Ábyrgðarleysi sem skaðar hagkerfið

Hversvegna ætti ríkið að taka lán til þess að hjálpa bönkunum? Spurninguna þá arna heyri ég daglega.  Í gær bætti leiðarahöfundur 24 stunda um betur og sakaði Framsóknarflokkinn um ábyrgðarleysi að kalla eftir skilyrðislausri eflingu gjaldeyrisforðans. Í tillögum sem flokkurinn lagði fram í síðustu viku leggjum við höfuðáherslu á tafalausa stýrivaxtalækkun og umrædda lántöku ríkissjóðs til stuðnings krónunni og gjaldeyrisvaraforða landsmanna.

Tillagan er ekki sett fram í ábyrgðarleysi eins og leiðarahöfundurinn heldur fram og ekki af einskærri umhyggju fyrir auðmönnunum sem ráða bönkum landsins.

Styrkjum krónuna

Efling gjaldeyrisvaraforða landsmanna hefur margþætt hlutverk sem snertir miklu fleiri en bara þá sem reka fjármálafyrirtæki í landinu. Krafan um að Íslendingar taki upp annan gjaldmiðil tengist einmitt veikri stöðu krónunnar.

Það er framtíðarverkefni að ræða um gjaldmiðilinn og peningastefnuna en verkefni dagsins í dag er að styrkja stöðu krónunnar. Með sterkari gjaldeyrisvarasjóði er ríkið ekki að gefa íslenskum bönkum peninga enda fengju hvorki þeir né ríkissjóður umrætt fé til brúks.

Við lánsfjárkreppuna sem ríður yfir heiminn hefur það gerst að vextir margra fyrirtækja hafa í reynd stokkið úr um 5% í blandaðri skuldasamsetningu krónu og erlendra gjaldmiðla yfir í 15% okurvexti Seðlabankans. Um leið og við styrkjum gjaldeyrisvaraforða þjóðarinnar aukum við líkurnar á að fyrirtækjum landsmanna bjóðist aftur kostur á að taka lán í öðru en hávaxtakrónum.

Biðin til tjóns

Ríkisstjórnin hefur marg oft viðurkennt þörfina á þessari lántöku en nú er að heyra að kjör ríkissjóðs séu ekki nógu hagstæð. Það að bíða eftir að þau batni er mikið hættuspil. Meðan beðið er blæðir hagkerfinu og það aftur er líklegast til að gera kjörin enn verri. Lánakjör Íslendinga ráðast af tvennu. Annarsvegar stöðu hagkerfisins og hinsvegar pólitísku áræði og dugnaði þeirra sem fara með stjórn landsins. Það er ekkert sem segir að við þurfum að ræða við Evrópumenn eina um lán. Stærstu peningatankar heimsins eru nú í austrinu, hjá Kínverjum, Rússum og jafnvel Indverjum og þar getur verið möguleiki að leita hófanna.

Geir H. Haarde hefur nú allt frá því á aðalfundi Seðlabankans sl. vetur boðað að til standi að ríkið taki umrætt lán og væntingar viðskiptalífsins og erlendra aðila horfa til efnda á því loforði. Þar eru þegar orðnar miklar vanefndir enda liðið hálft ár frá umræddum aðalfundi. Það er því langsótt hjá fyrrnefndum leiðarahöfundi að saka Framsóknarflokkinn um ábyrgðarleysi. Ábyrgðarleysið felst í að skapa væntingar og lofa aðgerðum til styrkingar á ímynd hins íslenska efnahagslífs og standa svo ekki við það loforð. Já og það er líka ábyrgðarleysi að leiðarahöfundar séu að mæla slíkt upp í forsætisráðherra sem helst gerir sér nú til dundurs að halda blaðamannafundi um bloggsíður samráðherra sinna.

(Birt í 24 stundum í dag, laugardaginn 19. júlí)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Þegar maður heldur því fram að pabbi manns sé sterkari en hins og pabbinn er svo hvergi sjáanlegur og allir vita að hann sé ekkert að koma er sú vörn lítils virði.

Gestur Guðjónsson, 19.7.2008 kl. 23:05

2 identicon

Bjarni. Ef þessai langlokuumræðu um efahgsvandan fer ekki að linna án ákvarnanna, þá er lausnin að fella þessa ríkistjórn.

igþ (IP-tala skráð) 19.7.2008 kl. 23:19

3 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

er ekki eitthvað sem heitir bindiskylda? ekki flókið fyrirbæri. bara að skuldbinda sig ekki fram yfir eiginfé.

hvað gerir ríkið fyrir þá einstaklinga sem hafa skuldsett sig fram yfir eignir? ekkert. hví ætti annað að gilda um fyrirtæki (bankana)?

er ekki rétt að láta þá bara fara á hausinn sem haga sér eins og fífl í fjármálum?

Brjánn Guðjónsson, 20.7.2008 kl. 05:04

4 identicon

þetta var nú búið að vera augljóst í alllangan tíma að illa færi, það er eins og asnar hafi verið við stjórn undanfarinn áratug eða svo. menn hafa galað góðæri góðæri, en hvernig var þetta góðæri svo. Jú byggt á erlendum lánum sem bankarnir hinir nýfrjálsu sem framsókn og íhaldið gáfu sínum mönnum tóku á lágum vöxtum og dældu inn í landið, um var talað hinn gífurlega kraft sem leystist úr læðingi við einkavæðingu bankanna, en hann var fólginn í þessu áðurnefnda, það var nefnilega hlutverk stjórnenda hinnu nýju eigenda að skapa auð  handa sínum mönnum og það tókst, en á kostnað almennings í landinu, og undir dyggri stjórn framsóknar og íhalds. Og nú standa framsóknarmenn klóra sér í hausnum og skilja ekkert í hvernig komið er og kvarta undan lélegri stjórnun á þjóðarskútunni, ja heyr á endemi.

Kv

Magnús

Magnús (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 13:17

5 Smámynd: Dunni

Það má ugglaust skamma Framsóknarflokkinn fyrir allt mögulegt og ómögulegt.  M.a. fyrir að hafa tekið þátt í að afhenda einstaklingum með auraráð ríkisbankana. Og líka fyrir að bera ábyrgð á því að í Seðlabankanum sitja misvitrir pólitíkusar í stjórastólunum en ekki fagmfólk með þekkingu á efnahagsumhverfinu sem þjóðir heimsins búa við í dag.

En aulaskapurinn í stjornaráðinu er ekki Framsókn að kenna. Tek undir með þér Bjarni að það er ekki farsælt að næra þegnana á væntingum og loforðum um  aðgerðir í efnahagsmálum sem dugi og sitja svo aðgerðarlausir í ráðherrastólunum.

Það er löngu orðið ljóst að Geir og Ingibjörg geta ekki dansað saman.  En þau verða að standa undir þeirri kröfu að geta gengið í takt ef þeim á að vera treystandi fyrir þjóðinni.   

Dunni, 20.7.2008 kl. 16:55

6 Smámynd: Magnús Vignir Árnason

Ég legg til að ríkisstjórnin (seðlabankinn) taki lánið en ég er ekki sáttur við að þjóðin borgi vextina. Það á að rukka bankana sérstaklega um vextina af þessu láni sem tekið er til að draga þá upp úr skítnum. 

Magnús Vignir Árnason, 25.7.2008 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband