, því hann er ekki viss um neitt. Vandamálum dagsins í dag verður ekki  betur lýst.

Ráðaleysi við ríkisfjármálin

Við aðstæður dagsins í dag þarf styrka og tafarlausa stjórn efnahagsmála. Í vetur leið lagði Framsóknarflokkurinn fram metnaðarfullar tillögur um aðgerðir og í flest af þeim er enn hægt að grípa. Við höfum lagt til lækkun á neyslusköttum jafnt á matvælum og eldsneyti til að gíra niður verðbólgu, tafarlausa lækkun stýrivaxta og raunverulega styrkingu gjaldeyrisvaraforða. Þá viljum við styrkja Íbúðalánasjóð til að koma þannig hjólum fasteignamarkaðarins og bankakerfis til hjálpar.

Um leið þarf styrkleika í fjárlagagerðina sem mikið hefur vantað á. Nú í sumarbyrjun heyra kjósendur ráðherra og fjárlaganefndarmenn kallast á í fjölmiðlum um forgangsröðun verkefna. Sjúkrahús eður ei. Slík vinnubrögð eru ekki farsæl og benda til að svipuð lausatök verði á ríkisfjármálum næstu misseri og verið hefur sem er grafalvarlegt við minnkandi tekjur ríkissjóðs og vaxandi efnahagsvanda.

(Birt í 24 stundum í dag, laugardaginn 14. júní 2008)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð grein!

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 14.6.2008 kl. 14:42

2 identicon

Var framsókn ekki í þeirri stjórn sem að blés upp blöðruna sem loksins sprakk í þessari stjórnartíð?

Jóhannes H. Proppé (IP-tala skráð) 14.6.2008 kl. 21:23

3 Smámynd: Óskar Aðalgeir Óskarsson

Vissulega er Framsóknarflokkurinn ekki saklaus af því ástandi sem ríkir hér á landi,en hann var  nú bara hækja fyrir Sjálfgræðgisflokkinn eins og Samfylkingin ójafnaðarmannaflokkur Íslands er í dag.Ráðherrum þessarar ríkisstjórnar virðist vera andskotans sama þó fjöldi fyrirtækja og einstaklinga stefni í gjaldþrot.

Óskar Aðalgeir Óskarsson, 14.6.2008 kl. 23:01

4 identicon

Þetta var ágætt innlegg, góður pistill!

Gylfi Guðmundsson (IP-tala skráð) 15.6.2008 kl. 21:22

5 identicon

Mjög góð grein.!

Jóhann Guðmundsson (IP-tala skráð) 16.6.2008 kl. 14:52

6 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Þeim er sjálfsagt ekki sama, en eiga við hluti að eiga sem fyrir löngu eru orðnir óviðráðanlegir. Fjármálakerfið er í raun fallít og það er 25 sinnum stærra en ríkið sem þó segist ætla að bjarga téðu kerfi. Þannig að þetta er fyrir löngu komið út í ljósaskiptin og Lísu í Undralandi. Ríki og seðlabanki hafa jafnframt unnið skipulega að því að gjöreyða eigin trúverðugleika með því að raða alræmdum kálhausum í stjórn efnahags- og peningamála. Þetta ástand er augljóslega komið langt út fyrir stjórmála- og hagfræði og inn á verksvið geðlækna og sálfræðinga. Góðar stundir.

Baldur Fjölnisson, 16.6.2008 kl. 16:30

7 Smámynd: Friðrik Björgvinsson

Ég vil benda þér á smá blogg frá mér þann 17.júní þar eru punktar sem má hafa með í heildarmyndinni, án þess að ég ætli að fara segi mönnum til um hvernig það á að standa að þessum málum þá eru þarna nokkrir punktar sem vissulega þarf að hafa í huga..

Friðrik Björgvinsson, 18.6.2008 kl. 00:25

8 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Bjarni

Mjög góður pistill, sem ég var reyndar búinn að lesa í 24 stundum.

Baráttukveðja,

Guðbjörn Guðbjörnsson - formaður Tollvarðafélags Íslands

Guðbjörn Guðbjörnsson, 21.6.2008 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband