Vatnajökulsþjóðgarður fluttur til Reykjavíkur

Vatnajökulsþjóðgarður var formlega stofnaður með pomp og pragt fyrir nokkrum dögum og er virkilega ánægjulegt framtak sem lengi hefur verið unnið að. Það er ljóst af margra ára umræðu um málið að fjárveitingavaldið, sveitarstjórnir, landeigendur og ráðherrar hafa til þessa horft á þetta sem mikilvæga uppbyggingu í náttúruvernd og um leið sem mikilvægan stuðning við áframhaldandi byggð við jökulinn. Þetta fer mjög saman því byggðin þar er forsenda verndunar og aðhlynningar í landi þar sem ferðamannastraumur fer vaxandi.

En nú er öldin önnur. Með valdatöku Þórunnar Sveinbjarnardóttur er markvisst stefnt að því að flytja þjóðgarðsstarfssemina í skrifstofur í miðborg Reykjavíkur. Á síðasta ári kom stjórnarformaður Vatnajökulsþjóðgarðs því inn í gegnum stjórnina að framkvæmdastjóri garðsins skyldi sitja í Reykjavík. Vill reyndar til að stjórnarformaður garðsins er jafnframt aðstoðarmaður umhverfisráðherra. Í framhaldinu var ritari stjórnarinnar og starfsmaður ráðuneytisins, Þórður H. Ólafsson ráðinn til starfans. Sá sem hér skrifar tók það mál fyrir í sölum Alþingis og fékk þá skýr svör frá óbreyttum stjórnarliðum að þetta kæmi þeim spánskt fyrir sjónir og sjálf treysti ráðherrann sér ekki til að staðfesta það í umræðu um málið að höfuðstöðvar þjóðgarðsins yrðu í Reykjavík. Katrín Júlíusdóttir þingkona Samfylkingar í Kraganum staðfesti að hér væri gengið á skjön við hugmyndafræðina bakvið störf án staðsetningar og lofaði að farið yrði yfir málið og svo mætti áfram telja...

En allt kemur fyrir ekki. Nú er það orðið að veruleika þvert ofan í allar væntingar að Vatnajökulsþjóðgarður er kominn með heimilisfesti að Tryggvagötu 19 í Reykjavík. Nú í júnímánuði gerist það svo að stofnun þessi auglýsir almennt skrifstofustarf vegna bókhaldsvinnu og starfsmannahalds og tilgreinir sérstaklega: „vinnustaðurinn er í miðborg Reykjavíkur."

Málið var rætt á fundi þingmanna Suðurkjördæmis í gær og það var alveg ljóst á þeim fundi að þar á bæ eru menn óhressir með þessa þróun mála og í sveitunum í ríki Vatnajökuls heyri ég talað um þetta sem hreina og klára stríðsyfirlýsingu möppudýranna fyrir sunnan. Þessu máli er ekki lokið.

Af samtali mínu í morgun við framkvæmdastjóra stofnunarinnar er ljóst að skrifstofan í Reykjavík verður þá í sumar þriggja manna vinnustaður því fyrir er þar auk hans einn aðstoðarmaður í tímabundinni ráðningu. Það er jafnframt ljóst að umrædd skrifstofustörf sem snúa meðal annars að utanumhaldi um tímavinnu landvarða, bókhaldi og símsvörun eru allt störf sem eins er hægt að vinna úti á landi. Og það er jafn ljóst að það er minni en enginn áhugi hjá valdhöfum þessa sama þjóðgarðs að störf tengd þjóðgarðsins verði unnin í nágrenni jökulsins en kannski er jökullinn sjálfur með öllum sínum auðnum að verða aukaatriði í heimi þeirra möppudýra sem hér um véla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bjarni. Ég heiti á alla þingmenn Suðurs og Norðausturskjördæma að standa vörð um hagsmuni þess fólks sem heima á í nágreni Vatna- jökuls.Allir stjórnarmenn Vatnajökulsþjóðgarðar skulu eiga heima í sveitarfélögunum sem land eiga að jöklinum.Framkvæmdastjórinn skal eiga heima á Hornafyrði. Auk þess að sveitarfélögin fái tekjur af þeim sem þar eiga heima,þá er það ekki síður að hver einstaklingur styður svo mikið við umhverfið þar sem fólkið er fátt. 

Ég tel að sveitarstjórn Skaftárhrepps hafi tekið mjög skinsamlega ákvörðun um,að Langisjór verði ekki settur inn í þjóðgarðinn fyrr en búið er að skoða það í sumar hverning hægt er að verja landið við Skaftá og Langasjó vegna Skaftárhlaupanna.    Ég vona svo að sveitarstjórn Skaftárhrepps flýti sér hægt við að samþykkja Langasjó og nágreni inn í þjóðgarðinn ef ráðamenn þjóðarinnar ætla að fara beita einhverjum bolabrögðum við mannaráðningar í störf við þjóðgarðinn.Engir þekkja landið betur en heimamenn. 

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 20.6.2008 kl. 17:33

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Burtséð frá hvort það verða "möppudýr", sem véla um Vatnajökulsþjóðgarð í Reykjavík og hvort Þórunn vinnur "markvisst" að því að flytja starfsemina í miðborgina í Reykjavík, vil ég láta það koma fram bæði í svæðisráðum og í stjórn er barist fyrir því að þjóðgarðurinn hafi engar höfuðstöðvar heldur að sú hugmyndafræði að hann hafi meginstarfsstöðvar við allar hliðar jökulsins, og reyndar einnig eina úti við sjó í Kelduhverfi, verði höfð í heiðri. Eins og þú bendir á, Bjarni, þá er auk framkvæmdastjóra og skrifstofumannsins, sem nú er auglýst eftir, tímabundið starf á skrifstofunni. Ég hef bæði í svæðisráði Norðursvæðis og í stjórn barist fyrir því að flýtt verði auglýsingum eftir þeim þjóðgarðsvörðum sem á að ráða eða má ráða, en þeir eru alls sex (tvö þeirra starfa eru heimildarákvæði) og nú eru aðeins þrír starfandi. Og þeir taki þá við tímabundnum verkefnum við garðinn í heild meðan þeirra er minni þörf á svæðunum. Þótt sú þörf verði fljótt til staðar því að gríðarlegt verk er óunnið. Það kemur mér reyndar sérlega spánskt fyrir sjónir að utanumhald um vinnu landvarða verði á Tryggvagötunni í Reykjavík.

Hornfirðingar munu hafa barist fyrir því að höfuðstöðvar yrðu á Hornafirði. En í svæðisráði Norðursvæðis var bent á að heppilegast væri að auglýsa að starf framkvæmdastjóra yrði á einni af meginstarfsstöðvunum sex, þ.e. Hornafirði, Skaftafelli, Kirkjubæjarklaustri, Mývatnssveit, Kelduhverfi og Fljótsdal. Þetta hefði verið alveg upplagt og í anda hugmyndafræðinnar. Tækifæri til þess gefst eftir fimm ár þegar framkvæmdastjóri verður ráðinn að nýju.

Ég starfa í þessu stjórnkerfi sem fulltrúi umhverfisverndarsamtaka í svæðisráði Norðursvæðis og sem varamaður þeirra í stjórn garðsins. Vitaskuld er það ekki það meginmál sem náttúruverndarsinnar berjast fyrir nákvæmlega hvar störf eru. En árangurinn af garðinum sem náttúruverndarverkefni er beinlínis háður því hvernig til tekst um að byggja náttúruverndina upp sem atvinnu á svæðunum. Þessi hagsmunir falla alveg saman, a.m.k. sem pólitískir hagsmunir. Þess vegna styð ég að aðsetur framkvæmdastjóra, sem ég vil reyndar ekki af hugmyndafræðilegum ástæðum kalla neitt annað en "póstfang", verði nær Vatnajökli en Snæfellsjökli.

Svo má minna á að nýlegur þjóðlenduúrskurður um land norðan Vatnajökuls er mikilvægur áfangi fyrir þjóðgarðinn. En það stendur líka talsvert upp á landeigendur sem ekki lögðu til svo mikið sem Jökulsá á Fjöllum inn í þjóðgarðinn þar sem aðeins "land" í eigu ríkis fór í þjóðgarðinn, hálf áin á nokkrum svæðum. Annars staðar á landinu var lagt til heilmikið land af hálfu landeigenda.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 20.6.2008 kl. 17:51

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Gott að vita þetta Bjarni, þarnast skoðunar sannarlega.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 20.6.2008 kl. 22:59

4 identicon

Það er með allt svona dæmi að þessu vilja fræðingarnir öllu stjórna frá Reykjavík. Ég hef afar illan bifur á þessu batteríi og ekki hrifinn af mörgu því sem Þórunn er að gera samanber því að halda fram í vetur að búið sé að mæla inn alla vegi á hálendinu. Það varð hún nú að éta ofaní sig.Það er að vísu bannað að skamma opinbera starfsmenn ,en í lagi að hrósa þeim fyrir það sem þeir eiga ekki skilið sögðu þeir í Matthildi um árið.Ég ætla að vona að okkar afréttur sleppi í lengstu lög við að lenda ínni í Þessum Vatnajökulsþjóðgarði með allri sinni skriffinnsku þar sem ekki má gera neitt nema með samþykki frá Brussel. Það hefur sýnt sig á Veiðivatnasvæðinu að best gengur að halda hlutunum í lagi með stjórn heimamanna á svæðinu. Þar þekkist ekki utanvegaakstur svo dæmi sé tekið. Með náttúruverndarkveðju. Olgeir

Olgeir Engilbertsson (IP-tala skráð) 21.6.2008 kl. 02:48

5 Smámynd: Bumba

Ja hérna. Þessi vesalings ráðherra ætti nú að sjá sína sæng út breidda og hunzkast burt úr pólítík og fara að ger eitthvað annað. Hún KANN ekki neitt. NIÐUR MEÐ SAMFYLKINGUNA. Með beztu kveðju.

Bumba, 21.6.2008 kl. 09:07

6 Smámynd: Baldur Kristjánsson

Nú skal ég satnda með þér. Þetta nær ekki nokkurri átt. (Reykjavíkurvaldið er miklu varasamara en Brusselvaldið. Gáðu að því.) Skrifaðu um það. kv.

Baldur Kristjánsson, 21.6.2008 kl. 09:32

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þarna skaut öfugmælasmiðurinn sér inn í svigann!

En heill þér, Bjarni höfðingi, fyrir grein þína, 'Lýðræðisást ESB-sinna', í Morgunblaðinu í dag. Meitluð snilld – ekkert minna. Grein sem ætti svo að endurbirta hér á næstunni, en ég hvet alla til að lesa hana strax!

Jón Valur Jensson, 21.6.2008 kl. 11:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband